Undirkaflar

Æviágrip Richards Wagners

Wagner og Völsungar

Æskuár

Richard Wagner fæddist 22. maí 1813 í Leipzig á Saxlandi. Móðir hans hét Johanna Rosine Pätz og var dóttir bakarameistara í bænum Weißenfels sem er í grennd við Leipzig. Faðir hans hét Friedrich Wagner og var ritari hjá lögreglunni í Leipzig. Richard var níunda og síðasta barn þeirra hjóna. Faðir hans dó 43 ára úr taugaveiki sem kom upp eftir orrustuna miklu (Völkerschlacht) við her Napóleons skammt frá Leipzig, 16.–19. október 1813, þegar Richard var tæplega hálfs árs.

Friedrich Wagner hafði verið áhugamaður um leikhús og aðrar listir og hann nefndi dætur sínar eftir persónum úr leikritum Goethes og Schillers. Ein þeirra, Luise, giftist bókaútgefandanum Friedrich Brockhaus, og önnur þeirra, Ottilie, giftist bróður hans, fornfræðingnum Hermann Brockhaus. Tengsl Friedrichs við áhugaleikhús leiddu til vináttu við fjölhæfan listamann að nafni Ludwig Geyer sem um tíma var leigjandi hjá Wagnerfjölskyldunni. Hann kvæntist ekkjunni níu mánuðum eftir lát eiginmannsins og þau fluttust til Dresden. Sex mánuðum eftir brúðkaupið eignuðust þau dótturina Cäcilie. Ludwig Geyer dó árið 1821 þegar Richard Wagner var átta ára. Hann sá mikið eftir þessum stjúpföður sínum sem sumir héldu fram að væri hinn rétti faðir hans, en síðari rannsóknir fræðimanna benda til að það sé mjög ólíklegt.[1]

Fæðingarheimili Richards Wagners í Leipzig. Það er nú horfið.
„Richard Wagner fæddist 22. maí 1813 og hefur aldrei dáið.“

Wagner gekk í barnaskóla í Dresden og fermdist þar, en árið 1828 fluttist fjölskyldan aftur til Leipzig þar sem hann gekk í menntaskóla. Bókmenntahugur og afburða næmi gerðu miklu fyrr vart við sig hjá honum en tónlistargáfur. Hér bjó Adolf Wagner föðurbróðir hans sem taldist til klassískra lærdómsmanna og átti mjög gott bókasafn sem hinn ungi, hraðlæsi og næmi frændi hans gleypti óspart í sig. Á fermingarárinu hafði Richard þegar byrjað að skrifa leikritið Leubald og Adelaide, sem er einskonar strákaútgáfa af blóðugustu leikritum Shakespeares, og hélt hann öðru hverju áfram við það. Sextán ára gamall sá hann óperuna Fidelio eftir Beethoven og segist þá hafa ákveðið að gerast tónlistarmaður.[2]

Würzburg, Magdeburg, Riga

Næstu árin stundaði Wagner tónlistarnám, samdi sinfóníu í C-dúr og drög að óperu sem átti að heita Brúðkaupið og fjallaði um ástir ungmenna úr fjölskyldum fjandmanna. Ekki er meira eftir af þessari óperu en fyrsta söngatriðið. Um þetta leyti kynntist hann tónskáldinu Robert Schumann sem stýrði tónlistartímariti í Leipzig.

Árið 1833, þegar Wagner stóð á tvítugu, heimsótti hann Albert bróður sinn í Würzburg. Hann starfaði þar sem leikari, söngvari og leikstjóri, og Richard fékk tímabundið starf sem kórstjóri. Hér samdi hann fyrstu óperu sína, Die Feen (Álfarnir), sem er reist á sögu eftir ítalska ævintýraskáldið Carlo Gozzi og fjallar um erfiðar ástir huldukonu og manns. Músíkin þykir einkum eiga skylt við Weber og Beethoven en samt má þegar skynja forboða þess sem síðar átti eftir að koma fram. Óperan fékkst þó ekki flutt fyrr en árið 1888, fimm árum eftir dauða Wagners. Þá stjórnaði Hermann Levi henni í München.

Richard Wagner 1842
(Teikning E.B. Kietz)

Árið 1834 varð Wagner tónleikastjóri í Bad Lauchstädt og síðar í Magdeburg þar sem hann kynntist leikkonunni Minnu Planer. Hún var fjórum árum eldri en Wagner og hafði 16 ára gömul eignast óskilgetna dóttur, Natalie, sem alla ævi var opinberlega sögð vera systir hennar. Þau trúlofuðust næsta ár og hann semur óperuna Das Liebesverbot (Ástarbannið). Hún var unnin upp úr leikriti Shakespeares, Líku líkt, og frumflutt í Magdeburg árið 1836. Hér þykir músíkin minna meira á Ítalina Donizetti, Rossini og Bellini svo og Frakkann Auber, en samt koma fyrir nýstárleg atriði sem Wagner átti síðar eftir að vinna meira úr.[3]

Í þessum fyrstu óperum kom það sérkenni þegar í ljós að Wagner samdi óperutexta sína sjálfur, enda leit hann ekki síður á sig sem ljóðskáld en tónskáld. Í hans augum var textinn ekkert aukaatriði heldur áttu tónar og ljóð að vera samofin heild. Venjan hafði verið sú að sérráðnir hagyrðingar sömdu texta við óperur og máttu mikil tónskáld stundum gera sér að góðu skyndiframleiðslu ýmissa bögubósa sem þar að auki töldu textann til lítils annars ætlaðan en að fara vel í munni við að koma músíkinni til skila. Wagner bar langtum meiri virðingu fyrir textanum. Hann átti að geta staðið sem sjálfstætt ljóð.

Minna Planer, fyrri kona Richards (1809–1866)

Árið 1836 stakk Minna af til Königsberg og Wagner elti hana þangað. Þar gengu þau í hjónaband en Minna hljóp aftur frá honum með öðrum manni. Loks kom hún endanlega til hans þegar hann fékk stöðu sem tónlistarstjóri í Riga í Lettlandi árið 1837.

Í Riga byrjaði Wagner að semja óperuna Rienzi sem gerist í Rómaborg á 14. öld. Hér tók Wagner brátt að safna skuldum en sú árátta átti eftir að loða við hann alla ævi. Sumarið 1839 tókst þeim að flýja lánardrottna og skuldafangelsi sjóleiðis um Eystrasalt til Lundúna, Boulogne og Parísar. Hann kvaðst síðar hafa fengið fyrstu hugmynd að óperunni Der fliegende Holländer (Hollendingurinn fljúgandi) í ofsaveðri á siglingunni undan strönd Noregs, en hún er reist á sögn um skipstjóra í álögum sem verður að sigla friðlaus um heimsins höf með draugaáhöfn sinni.[4]

París

Næstu tvö og hálft ár bjuggu Minna og Richard við þröngan kost í París. Hann kynntist þar ýmsum listamönnum, svo sem tónskáldunum Hector Berlioz, Giacomo Meyerbeer og Franz Liszt og þýska skáldinu Heinrich Heine. Honum gekk erfiðlega að koma nokkrum verkum á framfæri þótt fyrrnefndir kunningjar hans reyndu að mæla með honum. Hann lauk við Rienzi í París og að því kom um mitt ár 1841, meðal annars fyrir tilmæli Meyerbeers, að óperan í Dresden ákvað að taka þá óperu til sýningar. Við þetta fylltist Wagner bjartsýni og hann samdi óperuna Hollendinginn fljúgandi á tveim mánuðum. Um líkt leyti byrjaði hann að vinna að óperunni Tannhäuser og söngkeppnin á Wartburg. Kveikjuna að söguþræði hvors tveggja sótti hann til Heines þótt hann færi sem oftar sínar eigin leiðir um meðferð sagnanna.[5]

Brúðkaupsljóð til Richards og Minnu í Königsberg 1836

Dresden

Wagner fékk æ meiri hug á þýskum miðaldasögum og goðsögnum. Í byrjun apríl 1842 fluttust þau Minna til Dresden. Á leiðinni fór vagn þeirra framhjá kastalanum Wartburg og umhverfið greypti sig í huga Wagners sem sviðsmynd að öðrum þætti óperunnar um Tannhäuser og söngkeppnina í sama kastala.[6]

Fyrst um sinn lifðu þau Minna að miklu leyti á kostnað Brockhaus máganna en um haustið var Rienzi frumfluttur í Dresden og hlaut mjög góðar viðtökur. Enn þykir Wagner nokkuð undir áhrifum eldri tónskálda og að þessu sinni einkum þeirra Spontinis og Meyerbeers. Honum virðist hafa verið í lófa lagið að feta áfram sömu braut og öðlast skjótar vinsældir en hugurinn stefndi hærra.

Hollendingurinn fljúgandi var frumsýndur í byrjun janúar 1843 þegar Wagner stóð á þrítugu. Með honum markar Wagner fyrir alvöru sinn eigin persónulega stíl sem síðar átti eftir að þróast í fjóra áratugi. Litlu síðar var hann skipaður konunglegur hirðhljómsveitarstjóri í Dresden. Stöðuhækkunin og auknar tekjur breyttu engu um að Wagner hélt sífellt áfram að steypa sér í botnlausar skuldir. Um þetta leyti tókst honum að koma Hollendingnum fljúgandi á framfæri í Berlín. Þá kynntist hann Felix Mendelsohn-Bartholdy sem sýndi músík Wagners fremur lítinn áhuga.[7]

Richard og Minna í París 1840-41. Richard hamast við að semja Rienzi, Minna og hundurinn hjálpa til. A gólfinu liggja galtómar peningaskjóður. (Teikning E.B. Kietz.)

Næstu ár gegndi Wagner starfi sínu sem hljómsveitarstjóri í Dresden en vann jafnframt að eigin verkum. Hann lauk við óperuna Tannhäuser sem fjallar um baráttu holdsins og andans, hvort ganga skuli í björgin, og er skyld flökkusögninni um sömu togstreitu sem birtist meðal annars í kvæðinu um Ólaf liljurós. Verkið var frumflutt í Dresden í október árið 1845. Sama ár byrjaði Wagner á texta að Lohengrin sem er enn ein persónan úr dulheimum og kemur til mannheima að gera góðverk en má ekki einu sinni segja brúði sinni hver hann sé.

Wagner tók brátt til við músíkina að Lohengrin. Um sömu mundir varð til fyrsta hugmynd að Meistarasöngvurunum í Nürnberg og haustið 1846 skrifaði hann auk þess drög að óperutexta um þýska keisarann Friedrich Barbarossa (Rotbart, Rauðskegg) af Hohenstaufen ættinni, en þau lagði hann jafnskjótt til hliðar.

Byltingargrein eftir Wagner í blaði í Dresden í apríl 1849

Í janúar 1848 andaðist Johanna Rosine móðir hans. Nokkru síðar braust febrúarbyltingin út í París og í kjölfarið urðu óeirðir í Saxlandi og víðar á hinu þýskumælandi svæði. Wagner tók þátt í kröfugerð um afnám einveldis en lagði sig í fyrstu ekki síst fram um að reyna að tryggja að staða listamanna yrði betri en verið hafði. Konungurinn Friedrich August II afnam ritskoðun og heimilaði nokkrar aðrar réttarbætur.

Wagner lauk við Lohengrin 28. apríl 1848 og hinn 18. maí kom fyrsti þýski þjóðfundurinn saman í Pálskirkjunni í Frankfurt og krafðist meðal annars þingræðis. Nú var Wagner ekki lengur með neitt stórvirki í takinu og hann hellti sér út í stjórnmálin. Hann var sjaldan varfærinn í ræðu eða riti og hélt innblásna ræðu á fundinum um miðjan júní. Hann ræddi þar meðal annars um pólitískan lausnara sem mátti túlka sem kröfu um afnám konungdæmisins. Ræðan var prentuð og við lá að Wagner yrði settur af sem hljómsveitarstjóri. Hann skrifaði því afsökunarbréf til hans hátignar konungsins með flóknum skýringum þar sem hann þóttist einmitt vilja upphefja konungdæmið sem verndara gegn illu valdi fjármagnsins. MáI hans var látið niður falla um sinn.

Í framhaldi af hinum pólitísku vangaveltum um valdið tók Wagner aftur að fást við keisarann Friðrik rauðskegg (Friedrich Rotbart). Við það leiddist hann út í mikið hugarflug og skrifaði 40 síðna skáldlega upphafna mannkynssögulega ritsmíð, Die Wibelungen. Þar er meðal annars fjallað um ímyndað frumkonungdæmi frá dögum gamla Nóa, feðraveldi og hálfgoðsögulegar konungsættir eins og Nibelungen og Welfen, rómverska keisaradæmið og Franka sem afkomendur Trójumanna.

Með frumlegri orðsifjafræði tekst honum í kaupbæti að gera Friedrich Rotbart að afkomanda Siegfrieds sem aftur átti að hafa verið af goðakyni. Wagner klykkti út með því að túlka söguna um auð Niflunga og upphaf goðsagnar um hann í anda franska heimspekingsins Proudhons sem var einn af frumkvöðlum anarkismans og hélt því fram, að einkaeign væri sama og þjófnaður. Með þessu virðist Wagner reyna að tengja sósíaliskar hugmyndir við fornar germanskar sagnir.[8]

 

Bls 019 Semperóperan í Leipzig
Semperóperan í Dresden.
Þar var Wagner óperustjóri 1841-1849.

Nú var Wagner enn kominn á hina goðsögulegu slóð, en dulheimar urðu stöðugt áleitnari í verkum hans, enda fannst honum vésagnir og ævintýri túlka dýpri og sígildari sannindi en mannleg sagnfræði, skáldsögur og dægurþras. Þessi hneigð birtist þegar í Álfunum, Hollendingurinn er úr draugheimi, Tannhäuser dvelur með bjargbúum, Lohengrin kemur úr dulheimi, Hringurinn gerist að hálfu leyti í goðheimum og Parsifal er á mörkum hins yfirskilvitlega. Dálæti Wagners á vésögnum fremur en sagnfræði minnir á þau ummæli Halldórs Laxness í Inngangi að Passíusálmunum að munnmælin séu vitrari en sagnameistarar.[9]

Í október 1848 skrifaði Wagner, sem þá var hálffertugur, eigin vésögn um svipað efni og Die Wibelungen sem hann gaf nafnið Die Nibelungensage (Mythus) eða Niflungasagan (vésögn). Við fyrstu prentun breytti hann fyrirsögninni í Der Nibelungen-Mythus. Als Entwurf zu einem Drama eða Niflungasögnin. Drög að leikverki. Þessi texti er ekki nema tíu blaðsíður og átti að vera bakgrunnur að óperu sem hann hugðist semja og fékk fyrst heitið Dauði Siegfrieds. Í lok nóvember hafði hann lokið við frumgerð að texta þeirrar óperu. Sjálf vésögnin reyndist er tímar liðu upphaf og burðargrind að öllum Niflungahringnum. (Sjá nánar bls. 67–77). [Sjá nánar: Sköpunarferli Hringsins – Bragfræði]

Tilkynning um að Richard Wagner sé eftirlýstur af lögreglunni í Dresden 1849.

Ekki varð þó framhald á þessari óperusmíð að sinni. Enn var hugmyndin um hinn pólitíska lausnara að vefjast fyrir Wagner og snemma árið 1849 skrifaði hann langt uppkast að leikverki um Jesúm frá Nasaret þar sem Kristur birtist ótvírætt í gervi byltingarmanns.[10] Ekki leið heldur á löngu þar til Wagner var sjálfur farinn að leika slíkt hlutverk. Mjög lítið hafði orðið úr réttarbótum þeim sem konungur lofaði árinu áður. Wagner kynntist allnáið rússneska stjórnleysingjanum Míhaíl Bakunin sem var nýkominn til Dresden frá París þar sem hann hafði umgengist Proudhon, George Sand og Karl Marx. Wagner gerðist mjög ólmur í byltingaráróðri og tók virkan þátt í uppreisninni í Dresden í maí 1849. Hún var bæld niður og honum tókst með naumindum að sleppa til Sviss.

Zürich

Wagner varð útlægur frá heimalandi sínu í þrettán ár. Hann settist fyrst að í Zürich og lagði stund á hljómsveitarstjórn og fræðileg ritstörf, ekki síst um tengsl listar og samfélagsmála, en sinnti lítt um tónsmíðar fyrsta árið. Hann fór þó öðru hverju til Parísar að freista gæfunnar við óperuna en lengi vel án árangurs. Haustið 1850 skrifaði hann í miklum hugaræsingi eina alræmdustu grein sína, Das Judentum in der Musik, sem var heiftarlegt níð um áhrif gyðinga í evrópskri tónlist, en þá taldi hann vera þar eins og hver önnur aðskotadýr.[11]

Þessi grein vakti mikil og hörð viðbrögð sem enn í dag sér ekki fyrir endann á. Franz Liszt, sem þá var orðinn óperustjóri í Weimar og hafði nokkru áður látið frumflytja Lohengrin, varð til dæmis skelfingu lostinn. Sama haust hjálpaði Wagner hinum unga og seinna heimsfræga píanóleikara og hljómsveitarstjóra Hans von Bülow að stíga fyrstu sporin á þeim brautum. Milli þeirra skapaðist órjúfandi ævilöng virðing þrátt fyrir það sem síðar átti eftir að ganga á í samskiptum þeirra.

Zürich árið 1857. Wesendonckhúsið er lengst til vinstri

Wagner samdi snemma árs 1850 texta að óperu sem átti að heita Völundur smiður. Meginhugmyndin er sýnilega fengin úr endursögn Karls Simrocks á Völundarkviðu þótt greina megi drætti úr fleiri sögnum um Völund. Hún sýnir að hann var enn annað veifið með hugann við norrænar fornsagnir, og hér má greina ýmsar hugmyndir sem seinna komu fram í Hringnum, svo sem smíði hins besta sverðs, máttugan hring, örlagaríkar spurningar, frelsun úr ánauð, lausn fyrir ástar sakir og eldsvoða í lokin.

Hér eru enn á kreiki byltingarhugmyndir um endurlausn fólksins sem á að smíða sér eigin vængi eins og Völundur og fljúga frjálst undan áþján sinni. Wagner samdi hinsvegar aldrei neina músík við þennan texta og harma það sumir. Á hinn bóginn byrjaði hann sumarið 1850 að föndra örlítið við músík að Dauða Siegfrieds.[12]

Áður en lengra yrði haldið á þeirri braut taldi hann sig þurfa að koma skipulagi á hugleiðingar sínar um óperusmíð. Fjögur fyrstu stórverkin sem hann hafði fullgert, Rienzi, Hollendingurinn fljúgandi, Tannhäuser og Lohengrin, voru enn of hefðbundin að hans eigin dómi og fullnægðu ekki framtíðarhugmyndum hans. Í þessu augnamiði skrifaði hann næsta vetur lengstu ritgerð sína um listræn efni sem nær yfir á fjórða hundrað blaðsíður og heitir einu nafni Oper und Drama. Hann las megnið af þessu riti fyrir vini og kunningja á tólf kvöldum og varð sumum svefnsamt undir þeim lestri. Sjálfur mun hann hafa lært mikið af að bera hugmyndir sínar á borð fyrir aðra og styrktist við það í eigin hugmyndafræði.[13]

Richard Wagner fertugur 1853. (Vatnslitamynd C. Stockar-Escher.)

Snemma árs 1851 barst Wagner í hendur hin tímamótandi þýðing Karls Simrocks á eddukvæðum og megninu af lausamáli Snorra Eddu. Mörgu af því hafði hann vissulega kynnst áður í misstórum brotum en hér var allt saman komið á einn stað, ekki síst goðsagnir og vésagnir.

Nú varð honum ljóst að ekki dygðu minna en tvær óperur til að rekja sögu Siegfrieds frá upphafi. Í maí og júní lauk hann við textann að nýrri óperu sem fékk heitið Der junge Siegfried (Sigurður sveinn). Fyrir þessari stefnubreytingu og mörgu öðru gerði hann grein í löngum boðskap til vina sinna síðar um sumarið. Hinn 20. nóvember 1851 skýrir hann Liszt síðan frá því í bréfi að til að gera efninu skil þurfi þrjár óperur í fullri lengd og auk þess styttri inngangsóperu. Í árslok 1852 lauk Wagner við allan texta Niflungahringsins og gaf hann út í 50 eintökum handa vinum og vandamönnum í febrúar 1853 þegar hann var tæplega fertugur.[14]

Wagner kom sér hinsvegar ekki strax að því að semja músík við Hringinn. Heilsan var ekki góð, en samt fór hann í langar fjallgöngur um sumarið með Liszt og skáldinu Herwegh. Að því búnu tókst hann á hendur mánaðarferð til Norður-Ítaliu og sá Miðjarðarhafið í fyrsta skipti. Á hóteli í borginni La Spezia við Genúaflóann lá hann einn dag með hitasótt í móki þegar hann fékk einskonar vitrun: Hann heyrði upphafstón Rínargullsins, fyrstu óperu Niflungahringsins af fjórum, hinn langa Es-dúr hljóm.[15]

Í lok april árið 1857 urðu þau Minna leigjendur í garðhúsi við nýbyggt stórhýsi Wesendonckhjónanna í nánd við Zürich. Otto Wesendonck var hálffertugur auðugur silkikaupmaður sem dáðist mjög að Wagner og hafði meðal annars veitt honum ferðastyrkinn til Ítalíu árið áður. Mathilde kona hans var þrettán árum yngri og hneigð til skáldskapar. Þau Wagner náðu saman í andanum, hvort sem það gerðist nokkru sinni í holdinu, en hann varð að minnsta kosti „skáldlega forliftur“ í henni eins og Benedikt Gröndal kvaðst vera í öllu kvenfólki.

Wesendonckhúsið í Zürich. Hægra megin er „afdrepið“ sem Richard og Minna fluttust í 1857. Hin ljóðelska Mathilde Wesendonck örvaði Wagner m.a. til að skapa óperuna Tristan og Isolde. Wagner samdi einnig tónlist við ljóð frúarinnar (Wesendonckljóðin).

Undanfarin ár hafði hann unnið ósleitilega að músíkinni við Hringinn en var samt nokkra mánuði gestastjórnandi í London veturinn 1855. Hann hafði lokið við Rínargullið og Valkyrjuna og var kominn nokkuð fram í Siegfried þegar hann gerði hlé á verkinu á miðju ári 1857 og byrjaði að semja Tristan og Isolde. Þá sýndist einnig svo komið að eigin þrá Wagners virtist ekki gera augijós skil milli hans sjálfs og Mathilde Wesendonck annarsvegar og hinnar banvænu ástríðu Tristans og Isoldar hinsvegar. Hann sendi Mathilde ástþrungið bréf vorið 1858 sem Minna komst yfir og varð til þess að Mathilde og Otto mislíkaði. Minna fór til Dresden en sjálfur hrökkIaðist Wagner til Feneyja og hélt áfram við Tristan og Isolde sem hann lauk í Luzern sumarið 1859.

Á flakki

Sama haust hélt Wagner enn einu sinni til Parísar og dvaldist þar að mestu næstu tvö árin. Hann fékkst við hljómsveitarstjórn í París og Brussel, og Minna kom til hans aftur. Í mars 1861 var óperan Tannhäuser sýnd í Parísaróperunni þrem sinnum og í hvert skipti varð sýningin fyrir óbærilegum truflunum sem óvinir Wagners skipulögðu. Þess háttar skrílslæti í óperuhúsum voru ekki með öllu óþekkt á 19. öld ef tónskáld beygðu sig ekki fyrir skemmtunarkröfum einhverra þrýstihópa. Má líkja þessum óperubullum við fótboltabullur nú á dögum.

Næstu árin hafði Wagner enga fasta búsetu og þau Minna slitu endanlega samvistir árið 1862. Hann stjórnaði hljómleikum á ýmsum stöðum, meðal annars í Pétursborg, og tókst öðru hverju að vinna að Meistarasöngvurunum í Nürnberg en var á sífelldum flótta undan lánardrottnum.

Richard Wagner fimmtugur.
Ljósmynd 1864–65

München - Lúðvík II

Í lok apríl 1864 var Wagner staddur í hálfgerðum felum hjá vini sínum í Stuttgart þegar konunglegur sendimaður gerði boð fyrir hann. Wagner bjóst við að einhverjir útsendarar lánardrottna hefðu þefað hann uppi en hér var óvænt kominn sendiboði frá lítt kunnum aðdáanda, hinum nýja og kornunga konungi Bæjaralands, Lúðvík II, sem bauð meistara sínum gull og græna skóga. Þá hafði Wagner eitt ár um fimmtugt.[16]

Lúðvík II var sonarsonur Lúðvíks I sem var konungur Bæjaralands 1825–48 en var knúinn til að afsala sér völdum, meðal annars vegna sambands við fræga dansmey að nafni Lola Montez. Við tók sonur hans, Maximilian II, sem andaðist 1864. Lúðvík II var aðeins 18 ára þegar hann tók við konungdómi. Um hann var sagt að hann væri of gáfaður og fullkominn til að nokkur venjulegur maður gæti talið hann með öllum mjalla. Hann kærði sig ekkert um þegna sína, fyrirleit ríkisstjórnina og vildi helst lifa í heimi skáldskapar og ævintýra. Minnismerki þess eru hinar frægu ævintýrahallir sem hann byrjaði að láta reisa og milljónir ferðamanna sækja heim nú á dögum til ómælds hagnaðar fyrir ríkiskassann. Eyðslusemi konungs og ýmis uppátæki urðu hinsvegar á endanum til þess árið 1886 að ríkisstjórnin setti hann í stofufangelsi í kastalanum Berg við Starnbergervatn. Þar fannst hann skömmu síðar drukknaður í vatninu.

Lúðvík II konungur Bæjaralands og Richard Wagner. Wagner lék á píanó fyrir kónginn í höll hans í Hohenschwangau í eina viku haustið 1865.

Tónlist Wagners var eitt þeirra listrænu stórvirkja sem Lúðvík II taldi þess virði að efla og styrkja, og höfundurinn átti að geta helgað sig sköpun sinni ótruflaður af búksorgum. Konungur bauðst til að greiða allar skuldir Wagners, greiða honum árlegan lífeyri og kosta uppfærslur á tónverkum hans. Í staðinn átti konungur að fá eiginhandrit og flutningsrétt á verkum meistarans. Að sjálfsögðu tók Wagner þessu tilboði fegins hendi. Hann losnaði úr skuldakröggum og örugg tilvera virtist brosa við honum. Konungur fékk honum sumarhöllina Pellet við Starnbergervatn til íbúðar svo að þeir gætu hist á hverjum morgni þegar konungur dvaldist á þeim slóðum. Um haustið fékk konungur honum til ráðstöfunar stórhýsi í miðri München.

Cosima

Andstaða annarra yfirvalda en konungsins varð samt til þess að Wagner hélst ekki við í München nema hálft annað ár undir verndarvæng hins volduga vinar, sem gat reyndar verið nokkuð duttlungafullur og lítt útreiknanlegur. Þar kom einkum tvennt til. Lúxuslíf með miklum gestagangi og annarri eyðslusemi, sem Wagner var afar veikur fyrir, fór mjög fyrir brjóstið á hinum smáborgaralegu ráðherrum og embættismönnum. Þeim þótti fráleitt að fé ríkisins væri sóað með þessum hætti í listamenn.

Í annan stað olli einkalíf Wagners mikilli hneykslan. Sumarið 1864 urðu þau elskendur, hann og Cosima sem var dóttir Franz Liszts og eiginkona Hans von Bülow hljómsveitarstjóra og aðdáanda Wagners. Það samband fór ekki leynt til lengdar.

Richard Wagner knýr dyra hjá gjaldkera Lúðviks konungs.
Mynd frá 1867

Richard og Cosima sáust fyrst þegar hún var 16 ára en hann stóð á fertugu. Hún giftist Hans von Bülow tvítug og átti með honum tvær dætur. Í lok nóvember 1863 hittust Wagner og Cosima einu sinni sem oftar í Berlín, hann fimmtugur og hún hálfþrítug. Þau virðast þá hafa fundið hvort annað og játað ást sína. Í byrjun júlí 1864 heimsótti Cosima hann við Starnbergervatnið ásamt dætrum sínum, og 10. apríl 1865 fæddist Isolde dóttir þeirra. Hún var þó að sjálfsögðu lögum samkvæmt talin dóttir Hans von Bülow sem sama dag og hún fæddist byrjaði hljómsveitaræfingar á Tristan og Isolde og stjórnaði frumflutningi þessarar ástaróperu Wagners tveim mánuðum seinna í München.

Í München tókst Wagner að ljúka við 2. þátt Siegfrieds, samdi kjarnann að textanum við Parsifal og byrjaði að lesa Cosimu fyrir æviminningar sínar handa Lúðvík konungi sem vildi vita allt um þennan hálfguð sinn. Konungurinn fól hinum fræga arkitekt Gottfried Semper, sem hafði hannað óperuhúsið í Dresden, að teikna leikhús þar sem unnt væri að flytja óperur Wagners eftir hans eigin höfði. Úr því varð þó ekki annað en teikningar og líkan, og lítur helst út fyrir að Wagner hafi ekki viljað eiga allt sitt undir duttlungum konungsins.[17]

Richard og Cosima Wagner
í Vín 1872

Trischen við Luzern

Wagner hrökklaðist frá München til Sviss í árslok 1865 en hélt samt öllum fjárhagslegum styrk frá konungi. Minna dó í Dresden í janúar 1866. Cosima dvaldist ýmist hjá eiginmanni sínum eða Wagner. Þau fundu sér húsið Tribschen við Luzern sumarið 1866 þar sem þau bjuggu næstu sex árin. Þau eignuðust dótturina Evu árið 1867 og soninn Siegfried árið 1869. Cosima fluttist þó ekki endanlega til Wagners fyrr en árið 1868 og skildi ekki formlega við Hans von Bülow fyrr en árið 1870, og þá gengu þau Wagner loks í opinbert hjónaband.

Í Sviss lauk Wagner við Meistarasöngvarana í Nürnberg og var óperan frumflutt í München 21. júní 1868 undir stjórn von Bülows. Sama ár hitti hann í Leipzig í fyrsta sinn 24 ára gamlan heimspeking að nafni Friedrich Nietzsche, en í kynnum þeirra áttu eftir að verða bæði skin og skúrir. Lúðvík konungur hafði öðlast flutningsrétt að óperum Wagners og lét frumflytja Rínargullið í München árið 1869 og Valkyrjuna árið 1870, hvort tveggja þrátt fyrir tregðu Wagners sjálfs sem hafði allt annan leikstíl og miklu stærra svið í huga.

Bls 026 Við Vierwaldstattervatn
Við Vierwaldstättervatn í Sviss. Handan vatnsins má sjá hús Wagners í Tribschen við Luzern. Þar bjuggu þau Cosima frá því í apríl 1866 þar til þau fluttust til Bayreuth í apríl 1872. Í húsinu er nú safn um Wagner. Fjallið Pílatus gnæfir yfir.

Bayreuth

Í febrúar 1871 lauk Wagner loks við Siegfried, og nú tók hann með leyfi konungs að svipast um eftir stað þar sem hann vildi láta sitt eigið óperuhús rísa. Honum leist vel á smáborgina Bayreuth norðan við Nürnberg. Hann kærði sig ekki um stórborg þar sem svo margt annað gæti skyggt á hans eigin tónlistarhöll. Nú var Þýskaland loksins orðið eitt ríki og Wagner hófst þegar handa að stofna styrktarmannafélag um allt land sem átti að fjármagna væntanlega tónlistarhátíð. Árið 1872 fluttust þau Cosima til Bayreuth og sama ár var hornsteinn lagður að hátíðarleikhúsinu. Fjársöfnunin gekk þó treglega og í árslok 1873 virtist allt fyrirtækið vera að fara á hausinn. Þá stóð Wagner á sextugu.

Lúðvík konungur hafði fram til þessa ekkert viljað hjálpa til og hefur trúlega verið móðgaður vegna þess að Wagner vildi ekki láta reisa húsið suður í München. Auk þess gerðist öll hegðun hans sífellt undarlegri á köflum. Nú þegar í óefni virtist komið brást hann skyndilega við þeim fréttum og sagði: „Nei, nei og aftur nei. Svona má það ekki enda.“ Hann fjármagnaði að vísu hvorki bygginguna né hátíðina beinlínis, heldur ábyrgðist stórlán til hennar sem og einkahúss Wagners sjálfs. Wagner-fjölskyldan endurgreiddi þetta lán á mörgum áratugum.[18]

Villa Wahnfried, húsið sem Wagner lét byggja í Bayreuth.
Þar bjó hann með fjölskyldu sinni frá árinu 1874 til dauðadags.
Stytta Lúðvíks II stendur á hlaðinu, veggmynd af Óðni prýðir framhliðina og þar er einnig letrað:
„Hier wo mein Wähnen Frieden fand - Wahnfried - sei dieses Haus von mir benannt.“
Í garðinum bak við húsið er gröf Richards og Cosimu.

Á árunum 1872–74 samdi Wagner músíkina við Ragnarök og árið 1874 fluttist fjölskyldan inn í hið nýreista stórhýsi sem Wagner gaf heitið Wahnfried. Á framhlið hússins útskýrir hann nafnið í bundnu máli sem helst má skilja svo að hér hafi óraunhæfar væntingar hans loks fundið frið. Merking orðsins Wahn hefur í aldanna rás smám saman breyst úr væntingu í vitfirringu nú á 20. öld, sjá Grimms Wörterbuch.

Æfingar á Hringnum öllum stóðu árið 1875 og hann var frumfluttur í nýja hátíðaleikhúsinu í Bayreuth í ágúst 1876 að viðstöddum Vilhjalmi I keisara Þýskalands. Lúðvík konungur var þá orðinn þvílík mannafæla að hann laumaðist á næturþeli með einkalest frá München til að sjá nokkrar æfingar sem voru skipulagðar sérstaklega fyrir hans hátign. Verkið var í rauninni ekki fullæft og sumir leikmunir ekki komnir á staðinn, til dæmis hafði hálsinn af orminum Fáfni verið sendur til Beirut í Líbanon. Ekki þótti samt gerlegt að fresta frumflutningnum þar sem margt stórmenni hafði löngu boðað komu sína.

Á þessum frumsýningum tók Wagner eftir mörgu sem honum fannst að betur hefði mátt fara og meira þurft að æfa, og hann virðist hafa orðið fyrir talsverðum vonbrigðum með eigið verk. Hann byrjaði enda strax að tala um nauðsyn á endurflutningi Hringsins næsta ár þar sem bætt skyldi úr helstu göllum. Það reyndist þó ekki unnt vegna þess að gríðarlegt tap hafði orðið á hátíðinni sem mörg ár tók að greiða upp. Hringurinn var ekki fluttur aftur í heild fyrr en tuttugu árum seinna, árið 1896, þrettán árum eftir dauða Wagners. Fjölskyldan hélt gagnrýni höfundar á eigin uppfærslu hinsvegar leyndri og hún kom ekki á daginn fyrr en tekið var að birta flestöll bréf hans og dagbækur Cosimu löngu eftir dauða beggja. Þangað til var leitast við að halda sýningunum sem mest í hinum upphaflegu og hæpnu skorðum.[19]

Richard Wagner sextugur 1873

Umdeildur maður

Richard Wagner er einn þeirra manna sem harðsnúnir flokkar hafa fljótt myndast um, með og á móti. Slíkir menn virðast gæddir einhverjum þeim persónutöfrum sem verka á gagnólíkan hátt. Meðal þeirra sem fyrir verða vaknar því ýmist hömlulítil tilbeiðsla eða glórulaust hatur. Menn af þessum toga láta oft margt misjafnt fjúka í hita augnabliksins og geta óvart orðið einskonar trúarleiðtogar. Fylgjendur þeirra gerast einatt langtum harðsvíraðri en meistarinn sjálfur. Þeir grípa upp hvert smáatriði, sem af penna eða vörum hans hraut, og gera að trúarsetningu. Andstæðingarnir gera slíkt hið sama með öfugum formerkjum. Sem dæmi um samlanda Wagners, sem þurft hafa að sæta svipaðri meðferð að sér látnum, mætti nefna bæði Martein Lúter og Karl Marx. Þessari flokkaskipan um Wagner er ekki lokið enn.

Þegar Wagner ber á góma líður sjaldan á löngu þar til minnst er á eitthvert þeirra atriða í æviferli hans sem liggja fyrir utan skáldverkin og menn hafa mikið velt sér upp úr í ræðu, riti og kvikmyndum. Hér er einkum átt við kvennamál, fjármálaöngþveiti og gyðingahatur. Aðalástæðan er vitaskuld sú að hann er heimsfrægur maður en ekki sú að hann væri í þessum efnum mjög frábrugðinn öðrum samtíðarmönnum sínum né heldur nútímamönnum. Ástæða er því til að reyna að gera hlutlæga grein fyrir þessum atriðum.

Kvennamál Wagners voru í reynd ekki umfangsmeiri en margra annarra. Ástalíf tengdaföður hans, Franz Liszts, var til að mynda langtum skrautlegra. Eftir að Minna hætti að stinga Wagner af virðist engin alvarleg snurða hlaupa á þráðinn milli þeirra fyrsta hálfan annan áratuginn. Barnleysið olli þeim samt ávallt nokkrum dapurleika, og Minna átti bágt með að umbera kæruleysi bónda síns í fjármálum. Á síðara hluta ævinnar átti Wagner í fáeinum ástarævintýrum, en það þykir einkum frásagnarvert að hann varð ástfanginn af eiginkonum tveggja vina sinna og velgjörðarmanna. Samband hans við Mathilde Wesendonck virðist þó aldrei hafa orðið mjög holdnáið og Cosima von Bülow átti greinilega frumkvæði að samskiptum þeirra.

Richard Wagner í himnaríki. Skopmynd í Vín 1883. Englar blása í Wagnerlúðra, Wagner kennir Mozart og Beethoven og grillar Offenbach. Lykla-Pétur tilkynnir að trílógía Wagners verði leikin daglega.

Andúð á gyðingum

Andúð Wagners á vissum eðlisþáttum sem hann þóttist sjá í fari gyðinga hefur dregið langtum meiri slóða á eftir sér. Hún var samt langt frá því að vera nokkurt eindæmi. Gyðingahatur hafði verið landlægt í Evrópu síðan á miðöldum. Upphaf þess má rekja til ótta ýmissa starfstétta við samkeppni af hálfu aðfluttra gyðinga en þeim fjölgaði mjög um þær mundir sem flóttamönnum eftir því sem veldi múslima þandist út. Gyðingum var hvorki leyft að eiga jarðir né stunda handverk utan eigin samfélags. Verslun og lánastarfsemi var nánast hið eina sem þeir máttu rækja opinberlega, enda voru slík störf álitin fyrir neðan virðingu frjálsborinna manna á miðöldum og sumstaðar bannfærð af katólsku kirkjunni.

Yfirvöld gátu hagnast vel á sliku fyrirkomulagi því þau lögðu háa skatta á þessa starfsemi gyðinga sem sjálfir fengu ósjaldan á sig óorð sem okrarar. Í áróðri var gyðingum meðal annars kennt um krossfestingu Jesú Krists og á umbrotatímum voru þeir oft gerðir að blórabögglum til að reiði almennings fengi einhverstaðar útrás, svo sem kringum krossferðirnar, svartadauða og aðrar plágur, siðaskiptin og þrjátíu ára stríðið.

Á dögum upplýsingarinnar og eftir frönsku byltinguna 1789 öðluðust gyðingar Evrópu smám saman almenn mannréttindi, í Prússlandi t.d. árið 1812. Eftir það tóku þeir brátt virkan þátt í öllu andlegu, veraldlegu og listrænu lífi, og vegna aldalangrar reynslu urðu þeir ekki síst umsvifamiklir á sviði bankamála og viðskipta. Hin sífellda varnarstaða hafði auk þess þroskað með gyðingum alþjóðlega samhygð sem nú nýttist í viðskiptalífinu. Hin gamalgróna andúð varð ekki heldur upprætt með einni kynslóð, heldur fann sér nýja farvegi.

Greinilega var mjög grunnt á þessari andúð hjá Wagner sem mörgum öðrum, en afstaða hans virðist vera nokkuð tvíbent og fara eftir geðsveiflum eða stundarhagsmunum. Fyrir utan hina alræmdu grein um gyðingdóm í músík árið 1850, koma slíkar hreytur helst fram í nokkrum minningabrotum sem Cosima skráði. Viðhorf hans var samt talsvert persónubundið. Margir helstu kunningjar hans og samstarfsmenn til æviloka voru einmitt gyðingar, og hann fól hljómsveitarstjóranum Hermann Levi, sem var sonur gyðingaprests, að stýra hinu „heilaga“ lokaverki sínu Parsifal árið 1882.

Kringum 1880 varð til skipuleg andgyðingleg hreyfing í Þýskalandi sem breiddist brátt út til Austurríkis, Rússlands, Frakklands og Bretlands. Bakgrunnur hennar var sem áður samkeppni og ótti við sívaxandi áhrif gyðinga, ekki síst á viðskiptasviðinu. Wagner gerðist ekki félagi í þeim samtökum og hann kom sér hjá því að skrifa undir sérstakt bænarskjal sem þessi félagsskapur sendi keisaranum þess efnis að réttindi gyðinga skyldu aftur skert.

Fyrstu hljómsveitarstjórar hatíðarinnar í Bayreuth.
Frá vinstri:
Hermann Levi starfaði með Wagner frá 1871, stjórnaði frumflutníngi óperunnar Parsifal 1882 og til ársins 1894.
Hans Richter var náinn vinur Wagners frá 1866, stjórnaði Niflungahringnum í Bayreuth 1876 til 1912.
Felix Mottl aðstoðaði Wagner á hátíðinni 1876 og var hljómsveitarstjóri á henni í rúma tvo áratugi á eftir.

Hvergi í skáldskap Wagners er heldur að finna neina andúð á gyðingum þótt reynt hafi verið að túlka ógeðfelldar persónur í verkum hans, svo sem Alberich, Mime og Beckmesser, sem persónugervinga þeirra. Ef nota ætti slíka mælistiku mætti ekki síður stimpla Shakespeare og Dickens sem gyðingahatara vegna verka eins og Kaupmaður í Feneyjum og Oliver Twist.

Wagner varð hinsvegar fyrir því óláni hálfri öld eftir dauða sinn að harðsvíraður aðdáandi hans komst til valda sem ríkiskanslari Þýskalands. Sá hét Adolf Hitler. Löng og flókin saga er til af skiptum Hitlers við tengdason, tengdadóttur og afkomendur Wagners. En það er varla sanngjarnt að gera tónskáldið persónulega ábyrgt fyrir helför gyðinga á 20. öld eins og sumir hafa viljað, þótt hann hafi skrifað eina herfilega grein í öfundar- og bræðikasti hundrað árum áður og jafnvel þótt sumir böðlar nasista hafi dáðst að og túlkað verk hans eftir sínu eigin höfði.

Wagner varð hinsvegar fyrir því óláni hálfri öld eftir dauða sinn að harðsvíraður aðdáandi hans komst til valda sem ríkiskanslari Þýskalands. Sá hét Adolf Hitler. Löng og flókin saga er til af skiptum Hitlers við tengdason, tengdadóttur og afkomendur Wagners. En það er varla sanngjarnt að gera tónskáldið persónulega ábyrgt fyrir helför gyðinga á 20. öld eins og sumir hafa viljað, þótt hann hafi skrifað eina herfilega grein í öfundar- og bræðikasti hundrað árum áður og jafnvel þótt sumir böðlar nasista hafi dáðst að og túlkað verk hans eftir sínu eigin höfði.

Palazzo Vendramin-Calergi, höllin í Feneyjum þar sem Richard Wagner bjó frá 18. september 1882 til dauðadags 13. febrúar 1883.

Almenningur í Þýskalandi var samt af þessum sökum lengi eftir síðari heimsstyrjöldina feiminn eða hálfhræddur við músík Wagners. Hið sama má raunar segja um afstöðu almennings til íslenskra fornbókmennta og alls þess sem nasistar höfðu hampað sem germönskum menningararfi. Úr þeim álögum hafa hvorug snilldarverkin enn losnað að fullu. Enn er það til dæmis svo að af ótta við ofstækismenn hafa sinfóníuhljómsveitir í Ísrael ekki vogað sér að leika verk eftir Wagner þótt tónlistarmenn þar í landi séu síður en svo anægðir með þetta óopinbera bann. Hér á landi áttu menn af þýskum gyðingaættum, eins og Victor Urbancic og Róbert Abraham Ottósson, frumkvæði að því að Sinfóníuhljómsveit Íslands flytti verk eftir Wagner.

Líkfylgd Richard Wagners
Líkfylgd Richard Wagners fer hjá járnbrautarstöðinni í Bayreuth á leið til Villa Wahnfried 18. febrúar 1883. Krikjuklukkum er hringt, hljómsveitin leikur sorgarmars úr Ragnarökum.

Ævilok

Að fyrstu Bayreuth-hátíðinni lokinni fór Wagner í hressingardvöl til Ítalíu, en árið 1877 dvaldist hann um hríð sem hljómsveitarstjóri í Lundúnum til að grynnka á skuldum vegna hátíðarinnar árið áður. Sama ár byrjaði hann að vinna að Parsifal og lauk ekki við hann fyrr en 1882. Verkið var frumsýnt á annarri Bayreuth-hátíðinni sama ár. Wagner dvaldist á þessum árum talsvert á Ítalíu sér til heilsubótar en andaðist í Feneyjum 13. febrúar 1883. Hann var jarðsettur í garðinum við húsið Wahnfried. Þar er nú mikið safn um ævi hans og störf og sigurför verka hans, og þar er einnig aðsetur Richard-Wagner-stofnunarinnar.

Gröf Richards og Cosimu Wagner að baki Villa Wahnfried í Bayreuth.

Tilvísanir

[1] Gregor-Dellin, 34–35.
[2] Wagner. Mein Leben I, 46.
[3] Wagner. Sämtliche Schriften XI, 1–124.
[4] Wagner. Mein Leben I, 190.
[5] Gregor-Dellin, 128, 167.
[6] Wagner. Mein Leben I, 253–54.
[7] Gregor-Dellin, 171–72, 191–92
[8] Wagner. Sämtliche Schriften II, 115–55; XI, 270–72.
[9] Halldór Laxness. Vettvángur dagsins, 7.
[10] Wagner. Sämtliche Schriften XI, 273–324.
[11] Wagner. Sämtliche Schriften V, 66-85. Gregor-Dellin, 310–14.
[12] Wagner. Sämtliche Schriften III, 178–206. Gregor-Dellin, 293–99. Jón Helgason. Tvær kviður fornar, 20–80. Guðrún Þórðardóttir. Svanameyjar í Völundarkviðu, 72–78. Dokumente, 36.
[13] Wagner. Sämtliche Schriften III, 222–320; IV, 1–229. Gregor-Dellin, 322.
[14] Dokumente, 46–54,60. Gregor-Dellin, 359.
[15] Wagner. Mein Leben II, 60.
[16] Wagner. Mein Leben II, 330–32.
[17] Wagner. Mein Leben I, 5. Gregor-Dellin, 529–50,593–602.
[18] Gregor-Dellin, 676.
[19] Gregor-Dellin, 728.