Undirkaflar

Inngangur

Wagner og Völsungar

Íslenskar uppsprettur Niflungahringsins

Lesendur þessarar fyrirsagnar kynnu að láta sér detta í hug að fundist hefðu einhverjar áður óþekktar heimildir sem Wagner hafi notað þegar hann var að semja þetta mikla verk. Svo er ekki nema að mjög litlu leyti. Flestir fræðimenn vissu frá upphafi að Wagner nýtti sér eddukvæðin drjúglega ásamt íslenskum goðsögnum og hetjusögum, enda segir hann það sjálfur berum orðum. Fyrirsögnin á einungis að kveða skýrt upp úr um það í hvaða landi og á hvaða tungu þessar heimildir Wagners voru upphaflega skrifaðar á 13. öld og geymdar öldum saman.

Fyrir rúmum þrem öldum var tekið að snúa hluta þessara bókmennta á önnur tungumál og prenta útdrætti úr þeim. Þessu hefur stöðugt verið haldið áfram en síðustu tvær til þrjár aldir hafa þessar íslensku bókmenntir oftast verið kallaðar fornnorrænar, forngermanskar, frumgermanskar, frumþýskar eða skandinavískar á alþjóðavettvangi. Um þær eru tíðast notuð orð eins og Old Norse, Scandinavian, Nordic, norrön, nord, septentrional, teutonic, altnordisch, altgermanisch og jafnvel urdeutsch en sjaldan lýsingarorðið íslenskur.

Hið sama gerði Wagner reyndar á sínum tíma og þetta gat verið skiljanlegt um miðja 19. öld. Þá vissu jafnvel upplýstir menn suður í Evrópu almennt ekki að til væri neitt sem heitið gæti sérstök íslensk menning, tunga eða þjóð. Menn töldu sig vita það eitt að Ísland hefði byggst frá Noregi en væri nú hluti af Danaveldi. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga gagnvart danska ríkinu var þá nýlega hafin en það var á fárra vitorði utan Íslands og Danmerkur.

Konráð Maurer varð fyrstur Þjóðverja til að skýra muninn á fornnorrænu, íslensku og gamalli norsku.

Konrad Maurer er fyrsti þýski fræðimaðurinn sem kynnir íslensku sem sérstaka bókmenntatungu. Maurer var prófessor í réttarsögu við háskólann í München. Sem sérfræðingur í norrænum og germönskum þjóðrétti tók hann málstað Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni við Dani og dvaldist á Íslandi í sex mánuði sumarið 1858. Sama ár sá hann um fyrstu þýsku vísindaútgáfu á Íslendingasögu, Gull-Þóris sögu. Með ítarlegum ritgerðum hrakti hann árið 1867 skoðun Norðmannsins Rudolfs Keysers sem árið áður hafði haldið því fram að allar íslenskar fornbókmenntir væru í rauninni norskar. Maurer gerir glögga grein fyrir hugtökunum fornnorrænt, fornnorskt og íslenskt (altnordisch, altnorwegisch, isländisch) og útskýrir mismun þeirra.[2]

Nú á dögum ætti öllum að vera ljóst að Norðurlönd eru harla ólík innbyrðis, að Ísland telst ekki til Skandinavíu og íslensk menning hefur af náttúrulegum og sam­félagslegum ástæðum frá upphafi verið harla frábrugðin menningu annarra Norður­landaþjóða í mörgum greinum þótt sjálft tungumálið sé af sömu rót. Samt er þessi garnli misskilningur býsna þrálátur enn í dag. Jafnvel vandaðir og skilningsgóðir fræðimenn að öllu öðru leyti gera sig seka um þá ónákvæmni að kalla forníslenskar bókmenntir skandinavískar, fornnorrænar eða germanskar. Í enskri bók um sögu vestrænnar tónlistar sem fyrst kom út 1974 og var þýdd á íslensku 1987 segir til að mynda svo um Niflungahringinn:

Niflungaljóðin eða Saga Niflunga, eru þýsk ljóð frá þrettándu öld. Ljóðin eru unnin úr Eddukvæðum (Sæmundar-Eddu) og fjalla um söguhetjuna Sigfröð (Siegfried), fjársjóði gulls og sögu grimmilegra hefnda.[2]

Konráð Maurer varð fyrstur Þjóðverja til að skýra muninn á fornnorrænu, íslensku og gamalli norsku.

Hugmyndir um náinn norrænan skyldleika og samsvörun í menningu eru auk þess miklu útbreiddari en efni standa til. Þegar ég sótti tíma í þjóðfræði við háskólann í Vestur-Berlín árið 1964 og talið barst til dæmis að sænskum siðvenjum, gerði pró­fessorinn greinilega ráð fyrir því að Íslendingur hefði eitthvað frekar um það til mál­anna að leggja en aðrir.

Samt hlýtur að mega ætlast til þess að menn vilji vita hvað sannast er í þessum efnum, og því skulu nokkrir sjálfsagðir hlutir ítrekaðir.

Eddumar og Völsungasaga, eins og Wagner kynntist þeim, voru skráðar af íslenskum höfundum á Íslandi og á íslensku á 13. öld, þrem til fjórum öldum eftir landnám Íslands þótt einhver kjarni þeirra hafi ugglaust verið miklu lengur til í munnlegri geymd.

Þiðreks saga af Bern varðveittist sömuleiðis hvergi nema á Íslandi þótt skrásetjari hennar taki skýrt fram í formála sínum að þar sé um þýskar sagnir að ræða. Líklegast er reyndar að hún sé upphaflega skráð um 1200 eftir þýskum farmönnum í Björgvin, hvort sem Norðmaður var að verki eða íslenskur skrifari eins og verið hafði við ævisöguritun norskra konunga fram til loka 13. aldar. Á 13. og 14. öld virðast nokkrir Íslendingar nefnilega hafa verið orðnir skrásetjarar að atvinnu bæði heima og erlendis og skrifaðar bækur jafnvel verið útflutningsvara.[3]

Eddurnar og fornsögurnar hljóta því að teljast íslenskar bókmenntir. Því er óeðlilegt að kalla þær skandinavískar, samnorrænar, samgermanskar eða samevrópskar þótt það geti ekki beinlínis talist rangt. Með sama rétti mætti þá halda því fram að bandarísk skáld eins og Henry Longfellow eða Mark Twain væru enskir eða evrópskir höfundar þótt þeir séu fæddir í Ameríku þrem öldum eftir að Evrópumenn lögðu álfuna undir sig. Á sama hátt mætti spyrja hvort kalla ætti Johann Wolfgang von Goethe þýskan höfund eða blátt áfram germanskan eða evrópskan, ellegar hvort Henrik Ibsen væri norskur, norrænn eða bara germanskur.

Íslensk skinnhandrit frá miðöldum

Vissulega á sumt söguefnið rætur að rekja til atburða sem gerðust langt utan Íslands, meðal annars á þýsku menningarsvæði, eins og hér á einkum við um Búrgunda, Atla Húnakonung og Sigurð Fáfnisbana. En sú staðreynd gerir þessar bókmenntir ekki þýskar. Ættum við kannski að segja að leikrit Shakespeares, Hamlet Danaprins og Rómeó og Júlía, séu dönsk eða ítölsk verk af því að sögusvið og fyrirmyndir eru frá þeim slóðum? Eigum við að segja að 6. og 7. þáttur í Nibelungenlied séu íslenskir af því að þeir eru látnar gerast á einhverju Íslandi?

Skráning íslenskra sagna og kvæða á miðöldum

Í þessu samhengi er ástæða til að velta því fyrir sér hvers vegna langtum meira var skrifað af fornum kvæðum og sögum á Íslandi en annarstaðar í norðanverðri Evrópu á miðöldum. Af hverju voru íslenskir menn kallaðir til sem heimildarmenn og skrásetjarar við erlendar konungshirðir? Og hví skrifuðu þeir einkum á móðurmálinu í stað latínu? Um þetta hafa menn velt vöngum svo öldum skiptir og sett fram ýmsar tilgátur, en nokkur atriði virðast einkum skipta máli.

 

Ritlistin barst hingað norður með kirkjunni á 11. öld. Á þeim tíma var hér enn til allfjölmenn stétt sjálfseignarbænda, öfugt við það ástand sem ríkti sunnar í Evrópu þar sem nær allir bændur voru löngu orðnir ánauðugir leiguliðar klaustra, kirkna, greifa og annarra stórjarðeigenda.

Enda þótt Alþingi hið forna væri ekki skipað kjörnum fulltrúum eins og nú á dögum, ríkti samt svo mikið lýðræði að hver frjáls bóndi hafði lögbundinn rétt til að velja sér talsmann með því að segja sig í þing með þeim goða sem hann sjálfur kaus.

Þessir frjálsu íslensku bændur virðast hafa viljað nýta ritlistina sér og sínum til skemmtunar og fróðleiks. Bændur og önnur alþýða skildi ekki latínu, en hún var ritmál hinna lærðu stétta. Því voru flestar bækur skráðar á móðurmálinu, hvort sem það voru heilagra manna sögur, konungasögur, fræðirit eða Íslendingasögur af eigin forfeðrum og úr eigin umhverfi.

Víðimýrarkirkja – íslensk torfkirkja. Á þjóðveldisöld áttu íslenskir góðbændur kirkjur sínar sjálfir og prestarnir voru launþegar þeirra. Fjárhagslegt sjálfstæði bænda átti mikinn þátt í að skapa jarðveg fyrir sagnaritun á móðurmálinu.

Í lénsveldi Evrópu var að sjálfsögðu ekki hirt um að skrifa sögur á dýrt bókfell handa hinni ánauðugu og ólæsu alþýðu. Fræðibækur voru á latínu en hin tiltölulega fáu riddarakvæði og ástarljóð á móðurmálinu fjölluðu sem vænta mátti um hrausta og göfuga aðalsmenn og íðilfagrar konur þeirra. Þessi samfélagslegi munur á íslenskum og evrópskum bændum virðist meginástæðan fyrir sérstöðu hins skráða sagnaauðs á Íslandi, bæði innihaldi, tungutaki og meðferð efnisins.

Önnur ástæða fyrir upphafi sagnaritunar er þörf manna í nýnumdu landi á að varðveita sagnir um landnámið og skapa sér eigin sögu, þar sem ekki voru fyrir neinar arfsagnir í landinu. Auk þess gat erfðaréttur gilt í fimm ættliði og því var efnahagsleg nauðsyn fyrir hugsanlega erfingja að skrásetja landnámsmenn og rekja ættir frá þeim. Slíkar ættartölur hljóta stundum að hafa getað þróast upp í heilar sögur ef skrásetjari var jafnframt gæddur hæfileikum sagnamanns og skáldlegri andagift.

Í þriðja lagi má nefna veikleika íslensku kirkjunnar gagnvart veraldlegum höfðingjum fyrstu aldirnar eftir kristnitöku. Gildir bændur reistu fyrstu kirkjurnar og áttu þær og höfðu hina skriftlærðu klerka í þjónustu sinni. Þeir gátu því annast skriftir fyrir bændur og á því tungumáli sem bændur og almúginn skildi. Þessari skipan á málefnum kirkjunnar lauk ekki fyrr en langt var liðið á 13. öld þegar biskupar öðluðust forræði yfir flestum kirkjustöðum. Nefna mætti ýmsa aðra samverkandi þætti sem víða hafa verið raktir. Þeir mundu samt hver um sig allir geta átt við um fleiri þjóðir. Gæfumuninn á Íslandi gerði sú heppilega tilviljun að frjálsir sjálfseignarbændur höfðu ritvaldið í hendi sér, einmitt fyrsta skeiðið eftir að ritlistin barst hingað norður.[4]

Af þessum sökum voru leifar ýmissa fornra germanskra arfsagna einungis skrásettar á Íslandi og varðveittust þar, ekki síst í svonefndum fornaldarsögum og sumum hetjuljóðum eddukvæða. Þýskir fræðimenn og skáld eins og Jakob Grimm og Richard Wagner urðu því að leita slíkra minna í íslenskum bókmenntum þótt þeir kysu að kalla þær fornnorrænar, forngermanskar eða jafnvel fornþýskar og teldu reyndar að svo hefði verið.

Íslensk rit og Wagner

Þau íslensku rit sem Wagner hefur greinilega notað mest beint eða óbeint við samningu Niflungahringsins eru Snorra Edda, eddukvæði, Völsunga saga og Þiðreks saga af Bern, auk fáeinna dæma úr Heimskringlu, Egils sögu Skallagrímssonar og Gísla sögu Súrssonar. Örstutt grein skal gerð fyrir þeim.

Snorra Edda
er þegar um 1300 kennd við Snorra Sturluson og sennilega sett saman í Reykholti um 1220–1230. Óvíst er hvað nafnið merkir, en edda getur þýtt langamma. Hún er í rauninni handbók í skáldskaparlist en til að skilja hið forna skáldamál urðu menn að þekkja ýmsar goðsagnir sem vel gætu verið aftan úr grárri forneskju. Því hefur bókin oft verið kölluð norræn goðafræði. Hún skiptist í þrjá hluta, Gylfaginningu, Skáldskaparmál og Háttatal, sem er sýnishorn af rúmlega hundrað bragarháttum.

Af Snorra Eddu eru til þrjú skinnhandrit frá 14. öld. Þau eru varðveitt í Kaupmannahöfn, Uppsölum og Reykjavík. Eitt pappírsrit frá því um 1600 og skrifað eftir fornu skinnhandriti er geymt í Utrecht í Hollandi. Á liðnum öldum hafa margir aukið við eða skrifað útdrætti úr hinum fornu handritum. Fyrsta útgáfa Snorra Eddu ásamt latneskri og danskri þýðingu var prentuð eftir slíkri gerð frá 17. öld í Kaupmannahöfn árið 1665.

Snorralaug í Reykholti

Eddukvæði
nefnist safn fornra goða- og hetjukvæða. Elsta handrit þeirra er frá því um 1270 með um þrjátíu kvæðum. Brynjólfur biskup Sveinsson eignaðist það árið 1643. Hann hélt að Sæmundur fróði hefði ort kvæðin og kallaði bókina Sæmundar Eddu til samræmis við Snorra Eddu. Það reyndist rangt en nafnið hefur loðað við. Árið 1662 gaf Brynjólfur Danakonungi bókina sem síðan er kölluð Konungsbók eddukvæða. Hún er nú geymd í Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík. Nokkur önnur kvæði af líkum toga eru í yngri handritum og alls má telja um 1600 vísur til eddukvæða.

Kvæðin eru sennilega misgömul og hafa tekið breytingum í aldalangri munnlegri geymd, en hin elstu gætu að stofni til verið frá því löngu fyrir Íslands byggð. Allt slíkt eru þó getgátur og ekkert handfast nema hin íslenska skriflega gerð þeirra frá síðara hluta 13. aldar sem virðist þó geyma mörg ævaforn minni. Völuspá og Hávamál voru prentuð ásamt latneskri og danskri þýðingu í Kaupmannahöfn árið 1665, en fyrsta heildarútgáfa kvæðanna kom í þrem bindum á árunum 1787–1828 á vegum Árnanefndar í Kaupmannahöfn.[5]

Upphaf Hávamála í Konungsbók eddukvæða

Völsunga saga
telst til svonefndra fornaldarsagna sem eru spennusögur úr óljósri fortíð utan Íslands. Efni Völsungu á að mestu rætur að rekja til þjóðflutningatímans í Evrópu á 4.–6. öld og átaka milli Búrgúnda, Húna og Gota. Goðin Óðinn og Frigg koma auk þess við upphaf sögunnar. Völsunga er að mestu samin eftir hetjuljóðum eddukvæða, líklega seint á 13. öld. Í henni er einnig að finna efni þeirra kvæða sem síðar týndust úr sjálfu edduhandritinu. Elsta handrit Völsungu er frá því um 1400. Hún var fyrst prentuð í Stokkhólmi árið 1737 ásamt latneskri og sænskri þýðingu.

Þiðreks saga af Bern
er á mörkum þess að vera fornaldarsaga og riddarasaga. Hún er mjög sundurlaus og í mörgum þáttum, enda segir í formála hennar sjálfrar að hún sé skráð eftir munnmælum þýskra manna og kvæðum þeirra. Með Bern er ekki átt við höfuðborg Sviss heldur Verona á Ítalíu, og nafn Þiðreks er dregið af Theoderik konungi Austgota um 500. Á 13. öld var mikið um þýska kaupmenn í Björgvin í Noregi og sennilega er sagan skrifuð þar. Elsta varðveitt handrit hennar er frá því um 1300 og geymt í Stokkhólmi en ritari þess virðist hafa verið íslenskur. Sagan var fyrst prentuð í Stokkhólmi árið 1715.

Heimskringla er saga Noregskonunga frá upphafi vega til 1177. Hún er samin á Íslandi snemma á fyrra hluta 13. aldar en flest varðveitt handrit hennar eru eftirrit frá síðari öldum. Hún hefur frá 16. öld verið eignuð Snorra Sturlusyni. Meginhluti hennar var fyrst prentaður í Stokkhólmi árin 1697–1700.

Egils saga og Gísla saga
eru í flokki hinna eiginlegu Íslendingasagna sem fjalla í stórum dráttum um íslenska bændur og ferðalanga og gerast að mestum hluta á Íslandi. Þær voru því ekki þýddar og prentaðar eins snemma á erlend tungumál og hinar sem þóttu geyma fjölþjóðlegra efni. Egils saga var fyrst prentuð í Hrappsey árið 1782 en þýdd í heild á dönsku árið 1839. Gísla saga var fyrst prentuð á Hólum árið 1756 en þýdd á norsku árið 1845.

Blaðsíða úr handriti af Heimskringlu Snorra Sturlusonar

Árið 1816 kom út í Berlín sýnisbók íslenskra fornsagna. Þar eru stuttir kaflar eða endursagnir úr 66 sögum og af þeim eru 50 úr Íslendingasögum og þáttum. Hver kafli er sjaldnast nema nokkrar blaðsíður. Þessa bók átti Wagner.[6]

Um bein tengsl þessara og annarra rita við texta Niflungahringsins verður fjallað jafnóðum og þau virðast koma fyrir. Áður en tekið verður til við meginefnið er ástæða til að kynna Richard Wagner ögn ítarlegar fyrir Íslendingum ásamt þeim hræringum í þýsku þjóðmenningarlífi á liðnum öldum sem að lokum leiddu til þess að íslenskar fornmenntir urðu talsvert þekktar og vinsælar á þýsku menningarsvæði á 19. og 20. öld.

Heimildir

[1] Rudolf Keyser. Nordmændenes Videnskabelighed og Litteratur i Middelalderen. Konrad Maurer. Über die norwegische auffassung der nordischen literaturgeschichte. Ueber die Ausdrücke: altnordische, altnorwegische & isländische Sprache.
[2] Christopher Headington. Saga vestrænnar tónlistar, 302–303.
[3] Stefán Karlsson. Islandsk bogeksport til Norge, 1–17. Jon Gunnar Jørgensen. Islandske målmerker, 202–222.
[4] Árni Björnsson. Af hverju voru íslenskar fornsögur skrifaðar á móðurmáli?, 73–80.
[5] Faulkes. Two Versions of Snorra Edda.
[6] Sagaenbibliothek des Skandinavischen Alterthums in Auszügen.