Undirkaflar
Wagner og Völsungar
Fyrstu kynni
Þýsk skáld og fræðimenn kynntust forníslenskum bókmenntum fyrst í latneskum þýðingum. Í fyrsta lagi var um að ræða útgáfur danska fræðimannsins Peters Resens á Snorra Eddu, Völuspá og Hávamálum sem komu út í Kaupmannahöfn árið 1665. Þar var íslenskur, danskur og latneskur texti prentaður samhliða og farið eftir Eddugerð síra Magnúsar Ólafssonar í Laufási frá því í byrjun 17. aldar sem hann hafði líka snúið á latínu. Síra Stefán Ólafsson í Vallanesi þýddi Völuspá en ekki er vitað hver sneri Hávamálum (sbr. bls 7)[Sjá nánar: Formáli].[1]
Árið 1685 kom einnig út á þýsku fræg Noregslýsing norska prestsins Peders Claussøns (Friis) frá því um 1600 sem danski fræðimaðurinn Ole Worm hafði búið til prentunar í Kaupmannahöfn árið 1633. Peder Claussøn hafði einnig snúið og endursagt Heimskringlu Snorra Sturlusonar á norsku, og hann reisir megnið af fornri sögu Noregs skiljanlega á henni.[2]
Í þriðja lagi má nefna sænskar útgáfur á nokkrum fornaldarsögum með sænskri og latneskri þýðingu á árunum 1664-1737 en meðal þeirra voru Hervarar saga og Heiðreks 1672, Gríms saga loðinkinna, Ketils saga hængs, Sörla þáttur og Örvar-Odds saga 1697, Diðreks saga 1715 og Völsunga saga 1737.[3]
Í fjórða lagi kom sænsk útgáfa af Uppsalabók Snorra Eddu 1746. Á 17. og 18. öld var textinn á titilsíðum bóka stundum álíka langur og kynning sú sem nú á dögum er oft höfð aftan á kápusiðu. Á þessari titilsíðu kemur skýrt fram viðleitni sem löngum síðar hefur látið á sér kræla og felst í því að troða Snorra Eddu og eddukvæðum inn í einskonar goðfræðilegt Evrópusamband.
Hér er til dæmis greinilega tekið fram að bókin sé skrifuð á gausku en við þekkjum kannski einna best grátklökkva Jóns Grindvíkings í Íslandsklukku Halldórs Laxness vegna þess að þeir svensku vilji kalla íslenskar bækur vestgauskar. Örlítinn mun má auk þess sjá á sænska og latneska textanum á titilsíðunni því í þeim latneska er, fyrir utan Gauta, Svía, Norðmenn og Skýþa við Svartahaf, skotið inn hinum germönsku Cimbrum og keltnesku Göllum.[4]
Fyrrnefnd viðleitni er í sjálfu sér ofurskiljanleg þar sem aðrar þjóðir í Norður- og Mið-Evrópu eiga ekki sambærilegar heimildir frá miðöldum. Fáir af þeim slóðum hafa samt lagt í að eigna sér goðafræði Grikkja og Rómverja þótt fjölmargar samsvaranir séu vissulega milli þeirra og norrænna vésagna.
Einungis þröngur hópur þýskra fræðimanna sýndi þessum fræðum þó áhuga lengi vel, og fram yfir miðja 18. öld litu þeir naumast á þetta hrafl úr eddum og fornsögum sem skáldskap, heldur aðallega sem heimildir um sögu og heiðin trúarbrögð Norðurlandabúa og annarra germana, en þau voru ekki ætíð hátt skrifuð meðal rétttrúaðra lúterskra höfunda. Þetta viðhorf kemur berlega í ljós í fyrsta ritinu sem kalla mætti germanska goðafræði og kom út í Hamborg árið 1703. Hún var sett saman af prédikara að nafni Trogillus (Troels) Arnkiel.[5]
Upp úr miðri 18. öld ágerist á hinn bóginn sú viðleitni á þýsku menningarsvæði að fornri norrænni menningu og trúarbrögðum sé stillt upp sem mótvægi við hina klassísku suðrænu menningu sem áður þótti einboðið að væri öðrum marktækari. Þetta sjónarmið kemur einna fyrst fram í ritum svissneska sagnfræðíngsins Pauls Henris Mallets (1730-1807) sem var um hríð kennari við háskólann í Kaupmannahöfn og skrifaði meðal annars sögu Danmerkur. Í henni er töluvert rakið úr Snorra Eddu og norrænar trúarhugmyndir taldar hófstilltari en hinar suðrænu.
Mallet var í þessu efni fylgjandi loftslagskenningu Montesquieus en hann gerði ekki mikinn greinarmun á því hvað væri norrænt, keltneskt eða germanskt. Slíkt viðhorf var reyndar mjög útbreitt um þessar mundir. Öfugt við fyrri fræðimenn taldi hann eddukvæðin vera fullgildan skáldskap og því afsönnuðu þau aldagamlar staðhæfingar um að keltar og norrænir menn hefðu ekki verið annað en ruddalegir barbarar. Þessu riti Mallets var brátt snúið á þýsku og gefið út af Gottfried Schütze í tveim bindum árið 1765.[6]
Fyrsta þýska útgáfan á Snorra Eddu kom árið 1777. Öllu heldur mætti þó kalla það kynningu eða endursögn á Snorra Eddu ásamt Völuspá, Hávamálum og nokkrum öðrum eddukvæðum. Í henni er fáeinum germönskum og keltneskum þjóðflokkum bætt við upptalninguna í sænsku útgáfunni frá 1746, þ. e. Vindum, Vandölum, Bretum, Skotum og Svöbum. Útgáfu þessa annaðist Jakob Schimmelmann sem var lúterskur upplýsingarmaður og mat aðstæður á 13. öld út frá eigin samtíma. Hann telur til dæmis að Snorri Sturluson hafi verið upplýstur vísikonungur, landstjóri og yfirdómari sem hafi bjargað edduhandritunum undan villimennsku eða „Barbarei“ katólsku kirkjunnar.
Schimmelmann leitaðist einnig við að sýna fram á að kenningar Biblíunnar og Eddu væru í rauninni eitt og hið sama því að hinn algóði Guð geri ekki upp á milli manna og hafi elskað norræna forfeður okkar jafnmikið og Gyðinga. Hann telur að Völuspá og Gylfaginning séu einskonar norræn tilbrigði við spámannabækur Gamla testamentisins og það þurfi einungis að hreinsa þessi gömlu verk af heiðnum ósóma.[7]
Smám saman taka menn þó að huga að forníslenskum skáldskap í stað þess að rýna einungis í hann sem sögulegar heimildir. Árið 1766 birtist þýðing á Höfuðlausn og Sonatorreki Egils Skallagrímssonar eftir skáldið og gagnrýnandann Heinrich von Gerstenberg (1737-1823). Þar sáust einnig í fyrsta sinn skýringar á fjölmörgum nöfnum og ýmsum öðrum vísbendingum úr norrænum goðsögnum sem fyrir koma í þessum kvæðum, ásamt greinargerð um bragarhætti. Gerstenberg tók undir við Mallet að þessi og önnur fornkvæði væru til vitnis um talsvert þróaða menningu. Á hinn bóginn taldi hann að sú menning hefði borist með ásum og Óðni langt úr austri.[8]
Um þetta leyti kemur til sögunnar austurískur Jesúítaprestur að nafni Michael Denis sem um hríð var prófessor í fagurfræði en seinast forstöðumaður í bókhlöðu keisarans í Vínarborg. Hann þótti í fremstu röð sem bókfræðingur en hann var líka skáld og orti eða öllu heldur endurorti mikið af hinum svokölluðu keltnesku Ossíansljóðum Skotans MacPhersons. Aðalpersóna í ljóðum Denis var skáldhetjan Sined. Inn í þessa ljóðabálka fléttaði hann líka og endurorti dálítið af fornum norrænum skáldskap, meðal annars Völuspá og Vegtamskviðu, Hákonarmál úr Heimskringlu og Höfuðlausn Egils Skallagrímssonar. Þar fór hann að dæmi hins enska Percys sem líka hafði þýtt nokkur forníslensk kvæði ásamt goðfræðikaflanum úr fyrrnefndri Danmerkursögu Mallets.[9]
Í ljóðum Denis, Klopstocks og fleiri þýskra skálda í lok 18. aldar, sem fjalla um norræna og keltneska fornöld, birtist mikil fortíðarþrá og draumsýnir um hið óspillta mannlíf í árdaga. Þau voru líka þáttur í viðleitni ýmissa mætra manna í hinum fjölmörgu þýsku smáríkjum til að finna einhvern samgermanskan menningararf sem gæti staðið hinum rómanska, þ.e. franska og ítalska, menningarheimi á sporði. Þessi hugsjón mótaði mjög þann áhuga sem þýskir fræðimenn tóku að sýna íslenskum og öðrum norrænum bókmenntum alla 19. öld og reyndar mun lengur.
Michael Denis sýndi þessum norræna skáldskap samt ekki ýkja mikla virðingu. Gömlu kvæðin voru greinilega alltof grófgerð fyrir þennan samtíðarmann Haydns og Mozarts og rókókótímann yfirleitt. Enduryrkingar hans voru því í takt við hinn fágaða og tilfinningahlaðna tíðaranda. Hann var reyndar langt frá því að vera einn um slík viðhorf. Í leikhúsum í Kaupmannahöfn gátu norrænar hetjur og guðir átt það til á þessum tímum að koma fram í ævintýralegum búningum með púðraðar hárkollur.
Allt annað viðhorf birtist hjá fyrrnefndu skáldi og menningarvita, Johann Gottfried von Herder (sjá nánar). Hann vildi ekki reyna að snyrta skáldskap hinna svokölluðu villtu eða barbarísku þjóða, heldur láta hann tala sínu eigin máli eins og hann kom af skepnunni. Sem dæmi um þennan mun má taka að í elstu þýðingum á Völuspá höfðu menn túlkað þetta kvæði um sköpun og endalok veraldarinnar ýmist sem sibylliskan völvusöng eða sem einskonar dulmál löngu liðinnar heiðinnar prestastéttar um leyndardóma heimsins. Herder kallaði Völuspá og önnur eddukvæði blátt áfram þjóðkvæði frá þeim tíma þegar fólkið sjálft skynjaði veröldina sem skáldskap, líkt og þessi frumkvöðull rómantíkurinnar komst að orði.
Í ritdómi um hina þýsku útgáfu af Danmerkursögu Mallets aðhylltist Herder einnig loftslagskenningu Montesquieus að vissu marki og tók auk þess svo til orða að hinar norrænu goðsagnir gætu orðið einskonar vopnabúr að nýju þýsku andríki. Þrátt fyrir upphaflega alþjóðahyggju á sviði alþýðlegs skáldskapar tók Herder á efri árum að greina milli skáldskapar suðrænna og norrænna þjóða í víðum skilningi. Þetta viðhorf átti eftir að hafa mikil áhrif þegar rómantískir fræðimenn tóku að móta kenningar um germanskar goðsagnir og hetjusagnir en skáld og tónsmiðir að yrkja og semja í líkum anda.[10]
Ekki voru allir áhugamenn um norræna menningu þó haldnir baráttuanda af þessum toga. Friedrich David Gräter (1768-1830) hefur af sumum verið nefndur einskonar guðfaðir þeirra fræða sem á þýsku eru kölluð Nordistik. Árið 1789 gaf hann út bókina Nordische Blumen (Norræn blóm) sem í eru átta eddukvæði í þýskri þýðingu og brot úr tveim öðrum ásamt fjórum goðfræðilegum ritgerðum. Hann var þó engan veginn fyrstur til að snúa íslenskum kvæðum á þýsku eins og þegar hefur verið bent (sjá nánar).
Gräter lagði ekki síður hug á bæði þýska fornmenningu og norrænar samtíðarbókmenntir, einkum danskar. Alla ævi hélt hann áfram að sinna þessum hugðarefnum sínum og gaf út ýmis tímarit í félagi við aðra. Hann leit þó jafnan svo á að hin forna grískrómverska menning væri æðri hinni norrænu sem birtist meðal annars í því að hann reyndi að snúa eddukvæðum á grískt hexameter. Um þessi atriði átti hann á efri árum í nokkrum deilum við þá, sem ákafari urðu í þjóðernishreyfingunni.[11]
Hvað sem öllu líður stuðlaði þessi mismunandi framsetning að vissri frumkynningu á norrænum menningararfi, ekki ósvipað því að nú á dögum telja margir að styttar og poppaðar útgáfur og sjónvarpsþættir geti komið mönnum á bragðið af klassískum listaverkum.
Samgermanskur menningararfur
Þýsku miðaldakvæðin um riddara og fagrar meyjar (Minnesang) þóttu samt hvorki nógu ríkulegur né forn menningararfur. Sjónarsvið þeirra var konunga- og furstahirð af ýmsum stærðargráðum og tími krossferðanna. Menn tóku því að leitast við að þenja út hið samþýska eða germanska menningarsvæði. Einna beinskeyttastur þessu efni var Johann Gottlieb Fichte sem ásamt Hegel og Schelling var einn þekktasti heimspekingur þess þýska menningartímabils sem stundum er kennt við skáldið Johann Wolfgang von Goethe.
Fichte hélt því meðal annars fram árið 1808 í erindaröð sinni Reden an die deutsche Nation (Ávörp til þýsku þjóðarinnar) að allir germanskir þjóðflokkar, sem ekki hefðu um langan aldur lotið rómverska heimsveldinu, væru í rauninni „þýskir“. Þessar þjóðir hefðu verið ósnortnar af rómönskum menningaráhrifum, svo sem sæist á germönskum tungumálum sem hefðu haldist að mestu óspjölluð af hinni rómönsku óværu. Á hæla honum komu skáld og fræðimenn eins og Ernst Moritz Arndt og Grimmsbræður sem öðrum fremur má kalla hugsjónafeður samgermanskrar menningar. Eftir þeim hugmyndum mátti líta svo á að allir Norðurlandabúar og norræn menning væri í reynd hluti af þýskum menningararfi.[12]
Wilhelm Grimm tók í þann streng í útgáfu sinni árið 1811 á fornum dönskum hetjukvæðum, sagnadönsum og ævintýrum. Hann var einnig mjög hallur undir þá skoðun að efnislega væru öll hetjuljóð eddukvæða þýsk. Heiti bókarinnar Deutsche Mythologie (Þýsk goðafræði) eftir Jakob bróður hans er ótvírætt í sama anda því að hrygglengjan í henni er að sjálfsögðu goðsagnir Snorra Eddu. Grimm túlkar samt frásagnir hennar eftir eigin innsæi og bætir fjölmörgum atriðum við til samanburðar úr ólíkum og oft fjarlægum áttum, svo sem klassískri fornöld, indverskum vésögnum og þýskum munnmælum frá síðari öldum. Grundvallarhugmynd beggja bræðra var sú að í árdaga hefði verið til ein goðsögn og eitt skáldverk sem öll önnur tilbrigði væru síðar runnin frá.[13]
Í beinum tengslum við hina samgermönsku hugsjón tóku íslensk og önnur norræn fræði mikinn fjörkipp í þýsku menningarlífi. Því var haldið á loft að þýsk og norræn menning væri einnar ættar og nú reið á að draga fram sem flestar germanskar hetjur til að efla hið þýska þjóðarstolt. Ofurmenni í bardagalist var helst að finna í hinum ævintýralegu fornaldarsögum, en meðal þeirra voru Völsunga saga og Ragnars saga loðbrókar.
Útgáfa íslenskra fornrita
Ekki leið á löngu þar til bæði vísindalegar og alþýðlegar útgáfur ásamt þýðingum á íslenskum fornkvæðum og sögnum tóku að birtast. Einkum ber að nefna útgáfur keppinautanna Friedrichs von der Hagen og Grimmsbræðra á árunum 1812 til 1815. Þar fengu þýskir lesendur fyrst að kynnast frumtexta margra eddukvæða og íslenskra sagna ásamt þýðingum. Á næstu áratugum var lítið lát á útgáfum af þessum toga ásamt fjölmörgum skáldverkum sem sóttu efni og innblástur í hinar fornu bókmenntir. Því var líkast sem þýsk skáld og fræðimenn hefðu fengið spennandi föng í hendur og rómantískt hugarflug þeirra kynni sér varla læti við að moða úr þeim.
Útgáfustarfsemi þessari var stöðugt haldið áfram þótt ekki væru allir fræðimenn sáttir við þá dýrkun sem þeim þótti gæta á norrænum bókmenntum og fannst hún óverðskulduð þar sem hugmyndir þeirra væru bæði ruddalegar og siðlausar. Sem dæmi má nefna harkalegar ritdeilur milli sagnfræðingsins Friedrichs Rühs annarsvegar en Peters Erasmus Müllers og Grimmsbræðra hinsvegar.[14]
Um þetta leyti kemst sá misskilningur fyrir alvöru á kreik að Íslendingasögur fjalli aðallega um víkingaræningja líkt og fornaldarsögur. Sú hugmynd hefur síðan undið upp á sig og gert Ísland að einskonar víkinganýlendu í hugum fólks en táknmynd hennar er grettur víkingur með horn á hjálmi. Slíkur höfuðbúnaður hefur reyndar fundist frá bronsöld þúsund árum áður en víkingaöld hófst en aldrei frá sjálfri víkingaöldinni.
Sannleikurinn er auðvitað sá að landnámsmenn Íslands voru aðallega bændur, enda höfðu sjóræningjar ekkert fémætt að sækja til Íslands. Hér voru hvorki klaustur, hallir né gull til að ræna. Nokkrir íslenskir bændasynir tóku að vísu þátt í kaupferðum og jafnvel ránsferðum þegar þeir voru erlendis en Íslendingasögur fjalla um langtum fjölbreyttari mannleg samskipti. Tengsl Íslendinga við víkinga eru aðallega fólgin í spennusögum þeim sem hér voru samdar um þá 200-300 árum eftir að vikingaöld lauk og nefndar eru fornaldarsögur, en þeim hefur vissulega verið hampað um veröld víða.
Athyglisvert er að hundrað árum eftir þessa fyrstu stórkynningu á íslenskum fornbókmenntum hófst ný bylgja af skyldum toga, þegar í Thuleútgáfu Eugens Diderichs komu 24 bindi íslenskra fornbókmennta árin 1911-30. Valdir kaflar úr Íslendingasögum voru í kaupbæti gefnir út sem vasabækur handa þýskum hermönnum í fyrri heimsstyrjöldinni, ekki síst til að kenna þeim æðruleysi á dauðastundu. Í túlkun sumra fræðimanna bættist nú kynþáttadulhyggja við dýrkun á hermennsku og hetjuskap.[15]
Sigurður Fáfnisbani kynntur
Sá sem fyrstur virðist vekja sérstaka athygli Þjóðverja á hinni íslensku gerð sagnabálksins um Búrgúnda og Niflunga var skáld og bókmenntafræðingur að nafni Friedrich Schlegel. Í fyrirlestraröð um klassískar og rómantískar bókmenntir, sem hann hélt árið 1802, bar hann þessa gerð saman við Nibelungenlied.
Fyrstur til að nýta sér þetta efni í skáldskap að nokkru marki var aftur á móti prússneskur barón af frönskum ættum að nafni Friedrich de la Motte Fouqué (1777-1843). Þegar árið 1808 hóf hann að gefa út þríleik undir nöfnunum Sigurd der Schlangentödter, Sigurds Rache og Aslauga (Sigurður Fáfnisbani, Hefnd Sigurðar og Áslaug). Þetta verk tileinkaði hann fyrrnefndum Fichte heimspekingi og þjóðhvöt hans.
Árið 1810 kom þessi þríleikur út í heild undir nafninu Held des Nordens (Hetja Norðursins). Þetta var svokallað lesdrama sem voru algeng um þetta leyti og ekki gert ráð fyrir að þau yrðu sviðsett fremur en upphaflega mun til að mynda hafa verið ætlunin um Pétur Gaut. Efnið er einkum sótt í Völsunga sögu og Ragnars sögu loðbrókar, en Fouqué bætir ýmsum atriðum við frá eigin brjósti. Meðhöndlun hans á efninu var sannarlega ekki laus við mærð og verkið varð mjög vinsælt, ekki aðeins meðal almennings heldur hlaut það einnig lof mikils metinna rithöfunda eins og Jeans Pauls og E.T.A. Hoffmanns. Þýðingin úr íslensku á viðurnefni Sigurðar, „Schlangentöter“, mun vera nýsmíði Fouqués.[16]
Fouqué barón kom að vísu aldrei til Íslands en hann tók miklu ástfóstri við íslenska menningu og safnaði meðal annars bókagjöfum meðal fjársterkra Þjóðverja handa hinu nýstofnaða Stiftsbókasafni sem seinna varð Landsbókasafn Íslands. Hann var gerður að heiðursfélaga Hins íslenska bókmenntafélags árið 1821. Af því tilefni orti hann lofkvæði um Ísland, en Bjarni Thorarensen svaraði því með kvæðinu Íslands riddari og þýddi auk þess þriðjunginn af kvæði Fouqués. Hann var fyrstur til að gefa út þýska gerð af heilli Íslendingasögu, en það var Gunnlaugs saga ormstungu árið 1826. Fyrir það þakkaði Finnur Magnússon honum með kvæði 1827.[17]
Fouqué skrifaði margar skáldsögur sem unnar voru úr íslenskum bókmenntum og urðu vinsælt lesefni á sínum tíma. Af þeim skulu nefndar Der Zauberring (Töfrahringurinn) 1810 og Eine Grablegung auf Island (Greftrun á Íslandi) 1813, báðar með efni úr Egils sögu; Olafs sage 1811, Alf und Yngvi 1813, báðar með efni úr Heimskringlu; Ferðir Þjóðólfs Íslendings 1815, Baldur góði og þrjár Helgakviður 1818.
Í rómönum Fouqués voru allar söguhetjur í gervi glæsilegra og kurteisra miðaldariddara, jafnvel Egill Skallagrímsson. Átökin kringum Sigurð Fáfnisbana lætur hann einnig gerast á þeim öldum, en ekki á tíma þjóðflutninganna. Hvað svo sem menn kunna að segja um Fouqué barón og skáldverk hans verður því ekki andmælt að hann er fyrstur til að vekja almenna athygli á íslenskum fornbókmenntum á þýskri grund.[18]
Lesefni Wagners um Völsunga og Niflunga
A. Á unglingsárum dvaldist Richard Wagner löngum stundum í bókasafni föðurbróður síns, Adolfs Wagners, sem mun hafa átt flest þau rit sem þá höfðu komið út á þýsku um íslensk og önnur norræn fornrit auk þýskra miðaldarita. Vitað er að Adolf átti skáldverk Friedrich Motte-Fouqué um Sigurð Fáfnisbana frá 1808-10. Miklar líkur eru til að hann hafi átt þýðingar á bæði Völsunga sögu og Diðreks sögu.
B. Eftirtalin rit um skyld efni voru í bókasafni Richards Wagners sjálfs fyrir 1849:
- Fimm útgáfur á hlutum eddukvæða og Snorra Eddu eftir Friedrich Rühs, Friedrich von der Hagen, C.F. Majer, Ludwig Ettmüller og Grimmsbræður.
- Tvær útgáfur Heimskringla eftir Ferdinand Wachter og Gottlieb Mohnike.
- Kaflar úr um fimmtíu íslenskum fornsögum í þýðingu Karls Lachmanns.
- Fjórar útgáfur á Nibelungenlied eftir Al.J. Vollmer, Gustav Pfizer, Karl Simrock og ein frá 1840 án nafngreinds útgefanda.
- Tvær útgáfur á Lied vom Hürnen Seyfrid eftir Friedrich von der Hagen og Karl Simrock.
- Þrjár útgáfur á Kudrun eftir Adolf Ziemann, Karl Simrock og Al.J. Vollmer.
- Frauer, L. Die Walkyrien der skandinavisch-germanischen Götter- und Heldensage.
- Grimm, J. Deutsche Mythologie, Deutsche Grammatik, Geschichte der deutschen Sprache.
- Grimm, W. Die deutsche Heldensage.
- Grimm, J. & W. Deutsche Sagen.
- Hagen, Fr. Heldenbuch.
- Lachmann, Karl. Zu den Nibelungen und zur Klage.
- Mone, Fr. Untersuchungen zur Geschichte der teutschen Heldensage.
- Russwurm, C. Nordische Sagen.
- Sachs, Hans. Der hörnen Seufrid.
- Simrock, Karl. Das kleine Heldenbuch, Das Amelungenlied.
- Uhland, Ludwig. Gedichte.
- Weinhold, Karl. Die Sagen von Loki.
C. Eftirtalin rit fékk Wagner léð frá Konunglega bókasafninu í Dresden árin 1844-49:
- Nibelungenlied. Fjórar útgáfur og fræðirit eftir Fr. Hagen, J. Hinsberg, C.W. Göttling og Karl Lachmann.
- Edda. Fjórar útgáfur og fræðirit eftir J. og W. Grimm,
- Völsunga saga. Útg. Fr. Hagen.
- Grimm, J. Deutsche Rechtsalterthümer. G.T. Legis, J.L. Studach og L. Ettmüller.
- Grimm, J & W. Altdeutsche Wälder.
D. Loks er augljóst að Wagner hefur mikið notað edduútgáfu Karls Simrocks eftir að hún kom út snemma árs 1851, einmitt rétt áður en hann tók af fullum þrótti til við að semja texta Niflungahringsins í heild.
Tilvísanir
[1] Edda Islandorum.
[2] Ísl. fornrit XXVIII, xcix. Böldl. Mythos, 41-42.
[3] Islandica V. Nordiska Kämpa Dater Xi.
[4] Snorra Edda. De Yfverborna Atlingars, eller, Sviogötars ok Nordmänners, Edda. … Hyperboreorum Atlantiorum, seu, Suiogothorum et Normannorum Edda.
[5] Arnkiel. Cimbrische Heyden-Religion.
[6] Mallet. Introduction à l’histoire de Dannemarc; Monumens de la Mythologie; Geschichte von Dänemark. Batka. Altnordische Stoffe und Studien in Deutschland, 67-83.
[7] Snorra Edda. Die isländische Edda. Stettin 1777.
[8] Gerstenberg. Briefe über die Merkwürdigkeiten der Litteratur, 17 153-57. Böldl. Mythos, 125-26.
[9] Denis. Ossians und Sineds Lieder. Böldl. Mythos, 117-20.
[10] Böldl. Mythos, 122-29. Herder. Iduna.
[11] Böldl. Mythos, 129-34. Arndt. Geist der Zeit, 430. Jakob Grimm. Deutsche Mythologie.
[12] Fichte. Reden an die deutsche Nation, 423.
[13] Wilhelm Grimm. Altdänische Heldenlieder, Balladen und Märchen, ix-x, xvi-xxii, 427-30; Deutsche Heldensage, 4, 436. Jacob Grimm. Deutsche Mythologie. Vaulu-Spá. Leipzig 1830.
[14] Böldl. Mythos, 151-59.
[15] Óskar Bjarnason. Þegar Íslendingar urðu forfeður Þjóðverja, 53-88.
[16] Grimms Wörterbuch IX, 471.
[17] Ulrich Groenke. Fouqué, 94-101. Bjarni Thorarensen. Ljóðmæli I, 110-116; II, 118-124.
[18] Fouqué. Sigurd der Schlangentödter, Held des Nordens. Böldl. „Götterdämmerung”, 366-67.