Undirkaflar

Ragnarök

Wagner og Völsungar

Persónur

Íslensk samsvörun

Menn

Siegfried
Gunther
Gutrune
Hagen
Mannen
Frauen

Sigurður
Gunnar
Guðrún
Högni
Liðsmenn
Konur

Valkyrjur

Brünnhilde
Waltraute

Brynhildur
[Valþrúður]

Goðverur

Rheintöchter
Die drei Nornen

Rínardætur
Urður, Verðandi, Skuld

Nornirnar þrjár vefa örlagaþræði. Vatnslitamynd eftir Hans Thoma

Forleikur

Örlaganornirnar þrjár spá því að komið sé að skapadægri. — Sigurður heldur brott til nýrra dáða, þau Brynhildur kveðjast og sverja trúnaðareiða. Hún fær hringinn að tryggðagjöf en hann í staðinn hestinn Grana.

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G F 1

Á fjallstindi rifja þrjár hávaxnar og svartklæddar nornir upp liðna atburði sem urðu í árdaga við viskubrunninn í skugga hins heilaga eskitrés (6899–918).


Nornir þrjár, sem spinna æviþræði manna, eru gamalkunnar úr grísk-rómverskri goðafræði en í Snorra Eddu eru norrænar frænkur þeirra, askur Yggdrasils og brunnar við rætur hans kynnt á þennan veg (Gylf. 15):

Askurinn er allra trjáa mestur og bestur. Limar hans dreifast yfir heim allan og standa yfir himni. … Þar stendur salur einn fagur undir askinum við brunninn, og úr þeim sal koma þrjár meyjar, þær er svo heita: Urður, Verðandi, Skuld. Þessar meyjar skapa mönnum aldur. Þær köllum vér nornir. Þær koma til hvers barns er borið er að skapa aldur. Og eru þessar goðkunnugar en aðrar álfa ættar en hinar þriðju dverga ættar. … Góðar nornir og vel ættaðar skapa góðan aldur. En þeir menn er fyrir ósköpum verða, þá valda því illar nornir.

G F 2
Fyrsta norn minnist þess er knár guð lét annað auga sitt í skiptum fyrir drykk úr viskubrunninum undir askinum (6919–22).

Í Gylfaginningu segir (15):

… Þar er Mímisbrunnur er spekt og mannvit er í fólgið. Og heitir sá Mímir er á brunninn. Hann er fullur af vísindum, fyrir því að hann drekkur af brunninum af horninu Gjallarhorni. Þar kom Alföður og beiddist eins drykkjar af brunninum. En hann fékk eigi fyrr en hann lagði auga sitt að veði.

Goðsögnin um Mímisbrunn og auga Óðins er einnig í Völuspá (28):

Allt veit eg Óðinn
hvar þú auga falt
í hinum mæra
Mímisbrunni.

G F 3
[Wagner samdi drög að forleik Ragnaraka þegar í lok október 1848. Þar ræða nornirnar í byrjun talsvert um áttir (Strobel, 56):

  1. norn: „Í austri knýtti ég þráð.“
    2. norn: „Til vesturs sný ég honum.“
    3. norn: „Til norðurs varpa ég honum.“]

Allt þetta atriði umskrifaði Wagner í lokagerð uns lítið stóð eftir nema vísun til Wotans og viskubrunnsins (sjá G F 2).


Þetta minnir á upphaf Helgakviðu Hundingsbana I (4) þar sem nornir snúa örlögþáttu hinnar nýfæddu hetju:

Þær austur og vestur
enda fálu,
þar átti lofðungur
land á milli,
brá nift Nera
á norðurvega
einni festi,
ey bað hún halda.

G F 4
Nornirnar kasta bandi á milli sín og skiptast á orðum. Fimm sinnum ljúka þær máli sínu á þessari spurningu eða afbrigði hennar (6941, 6962, 6991, 7002, 7024):

Veist þú hvað verða mun?


Þetta minnir óneitanlega á hið margendurtekna stef Völuspár:

Vituð ér enn, eða hvað?

G F 5
Að lokum kveðast þær ekki hafa meiri visku að segja í heimi hér og muni hverfa niður til móður sinnar (7043–46).


Ekki minna þessi orð síður á lok Völuspár:

Nú mun hún sökkvast.

G F 6
Kveðjustund Siegfrieds og Brünnhilde. Hún kveðst hafa kennt honum helgar rúnir sem hún lærði hjá guðum en óttast að hann hafi ekki numið nógu vel. Samt leyfir hún honum að halda braut til nýrra hetjudáða (7055–58).

Meginhluti Sigurdrífumála (5–37) og samsvarandi kafli í Völsunga sögu (43–45) eru ýmis heilræði og varnaðarorð sem kölluð eru rúnir. Nokkrar þeirra eru taldar upp í einu erindi Sigurdrífumála (19):

Það eru bókrúnar,
það eru bjargrúnar
og allar ölrúnar,
og mætar meginrúnar,
hveim er þær kná óvilltar
og óspilltar
sér að heillum hafa,
njóttu, ef þú namt,
uns rjúfast regin.

G F 7
Brünnhilde segir hetjuna hafa svipt sig styrkleika meydómsins og hún eigi ekki annað eftir en óskir og ást og biður hann að fyrirlíta ekki vanmátt sinn (7059–70).


Ofurafl Brynhildar vegna meydóms hennar er einungis nefnt í Þiðreks sögu þegar hún hefur neitað Gunnari manni sínum um hjúskaparfar en hann trúir Sigurði vini sínum fyrir vandanum (Þ. 309):

Og nú svarar Sigurður: „Eg mun segja þér hvað til ber er á þessa lund fer. Hún hefir þá náttúru að á meðan hún fær haldið sínum meydómi mun varlega fást sá karlmaður er afl hafi við henni, og þegar er því er brugðið þá er hún ekki sterkari en aðrar konur.“

G F 8 
Siegfried þakkar Brünnhilde þá visku og allt annað sem hún hafi kennt honum og gefið en hún biður hann minnast allra samvista þeirra en þó einkum eiða þeirra og tryggða (7071–97).


Eiðar Sigurðar við Brynhildi eru nefndir í Grípisspá (31), Völsunga sögu (45, 49–50) og Þiðreks sögu (307) en þeir koma að sjálfsögðu ekki fyrir í Nibelungenlied. Í Völsunga sögu endar samtal Sigurðar og Brynhildar í þetta skipti á þessa lund (45):

Sigurður mælti: „Engi finnst þér vitrari maður, og þess sver eg að þig skal eg eiga, og þú ert við mitt æði.“ Hún svarar: „Þig vil eg helst eiga þótt eg kjósa um alla menn.“ Og þetta bundu þau eiðum með sér.

Í Þiðreks sögu eru eiðar þeirra rifjaðir upp eftir að Sigurður hefur kvænst Grímhildi og fer með Gunnari að biðja Brynhildar (307):

Ið fyrra sinn er þau höfðu hist þá hafði hann því heitið henni með eiðum að hann skyldi engrar konu fá nema hennar, og hún ið sama að giftast engum manni öðrum.

G F 9
Að launum fyrir heillarúnir gefur Siegfried Brünnhilde hring sem hann kveðst hafa unnið af grimmum ormi.

Hann segir að í honum séu fólgnar allar dygðir hans og afrek og biður hana varðveita hann sem tryggðagrip (7098–107).


Í Snorra Eddu gefur Sigurður Brynhildi ekki hringinn Andvaranaut fyrr en þau finnast í annað sinn og þá er hann í líki Gunnars (48). Í Völsunga sögu gefur Sigurður henni ekki heldur gullhring fyrr en í annað skiptið, sbr. S III 3.5.

G F 10
Brünnhilde gefur Siegfried hestinn Grane að skilnaði í staðinn fyrir hringinn (7108–26). Nafn hestsins hefur tvisvar borið fyrir áður (3469, 6648).


Í inngangi Reginsmála og Völsungu (29–30) fær Sigurður hestinn úr stóði Hjálpreks konungs að ráði Óðins, enda á Grani þar að vera kominn af Sleipni.

Í Þiðreks sögu (238–39) er hann gjöf Brynhildar til Sigurðar. Þar býr hún í borg en ekki á fjallstindi. Sigurður kemur þangað eftir að hafa drepið Mími fóstra sinn:

„Hingað hefi eg ætlað mitt erendi, því að Mímir, minn fóstri, vísaði mér hingað til hests eins, er Grani heitir, er þú átt. Nú vilda eg hann þiggja ef þú vill veitt hafa. „Þiggja máttu einn hest af mér ef þú vill, og þótt fleiri vilir þú …“

Hesturinn Grani er hvorki í Nibelungenlied né Hürnen Seyfrid.

I. þáttur

Í borg Gjúkunga við Rín ríkir Gunnar konungur. Systir hans er Guðrún en Högni bróðir þeirra sammæðra er sonur Alberichs og á að ná hringnum á vald þeirra feðga. Sigurður kemur og honum er færður óminnisdrykkur. Hann gleymir Brynhildi, biður Guðrúnar, sverst í fóstbræðralag við Gunnar og lofar að fara með honum til að vinna Brynhildi. Valþrúður valkyrja kemur til Brynhildar og biður hana að láta hringinn af hendi svo að aftur megi fá hann Rínardætrum og frelsa goðin og heiminn frá allri bölvun. Brynhildur neitar að afhenda tryggðagjöf Sigurðar. – Sigurður tekur á sig útlit Gunnars með töfrahjálminum, ríður vafurlogann, festir Brynhildi til handa Gunnari og gengur í sæng hennar, leggur nakið sverðið milli þeirra en tekur af henni hringinn.

1. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G I 1.1

Alsystkinin Gunther og Gutrune, börn Gibichs og Grimhild, og Hagen hálfbróðir þeirra sammæðra sitja í höllu sinni við Rhein. Hagen er launsonur Alberichs og Grimhild drottningar. Hann segir það vera hneisu að Gunther og Gutrune skuli bæði enn vera ógift og hvorki völd þeirra né virðing muni eflast við svo búið
(7154–79).

Nafnmyndirnar Gunther og Hagen eru úr Nibelungenlied (N. 4, 9) en þeir kappar eru þar óskyldir með öllu. Systir Gunthers heitir þar Kriemhild (N. 2). Sambærileg eru nöfn systkinanna Gunnars, Högna og Guðrúnar í mörgum eddukvæðum, Snorra Eddu og Völsunga sögu, og þar er móðir þeirra nefnd Grímhildur hin fjölkunnuga. Faðir þeirra er Gjúki konungur. Stjúpsonur hans heitir Guttormur. Högni er í íslenskum sögnum enn meira göfugmenni en Gunnar (Völsunga, 50).

Í Þiðreks sögu heitir systir Gunnars Grímhildur, líkt og í Nibelungenlied, en Högni er þar hálfbróðir þeirra og sonur álfs sem barnaði móður þeirra víndrukkna og sofandi í grasgarði (241–42, sbr. W II 2.4.).

G I 1.2

Siegfried kemur siglandi eftir ánni Rhein til kastalans með hestinn innanborðs. Bræðurnir ákveða að taka vel á móti honum (7255–74).

Í öllum eldri verkum, íslenskum sem þýskum, kemur hetjan ríðandi í fyrsta sinn (Sk. 48; V. 53; N. 68–71).

2. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G I 2.1

Siegfried skorar á Gunther að berjast við sig en vera vinur sinn ella. Gunther býður hann velkominn
(7277–82).

Hólmgönguáskorun þessi virðist eiga rætur í Nibelungenlied en þar verða löng orðaskipti og köpuryrði milli Siegfrieds og höfðingja Búrgunda áður en sáttum er ná.ð (N. 104–28).

Í eddukvæðum, Skáldskaparmálum (48) og Völsunga sögu (53) er ekki getið um nein átök við komu Sigurðar til Gjúkunga, heldur virðist honum fagnað þegar í stað, enda fer hann ekki fram með neinni frekju.

GI2.2

Siegfried segir við Hagen að Grane sé af göfugu kyni
(7289–92)

Í Völsungu (30) er Grani sagður kominn af Sleipni, hesti Óðins.

G I 2.3.

Gutrune færir Siegfried óminnisdrykk að boði Hagens sem hann hefur áður byrlað. Siegfried gleymir Brünnhilde samstundis en festir ástaraugu á Gutrune
(7234–44, 7334–43).

Óminnisdrykkurinn sjálfur er kominn úr Völsungu einni (54). Þar er það reyndar hvorki Högni né Guðrún sjálf sem byrla Sigurði drykkinn heldur hin fjölkunnuga Grímhildur móðir þeirra:

Eitt kveld er þeir sátu við drykk rís drottning upp og gekk fyrir Sigurð og kvaddi hann og mælti: „Fögnuður er oss á þinni hérvist, og allt gott viljum vér til yðar leggja. Tak hér við horni og drekk.“ … við þann drykk mundi hann ekki til Brynhildar. … Og eitt kveld skenkir Guðrún. Sigurður sér að hún er væn kona og að öllu in kurteisasta.

Minnisleysi Sigurðar og vélræði Grímhildar eru einnig nefnd í Grípisspá (31–35).

G I 2.4

Siegfried biður Gunther og Gutrune um hönd hennar. Gunther segist vilja öðlast Brünnhilde en hún sitji á háum kletti og eldur leiki um sal hennar og enginn fái hennar nema sá sem brýst gegnum logana. Siegfried heitir að hjálpa Gunther og fær jáyrði þeirra Gutrune í staðinn (7353–84).

Lýsingin á búsetu og atferli Brünnhilde líkist talsvert því sem segir um Brynhildi í Snorra Eddu (Sk. 48):

Hún sat á Hindafjalli og var um sal hennar vafurlogi, en hún hafði þess heit strengt að eiga þann einn mann er þorði að ríða vafurlogann.

G I 2.5

Gunther spyr Siegfried hvernig hann ætli að blekkja Brünnhilde. Hann kveðst munu nota töfrahjálminn en Hagen hafði þegar útskýrt eiginleika hjálmsins fyrir honum (7319–24, 7385–87).

Í Skáldskaparmálum (48) segir einungis að þeir Sigurður og Gunnar skiptu litum [útliti] og nöfnum en ekkert er minnst á töfrahjálm. Í Völsunga sögu (55–56) er Grímhildur sögð valda þessu sem öðrum töfrum:

Gunnar ríður nú að eldinum og vill Grani eigi ganga. Gunnar má nú eigi ríða þenna eld; skipta nú litum sem Grímhildur kenndi þeim Sigurði og Gunnari.

Þessi flétta er nefnd í lengra máli í Völsungu (54–55) þar sem Grímhildur leggur á ráðin. Sama efni er í Grípisspá (33, 35):

„Þú verður, siklingur,
fyr svikum annars,
muntu Grímhildar
gjalda ráða,
mun bjóða þér
bjarthaddað man,
dóttur sína,
dregur hún vél að gram.

Þig mun Grímhildur
görva véla,
mun hún Brynhildar
biðja fýsa
Gunnari til handa,
Gotna drottni,
heitur þú fljótlega för
fylkis móður.“

G I 2.6

Siegfried og Gunther sverjast í fóstbræðralag og blanda blóði saman en Hagen kemur sér undan að taka þátt í því (7388–418).

Eiðar Sigurðar, Gunnars og Högna eru víða nefndir, í Skáldskaparmálum (48), Völsunga sögu (54), Þiðreks sögu (307) og eddukvæðinu Grípisspá (37). Í Broti af Sigurðarkviðu er auk þess getið um blóðblöndun (17):

Mant-at-tu, Gunnar,
til görva það,
er þið blóði í spor
báðir rennduð.

Í þeim kvæðum og sögum er þess þó hvergi getið að neinn þeirra mága hliðri sér hjá að taka þátt í eiðnum en Guttormi stjúpsyni Gjúka er ekki boðið að vera með. Í 6. kafla Gísla sögu Súrssonar neitar Þorgrímur goði á hinn bóginn að sverjast í fóstbræðralag við Véstein ásamt Gísla og Þorkatli, enda þótt þeir hafi áður látið blóð sitt renna saman í moldu:

„Ærinn vanda hefi eg, þótt eg gera þetta við báða, Þorkel og Gísla, mága mína, en mig skyldir ekki til við Véstein“ – og hnykkir hendi sinni.

Síðar myrðir Þorgrímur Véstein líkt og Hagen myrðir Siegfried. Þetta atvik úr Gísla sögu er í þýddum úrvalsköflum Íslendingasagna sem komu út á þýsku árið 1816. Vitað er að sú bók var til í bæði eldra og yngra bókasafni Wagners.[1]

Í Nibelungenlied er einungis getið um sættir og síðar mægðir Siegfrieds og Gunthers (126–32, 607–29) en enga hátíðlega eiða áður en aftur skerst í odda.

G I 2.7

Hagen svarar Siegfried, hví hann gangi ekki til eiða með þeim, að blóð sitt sé ekki eins göfugt og þeirra hinna og myndi spilla drykknum; í því búi þrjóska og kuldi og því geti vangar sínir ekki roðnað (7410–17).

Þessi orð Hagens eru í samræmi við lýsingu Högna í Þiðreks sögu þegar hann er fjögra vetra og honum er brugðið því að hann sé yfirlits sem tröll (Þ. 242):

Og þessu reiðist hann mjög og gengur til eins vatns og sér sinn skugga, og nú sér hann að hans andlit er svo bleikt sem bast og svo fölt sem aska og það er mikið og hræðilegt og grimmlegt.

G I 2.8

Siegfried vill þegar sigla af stað í bónorðsförina til að komast sem fyrst í eigið brúðkaup (7419–33).

Í öllum íslenskum fornritum fara þeir mágar hestríðandi að biðja Brynhildar og Sigurður er þá löngu kvæntur Guðrúnu. Í Völsunga sögu dvelst hann a.m.k. fimm misseri með Gjúkungum áður en farið er að biðja Brynhildar (V. 54–55).

Í Nibelungenlied sigla þeir á hinn bóginn í bónorðsför alla leið til Íslands, enda ríkir Brünhild þar sem drottning (N. 325–528).

3. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G I 3.1

Heimsókn Waltraute til Brynhildar. Hún neitar að láta hringinn, heitgjöf Siegfrieds, af hendi þótt hún gæti með því bjargað goðunum frá tortímingu (7452–665).

[Í fyrri gerð, Siegfrieds Tod, frá 1848 ríða allar valkyrjurnar framhjá kletti Brynhildar og skiptast á orðum við hana (SSD II, 183–86).]

Þetta atriði er hugsmíð Wagners og á sér enga eldri fyrirmynd.

G I 3.2

Eldurinn um sal Brünnhilde færist mjög í aukana uns hann nær upp á fjallstindinn. Siegfried brýst í líki Gunthers með töfrahjálminn á höfði gegnum logana sem taka að dvína um leið og hann birtist á sviðinu (7666–73).

Lýsingin á reið Sigurðar gegnum eldinn er þannig í Völsunga sögu (56):

Nú verður gnýr mikill er eldurinn tók að æsast en jörð tók að skjálfa. Loginn stóð við himin. Þetta þorði engi að gera fyrr, og var sem hann riði í myrkva. Þá lægðist eldurinn, en hann gekk af hestinum inn í salinn.

Hér minnir lýsingin enn á sjónarvott að eldgosi, sbr. W III 3.2 og S III 2.2.

G I 3.3

Brünnhilde spyr hver hafi ruðst inn til hennar. Siegfried styðst fram á skjöld sinn. Hann kveðst heita Gunther og vera Gibichung og sé kominn til að biðja hennar, og henni beri að fylgja sér í hlýðni og giftast honum þá sömu nótt þar sem hann hafi riðið gegnum eld hennar (7679–708).

Lýsingin á hinu sama er þannig í Völsunga sögu (56–57):

Og er Sigurður kom inn um logann fann hann þar eitt fagurt herbergi, og þar sat Brynhildur. Hún spyr hver sá maður er. En hann nefndist Gunnar Gjúkason. — „Ertu og ætluð mín kona með jáyrði föður þíns ef eg ríða þinn vafurloga, og fóstra þíns með yðru atkvæði.“ „Eigi veit eg gerla hversu eg skal þessu svara,“ segir hún. Sigurður stóð réttur á gólfinu og studdist á sverðshjöltin og mælti til Brynhildar: … „… minnist nú á heit yður ef þessi eldur væri riðinn, að þér mundið með þeim manni ganga er þetta gerði.“

Í Nibelungenlied fær Gunther konungur Búrgunda í Worms að lokum jáyrði Brünhild drottningar á Íslandi með því að sigra hana í bardagaíþróttum, og þó á þann hátt að Siegfried stendur ósýnilegur við hlið hans í huliðskuflinum og vinnur afrekin fyrir hann (431–74).

G I 3.4

Siegfried tekur hringinn með valdi af Brünnhilde eftir talsverð átök og eltingaleik (7709–24).

Frá þessu atriði er sagt með nokkuð ólíku móti í öllum sennilegum fyrirmyndum. Í Völsunga sögu virðist ekki um neitt ofbeldi að ræða en þar er þetta í þriðja skipti sem þau hittast (57):

Hann tók af henni hringinn Andvaranaut, er hann gaf henni, en fékk henni nú annan hring af Fáfnis arfi.

Í Skáldskaparmálum Snorra Eddu er þessu öfugt farið. Sigurður gefur henni hringinn að þessu sinni, enda hafa þau ekki hist áður í þeirri gerð (Sk. 48):

En að morgni er hann stóð upp og klæddi sig, gaf hann Brynhildi að línfé gullbauginn þann er Loki hafði tekið af Andvara en tók af hendi henni til minja annan hring.

Í Þiðreks sögu eiga þessi hringaskipti sér stað í höllu Gunnars eftir að Sigurður hefur með hans samþykki sængað hjá Brynhildi í svefnherbergi þeirra konungshjóna (Þ. 310):

Og er morgnar tekur hann af hennar hendi eitt fingurgull og lætur á annað í staðinn.

Í Nibelungenlied er atburðarásin hin sama nema þar gefur Siegfried henni engan hring í staðinn fyrir þann sem hann tók af henni (N. 679). Síðar kemur í ljós að hann hefur einnig tekið belti af Brünhild (N. 847–48). Hvorki þar né í Þiðreks sögu er um neinn álagahring að ræða.

G I 3.5

Siegfried ýtir Brünnhilde valdsmannlega á undan sér inn í svefnsalinn en dregur sverðið Notung úr slíðrum og segir að það skuli vernda tryggðir og aðskilja hann frá brúði fóstbróður síns (7226–30). .

Nakið sverðið milli Sigurðar og Brynhildar í sænginni á sér beina fyrirmynd í Skáldskaparmálum (48), Broti af Sigurðarkviðu (18) og eftirfarandi vísu í Sigurðarkviðu skömmu (4) :

 

Seggur inn suðræni
lagði sverð nekkvið
mæki málfán,
á meðal þeirra,
né hann konu

kyssa gerði
né, húnskur konungur,
hefja sér að armi,
mey frumunga
fal hann megi Gjúka.

Í Völsunga sögu er frásögnin nokkru ítarlegri (57):

Þar dvelst hann þrjár nætur, og búa eina rekkju. Hann tekur sverðið Gram og leggur í meðal þeirra bert. Hún spyr hví það sætti. Hann kvað sér það skipað að svo gerði hann brúðlaup til konu sinnar eða fengi ella bana.

Hér á Sigurður sjálfsagt við að það væri dauðasök ef hann ryfi trúnað við fóstbróður sinn. Atferlið um næturnar þrjár leiðir þó hugann að Tobíasi í hinni apókrýfu Tobítsbók Gamla testamentisins þar sem ekki má eiga samræði við brúði fyrstu þrjár næturnar, en það minni kemur víða fyrir.

Atriðið um sverðið og sængina er hvorki í Þiðreks sögu, Nibelungenlied né Hürnen Seyfrid.

II. þáttur

Alberich áminnir Högna son sinn um að bregðast sér ekki. — Sigurður kemur á undan Gunnari og Brynhildi. Högni boðar til tvöfaldrar brúðkaupsveislu. — Brynhildur sér Sigurð með Guðrúnu og hringinn á hendi hans, uppgötvar svikin og krefst hefndar. — Bæði hún og Sigurður sverja ólíkan framburð sinn. Högni heitir Brynhildi atbeina sínum og Gunnar fellst nauðugur viljugur á banaráðin.

1. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G II 1.1

Alberich á langt tal við Hagen og áminnir hann um sonartryggð (7731–829).

Þetta atriði á sér enga þekkta fyrirmynd og er skáldskapur Wagners sjálfs.

2. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G II 2.1

Gutrune spyr Siegfried með vissri tortryggni um samskipti þeirra Brünnhilde. Hann segir hana hafa fylgt sér til árbakkans, þeir Gunther skipt um útlit í skyndi og hann komist til hallarinnar á augabragði vegna eiginleika hjálmsins. Gutrune segir að þau skuli undirbúa veislu ásamt Hagen (7881–904).

Í eldri heimildum er hvergi minnst á þennan eiginleika töfrahjálmsins. Sagt er frá þessum atburðum nokkurn veginn samhljóða í Völsunga sögu (57) og Skáldskaparmálum (48):

Sigurður hljóp þá á hest sinn og reið til félaga sinna. Skipta þeir þá aftur litum og fóru heim til Gjúka með Brynhildi.

Í Nibelungenlied er Siegfried sendur ríðandi á undan til Worms eftir níu daga siglingu frá Íslandi til að boða þau gleðitíðindi að Gunther sé á leiðinni með Brünhild og til að gefa fyrirmæli um að láta búa til veislu (529–62).

3. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G II 3.1

Hagen kallar liðsmenn sína saman til að slátra dýrum og undirbúa drykkjarföng fyrir brúðkaupsveisluna (7907–94).

Í Nibelungenlied segir að bræður, systir og móðir Gunthers tóku strax að bjóða fjölmenni til veislunnar (N. 563–66).

Um veisluviðbúnað er ekkert sagt í varðveittum íslenskum ritum.

4. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G II 4.1

Gunther kynnir Brünnhilde fyrir liðsmönnum sínum ásamt Gutrune og Siegfried. Siegfried man ekki eftir Brynhildi en hún þekkir bæði hann og hring sinn á hendi hans.

Brünnhilde:
Sigurður … hér? Guðrún?
(8021).
Sigurður, manstu ei mig?

(8027).

Hún segir Siegfried hafa tekið hringinn af hendi sér:

Ha! Þann hring
á hendi hann ber.
Hann … Sigurður?
(8031–33).

Ég sá hringinn þann
á hendi þér.
Þú átt hann ekki
af mér tók hann
(bendir á Gunther)
Þessi þar!
Hve náðir þú hring
af hönd þessa manns?

Siegfried:
En Gunnar ekki
gaf mér hring.

Brünnhilde (við Gunther):
Hrifirðu af mér þann hring sem heitbatt okkur tvö
þá rek nú réttar þíns
taktu þitt teikn á ný!
(8037–49)

Í Skáldskaparmálum (49) og Völsunga sögu (58) komast hin örlagaríku hringaskipti ekki upp fyrr en þær Brynhildur og Guðrún vaða út í ána Rín að bleikja hadda sína og taka að metast um hvor eigi fræknari bónda og hvor þeirra hafi tekið meydóm Brynhildar. Þessa leikrænu frásögn notar Wagner ekki.

Í Þiðreks sögu fer þessi langa senna drottninganna fram í höll Gunnars í Niflungalandi þegar Brynhildur heimtar að Grímhildur standi upp fyrir sér vegna þess að hún eigi sér göfugri mann. Grímhildur spyr Brynhildi hver sé hennar frumver og hún segir það vera Gunnar (Þ. 467):

Nú svarar Grímhildur: „Nú lýgur þú það er eg spurða þig, sem mér var von. Sá maður er þinn meydóm tók fyrsta sinn heitir Sigurður sveinn.“ Nú svarar Brynhildur: „Eg varð aldrigi Sigurðar kona og aldri hann minn maður.“ Þá mælti Grímhildur: „Það skýt eg hér til þessa fingurgulls er hann tók af þér þá er hann hafði tekið þinn meydóm. Þetta sama gull tók hann af þinni hendi og gaf mér.“

Í Nibelungenlied deila Kriemhild og Brünhild sömuleiðis um ágæti bænda sinna og hvor þeirra eigi að ganga á undan inn í dómkirkju (N. 814–38). Uppljóstrun Kriemhild um hringinn og beltið sem Siegfried hafði tekið af Brünhild kemur í kjölfarið (N. 839–50).

Sjálfur álagahringurinn er í öllum þessum ritum á hendi einhverrar kvennanna þegar hann er sýndur sem sönnunargagn, Brynhildar, Guðrúnar, Grímhildar eða Kriemhild, en hvergi er hann sagður á hendi Sigurðar/Siegfrieds. Wagner er einn um þá lausn.

G II 4.2

Brünnhilde spyr Gunther:

Hvar hylur þú þann hring sem hreifstu af mér með valdi?
(8052–53).

Í Völsungu segir, eftir að upp kemst um hringinn, að Brynhildur leggst í rekkju og liggur sem hún sé dauð. Og er Gunnar leitar fast eftir og spyr hvað ami að henni svarar hún (V. 60):

„Hvað gerðir þú af hring þeim er eg selda þér er Buðli konungur gaf mér að efsta skilnaði er þér Gjúki konungur komuð til hans og hétuð að herja eða brenna nema þér næðið mér?“

G II 4.3

Brünnhilde fullyrðir að Siegfried hafi legið með sér:

Hann knúði girnd
og kærleik fram (8102–03).

Siegfried:
Heyr nú hvort flár ég var!
Fóstbræðralag
göfgum Gunnari sór ég!
Gramur, hið góða sverð
gætti þess tryggðaeiðs.
Mig skildu skarpar eggjar
frá hinni mæddu mey.

Brünnhilde:
Þú hetjan svo séð
sjá þína lygð!
Eins við þitt sverð
þú sverð rangan eið.
Ég áður sá eggjar
og eins sá ég slíðrin.
Þar hvíldi feginn
fast upp við vegg
Gramur þinn góði vin
meðan eigandinn yfirsteig mey

(8108–24).

Afstaða Wagners virðist helst sú að Siegfried og Brünnhilde hafi elskast í fyrra skiptið sem þau fundist en ekki hið síðara þegar Siegfried var minnislaus til hennar og í líki Gunthers.

Spurningin um það hvort Sigurður átti samræði við heitkonu Gunnars fóstbróður síns er afgreidd með mismunandi hætti í fornum ritum. Í varðveittum eddukvæðum, Sigurðar kviðu skömmu (4–5, 28), Helreið Brynhildar (12–13) og Grípisspá (40–42, 47–49) er þeim skilningi hafnað. Þar er það einungis ófullnægð ást til Sigurðar og afbrýði í garð Guðrúnar sem rekur Brynhildi áfram til að hefna sín. Í Sigurðarkviðu skömmu segir Sigurður á dauðastundinni í sæng sinni (28):

Mér unni mær
fyr mann hvern,
en við Gunnar
grand ekki vannk,

þyrmda eg sifjum,
svörnum eiðum,
síður værag heitinn
hans kvonar vinur.

Í Helreið Brynhildar er enn sterkar kveðið að orði og þar segir hún að þau hafi sofið saman átta nætur eins og systkin (12):

Sváfum við og undum
í sæing einni
sem hann minn bróðir
um borinn væri,

hvortki knátti
hönd yfir annað
átta nóttum
okkart leggja.

Í Nibelungenlied er ekki skýrt kveðið upp úr um þetta atriði. Þar segir aðeins að Siegfried beygði Brünhild til hlýðni með samþykki Gunthers sem vildi þó ekki að hann ætti samræði við hana. Ekki er hinsvegar sagt með óyggjandi hætti hvernig honum tókst að hemja hana. Hann tók af henni hring og belti sem Kriemhild dró seinna fram sem sönnun þess að hann hefði afmeyjað hana (N. 651–55, 666–80, 840–50).

Í Snorra Eddu og Völsunga sögu er þetta einnig látið liggja milli hluta þar til frá því er sagt löngu síðar að þau hafi átt saman dótturina Áslaugu. En í Snorra Eddu er einnig sagt að Sigurður heimsótti Brynhildi tvisvar og í Völsungu þrisvar (Sk. 48, 51; Völsunga, 42–45, 48–50, 57).

Í Þiðreks sögu (30910) er skýrast að orði kveðið. Eftir að Brynhildur hefur synjað Gunnari manni sínum um hvílubrögð segir hann við Sigurð:

„Fyrir sakir okkarar vináttu og mágsemdar þá trúi eg engum manni jafnvel sem þér þó að það mál sé er mikið liggi við að leynt sé, og eg veit að þú ert svo sterkur maður að þú mátt fá hennar meydóm ef nokkur maður er sá í veröldunni, og helst má eg þér til trúa að það skal aldrigi upp koma fyrir engan mann, þótt á þenna veg sé gert.“ Nú svarar Sigurður og lést svo gera vilja sem hann vill. Og nú er þetta ráðið. Og nú er kveld kemur og Gunnar skal fara til sinnar hvílu, og er það í fyrsta lagi, er svo til hagað að Sigurður sveinn fer í rekkjuna, en Gunnar fer í braut með klæði Sigurðar, og hyggja það nú allir menn að þar sé Sigurður sveinn. Og nú kastar Sigurður klæðum á höfuð sér og lætur allómáttulega og liggur svo þar til er allir menn eru sofnaðir og á braut farnir. Og þá tekur hann til Brynhildar og fær skjótt hennar meydóm.

Ekki verður annað ráðið af Þiðreks sögu (Þ. 466–68) en Brynhildi sjálfri hafi allan tímann verið þessi mannaskipti ljós. Ólánið var að Grímhildur skyldi í bræðiskasti geipa um þetta leyndarmál svo margir heyrðu:

Sigurður sveinn hefir rofið ykkur trúnaðarmál og sagt sinni konu Grímhildi allt hversu lagðir þinn trúnað undir hann, og er þú fékkt eigi sjálfur mitt lag og lést Sigurð svein taka minn meydóm. Það sama færði Grímhildur mér í brigsli í dag fyrir öllum mönnum.

G II 4.4

Gunther, Gutrune og aðrir krefjast þess að Siegfried sanni sakleysi sitt. Hann sver við spjót Hagens. Brünnhilde sver strax á eftir við sama spjót að Siegfried hafi svarið rangan eið (8125–69).

Í Nibelungenlied sver Siegfried að ósk Gunthers fyrir samræði við Brünhild (N. 855–60).

Slíkra svardaga er ekki getið í íslenskum ritum.

5. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G II 5.1

Brünnhilde starir fram fyrir sig og hefur uppi langa harmatölu um smán sína og þau svik sem á henni voru framin en hún hafi glatað bæði visku og mætti í hendur svikara (8205–24).

Enn lengri og margbreytilegri eru harmatölur Brynhildar og heiftyrði í eddukvæðum og Völsunga sögu. Skal hér tekið dæmi úr Völsungu (65):

Eftir þetta gekk Brynhildur út og settist undir skemmuvegg sinn og hafði margar harmtölur, kvað sér allt leitt, bæði land og ríki, er hún átti eigi Sigurð.

G II 5.2

Hagen býðst til að hjálpa Brünnhilde að hefna sín á Siegfried. Hún hæðist að honum og segir hann mundu hörfa fyrir hinu gneistandi augnaráði Siegfrieds einu saman (8225–37).

Heiftrækni Brynhildar og harmi er einnig lýst í Nibelungenlied (N. 863–64) og Þiðreks sögu (Þ. 468).

Minnið um hið hvassa augnaráð Sigurðar má rekja til nokkurnveginn sama orðalags á tveim stöðum í Völsunga sögu (46, 67):

Augu hans voru svo snör að fár einn þorði að líta undir hans brún.

G II 5.3

Hagen spyr hvort Siegfried sé alstaðar ósæranlegur. Brynhildur kveðst á sínum tíma ekki hafa hirt um að blessa bak hans með töfrum sínum þar eð svo hugrökk hetja mundi aldrei snúa baki í fjandmenn sína. Hagen segir spjót sitt munu hitta hann þar (8245–65).

Í Þiðreks sögu baðar Sigurður sig í blóði dreka og við það bíta hann ekki járn en eftir verður þó særanlegur staður milli herða honum þar sem hann náði ekki að rjóða blóðinu á sig með höndunum (Þ. 234–36, 465–66).

Í Nibelungenlied baðar hann sig einnig í blóði dreka með sömu verkunum en þar stafar hinn óvarði staður af laufblaði sem lá milli herða honum. Þar veiðir Hagen leyndarmálið um hinn óvarða blett upp úr Kriemhild (N. 100, 899–902).

Í kvæðinu Hürnen Seyfrid smyr hann sig með feitinni úr drekanum og fær af því hornhúð nema milli herðanna sem hann nær ekki til (HS 7–11). Allt minnir þetta á hæl Akkillesar í Hómerskviðum.

Í eddukvæðum, Völsunga sögu og Snorra Eddu er þess hvergi getið að Sigurður sé ósæranlegur. Hinsvegar er nefnt í Skáldskaparmálum (51) að synir Sigmundar, hálfbræðumir Sinfjötli og Sigurður „voru svo harðir á húðina að þá sakaði ekki eitur að utan, kæmi á þá bera.“ Wagner bætir þeim skilningi við rúnatal Brynhildar í Völsungu og Sigurdrífumálum að með þeim töfrum hafi hún ekki aðeins kennt Siegfried visku á fyrsta fundi þeirra heldur einnig gert líkama hans að mestu ósæranlegan.

G II 5.4

Brünnhilde hæðir Gunther fyrir hugleysi og fláræði, hann hafi húkt að baki hetjunnar og látið hana vinna frægðarverk fyrir sig, hann sé ættarskömm (8276–84).

Frýjuorða Brynhildar við Gunnar er víða getið í eddukvæðum en hér verður dæmi þeirra tekið úr Völsungu (61):

Nú treystist engi að ríða nema Sigurður einn. Hann reið eldinn því að hann skorti eigi hug til. Hann drap orminn og Regin og fimm konunga, en eigi Gunnar, er þú fölnaðir sem nár, og ertu engi konungur né kappi.

G II 5.5

Gunther á í miklu sálarstríði og óvissu hvort hann eigi að svíkja Siegfried fóstbróður sinn og ekki síður vegna þess vafa hvort Siegfried hafi svikið hann. Brünnhilde fullyrðir að Siegfried hafi svikið bæði sig og hann en allir hafi svikið hana, og aðeins dráp Siegfrieds geti bætt fyrir sök hans og allra hinna (8285–313).

Eftirfarandi klausur í Völsunga sögu (65–66) líkjast einkum fyrrgreindum atriðum í texta Wagners:

„Eg vil eigi lifa,“ sagði Brynhildur, „því að Sigurður hefir mig vélt og eigi síður þig þá er þú lést hann fara í mína sæng. Nú vil eg eigi tvo menn eiga senn í einni höll, og þetta skal vera bani Sigurðar eða þinn eða minn því að hann hefir það allt sagt Guðrúnu en hún brigslar mér.“ … Og enn kom Gunnar til hennar. Þá mælti Brynhildur: „Þú skalt láta bæði ríkið og féið, lífið og mig, og skal eg fara heim til frænda minna og sitja þar hrygg nema þú drepir Sigurð og son hans. Al eigi upp úlfhvelpinn.“ Gunnar varð nú mjög hugsjúkur og þóttist eigi vita hvað helst lá til, alls hann var í eiðum við Sigurð, og lék ýmist í hug, þótti það þó mest svívirðing ef konan gengi frá honum.

G II 5.6

Hagen lýsir fyrir Gunther hvaða völd hann muni öðlast of hann kemst yfir hringinn að Siegfried dauðum (8314–21).

Í Nibelungenlied klifar Hagen á því við Gunther hversu mikil lönd og ríkidæmi hann mundi eignast við dráp Siegfrieds (N. 870).

Í Völsunga sögu er það aftur á móti Gunnar sem lýsir vandanum fyrir Högna (V. 66):

Gunnar … kallar til sín Högna bróður sinn og mælti: „Fyrir mig er komið vandmæli mikið,“ segir að hann vill drepa Sigurð, kvað hann hafa vélt sig í tryggð — „ráðum við þá gullinu og öllu ríkinu.“ Högni segir: „Ekki sæmir okkur særin að rjúfa með ófriði. Er oss og mikið traust að honum.“ … Gunnar svarar: „Þetta skal fram fara og sé eg ráðið: Eggjum til Guttorm bróður okkarn. Hann er ungur og fás vitandi og fyrir utan alla eiða.“

G II 5.7

Gunther vill í lengstu lög komast hjá að hryggja Gutrune systur sína en Brünnhilde vill henni allt hið versta (8322–32).

í Nibelungenlied er Gunther lengi tregur til að taka þátt í samsærinu (N. 866–68). Hvarvetna er hinsvegar getið um hatur og afbrýði Brynhildar í garð eiginkonu Sigurðar. Svo segir í Sigurðarkviðu skömmu (8):

Oft gengur hún innan,
ills um fylld,
ísa og jökla
aftan hvern
er þau Guðrún

ganga á beð
og hana Sigurður
sveipur í rifti,
konungur inn húnski,
kvon frjá sína.

G II 5.8

Hagen stingur upp á veiðiferð morguninn eftir og þeir skuli segja Gutrune að villigöltur hafi orðið Siegfried að bana (8333–38).

Í Þiðreks sögu leggur Högni á ráðin um veiðiferðina (Þ. 470–71) en í Nibelungenlied gera Gunther og Hagen það í sameiningu (N. 911–16).

Veiðiferðin er ekki nefnd í eddukvæðum, Snorra Eddu eða Völsungu, enda hljóta villisvínaveiðar í skógi að hafa verið Íslendingum harla framandi.

G II 5.9

Gunther fellst á banaráðin með Hagen og Brünnhilde og miklar fyrir sér svik Siegfrieds (8339–90).

Sinnaskiptum Gunthers er lýst í Nibelungenlied (N. 874–75) og í Þiðreks sögu segir Gunnar við Brynhildi (D. 469):

„Frú, eigi skaltu gráta, og þegi þú þegar í stað. Sigurður sveinn mun eigi lengi vera vor herra og mín systir Grímhildur mun eigi vera þín drottning.“

Samþykki og áformum Gunnars við banaráðin er lýst með mislöngum hætti í eddukvæðum, Skáldskaparmálum (49) og Völsungu (66). Svo segir Gunnar í Broti af Sigurðarkviðu (2):

„Mér hefur Sigurður
selda eiða,
eiða selda,
alla logna,

þá vélti hann mig
er hann vera skyldi
allra eiða
einn fulltrúi.“

III. þáttur

Sigurður er ginntur á veiðar. Hann hittir Rínardætur sem reyna án árangurs að fá hann til að skila sér hringnum. — Högni færir honum drykk og hann öðlast minnið á ný. Sigurður rekur sögu sína og þegar hann minnist fyrstu funda þeirra Brynhildar leggur Högni hann spjóti í bakið. — Lík Sigurðar er flutt heim. Högni vegur Gunnar og reynir að ná hringnum af hendi líksins sem bregst við honum. Brynhildur lætur hlaða bálköst, segir upp alla sögu og gengur á bálið með Sigurði. Hringurinn fer með bálinu í fljótið, Högni fleygir sér eftir honum en Rínardætur draga hann í djúpið. Eldurinn teygir sig til himins og logum slær um Valhöll. Allt hið gamla og spillta skal brenna en lokatónar verksins boða von um nýjan og betri heim.

1. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G III 1.1

Rínardætur hitta Siegfried á árbakkanum og sækjast eftir hringnum en hann neitar þeim eftir nokkurt þóf (8391–8557).

Um hugsanlegar fyrirmyndir Rínardætra var fjallað í tengslum við Rinargullið (R 1.2). Þetta atriði er að öðru leyti alger hugsmíð Wagners.

G III 1.2

Siegfried segist hafa villst frá veiðifélögum sínum (8416–19).

Í Nibelungenlied leggur Hagen til að þeir fari hver í sína átt við veiðarnar (N. 930).

2. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G III 2.1

Veiðifélagarnir setjast að snæðingi úti í skógi og upp eru teknar leðurflöskur og drykkjarhorn (8564–99).

Í Nibelungenlied er sagt frá máltíð veiðimannanna í skóginum og þorsta sem kvelur Siegfried eftir veiðiferðina (N. 963–65).

Í Þiðreks sögu fella þeir villigölt og taka að skera hann en fyrr um morguninn hafði Högni látið salta árbítinn ríkulega og skenkja Sigurði söltustu bitana til að auka þorsta hans (Þ. 470–71).

G III 2.2

Siegfried tekur að rekja ævi sína (8600–82).

Upprifjun á æviferli söguhetjunnar er ekki í neinni þeirri heimild sem Wagner virðist hafa nýtt sér í þessu atriði.

G III 2.3

Hagen blandar Siegfried drykk og hann fær minnið smám saman aftur uns hann tekur að minnast Brynhildar:

Siegfried:
Ég hjálm leysti
af ljúfastri snót
með kossi vakti hana vel. 
Ó hve mig fegin í fang
hin fagra Brynhildur tók!

Gunther:
Hvað heyri ég? (8709–14).

Óvíst er að Wagner hafi nokkra fyrirmynd að drykk til að öðlast minnið á ný. Slíkt atvik gat hann þó hugsanlega rekist á í þýðingu á Sörla þætti í Fornaldarsögum Norðurlanda. Þar byrlar seiðkona Heðni drykk svo hann missir minnið og fremur óhæfuverk. Löngu seinna hittir hann seiðkonuna aftur, hún færir honum annan drykk og öðlast hann þá minnið á ný.[2]

Þess var getið við 2. atriði fyrsta þáttar (G I 2.3) að óminnisdrykkurinn væri kominn úr Völsungu. Nokkru síðar, þegar haldin er brullaupsveisla Brynhildar og Gunthers, segir svo í sögunni (V. 57–58):

Og er lokið er þessi veislu, minnir Sigurð alla eiða við Brynhildi, og lætur þó vera kyrrt.

G III 2.4

Fyrirmæli um leikstjórn:

Tveir hrafnar fljúga úr runni, hnita hringa yfir Siegfried, sem sprettur á fætur, og hverfa í átt til Rínar (8714–17).

Hér er augsýnilega um að ræða hrafna Óðins sem frá er greint í Grímnismálum (20) og Gylfaginningu (38):

Hrafnar tveir sitja á öxlum hans og segja í eyru honum öll tíðindi þau er þeir sjá eður heyra. Þeir heita svo: Huginn og Muninn. Þá sendir hann í dagan að fljúga um heim allan og koma þeir aftur að dögurðarmáli. Þar af verður hann margra tíðinda vís.

G III 2.5

Hagen:
Og namstu nú
þeirra hrafnanna hróp?

Hefndir réðu þeir mér (8715–17).

Hagen rekur spjót sitt í bak Siegfrieds og segist hefna fyrir meinsæri. Siegfried reynir gagnsókn með skildi sínum en máttur hans brestur (8717–21).

Morðið á Siegfried úti í skógi á sér einkum fyrirmynd í Þiðreks sögu (Þ. 469–73) og Nibelungenlied (N. 943–1001). Einnig virðist gert ráð fyrir að Sigurður sé myrtur utandyra í Guðrúnarkviðu fornu (4–8) og Broti af Sigurðarkviðu (5–7) ásamt eftirmála hennar. Í báðum kvæðum koma hrafnar einnig við sögu og boða váleg eftirmál. Svo segir í Broti (11):

Soltinn varð Sigurður
sunnan Rínar,
hrafn að meiði
hátt kallaði.

Í Nibelungenlied (N. 981) er spjótið rekið í bak Siegfrieds þegar hann leggst niður að lind til að slökkva þorsta sinn. Þar heldur hann áfram að berjast um stund. Í Þiðreks sögu er hann einnig að drekka úr læk en berst ekki eftir að hann er stunginn (Þ. 472):

Og þá kemur að Sigurður sveinn og slæst þegar niður að bekkinum sem aðrir þeir. Og þá stendur upp Högni, er hann hefir drukkið, og tekur sitt spjót báðum höndum og leggur milli herða Sigurði svein, svo að stendur í gegnum hans hjarta og út um brjóstið.

Í Sigurðarkviðu skömmu (21–22), Skáldskaparmálum (49) og Völsunga sögu (67) er Sigurður veginn í sæng sinni.

G III 2.6

Siegfried:
Brynhildur
brúður mín helg!
Vakna! Opnaðu augun!
Hver hefur svefn
sent þér á ný?
Hver batt þig í kvíðvænan blund?
Svo kom þar einn
og kyssti þig
og brúðar hann braut
böndin hin römmu.
Þá brosir Brynhildur glöð!
Æ þessi augu
opin um eilífð
æ þeirrar andar

andvörpin sælu!
Ólífið sæta
unaðarskelfing …
Brynhildur kveður mig kært!

(8722–39).

Sambærilega ástarjátningu er helst að finna í löngu samtali í Völsungu þegar Sigurður reynir sem aðrir að tala um fyrir Brynhildi en hún brigslar honum um svik og andúð í sinn garð. Sigurður svarar (V. 64–65):

„Annað er sannara: Eg unna þér betur en mér þótt eg yrða fyrir þeim svikum, og má því nú ekki bregða, því að ávallt er eg gáða míns geðs þá harmaði mig það er þú vart eigi mín kona. En af mér bar eg sem eg mátta, það er eg var í konungshöll, og unda eg því þó, að vér vorum öll saman … Gjarna vilda eg að við stigim á einn beð bæði og værir þú mín kona. … Eigi munda eg þitt nafn,“ sagði Sigurður, „og eigi kennda eg þig fyrr en þú vart gift, og er þetta inn mesti harmur. … Heldur en þú deyir vil eg þig eiga en fyrirláta Guðrúnu.“ … „Eigi vil eg þig,“ sagði Brynhildur, „og engan annarra.“

G III 2.7

Siegfried deyr. Þeir leggja lík hans á skjöld og bera það yfir klettahæð (8739).

Athæfið að bera líkið heim á skildi er í Nibelungenlied (N. 999) en í Þiðreks sögu er einungis sagt (Þ. 473):

Nú taka þeir upp lík Sigurðar sveins og fara með heim til borgar.

3. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

G III 3.1

Gutrune segist hafa átt erfiða drauma, heyrt hest Siegfrieds hneggja í ofboði og loks vaknað við hlátur Brünnhilde, grunar að hún hafi farið út og kemst að því að hún er ekki í herbergi sínu. Hún kveðst óttast Brünnhilde (8740–60).

Í Broti af Sigurðarkviðu (9) er þessu efni þannig þjappað saman:

Hló þá Brynhildur,
bær allur dundi,
einu sinni
af öllum hug.

Við þessu bregst Gunnar svo í Völsunga sögu (68) þegar Brynhildur hælist um yfir sorg Guðrúnar:

„Eigi hlær þú af því að þér sé glatt um hjartarætur, eða hví hafnar þínum lit? Og mikið forað ertu og meiri von að þú sér feig.“

Í Þiðreks sögu er ítarlegar frá sagt hvað gerist þessa nótt (Þ. 473):

Og nú stendur drottning Brynhildur uppi á borg og sér að Gunnar konungur og hans bróðir Högni og Gernoz ríða til borgar, og svo að þar munu þeir fara með Sigurð svein dauðan. Hún gengur úr borginni móti þeim og mælti að þeir hafi veitt allra manna heilastir og biður þá nú færa Grímhildi.

G III 3.2

Hagen tilkynnir komu veiðimanna með feng sinn. Hann hvetur Gutrune til að fagna hetjunni hraustu, Siegfried, sem nú snúi heim. Gutrune og aðrir hallarbúar koma með kyndla til móts við líkfylgdina. Hún spyr hvað hafi gerst (8761–71). 

Í Broti af Sigurðarkviðu (5) er Guðrún ein nefnd í þessu móttökuatriði:

Úti stóð Guðrún
Gjúka dóttir
og hún það orða
alls fyrst um kvað:

„Hvar er nú Sigurður
seggja drottinn,
er frændur mínir
fyrri ríða?“

G III 3.3

Hagen segir Gutrune að villigöltur hafi banað Siegfried. Hún hljóðar hátt, kastar sér yfir líkið og fellur í ómegin. Gunther reynir af friðmælast við hana en hún bölvar honum (8780–87).

Frá þessu segir þannig í Þiðreks sögu (473–74):

Þá svarar Högni: „Eigi var hann myrður. Vér eltum einn villigölt, og sá inn sami göltur veitti honum banasár.“ Þá svarar Grímhildur: „Sá sami villigöltur hefir þú verið Högni, og engi maður annarra,“ — og nú grætur hún sárlega.

Um bölbænir Guðrúnar segir í Broti af Sigurðarkviðu (10):

Þá kvað það Guðrún
Gjúka dóttir:
„Mjög mælir þú
miklar firnar.

Gramir hafi Gunnar,
götvað Sigurðar,
heiftgjarns hugar
hefnt skal verða.“

Eftir fjörráðin við Sigurð (N. 864) hverfur Brynhildur að mestu úr fyrra hluta Nibelungenlied eða verður óvirk. Hún situr hróðug í hásæti og hlustar með velþóknun á kveistafi Kriemhildar (N. 1100). Næst er hennar getið í síðara hluta kvæðisins þegar sendimenn Etzels (Atla) Húnakonungs heimsækja Búrgúnda löngu eftir dauða Siegfrieds (N. 1426).

Í Þiðreks sögu hælist hún ögn lengur um við dauða Sigurðar og grát Grimhildar en er eftir það einnig úr þeirri sögu (D. 474).

Allt athæfi Brynhildar í Hringnum héðan í frá á því helst fyrirmynd í hinum alíslensku ritum.

G III 3.4

Gutrune heldur áfram harmatali sínu vegna Siegfrieds (8788–90).

Harmi Guðrúnar vegna morðsins á Sigurði er víða lýst í eddukvæðum en í lengra, flóknara og átakanlegra máli. Í Guðrúnarkviðu II (fornu) er þessi vísa (12):

Nótt þótti mér
niðmyrkur vera
er eg sárla satk
yfir Sigurði,
úlfar þóttust

öllu betri
ef þeir léti mig
lífi týna
eða brenndi mig
sem birkinn við.

G III 3.5

Gunther sakar Hagen um að vera sá bölvaði göltur sem reif göfugmennið sundur. Hagen játar það þrjóskulega og segist hafa verið í fullum rétti vegna meinsæris Siegfrieds. Nú krefst hann hringsins sem herfangs (8791–805).

Í Nibelungenlied segir Hagen strax eftir morðið að hann muni sjálfur færa Kriemhild lík Siegfrieds og sig skipti sorg hennar engu. Þetta gerir hann (N. 1001).

Í Guðrúnarkviðu II (7) er ögn vikið að samviskubiti Gunnars:

Hnipnaði Gunnar,
sagði mér Högni
frá Sigurðar
sárum dauða:

„Liggur of höggvinn
fyr handan ver,
Gotþorms bani,
of gefinn úlfum.“

G III 3.6

Gunther neitar Hagen um hringinn sem sé arfur Gutrune og kallar hann jarðbúason. Hagen viðurkennir ætterni sitt, heimtar arf sinn og vegur Gunther eftir nokkra viðureign. Hagen reynir að rífa hringinn af hendi Siegfrieds sem lyftist ógnvekjandi og allir hrökkva frá (8809–13).

Í engu verki sem hér er haft til samanburðar er reynt að ræna hring af Siegfried/Sigurði dauðum. Minnið um að dauður maður ógni með handarhreyfingu er á hinn bóginn víða til en þó ekki í íslenskum fornritum. Í Nibelungenlied tekur einungis að blæða úr sári Siegfrieds um leið og Hagen nálgast líkið (N. 1043–44) sem einnig er þekkt minni.

G III 3.7

Brünnhilde gengur hátíðlega fram, hastar á fólk og segir það ekki syrgja hina glæstu hetju sem vert væri (8814–23).

Sambærilegar við þessar ljóðlínur eru einna helst þessar vísur úr Broti af Sigurðarkviðu (14–15):

Vaknaði Brynhildur
Buðla dóttir,
dís skjöldunga,
fyr dag litlu:

„Hvetjið mig eða letjið mig,
harmur er unninn,
sorg að segja
eða svo láta.“

G III 3.8

Gutrune sakar Brünnhilde um að valda öllum þessum ósköpum vegna öfundar sinnar og illsku (8824–27).

Þessar fáu ljóðlínur Gutrune virðast snúnar af nokkrum þáttum. Fyrst má nefna svar Gullrandar Gjúkadóttur til Brynhildar í Guðrúnarkviðu I (24):

Þegi þú, þjóðleið,
þeirra orða,
Urður öðlinga
hefir þú æ verið,
rekur þig alda hver

illrar skepnu,
sorg sára
sjö konunga
og vinspell
vífa mest.

G III 3.9

Brünnhilde segir Gutrune aldrei hafa verið annað en hjákonu Siegfrieds en sér hafi hann svarið eiða til eilífðar áður en hann svo mikið sem leit Gutrune augum. Gutrune viðurkennir þetta og bölvar Hagen fyrir að hafa látið sig færa Siegfried óminnisdrykkinn (8828–41).

Í öðru lagi má nefna orð Sigurðar í Sigurðarkviðu skömmu (27) þegar hann fær banasárið:

Eg veit görla
hví gegnir nú,

ein veldur Brynhildur
öllu bölvi.

Hér er snúið við hlutverkum kvennanna í Nibelungenlied (N. 847–50) og Þiðreks sögu (Þ. 467) þar sem Kriemhild og Grímhildur saka Brynhildi um að hafa verið hjákona Siegfrieds/Sigurðar.

 

G III 3.10

Brünnhilde:
Sterkum stofnum
staflið mér þar
á ströndu við Rín í köst.
Hátt og hýrt
brenni það bál
þar sem lofsamt lík
sú mætust hetja skal mást.
Hans fák leiðið í log
svo mér hann fullhuga fylgi
því að hetju helgastrar
heiðri að deila
nú lystir mitt eigið lík.
Nú heyrið Brynhildar boð!

Ungir menn taka að reisa bálköst á fljótsbakkanum. Konur breiða á hann voðir og strá á þær grösum og blómum (8842–54).

Eftir sennuna í ánni og áður en Sigurður er myrtur sitja þær tvær í skemmu sinni og þá trúir Brynhildur með semingi Guðrúnu fyrir eiðum þeirra Sigurðar. Svo segir í Völsungu (59):

„Ekki höfum vér launmæli haft, og höfum við eiða svarið, og vissuð þér það að þér véltuð mig og þess skal hefna.“

Hinn tjaldaði og blómum skreytti bálköstur virðist helst ættaður úr Sigurðarkviðu skömmu þar sem segir (66):

Tjaldi þar um þá borg
tjöldum og skjöldum
valarift vel fáð
og Vala mengi
brenni mér inn húnska
á hlið aðra
.

G III 3.11

Brünnhilde bendir mönnum að hefja lík Siegfrieds á bálköstinn, dregur hringinn af hendi hans og á fingur sér og segist munu láta Rínardætur hirða hann hreinsaðan úr öskunni. Hún kveðst ætla að brenna á bálkestinum með Siegfried og hestinum Grane. Hún hrifsar eldibrand af einum mannanna, kveikir í kestinum (8898–930), segir tveim hröfnum að færa herra sínum tíðindin um endalok Walhall og guðanna, hleypur á hestbak og þeysir í einu stökki upp á bálköstinn (8898–953).

Framgöngu Brynhildar í lok verksins ásamt bálför þeirra Sigurðar má rekja til nokkurra eddukvæða, einkum lausamáls framan við Helreið Brynhildar og Sigurðarkviðu skömmu (65–70) svo og Snorra Eddu (Sk. 49) og Völsunga sögu (68–70). Hér koma hrafnar Óðins aftur við sögu.

Sá munur er þó á þeim lýsingum og leikgerð Wagners að öll kvæðin sleppa hestinum Grana á bálinu en í staðinn skal hið fræga sverð lagt á milli þeirra. Athygli vekur að Wagner skuli ekki taka sverðið með í lokaatriðinu. Ef til vill hefur stef sverðsins ekki lengur átt við í hugmyndafræði tónlistarinnar. Bálförinni er að öðru leyti þannig lýst í Völsunga sögu (70):

Nú er búið um lík Sigurðar að fornum sið og gert mikið bál. Og er það er mjög í kynt þá var þar lagt á ofan lík Sigurðar Fáfnisbana og sonar hans þréveturs, er Brynhildur lét drepa, og Guttorms. Og er bálið var allt loganda gekk Brynhildur þar á út og mælti við skemmumeyjar sínar að þær tæki gull það er hún vildi gefa þeim. Og eftir þetta deyr Brynhildur og brann þar með Sigurði, og lauk svo þeirra ævi.

Þess má spyrja hvort um hugrenningatengsl geti verið að ræða milli gullsins, sem Brynhildur fær skemmumeyjum sínum í arf, og sjálfs örlagahringsins sem hún eftirlætur Rínardætrum. Það væri enn eitt dæmið um að venjulegt jarðbundið atferli sé hafið í æðra veldi. Í Sigurðarkviðu skömmu (65, 68) segir

Biðja mun eg þig
bænar einnar,
sú mun í heimi
hinst bæn vera:
Láttu svo breiða
borg á velli

að undir oss öllum
jafnrúmt sé,
þeim er sultu
með Sigurði.

Liggi okkar enn í milli
málmur hringvariður,
egghvasst járn,
svo endur lagið
þá er við bæði
beð einn stigum
og hétum þá
hjóna nafni
.

G III 3.12

Bálkösturinn fellur saman en fljótið vex upp að honum og Rínardætur birtast. Hagen steypir sér í fljótið til að hremma hringinn en Rínardætur draga hann í kaf (8953–54).

Þetta atriði á sér enga samsvörun í eldri ritum.

G III 3.13

Í sviðsmyndinni breiðist að lokum mikil glóð um himinhvolfið og táknar endalok guðanna.

Í Völuspá (55) er ragnarökum, örlögum guðanna, lýst á þessa lund:

Sól tér sortna
sígur fold í mar,
hverfa af himni
heiðar stjörnur.

Geisar eimi
við aldurnara,
leikur hár hiti
við himin sjálfan.

G III 3.14

Wagner samdi sex gerðir af lokaatriði Hringsins. Í hinni næstsíðustu kveðst Brünnhilde ætla að yfirgefa fyrri veröld og leita hins heilaga framtíðarlands (E1–13). Í endanlegri gerð birtist vonarglæta um nýjan og betri heim einungis í músíkinni þar sem endurlausnarstefið heyrist undir lokin.

Í Völuspá segir eftir að ragnarökum hefur verið lýst (57):

Sér hún upp koma
öðru sinni
jörð úr ægi
iðjagræna.

Yfirlit

Wagners
Ring
Eddu-
kvæði
Snorra
Edda
Völsunga
saga
Þiðreks
saga
Niebelungen-
lied
Hürnen
Seyfrid
Nornen nornir nornir
Verlobung durch Ring Alberich hringur til minja festar með hring Andvara festar með hring Andvara hringur til minja hringur til minja
Hohe Lehren Brünnhildas heilræði Sigurdrífu heilræði Brynhildar
Eide Siegfrieds und Brünn hildes eiðar Sigurðar og Brynhildar eiðar Sigurðar og Brynhildar eiðar Sigurðar og Brynhildar
Hagen Albensohn Högni álfa ættar
Heraus forderung Siegfrieds Áskorun Siegfrieds
Grane von edler Zucht Grani goðkynja Grani goðkynja Grani goðkynja Grani goðkynja
Trank zum vergessen vélræði minnisleysi óminnisdrykkur
Blutbrüder schaft blóð í spor bræðralag bræðralag trúnaður mægðir
Ausschluß vom Eide [Gísla saga]
Siegfried entj ungfernt Brünnhilde ekki samræði barneign barneign afmeyjun óvíst
Schwert zwischen beiden sverð í millum sverð í millum sverð í millum
Erkennung des Rings hringur þekkist hringur þekkist hringur þekkist hringur þekkist
Brünnhilde behauptet Beischlaf mit Siegfried Brynhildur heimtar að Sigurður játi samræði við hana Guðrún heimtar að Brynhildur játi samræði við Sigurð Kriemhild heimtar að Brünhild játi samræði við Siegfried
Provokation Brünnhildes ögrun Brynhildar ögrun Brynhildar ögrun Brynhildar ögrun Brynhildar
Schafer Blick Siegfrieds hvasst augnaráð Sigurðar
Mordplan an Siegfried banaráð við Sigurð banaráð banaráð banaráð banaráð
Siegfried verwundbar im Rücken óvarinn á einum stað óvarinn á einum stað óvarinn á einum stað
Doppel hochzeit tvöfalt brullaup tvöfalt brullaup
Siegfried erinnert wieder endurheimt minnis [Sörla þáttur]
Zwei Raben hrafnar Óðins hrafnar Óðins
Mord im Wald hvort tveggja í sæng í sæng í skógi í skógi í skógi
Brünnhilde läßt sich mit Sieg fried ver brennen Brynhildur lætur brenna sig með Sigurði Brynhildur lætur brenna sig með Sigurði Brynhildur lætur brenna sig með Sigurði

Tilvísanir

[1] Westernhagen, 102. Íslenzk fornrit VI, 22–23.
[2] Fornaldarsögur II, 104–106.