Undirkaflar

Rínargullið

Wagner og Völsungar

Persónur

Íslensk samsvörun

Rínardætur

Flosshilde
Wellgunde
Woglinde

[Fljóthildur]
[Vellgunnur]
[Voglinda]

Niflungar

Alberich
Mime

Andvari, Álfrekur
Reginn, Mímir

Goð

Wotan
Fricka
Freia
Donner
Froh
Loge
Erda

Óðinn
Frigg, Lofn,Vár
Freyja, Iðunn
Þór
Freyr
Loki, Logi
Jörð, Vala

Jötnar

Fafner
Fasolt

Fáfnir
Reginn

Rínargullið
Alberich rænir gullinu frá Rínardætrum (efst).
Fáfnir og Fasholt nema Freyju á brott frá Ásum og Loka, Valhöll í baksýn á miðri mynd.
Óðinn og Loki sækja Andvara og Mími heim í Niflheim (neðst).

Rínargullið - 1. atriði

Rínardætur gæta gulls í djúpum Rínarfljóts. Svartálfurinn Alberich (Andvari) leitar eftir ástum þeirra en þær leika hann grátt. Hann heyrir á gaspri þeirra að sá sem afneitar kærleikanum geti smíðað sér úr gullinu hring sem muni færa honum ótakmarkað vald. Þá bölvar hann ástinni, rænir gullinu og hefur á brott með sér en þær kveina sáran.

Texti Wagners

Samsvaranir í fornritum

R 1.1

Rínardætur heita Flosshilde, Wellgunde og Woglinde (1–10). Nöfn þeirra eru heimasmíðuð en fyrri hluti þeirra allra minnir á vatn og öldur.

[Í frumgerðinni 1848 birtast þær ekki fyrr en rétt fyrir morðið á Sigurði og þá sem spákunnugar vatnadísir með svanavængi (sjá nánar).

Í eldri gerðinni af Siegfrieds Tod birtast þær á sama stað, en þá er ekkert getið um svanavængi þeirra (SSD II, 210)].

Rínardætur eru að mestu leyti uppfinning Wagners sjálfs þótt þær kunni að vera spunnar úr ýmsum eldri þáttum.
Einn þeirra gæti verið úr Þiðreks sögu (Þ. 492–93) þar sem Högni á tal við „sjókonur“, sem voru í skemmtiferð frá Rín til Dónár og drepur tvær þeirra.

Í Nibelungenlied talar Hagen einnig við „hafmeyjar“ í Dóná (N. 1533–49). Á báðum þessum stöðum gerist þetta þó löngu eftir dráp Siegfrieds/Sigurðar, þegar Niflungar eru á leið í hinstu för sína til Atla konungs.

Svanavængir þeirra í frumgerðinni gætu átt sér rætur í Völundarkviðu (1–2) og inngangi hennar, en sem áður var rakið (bls. 21–22) samdi Wagner skömmu síðar lausamálstexta að óperu um Völund smið.

Auk þess gætu þær minnt á dætur sjávarhöfðingjanna Ægis og Ránar en þær voru reyndar níu talsins (Sk. 33). Loks gætu þrjár vitrar konur vísað til örlaganornanna sem í Völuspá (20) koma „úr sæ“ og jafnvel minnt á dverginn Andvara sem var í geddulíki og gætti gulls (Gylf. 15; Sk. 46).

R 1.2

Jarðbúinn Alberich blandar sér í leik Rínardætra og reynir að klófesta einhverja þeirra (20–196).

Nafn Alberichs er komið úr Nibelungenlied. Þar er honum í fyrstu lýst sem sterkum dverg í þjónustu Niflungakónga. Eftir að Siegfried hefur unnið fjársjóðinn af Niflungum kúgar hann Alberich til að gerast gæslumaður gullsins (N. 96–99, 493–502). Löngu seinna í ljóðinu (N. 1117–20) er Alberich nefndur „hetja“.

Nafn hans minnir einnig á dverginn Álfrek í Þiðreks sögu (34-37) sem var frægur fyrir bæði hagleik og þjófnað og stal sverðinu Naglhring handa Þiðreki.

R 1.3

Rínargullið er sjálflýsandi (196–230).

Sjálft nafnið Rínargull er hugsmíð Wagners en í öllum þeim heimildum sem hér eru bornar saman, nema Þiðreks sögu, er getið um gull í ánni Rín sem menn keppast um að eignast. Í Þiðreks sögu (572–75) er fjársjóðurinn þó fólginn inni í bjargi. Á miðöldum bar Rín fram gullsand ofarlega. Hugmynd um sjálflýsandi gull kemur samt einungis fram í frásögn Skáldskaparmála (41) af veislu sem Ægir konungur heldur goðum í höll sinni neðansjávar:

 En er goðin höfðu sest í sæti þá lét Ægir bera inn á hallargólf lýsigull það er birti og lýsti höllina sem eldur. Og það var haft fyrir ljós að hans veislu.

R 1.4

Alberich kemur auga á gullið og heyrir gaspur Rínardætra um eiginleika þess.

Woglinde:
Þá listasmíð
smáði hann vart
þekkti hann öll hennar undur.

Wellgunde:
Því auð heimsins
sá hreppir til eignar
sem úr því gulli
sjóða kann hring
er veita mun óskorað vald (250–57).

Woglinde:
Sá einn er vísar
elsku á bug
afneitar ástar
yndi og hug
hann einn mun eflt geta seiðinn
og hring úr gullinu gert
(269–74).

Alberich:
Svo auð heimsins
ég eignast ef öðlast ég þig?
Þótt ást náist ekki
með valdi, þá nær vald í nautn (299–302).

Því ljós logans ég slekk
af klettinum gríp ég gull
smíða hinn heiftrækna hring.
Já hlustaðu Rín!
Ást ég hafna um eilífð! (314–17).

Máttur gullsins, hringsins og ástarinnar er að mestu hugsmíð Wagners og á sér ekki beina fyrirmynd. Helst mætti nefna úr Snorra Eddu hringinn Draupni frá dvergnum Brokk og hring dvergsins Andvara. Þeim fylgir þó upphaflega ekki annar máttur en sá að af þeim má æxla sér enn meira fé:

Þá bar hinn [þ.e. Brokkur] fram sína gripi. Gaf hann Óðni hringinn og sagði að hina níundu hverju nótt myndu drjúpa af honum átta hringar jafnhöfgir sem hann (Sk. 43).

Dvergurinn bað hann taka ekki bauginn af sér og lést mega æxla sér fé af bauginum (Sk. 46).

Rínargullið - 2. atriði

Jötnar tveir hafa smíðað Óðni virkið Valhöll og eiga að fá Freyju fyrir. Þær Frigg skelfast en Óðinn hefur treyst á að Loki fyndi ráð til að gjalda borgarsmíðina á annan veg. Jötnarnir krefjast launa sinna. Loki kemur loks og segir frá ráni gullsins og smíði hins máttuga hrings. Jötnarnir segjast munu gera sér þau laun að góðu en taka þó Freyju með sér sem gísl. Hún ein kann að annast gullepli þau sem halda goðunum síungum. Þau gerast því brátt gömul og grá. Það verður til ráða að Óðinn tekur Loka með sér til Niflungaheims að freista þess að ná gullinu.

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

R 2.1

Goðin Wotan, Fricka, Freia, Froh, Donner og Loge koma til sögunnar hvert af öðru (323–609).

Nöfn goðanna og athæfi samsvara að miklu leyti lýsingu Snorra Eddu á Óðni, Frigg, Freyju, Frey, Þór og Loka (Gylf. 20–35). Ýmsar nafnmyndir þeirra hafa á hinn bóginn þekkst í germönskum mállýskum og Wagner mótar eiginleika þeirra nokkuð eftir sínu höfði.

R 2.2

Jötnar hafa reist rammgert virki handa Wotan og heimta Freiu, gyðju æsku og ástar sem verkalaun eins og um var samið. Að ráði Loge hafði verið gengið að kaupunum og Wotan telur sig bundinn þeim samningi (332–73).

Í sögunni um borgarsmiðinn í Snorra Eddu eru meðal annars þessi atriði (Gylf. 42):

… kom smiður nokkur og bauð að gera þeim borg á þrem misserum svo góða að trú og örugg væri fyrir bergrisum og hrímþursum þótt þeir kæmi inn um Miðgarð. En hann mælti sér það til kaups að hann skyldi eignast Freyju, og hafa vildi hann sól og mána. … En því réð Loki er það var til lagt við hann. … En að kaupi þeirra voru sterk vitni og mörg særi.

R 2.3

[Í frumgerðinni 1848 segir að jötnar séu af sérstöku ævafornu kyni, gríðarstórir og þrjóskir (bls. 78).]

Jötnar sem sérstakur kynþáttur koma víða fyrir í eddukvæðum og Snorra Eddu. Þar búa bæði kyn í Jötunheimum og guðir hrífast oft af fögrum jötnameyjum (Skírnismál; Völuspá, 8; Þrymskviða, 7, 13, 20–21; Gylf. 1, 5–8, 23, 45–47; Sk. 6).

Í öðrum heimildum svo sem Nibelungenlied (N. 94, 487–502) virðast risar aðeins vera risavaxnir karlar og hvergi sést getið um risameyjar.

R 2.4

Fricka átelur Wotan fyrir að trúa hinum svikula vini sínum, Loge:

Já þú treystir að vanda
á vélabrögð hans!
Margt böl hann bakaði oss fyrr
og veiðir þig enn í vað sinn (425–28).

Hinn lævísi Loki er ein þekktasta persóna eddukvæða og Snorra Eddu og virðist vera blendingur jötna og ása (Gylf. 33). Dularfullt samband hans við Óðin er alkunnugt og hann er á einum stað nefndur „sessi Óðins“ (Sk. 23). Logi sem persónugerving eldsins kemur fyrir í þættinum „Fundinn Noregur“.[1] Hann þreytir einnig kappát við Loga í sögunni af Útgarða-Loka (Gylf. 46–47). Wagner gerir þá að einni persónu með tvískipt eðli.

[1] Íslenzk fornrit XXIV, 3

R 2.5

Jötnarnir Fasolt og Fafner koma á sviðið (449–50).

Í fyrstu gerð Rínargullsins frá nóvember 1851 heita jötnarnir tveir Windfahrer og Reiffrost (Strobel, 203). Fjórum mánuðum seinna hafa þeir fengið nöfnin Fasolt og Fafner (Strobel, 209).

Eldri nöfnin gætu verið þýskun á íslenskum heitum hrímþursa eins og Vindsvalur í Gylfaginningu (19) og Hrímnir í Völsungu (5–6).

Fáfnir er að sjálfsögðu alkunnur úr eddukvæðum, einkum Reginsmálum og Fáfnismálum, Snorra Eddu (Sk. 46–47) og Völsungu (30–33, 36–39).

Nafnið Fasolt er sótt í Þiðreks sögu (144 o.v.) en komst þaðan inn í hetjukvæði og sögur sem þýsk skáld og fræðimenn settu saman á 19. öld. Vera má að Wagner hafi valið þetta nafn af því það stuðlaði við Fafner en bræður Fáfnis heita í íslenskum sögnum Reginn og Otur (Sk. 46–47).

R 2.6

Fafner bendir Fasolt á að Freia eigi gullepli sem séu goðunum ekki siður dýrmæt en hún sjálf þvi úr þeim öðlist þau eilífa æsku og án þeirra muni þau hrörna. (530–45).

Hér er sögu Snorra Eddu um epli Iðunnar snúið upp á Freyju en þar segir fyrst í kynningu Hárs á goðum (Gylf. 26):

Bragi heitir einn. … Kona hans er Iðunn. Hún varðveitir í eski sínu epli þau er goðin skulu í bíta þá er þau eldast, og verða þá allir ungir.

R 2.7

Donner hefur í frammi hótanir um valdbeitingu í garð jötnanna og Loge (557–67, 637–38, 1595–1604).

Ógnanir þessar eiga sér ýmsa fyrirmynd í framgöngu Þórs í goðakvæðum, t.d. Völuspá (26), Lokasennu (63–64) og víða í Snorra Eddu.

R 2.8

Wotan bannar Donner að beita valdi því fara skuli eftir gerðum samningum (568–72).

Vísan Wotans til þess að halda skuli reglur og samninga minnir á það sem sagt er um Óðin í Ynglinga sögu Heimskringlu (8):

Óðinn setti lög í landi sínu, þau er gengið höfðu fyrr með Ásum.

R 2.9

Lagt er fast að Loge með hótunum eða vinmælum að finna ráð til að frelsa Freiu (577–645).

Í Snorra Eddu (Gylf. 42) er þannig til orða tekið:

En það kom ásamt með öllum að þessu mundi ráðið hafa sá er flestu illu ræður, Loki Laufeyjarson, og kváðu hann verðan ills dauða ef eigi hitti hann ráð til að smiðurinn væri af kaupinu.

R 2.10

Jötnarnir fallast á að þiggja hið rauða Rínargull í staðinn fyrir Freiu (681–84, 712–20, 730–35, 792–802).

Ekki er venjulegur þýskur talsmáti að segja gull vera rautt en algengt á íslensku. Sennilega er um áhrif þaðan að ræða, t.d. úr Reginsmálum (9):

„Rauðu gulli,“ — kvað Hreiðmar,
„hygg eg mig ráða munu
svo lengi sem eg lifi.”

R 2.11

Um leið og jötnarnir taka Freiu í gíslingu byrja goðin að fölna og verða máttfarin, hárið gránar, hamarinn sígur úr hendi Donners. Loge segir það sé vegna epla Freiu sem séu í gíslingu með henni og þetta hafi jötnar vitað (851–97).

Ráni Iðunnar og eplanna er svo lýst í Snorra Eddu (Sk. 2–3):

En að ákveðinni stefnu teygir Loki Iðunni út um Ásgarð í skóg nokkurn og segir að hann hefir fundið epli þau er henni munu gripir í þykja, og bað að hún skal hafa með sér sín epli og bera saman og hin. Þá kemur þar Þjassi jötunn í arnarham og tekur Iðunni og flýgur burt með í Þrymheim til bús síns. En æsir urðu illa við hvarf Iðunnar, og gjörðust þeir brátt hárir [gráhærðir og gamlir.

R 2.12

Wotan og Loge leggja af stað niður í Nibelheim til að freista þess að ræna gullinu frá Alberich. Donner og Froh kveðja þá með árnaðaróskum og Fricka biður Wotan að koma brátt aftur tiI hinnar kvíðafullu konu sinnar (903–28).

Athæfið minnir annarsvegar á tvennar sendiferðir Loka til svartálfa í því augnamiði að ná af þeim gulli og töfragripum (Sk. 43, 46). Kveðjuávörpin minna hinsvegar á kveðjuorð Friggjar til Óðins í Vafþrúðnismálum (4) þegar hann fer að finna hinn margvísa jötun:

Heill þú farir
heill þú aftur komir
heill á sinnum sér.

Rínargullið - 3. atriði

Alberich hefur smíðað sér hringinn og kúgar svartálfa alla til að mala sér meira gull. Mímir bróðir hans hefur auk þess neyðst til að gera honum töfrahjálm en með honum getur hann gert sig ósýnilegan og breytt sér í allra kvikinda líki. Alberich sannar Óðni og Loka mátt hringsins og hvernig hann getur breytt sér í dreka með hjálminum. Loki vélar hann til að sýna að hann geti líka breytt sér í lítinn frosk. Þannig tekst þeim að fanga Alberich og færa hann með sér til goðheima.

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

R 3.1

Alberich kúgar Mime bróður sinn til að smíða sér töfrahjálm (951–62).

[Í frumgerðinni 1848 (sjá nánar) kynnir Wagner þennan bróður Alberichs með nöfnunum Reigin (Mime-Eugel).]

Reginn smiður er þekktur úr Reginsmálum, Fáfnismálum, Völsungu (29–41) og Snorra Eddu (Sk. 46–47) þar sem hann er alstaðar bróðir Fáfnis og fóstri Sigurðar. Hann kemur einnig fyrir í dvergatali Völuspár (12). Í Þiðreks sögu er hann bróðir Mímis smiðs en breytist sjálfur í orm (Þ. 231).

Mímir sem vitur jötunn kemur fyrir í Völuspá (28, 46), Sigurdrífumilum (14) Skáldskaparmálum (51) og víðar. Í Þiðreks sögu (231–32) er Mímir aftur á móti frægur smiður og fóstri Sigurðar, en ekki neinn dvergur. Í Ynglinga sögu Heimskringlu (4. kafla) er Mímir misvitur gísl hjá Vönum. Þeir höggva af honum hausinn og senda Óðni en hann magnar höfuðið með göldrum og hefur með sér til spásagna.[1]

Mime er hvergi nefndur í Nibelungenlied.

Í Lied vom Hürnen Seyfrid er Eugel konungur dverga þeirra sem risinn Kuperan hefur kúgað undir sig.

Í leikritinu Sigurður Fáfnisbani eftir Motte Fouqué heitir þessi persóna Reigen en smám saman breytti Wagner nafni smiðsins úr Reigin í Mime sem getur reyndar merkt leikari á þýsku.

[1] Íslenzk fornrit XXVI, 12–13,18.

R 3.2

Með töfrahjálminum getur Alberich gert sig ósýnilegan eða breytt útliti sínu (963–72).

Wagner breytir töfragripnum úr kufli í hjálm og bætir við hann þeim eiginleika að með hann á höfðinu geti menn skipt hömum.

Í Reginsmálum (14–15), Fáfnismálum (16), Skáldskaparmálum (47) og Völsungu (38–39) er getið um „ægishjálm“ sem Hreiðmar átti og Fáfnir rændi og allir óttast en hann er ekki sagður hafa neina huliðseiginleika.

Í Nibelungenlied kúgar Siegfried töfrakufl af Alberich. Í honum verður Siegfried ósýnilegur en ekki er nefnt að hann geti breytt útliti sínu (N. 97, 431, 653, 661).

Um Sigurð og Gunnar í Grípisspá (37–39), Skáldskaparmálum (48) og Völsungu (55) er einungis sagt að þeir skiptu litum [útliti].

R 3.3

Alberich kallar sitt eigið fólk svartálfa en goðin ljósálfa (1152–1200).

Í Snorra Eddu segir meðal annars um Álfheim (Gylf. 17):

Þar byggir fólk það er ljósálfar heita. En dökkálfar búa niðri í jörðu, og eru þeir ólíkir sýnum og miklu ólíkari reyndum. Ljósálfar eru fegri en sól sýnum, en dökkálfar eru svartari biki.

R 3.4

Loge manar Alberich til að breyta sér í frosk og þannig handsama þeir Wotan hann og færa í fjötra (1296–1317).

Slægð Loka við að ná Alberich á vald sitt minnir mest á ævintýri um stígvélaða köttinn, sem vélar ófreskju til að breyta sér í mús og hremmir hana síðan.

Helstu líkindi úr íslenskum ritum eru sendiför Loka í Svartálfaheim að afla gulls til að leysa sjálfan sig og Óðin frá bráðum bana í prísund Hreiðmars, Fáfnis og Regins og frá segir í Skáldskaparmálum (46).‘

Einn dvergur hét Andvari. … Hann var jafnan í fossinum, er Andvarafoss heitir, í geddu líki og fékk sér þar matar. … Þá sendu þeir Loka að afla gullsins. Hann kom til Ránar og fékk net hennar, fór þá til Andvarafoss og kastaði netinu fyrir gedduna en hún hljóp í netið.

Rínargullið - 4. atriði

Fyrir frelsi sitt verður Alberich að láta af hendi allt gull sitt, siðan töfrahjálminn og loks hringinn. Hann leggur þá bölvun á að hringurinn skuli verða hverjum þeim höfuðsbani sem komist yfir hann. Jötnarnir koma með Freyju og gullinu er hlaðið upp til að hylja hana. Óðinn vill halda hringnum eftir en jötnarnir krefjast hans líka. Óðinn lætur loks undan þegar völvan Erda (Jörð) birtist og varar við álögum hringsins. Jötnarnir deila um gullið, Fáfnir drepur bróður sinn og sölsar allt undir sig. Meðan goðin halda um regnbogabrúna Bifröst til Valhallar heyrast kveinstafir Rínardætra neðan úr dalnum.

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

R 4.1

Wotan og Loge kúga allt gullið af Alberich ásamt huliðshjálmi hans og töfrahring. Wotan slítur að lokum hringinn með valdi af Alberich og dregur hann á fingur sér. Alberich leggur magnaða bölvun á hringinn:

Fyrir bölvun hlaut ég hring
nú hringnum bölva ég.
Gull hans gaf
mér gífurlegt vald
hans töfrar tryggi
bana þeim er hann ber!
Ei glaðri lund
gleði hann fær
engum hamingiumanni
neitt happ né bros.
Sá sem hann á
af sorgum skal bugast
sá sem á ekki
sé öfundar bráð.
Sérhver girnast
mun gæði hans
en enginn hans njóta
svo not verði af.

Svo blessar
í bágri neyð
einn svartálfur hringinn sinn.
Nú hirðið hann
hafið á gát!
Bölvun mín bresta mun seint
(1486–1519).

Orðaskipti og atburðarás minna mest á  söguna um dverginn Andvara þegar Loki hefur kúgað allt gullið af honum. Það er að finna í Reginsmálum (4–5) og Völsungu (32) en gleggst í Skáldskaparmálum (46):

En er þeir koma í steininn bar dvergurinn fram allt það gull er hann átti og var það allmikið fé. Þá svipti dvergurinn undir hönd sér einum litlum gullbaug. Það sá Loki og bað hann bauginn fram láta. Dvergurinn bað hann taka ekki bauginn af sér og lést mega æxla sér fé af bauginum. Loki kvað hann eigi skyldu einn pening hafa eftir og tók bauginn af honum og gekk út. En dvergurinn mælti að sá baugur skyldi vera hverjum höfuðsbani er ætti.

Í Reginsmálum (5) mælir dvergurinn um leið og hann gengur í steininn:

Það skal gull
er Gustur átti
bræðrum tveim
að bana verða,
og öðlingum
átta að rógi,
mun mins fjár
manngi njóta.

Loki sagði, að honum þótti það vel og sagði, að það skyldi haldast mega fyrir því sá formáli, að hann skyldi flytja þeim til eyrna, er tæki við. Fór hann brott og kom til Hreiðmars og sýndi Óðni gullið. En er hann sá bauginn, sýndist honum fagur og tók hann af fénu.

Í Nibelungenlied hvílir engin sérstök bölvun á hring þeim sem í fyllingu tímans verður eitt af sannindamerkjum þess að Siegfried hafi sængað hjá Brünnhilde (N. 679, 847–48). Þar er baugurinn ekki annað en glæstur skartgripur og engir töfrar tengjast honum. Sama er að segja um fingurgull Brynhildar í Þiðreks sögu (310, 467).

R 4.2

Jötnarnir krefjast svo mikils gulls að unnt sé að hylja með því allt sköpulag Freiu.

Wotan:
Nú gjaldið skal goldið
og gullið allt mælt
sem réttast og metið.

Fasolt:
Að missa konu
veldur mér sárustu sorg.
Eigi hún að hverfa úr hug mér
þá skal haugur gulls
hylja hana sýn
og auga mitt
þá aldregi sjá hana meir.

Wotan:
Svo Freyju mynd
þá miða skal við (1557–68).

Krafa jötnanna um að Freia skuli hulin með gulli á sér greinilega fyrirmynd í frásögninni um oturgjöldin þótt nokkuð sé ólíku saman að jafna, ástargyðju og nagdýri. Hún er í Skáldskaparmálum (46–47), Völsungu (30–32) og Reginn segir þannig frá í lausu máli í upphafi Reginsmála:

Óðinn og Hænir og Loki höfðu komið til Andvarafors. … „Otur hét bróðir vor,“ kvað Reginn, „er oft fór í forsinn í oturslíki. Hann hafði tekið einn lax og sat á árbakkanum og át blundandi. Loki laust hann með steini til bana. Þóttust æsir mjög heppnir verið hafa og flógu belg af otrinum. Það sama kveld sóttu þeir gisting til Hreiðmars og sýndu veiði sína. Þá tókum vér þá höndum og lögðum þeim fjörlausn að fylla oturbelginn með gulli og hylja utan og með rauðu gulli.“

R 4.3

Eftir að Freia hefur verið þakin með öllu gullinu, sér Fafner eitt hár hennar og Loge verður að hylja það með töfrahjálminum. Þá þykist hinn ástfangni Fasolt enn sjá glitta í augnaráð hennar:

Vei, hér blikar
brúnaljós skært
og hvarmasól
sindrar og hlær.
Það má ég greina
gegnum rauf.
Sjái ég yndislegt auga
verður konan ávallt mér kær.

Fafner:
Ykkur ræð ég
að rauf sú lokist.

Loge:
Auraþursar!
Þið getið séð
að þrotið er gull.

Fafner:
Félagi, nei!
Á fingri Óðins
gull má greina í hring
sem getur raufinni lokað (1620–36).

Wotan:
Allt þér frekum skal falt
allt skal ég veita
en veröld öll
skal ei metin móti þeim hring.

Fasolt:
Föst er þá
hin fyrri sátt
og Freyja er okkar um eilífð
(1652–58).

Á bak við þetta átakamikla atriði liggja atvik í fornsögunni í framhaldi af því að Loki hefur rænt gulli dvergsins Andvara og hringnum. Þau eru hér tekin úr Skáldskaparmálum (46):

[Óðinn] greiddi Hreiðmari gullið. Þá fyllti hann oturbelginn sem mest mátti í leggja og setti upp er fullur var. Gekk þá Óðinn til og skyldi hylja belginn sem mest mátti í liggja með gullinu. Og þá mælti hann við Hreiðmar að hann skal sjá hvort belgurinn er þá allur huldur. En Hreiðmar leit á vandlega og sá eitt granahár og bað það hylja, en að öðrum kosti væri lokið sætt þeirra.

R 4.4

Völvan Erda stígur upp úr jörðu:

Allt það er var veit ég.
Hvað verða mun
hvað ávallt verður
allt sé ég
ég völvan fyrst
veraldar
Jörð, ég vara þig við (1672–78).

Allt það sem er endar.
Því ragnarök
reyna fá æsir.
Nú heyr mig! Forðastu hring! (1688–91).

Ég varað hef.
Nú veiztu nóg.
Hugðu í ótta að (1695–97).

Erda merkir jörð, og Jörð er þekkt úr Snorra Eddu sem beðja Óðins og móðir Ása-Þórs (Gylf. 10, 36; Sk. 11). Sum fyrrgreindra orða Erdu minna á Völuspá (43, 47):

Fjöld veit hún fræða,
fram sé eg lengra,

og hina frægu áminningu í lok nokkurra vísna (27–28, 33–34, 38, 40, 50, 60–61):

Vituð ér enn, eða hvað?

R 4.5

Wotan lætur að lokum undan:

Til mín, Freyja!
Ég frelsa þig!
Fríð ertu keypt.
Æskan er okkar á ný.
Þið jötnar, hirðið nú hring (1711–15).

Hann kastar hringnum á hauginn. Jötnarnir láta Freyju lausa.

Þessum kafla sögunnar í Snorra Eddu (Sk. 46) lýkur með þessum orðum:

Þá dró Óðinn fram bauginn og huldi hárið og sagði að þá voru þeir lausir frá oturgjöldum. En er Óðinn hafði tekið geir sinn en Loki skúa sína, og þurftu ekki að óttast, þá mælti Loki að það skyldi haldast er Andvari hafði mælt, að sá baugur og það gull skyldi verða þess manns höfuðsbani er ætti. Og það hélst síðan.

R 4.6

Jötnarnir deila og berjast um hringinn og skiptingu gullsins.

Fasolt:
Hægt nú svíðingur
sjóð á ég með þér! (1716–17).

Fafner:
Skipti ég fé
felli ég dóminn
að meiri helftin sé mín (1726–28).

Fasolt:
Far burt þú hrotti!
Hringinn á ég
og fékk hann við Freyju brá.

Fafner:
Hrammana burt!
Þann hring á ég! (1736–40).

Hann drepur bróður sinn og tekur hringinn af likinu.

Í Reginsmálum heldur sagan þannig áfram í óbundnu máli (9–12):

Fáfnir og Reginn kröfðu Hreiðmar niðgjalda eftir Otur bróður sinn. Hann kvað nei við. En Fáfnir lagði sverði Hreiðmar föður sinn sofanda. … Þá dó Hreiðmar en Fáfnir tók gullið allt. Þá beiddist Reginn að hafa föðurarf sinn en Fáfnir galt þar nei við.

R 4.7

Regnbogabrú liggur yfir djúpan dal að hinu nýreista virki.

Froh:
Til borgar nær Bifröst
létt en föst undir fót.
Nú gangið greitt
hennar geiglausa stig (1790–93).

Hugmyndin um regnbogabrú er augsýnilega tekin úr Gylfaginningu þar sem oft er getið um brúna Bifröst en greinilegast í 13. kafla:

Þá mælir Gangleri: „Hver er leið til himins af jörðunni?“ Þá segir Hár og hló við: „Eigi er nú fróðlega spurt. Er þér ei sagt það er guðin gerðu brú af jörðu til himins er heitir Bifröst? Hana muntu séð hafa. Kann vera að kallið þér regnboga. Hún er með þrem litum og mjög stór og gerð með list og kunnustu meiri en aðrar smíðir.“

R 4.8

Wotan býður Fricku að búa með sér í Walhall:

Fylgdu mér Frigg.
Í Valhöll vertu með mér!

Fricka:
En hvað þýðir nafnið?
Nýtt er það fyrir mér Óðinn.

Wotan:
Mín hugsjón er brann
í beyglausum hug
ef baráttan vinnst
skýra mun skilning þess (1810–17). 

Nafnið Walhall kemur ekki fyrr til sögunnar en á þessum stað í Hringnum. Það er komið úr eddukvæðum, Völuspá (33), Grímnismálum (8–10, 24–26), Hyndluljóðum (1), Atlakviðu (2, 14) og Snorra Eddu. Valhöll er ítarlegast lýst í Gylfaginningu (38–41) og Grímnismilum (24):

 

Fimm hundruð dura
og um fjórum tögum
svo hygg eg að Valhöllu vera.

Átta hundruð einherja
ganga senn úr einum durum
þá er þeir fara að vitni að vega.

Rínargullið — lokaatriðið.
Æsir ganga til Valhallar, Loki lítur til Rínardætra.
(Teikning T. Pixis 1869.)

Rínargullið - Yfirlit

Texti
Wagners
Eddu-
kvæði
Snorra
Edda
Völsunga
saga
Þiðreks
saga
Niebelungen-
lied
Hürnen
Seyfrid
Rheintöchter Ránardætur sjókonur Meerfrauen
Rheingold gull í Rín gull í Rín gull í Rín gull í Rín gull í Rín
Goldglanz lýsigull
Unterirdisches Geschlecht hagir dvergar svartálfar í jörðu hagur dvergur hagur dvergur sterkur dvergur dvergakóngur
Alberich Andvari Andvari Andvari Álfrekur Alberich
Alberichs Ring hringur hringur dvergs hringur dvergs hringur dvergs hringur
Macht des Rings æxlun fjár Draupnir
Riesen jötnar jötnar stórir menn risar
Burg borgarsmíð
Riesen begehren Freia jötnar heimta Freyju dreki rænir kóngsdóttur
Vertrauen W. zu Loge Lokasenna Þrymskviða samband Óðins og Loka
Fafner Fáfnir Fáfnir Fáfnir
Fasolt Fasolt
Äpfel Freias epli Iðunnar
ewige Jugend eilíf æska
Tarnhelm ægishjálmur ægishjálmur ægishjálmur
W. und Loke verraten Alberich Loki svíkur dverga Loki svíkur Andvara
Fluch Alberichs bölvun dvergs bölvun dvergs bölvun dvergs
Freia mit Gold bedeckt belgur hulinn með gulli belgur hulinn með gulli belgur hulinn með gulli
Erdas Weisheit: wie alles war weiß ich, wie alles wird, seh ich auch. Völuspá: fjöld veit eg fræða, fram sé eg lengra
Du weißt genug! Vitið þér enn?
Fafner tötet Fasolt Fáfnir drepur Hreiðmar Fáfnir og Reginn drepa Hreiðmar Fáfnir drepur Hreiðmar
Richard Wagner gengur eftir Bifröst
frá Festspielhaus til Valhallar