Undirkaflar

Siegfried

Wagner og Völsungar

Persónur

Íslensk samsvörun

Menn

Siegfried

Sigurður

Valkyrja

Brünnhilde

Brynhildur

Niflungar

Alberich
Mime

Andvari
Mímir

Goð

Der Wanderer

Gangráður/Óðinn

Jötunn / ormur

Fafner

Fáfnir

Völva

Erda/Wala

Jörð/Vala

Skógarfugl

Waldvogel

Igður

Reginn (Mímir) smíðar Sigurði sverð.
(Tréskurður frá 12. öld af kirkjudyrum í Hylested í Noregi)

Siegfried - I. þáttur

1. atriði

Mímir bróðir Alberichs hefur alið hinn óttalausa Sigurð svein upp í helli inni í skógi. Móðir hans hafði látist þar við barnsfæðinguna. Mímir vonast til að Sigurður nái að vinna Fáfni sem liggur á gullinu í ormslíki. Til þess þarf að smíða nýtt sverð úr brotunum en til þess skortir Mími kunnáttu. — Til Mímis kemur Óðinn í dulargervi, ginnir hann til gátuleiks og kveður með þeim orðum að sá einn geti smíðað sverðið sem ekki kunni að hræðast. — Sigurður smíðar því sverðið í óvitaskap sínum en Mímir bruggar ráð til að myrða sveininn á eitri þegar ormurinn sé unninn.

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

S I 1.1

Mime keppist í helli sínum við að reyna að smíða Siegfried sverð en hann brýtur þau jafnharðan. Mime geymir brotin af sverði Siegmunds en ræður ekki við að smíða úr þeim. Hann veit samt, að með því sverði getur Siegfried einn sigrað orminn Fafner sem liggur á gullinu og hringnum. Siegfried sýnir fóstra sínum mikla andúð (4142-447).

[Í fyrsta uppkasti af Siegfried (Strobel, 66) er Mime látinn smíða tvö sverð sem Siegfried brýtur.]

Við 3. atriði Rínargullsins (R 3.1) var gerð grein fyrir þróun Wagners á nafni smiðsins: Reigin >Mime og uppruna beggja.

Í Þiðreks sögu fóstrar Mímir Sigurð en milli þeirra ríkir snemma gagnkvæm óvild og þar reynir Mímir ekki einu sinni að smíða honum neitt sverð (231-32).

Í kvæðinu Hürnen Seyfrid er smiðurinn ekki nafngreindur. Seyfrid er aðeins lærlingur hjá honum og ekkert sverð er smíðað (HS 5).

Í Nibelungenlied er hvorki minnst á fóstra Siegfrieds né smíði sverðs.

Í Reginsmálum, Skáldskaparmálum (47) og Völsungu er Reginn smiður við hirð Hjálpreks konungs sem er tengdafaðir Hjördísar móður Sigurðar. Í inngangi Reginsmála segir um Regin smið:

Hann var hverjum manni hagari og dvergur of vöxt. Hann var vitur, grimmur og fjölkunnigur. Reginn veitti Sigurði fóstur og kennslu og elskaði hann mjög.

Í Reginsmálum og Völsungu tekst smíðin eftir þrjár tilraunir. Þannig er frá því greint í Völsungu og vottar þar reyndar fyrir andúð í garð Regins af hálfu Sigurðar (V. 33):

Reginn gerir nú eitt sverð og fær í hönd Sigurði. Hann tók við sverðinu og mælti: „Þetta er þitt smíði, Reginn,“ og höggur í steðjann, og brotnaði sverðið. … Reginn gerir annað sverð og fær Sigurði. … Sigurður reynir þetta sverð og brýtur sem ið fyrra. Þá mælti Sigurður til Regins: „Þú munt líkur vera inum fyrrum frændum þínum og vera ótrúr.“

S I 1.2

Siegfried veit ekkert um uppruna sinn. Eftir nokkurt þóf segir Mime frá því að hann hafi fundið móður Siegfrieds í barnsnauð úti í skógi og hjálpað henni inn í hellinn. Hún dó við fæðinguna en hafði áður falið honum sveininn á hendur, sagt að faðir hans væri fallinn, hún héti Sieglinde og sonurinn ætti að heita Siegfried (4457–504).

[Í frumgerðinni 1848 segir að Sieglinde fæði soninn í óbyggðum eftir langa meðgöngu (bls. 80).]

Vitundarleysi Siegfrieds um uppruna sinn á sér samsvörun í Þiðreks sögu (229–32) þar sem hvítvoðunginn Sigurð svein rekur í potti upp á eyri. Hind ein finnur hann og fóstrar þar til Mímir smiður rekst á barnið og tekur það að sér.

Orðalagið í frumgerðinni minnir á hina ofurlöngu meðgöngu móður Völsungs (sbr. W I 3.2), langömmu Sigurðar í Völsunga sögu (5–6):

Nú fer inu sama fram um vanheilsu drottningar að hún fær eigi alið barnið, og þessu fer fram sex vetur, að hún hefir þessa sótt. Nú finnur hún það að hún mun eigi lengi lifa, og bað nú að hana skyldi særa til barnsins, og svo var gert sem hún bað. Það var sveinbarn, og sá sveinn var mikill vexti þá er hann kom til, sem von var að. Svo er sagt að sjá sveinn kyssti móður sína áður hún dæi.

S I 1.3

Loks dregur Mime fram brotin af sverði Siegmunds sem Sieglinde hafði fært honum deyjandi. Siegfried heimtar að Mime smíði handa sér sverð úr brotunum (4518–43).

Í Völsunga sögu fær Sigurður sverðsbrotin sjálfur hjá Hjördísi drottningu móður sinni sem enn er á lífi. Þegar Reginn hefur tvisvar orðið að gefast upp við að gera honum nógu gott sverð, gengur Sigurður til móður sinnar (V. 33):

Hún fagnar honum vel; talast nú við og drekka. Þá mælti Sigurður: „Hvort höfum vér rétt til spurt að Sigmundur konungur seldi yður sverðið Gram í tveim hlutum?“ Hún svarar: „Satt er það.“ Sigurður mælti: „Fá mér í hönd, eg vil hafa.“ Hún kvað hann líklegan til frama og fær honum sverðið. Sigurður hittir nú Regin og bað hann þar gera af sverð eftir efnum. Reginn reiddist og gekk til smiðju með sverðsbrotin og þykir Sigurður framgjarn um smíðina.

2. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

S I 2.1

„Förumaður“ (Wotan) kemur til Mimes, ávarpar hann sem „vitran smið“, kveðst vera þreyttur af göngu, beiðist hvíldar og vísar til skyldu gestrisninnar (4586–89).

Í eddukvæðum er getið um skyldu við gesti, húsaskjól, hlýju, mat, drykk, klæði, gott viðmót og samræður, t.d. í Hávamálum (2–4) og Gylfaginningu (2). Í Vafþrúðnismálum, sem eru helsta fyrirmynd þessa atriðis, svarar Óðinn svo spurningu jötunsins (8):

Gagnráður ég heiti, 
nú emk af göngu kominn
þyrstur til þinna sala.

Laðar þurfi
hefi eg lengi farið
og þinna andfanga, jötunn.

S I 2.2

Mime spyr hver sé að leita hann uppi í eyðiskóginum (4590–92).

Vafþrúðnir spyr á svipaðan hátt (7):

Hvað er það manna
er í mínum sal
verpumk orði á?

S I 2.3

Wotan kveðst vera kallaður Wanderer (förumaður) og hafa farið um veröld víða (4593–96).

Ýmsar heimsóknir Óðins í dulargervi eru alkunnar í eddukvæðum og Snorra Eddu. Sum dulnefni hans merkja líka förumann svo sem Gangleri í Grímnismálum (46) og Vegtamur í Baldurs draumum (6,13).

S I 2.4

Sumar ljóðlínur þessa atriðis virðast allt að því bein þýðing úr eddukvæðinu Vafþrúðnismálum:

Viel erforscht’ ich
erkannte viel.
Wichtiges konnt’ich
manchem kunden.
(4607–08

Fjöld eg fór,
fjöld eg freistaða,
fjöld eg reynda regin.

(3. vísa og margar fleiri)

S I 2.5

Wotan vill veðja höfði sínu í viskukeppni (4633–40).

Atburðarásin er mjög svipuð og í Vafþrúðnismálum:

Gestur heilsar húsráðanda hátíðlega. Viskukeppni er ákveðin og lífið lagt undir.

Heimamaður spyr á undan.

Gesturinn svarar öllum spurningum rétt.

Gesturinn setur fram nokkrar spurningar.

Heimamaður svarar þeim lengi vel rétt.

Gesturinn leggur fram spurningu sem hinn getur ekki vitað svar við.

Heil dir, weiser Schmied! (4586)

Í Vafþrúðnismálum nefnist Óðinn í handritinu Gagnráður og gæti merkt þann sem gefur gagnleg ráð (8). Óðinsheitið Gangráður kemur einnig fyrir í nafnaþulum en það gæti einmitt merkt förumaður. Sumir fræðimenn hafa talið að sú mynd væri réttari og hér væri einungis um stafavíxl að ræða í handritinu. Í þýðingu Simrocks er nafnmyndin Gangráður notuð og hana hefur Wagner þekkt.[1]

Óðinn þreytir viskukeppni við jötuninn Vafþrúðni og leggur líf sitt við. Mikill munur er reyndar á hinum stolta jötni í sal sínum, sem setur leikreglurnar, og hinum huglitla dverg í helli sínum langt inni í skógi. Vafþrúðnir er þegar reiðubúinn að etja kappi en Mime færist undan í lengstu lög og vill losna við gestinn. Hjá Wagner er ekkert jafnræði með keppendum og „alsviður“ [alvitur] jötunn í Vafþrúðnismálum verður að „vitrum“, „fróðum“ eða „heiðarlegum“ smið, dverg eða Niflung, með greinilegum háðstón í munni Wotans:

Heill þú nú, Vafþrúðnir!
… alsviður, jötunn (6)

S I 2.6

Efni spurninganna og svörin við þeim eru samt talsvert önnur en viðmælenda í Vafþrúðnismálum (4655–808). Þær eru í stórum dráttum upprifjun á ýmsu sem áður er fram komið, svo sem um heimkynni Niflunga, svartálfa, jötna, ljósálfa, goða og hetja, og um sverðið Notung (sbr. 0.1–02; R 2.3, R 3.3; W I 3.1, 3.3; W II 5.1; W III 1.3; S I 1.1, 1.3).

Mime og Wanderer (Óðinn)
(Mynd eftir A. Rackham)

S I 2.7

Um jötna er því bætt við að þeir eigi heima í Riesenheim (4675–77).

[Í lausamálsgerðinni að Siegfried vorið 1851 spyr Mime einnig um jötna og fær svarið (Strobel, 74):

Riesenheim ist ihr land: frost und hitze hat sie gezeugt. (Þeir búa í jötunheimum og hafa æxlast úr frosti og hita).

Í bundna málinu, sem Wagner orti snemmsumars 1851, er þessari hugmynd enn haldið (Strobel, 121):

Riesenheim ist ihr land
frost zeugte sie
hitze gebar sie.
]

Þessi hugmynd virðist tekin beint úr 5. kafla Gylfaginningar þar sem segir frá hinum hrímþöktu norðurám, Élivogum, og logagneistum sunnan úr Múspelli:

Og er mættist hríminu blær hitans, svo að bráðnaði og draup, og af þeim kvikudropum kviknaði með krafti þess er til sendi hitann og varð manns líkindi og er sá nefndur Ýmir. En hrímþursar kalla hann Aurgelmi og eru þaðan komnar ættir hrímþursa.

Sama hugmynd er í 31. vísu Vafþrúðnismála:

Úr Élivogum
stukku eiturdropar
svo óx uns úr varð jötunn.

S I 2.8

Der Wanderer spyr Mime að lokum hver muni smíða sverð úr brotunum af Notung (4819–22).

Þessi spurning er vissulega önnur en lokaspurning Óðins í Vafþrúðnismálum (54), hverju Óðinn hafi hvíslað í eyra Baldri áður hann stigi á bálið, en hún er samkynja að því leyti að enginn gat vitað svarið nema spyrjandinn sjálfur.

3. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

S I 3.1

Mime segir Siegfried að ormurinn Fafner liggi ekki langt frá helli þeirra, í Neidhöhle (4975–85).

[Í frumgerðinni 1848 láta jötnarnir ónafngreindan orm geyma gullið á Gnitaheide (sjá nánar) og í Siegfrieds Tod frá nóvember 1848 segir Siegfried enn frá því að ormurinn hafi engst á „eyðilegri heiði“ (SSD II, 219). Þegar Wagner ákvað að semja sérstaka og hugljúfa óperu um æsku Siegfrieds, flutti hann sjónarsviðið inn í skóg. Slíkt umhverfi var reyndar í samræmi við bæði Þiðreks sögu (234) og Hürnen Seyfrid (6–7) þótt þar liggi drekinn ekki á neinu gulli. Í fyrstu gerð Siegfrieds vorið 1851 heitir ormurinn þegar Fafner, og hann er þar sagður liggja í Neidwald („Níðskógi“) (Strobel, 66).]

Örnefnið Gnitaheiði er í millitexta Reginsmála (14–15), inngangi Fáfnismála, Grípisspá (11), Atlakviðu (6), Völsungu (30) og í Skáldskaparmálum segir (47):

Fáfnir fór upp á Gnitaheiði og gjörði sér þar ból og brást í ormslíki og lagðist á gullið.

 

Stofninn neid (öfund, hatur, níð) í hinni endanlegu gerð, Neidhöhle, hefur að vísu nokkra hljóðlíkingu við gnit í Gnitaheiði en nafnið minnir einnig á hinn alræmda Gnipahelli sem Simrock nefndi í þýðingu sinni Gnipahöhle í hinu ógnvekjandi stefi Völuspár (43, 47, 56):

Geyr nú Garmur mjög
fyr Gnipahelli.

Siegfried (Max Lorenz með sverðið Notung
Siegfried, Bayreuth 1934

S I 3.2

Siegfried kann ekki að hræðast en langar að læra það áður en hann fer út í heiminn. Mime segir að Fafner muni geta kennt honum að hræðast og það vill Siegfried (4970–90).

Um Sigurð segir í Völsunga sögu (47):

Eigi skorti hann hug og aldri varð hann hræddur.

Wagner uppgötvaði snemma skyldleika þessa minnis við ævintýrið um strákinn sem fór út í heim til að læra að hræðast og eykur þaðan nokkrum dráttum í mynd hins knáa sveins.[1]

S I 3.3

Siegfried klifar á því að Mime smíði sverðið úr brotunum af sverði Siegmunds áður en hann finnur orminn. Wotan hafði sagt Mime að sá einn gæti smíðað það sem ekki kynni að hræðast. Siegfried smíðar því sverðið (33) sjálfur og klýfur með því steðja Mimes niður í rót svo hann fellur í tvennt (4850–58, 4991–5279).

[Í vésögninni (80) smíðar Siegfried sverðið eftir leiðbeiningum Mimes.]

Hér bregður fyrir öðru þýsku ævintýraminni sem er náskylt sögunni um Átján barna föður í álfheimum þegar Mime horfir á Siegfried smíða sverðið og gefur frá sér samskonar undrunarhróp: Nú er ég svo gamall … (5044–46).[1]

Í Reginsmálum (14–15), Skáldskaparmálum (47) og Völsunga sögu smíðar Reginn sverðið úr brotunum handa Sigurði og í öllum þessum verkum klýfur hann steðja smiðsins. Í Völsungu er frásögnin þannig:

Reginn gerir nú eitt sverð. Og er hann bar úr aflinum sýndist smiðjusveinum sem eldar brynni úr eggjunum; biður nú Sigurð við taka sverðinu og kveðst eigi kunna sverð að gera ef þetta bilar. Sigurður hjó í steðjann og klauf niður í fótinn, og brast eigi né brotnaði.

Í Þiðreks sögu smíðar Mímir ekkert sverð handa Sigurði enda mölvar hann steðja smiðsins þar með sleggju (231–32). Í allt öðrum þætti í Þiðreks sögu smíðar Velent smiður hinsvegar sverðið Mímung þrívegis handa Níðungi konungi (Þ. 97–99).

Í þýska kvæðinu um Hürnen Seyfrid brýtur Seyfrid einnig steðja smiðsins en þar er ekki heldur um neina sverðsmíði að ræða (HS 5). Í Nibelungenlied er að sjálfsögðu ekkert getið um þvílik atvik.

Þá hugmynd að láta Sigurð sjálfan smíða sverðið kynni Wagner að hafa fengið úr kvæði Ludwigs Uhlands Siegfrieds Schwert sem birtist fyrst árið 1812. Atburðarásin þar líkist annars helst upphafinu að Hürnen Seyfrid.[4]

S I 3.4

[Í vésögninni 1848 eggjar Mímir sveininn til að drepa orminn í þakklætisskyni við sig. Sigurður vill áður hefna morðsins á föður sínum. Hann ræðst brátt til atlögu og drepur Hunding (sjá nánar). Föðurhefndin stendur enn í frumgerðinni að Siegfrieds Tod 1848, en þar beinist hún að sonum Hundings (SSD II, 219).

Í fyrstu gerð af Siegfried unga vorið 1851 er Wagner þegar búinn að sleppa föðurhefndinni, enda veit Siegfried í hinni nýju gerð ekki einu sinni á þeirri stundu hver faðir hans var (Strobel, 77).]

Eftir að texti Valkyrjunnar hafði verið saminn haustið 1852 var Hunding að sjálfsögðu löngu dauður barnlaus þegar hér var komið sögu svo þar var ekki mikils að hefna.

Þessi atburðarás í báðum frumgerðum er ættuð úr Reginsmálum (15–26) og Völsungu (34–37) en í stystu máli er hún í Grípisspá (9):

Fyrst muntu, fylkir, föður um hefna og Eylima alls harms reka. Þú munt harða Hundings sonu snjalla fella, muntu sigur hafa.
Siegfried og ormurinn
Siegfried, Bayreuth 1952
(Wieland Wagner)

Siegfried - II. þáttur

Alberich bíður við bæli Fáfnis í von um að fá færi á hringnum. Óðinn kemur í dulargervi og segir þá Sigurð og Mími á leiðinni. Sigurður vekur Fáfni og drepur hann eftir nokkurt orðaskak. Hann sleikir blóð ormsins af fingri sér og tekur þá að skynja hugsanir annarra og skilja fuglamál. Að ráði söngfugls vegur Sigurður Mími, hirðir hringinn og töfrahjálminn úr bæli Fáfnis og fer að leita fagurrar meyjar sem sögð er liggja sofandi á fjallstindi sem sé umvafinn eldi.

1. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

S II 1.1

Alberich og förumaðurinn [Wotan] eiga samtal hjá helli Fafners (5280–469).

Þessi fundur er nánast algjör hugsmíð Wagners. Eina lauslega samsvörunin er sú að í Völsunga sögu (37) kemur gamall síðskeggur (Óðinn) að bæli Fáfnis eins og nánar er rakið við 2. atriði.

2. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

S II 2.1

Mime og Siegfried koma að helli Fafners. Í öllum fyrsta þætti skein í gegn að Mime vildi láta Siegfried drepa orminn Fafner með sverðinu Notung til að geta sjálfur komist yfir töfrahringinn og gullið. Eftir að ormurinn væri fallinn ætlaði hann að drepa Siegfried á eitri.

Nú segir hann Siegfried að bíða þess að ormurinn skríði að lindinni til að drekka, varar við eitri hans en gengur sjálfur inn í skóg og segist ætla að hvíla sig en óttast í raun drekann þótt það sé ekki berum orðum sagt. Hann vonast til að Siegfried og Fafner drepi hvor annan (5556–84).

Wagner minnist ekki á neinar felugrafir eða annan viðbúnað enda væri það ólíkt hugsýn hans um Siegfried þar sem hin hrekklausa og óttalausa hetja hlaut að ganga beint framan að óvininum. Á hitt má benda að hann notar ætíð orðið Wurm um Fáfni. Það er í samræmi við íslensk fornrit sem öll nefna hann orm. Þýsk rit kalla fyrirbærið jafnan Drache (dreka).

Í lok Reginsmála eggjar Reginn Sigurð að vega Fáfni og í inngangi Fáfnismála er undirbúningi Sigurðar lýst þannig:

Sigurður og Reginn fóru upp á Gnitaheiði og hittu þar slóð Fáfnis þá er hann skreið til vatns. Þar görði Sigurður gröf mikla á veginum og gekk Sigurður þar í.

Lýsingin er nánast eins í Skáldskaparmálum (47) en nokkru ítarlegri í Völsunga sögu, og þar mætti jafnvel svo skilja sem Reginn ætlist til að Fáfnir og Sigurður verði hvor öðrum að bana, því gamall síðskeggur (Óðinn) kallar þetta óráð og leggur Sigurði betra til (V. 37):

Reginn mælti: „Ger gröf eina og sest þar í. Og þá er ormurinn skríður til vatns, legg til hjarta honum og vinn honum svo bana. Þar fyrir fær þú mikinn frama.“ Sigurður mælti: „Hversu mun veita ef eg verð fyrir sveita ormsins?“ Reginn svarar: „Eigi má þér ráð ráða er þú ert við hvatvetna hræddur. Og ertu ólíkur þínum frændum að hughreysti.“ Nú ríður Sigurður á heiðina en Reginn hverfur í brott yfrið hræddur. Sigurður gerði gröf eina. Og er hann er að þessu verki kemur að honum einn gamall maður með síðu skeggi og spyr hvað hann gerir þar. Hann segir. Þá svarar inn gamli maður: „Þetta er óráð. Ger fleiri grafar og lát þar í renna sveitann, en þú sit í einni og legg til hjartans orminum.“ Þá hvarf sá maður á brottu.

Í Þiðreks sögu fer Mímir ekki með Sigurði, enda er ótvírætt að hann ætlast til að ormurinn, Reginn bróðir hans, drepi Sigurð til þess eins að losna við hann, enda geymir ormurinn þar ekki neinn fjársjóð (Þ. 234).

Smiðurinn í Hürnen Seyfrid sendir sveininn einan í sama tilgangi að sækja kol hjá linditré þar sem hann veit að dreki hefst við (HS 6–11).

Í Nibelungenlied er aðeins lauslega minnst á drekadráp Siegfrieds í æsku. Það er þar algert aukaatriði og án nokkurs samhengis við aðra atburðarás fyrir utan minnið um að Siegfried baðaði sig í blóði drekans og fékk af því ósæranlega hornhúð á kroppinn (N. 100, 899–902).

S II 2.2

Siegfried sest undir linditré og veltir fyrir sér hvernig foreldrar hans muni hafa litið út, hvort augu móður hans hafi til dæmis glitrað líkt og augu rádýrshindar, aðeins enn fegurri (5610–14).

 

Hér gæti verið vísun til þess að í Þiðreks sögu fóstrar hind ein kornbarnið Sigurð svein sem eftir dauða móður sinnar hafði rekið í glerpotti niður fljót og út á haf og upp á eyri (Þ. 231):

Nú kom þar að ein hind og tekur barnið í munn sér og ber heim til síns bælis. Þar átti hún tvö börn. Þar leggur hún sveininn niður og lætur sveininn drekka sig, og þar fæðir hún hann sem sín börn og er hann þar með hindinni tólf mánaði.

S II 2.3

Fafner ræðst til atlögu. Eftir mikinn atgang rekur Siegfried sverð sitt upp að hjöltum í hjartastað honum. Fafner veltur um hrygg (5701–06).

Frá sjálfu drápi ormsins er sagt í inngangi Fáfnismála og Skáldskaparmálum (47) en ítarlegast í Völsunga sögu (37–38):

En Sigurður gerir grafar eftir því sem fyrir var sagt. Og er ormurinn skreið til vatns varð mikill landskjálfti svo að öll jörð skalf í nánd. Hann fnýsti eitri alla leið fyrir sig fram, og eigi hræddist Sigurður né óttast við þann gný. Og er ormurinn skreið yfir gröfina þá leggur Sigurður sverðinu undir bægslið vinstra svo að við hjöltum nam. Þá hleypur Sigurður upp úr gröfinni og kippir að sér sverðinu og hefir allar hendur blóðgar upp til axlar. Og er hinn mikli ormur kenndi síns banasárs þá laust hann höfðinu og sporðinum, svo að allt brast í sundur er fyrir varð.

Í Þiðreks sögu banar Sigurður orminum ekki með sverði, heldur rotar hann með eldibrandi (235).

Í Hürnen Seyfrid drepur hann dreka með sverði til að frelsa Grimhilt konungsdóttur (139–49).

Í Nibelungenlied er einungis frá því sagt að Siegfried hafi drepið dreka í æsku sinni en engin skýring gefin á tilefni þess (100).

S II 2.4

Nú á sér stað samtal milli Fafners og Siegfrieds áður en sá fyrrnefndi drepst af sári sínu (5707–34).

Fafner: 

Hver ertu djarfi drengur
sem mitt hjarta hjóst?
Hver eggjaði ungan hug
á slíkt morðingjaverk?
(5707–10).

Sumar ljóðlínur Wagners í þessu samtali nálgast að vera endursögn á setningum í Völsungu (38) og Fáfnismálum en röðin er önnur:

 

Fáfnismál (1, 5):

Sveinn og sveinn,
hverjum ertu sveini um borinn?
Hverra ertu manna mögur,
er þú á Fáfni rautt
þinn inn frána mæki?
Stöndumk til hjarta hjör.

Hver þig hvatti, 
hví hvetjast lést, 
mínu fjörvi að fara?

S II 2.5

Siegfried leynir nafni sínu í fyrstu.

Siegfried:
Margt veit ég ei enn
einna síst hver ég er
(5713–14). 

Fafner:
Þú bjarteygi drengur
dylst enn eigin verks.

Hvern þú myrtir
mun ég tjá
(5717–20).

Í Fáfnismálum segir (1–2):

Sigurður duldi nafns síns fyrir því að það var trúa þeirra í forneskju að orð feigs manns mætti mikið ef hann bölvaði óvin sínum með nafni.

Fáfnismál (2):

Göfugt dýr eg heiti
en eg gengið hefk
inn móðurlausi mögur
föður eg ákk-a

Fáfnismál (5):

Inn fráneygi sveinn,
þú áttir föður bitran.

Fáfnir segir á samsvarandi stað í Völsunga sögu (39):

Eg bar ægishjálm yfir öllu fólki síðan eg lá á arfi míns bróður. (Sbr. R 3. 2).

S II 2.6

Fafner kveðst hafa drepið Fasolt bróður sinn til gullsins og sjálfur breytt sér í orm (5722–30).

Í Völsunga sögu mælir Fáfnir svo við Sigurð í fjörbrotunum (39):

Reginn, bróðir minn, veldur mínum dauða, og það hlægir mig er hann veldur og þínum dauða, og fer þá sem hann vildi.

S II 2.7

Áður en Fafner drepst varar hann Siegfried við því að sá sem eggjaði hinn fávísa glæsipilt til að drepa sig bruggi honum sjálfum banaráð:

Sjáðu nú glöggt
sællegi drengur!
Sá sem blindan brýndi til verks
nú bruggar þér fjörráð á laun
(5731–34).

Þessi orð samsvara Fáfnismálum (9, 20):

Ið gjalla gull
og ið glóðrauða fé,
þér verða þeir baugar að bana.

Siegfried:
Ættirnar mínar
inntu mér nú.
Vitur þú virðist
dreki í dauða.
Nafn mitt segir hið sanna.
Sigurð þeir hétu mig
(5737–42).

Fáfnismál (4):

Ætterni mitt
kveð eg þér ókunnigt vera
og mig sjálfan ið sama:
Sigurður eg heiti,
Sigmundur hét minn faðir,
er hefk þig vopnum vegið.

Niflungahringurinn í Reykjavík 1994
Siegfried berst við drekann

S II 2.8

Siegfried dregur sverðið úr hjarta ormsins, strýkur af því blóðið, brennir sig og stingur fingri í munn sér og tekur þá að skilja fuglamál:

Næstum mér finnst
sem fuglarnir tali til mín.
Veldur því bragð
af blóði á vör?
Sjá þennan furðufugl!
Heyr, hvað syngur hann?
(5747–53).

Frásögnin um blóð ormsins á tungunni og skilningur fuglsraddar er þannig í Skáldskaparmálum (47), Völsunga sögu (40–41) og eftirfarandi millitexta í Fáfnismálum (31–32):



Sigurður tók Fáfnis hjarta og steikti á teini. Er hann hugði að fullsteikt væri, og freyddi sveitinn úr hjartanu, þá tók hann á fingri sínum og skynjaði hvort fullsteikt væri. Hann brann og brá fingrinum í munn sér. En er hjartblóð Fáfnis kom á tungu honum, og skildi hann fuglsrödd. Hann heyrði að igður klökuðu á hrísinum.

S II 2.9

Skógarfugl segir Siegfried að nú geti hann sótt fjársjóð Niflunga í hellinn ásamt töfrahjálmi og veldishring:

Hæ, Sigurður núna
á Niflungaauð.
Ó fyndi hann í hellinum
fenginn þann!
Vildi hann ægishjálm eignast
þá drýgði hann flölmarga dáð
en vildi hann veita sér hringinn
þá yrði hann alvaldur heims!

Siegfried:
Þökk, litli fugl minn
ég þakka ráð.
Fús fylgi ég þeim (5754–64).

[Í frumgerð Wagners (sjá nánar) eru fuglarnir margir en vorið 1851 er þar aðeins einn næturgali (Strobel, 83) sem síðar um sumarið er nefndur skógarfugl (Strobel, 156).]

Í Þiðreks sögu bragðar Sigurður ekki blóð ormsins heldur soðið af kjöti hans, en það hefur sömu verkanir (Þ. 236).

Í Þiðreks sögu eru fuglarnir tveir en þeir segja honum ekki neitt annað en að hann skuli fara heim og drepa Mími þar sem hann hafi nú drepið orminn bróður hans og megi búast við hefndum (Þ. 236).

Í Fáfnismálum eru igðurnar sjö (32–38) og í Völsungu sex. Þar mælir hin fjórða (V. 41):

Þá væri hann vitrari ef hann hefði það sem þær höfðu ráðið honum og riði síðan til bóls Fáfnis og tæki það ið mikla gull er þar er.

Af framhaldinu segir svo í Völsungu (41) og lokum Fáfnismála:

Sigurður reið eftir slóð Fáfnis til bælis hans og fann það opið og hurðir af járni, og gætti. Af járni voru og allir timburstokkar í húsinu en grafið í jörð niður.

3. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

S II 3.1

Alberich og Mime skattyrðast við hræ Fafners (5765–858).

Þetta samtal á sér enga sjáanlega hliðstæðu í fornritum og er skáldskapur Wagners.

S II 3.2

Siegfried kemur út úr hellinum með töfrahjálminn og hringinn en skilur gullið eftir og veit ekki hvað við þessa hluti skal gera (5859–68).

Hér segir í lokum Fáfnismála:

Þar fann Sigurður stórmikið gull og fyllti þar tvær kistur. Þar tók hann ægishjálm og gullbrynju og sverðið Hrotta og marga dýrgripi og klyfjaði þar með Grana.

Í íslensku gerðinni er hringurinn ekki nefndur sérstaklega fyrr en síðar, þegar Sigurður annaðhvort gefur eða sviptir Brynhildi hringnum (V. 50, 57; Sk. 48–49). Sjálft gullið er þar ekki heldur nein höfuðorsök að drápi Sigurðar. Mestu ræður heift og afbrýði Brynhildar og í þeim látum verður hringurinn sönnunargagn um svik við hana.

S II 3.3

Skógarfuglinn segir að nú eigi Siegfried bæði hjálm og hring en varar hann við hinum svikula Mime sem sé fullur af hræsni en Siegfried geti séð gegnum hana vegna töfra ormsblóðsins (5869–77).

Sama viðvörun er í Völsunga sögu (41) og í Fáfnismálum klakar önnur igðan (33):

Þar liggur Reginn,
ræður um við sig,
vill tæla mög
þann er trúir honum,

ber af reiði
röng orð saman,
vill bölvasmiður
bróður hefna.

S II 3.4

Mime kemur úr fylgsni sínu og sér Siegfried í þönkum. Hann uggir að einhver fróður förumaður hafi náð að hitta sveininn og sáð grillum í huga hans (5878–84).

Hér er enn vísun til þess að í Völsunga sögu (37) birtist gamall síðskeggur (Óðinn) og leggur Sigurði ráð (sbr. S II 1.1. og 2.1).

S II 3.5

Mime fagnar Siegfried og hrósar honum fyrir það afrek að hafa drepið orminn og spyr hvort hann hafi lært að hræðast (5892–98).

Í Fáfnismálum (23) og Völsunga sögu (40) er samsvarandi fundi Regins og Sigurðar lýst á þennan veg:

Eftir þetta kom Reginn til Sigurðar og mælti: „Heill, herra minn, mikinn sigur hefir þú unnið er þú hefir drepið Fáfni, er engi varð fyrr svo djarfur að á hans götu þorði sitja, og þetta fremdarverk mun uppi meðan veröldin stendur.“

S II 3.6

Mime reynir eftir mætti að leyna því að hann hefur í hyggju að myrða Siegfried en við það að bragða á blóði ormsins öðlaðist Siegfried skyn til að skilja hina réttu meiningu orða hans (5905–6002).

Hér vinnur Wagner úr samtali Regins og Sigurðar og kIaki igðanna í Fáfnismálum (25, 33–38) og Völsungu þar sem segir m.a. (40–41):

Nú stendur Reginn og sér niður í jörðina langa hríð. Og þegar eftir þetta mælti hann af miklum móði: „Bróður minn hefir þú drepið, og varla má eg þessa verks saklaus vera.“ Nú tekur Sigurður sitt sverð, Gram, og þerrir á grasinu og mælti til Regins: „Fjarri gekk þú er eg vann þetta verk og eg reynda þetta snarpa sverð með minni hendi og mínu afli. Atta eg við orms megin meðan þú látt í einum lyngrunni, og vissir þú eigi hvort er var himinn eða jörð. …  Hann heyrði að igður klökuðu á hrísinu hjá honum. … Önnur segir: „Þar liggur Reginn og vill véla þann sem honum trúir.“ Þá mælti in þriðja: „Höggvi hann þá höfuð af honum, og má hann ráða gullinu því inu mikla einn.“ … Þá mælti in fimmta: „Eigi er hann svo horskur sem eg ætla ef hann vægir honum, en drepið áður bróður hans.“ Þá mælti in sétta: „Það væri snjallræði ef hann dræpi hann og réði einn fénu.“

Í Þiðreks sögu (236) er frásögnin í sama anda nema hvað þar er ekki verið að sækjast eftir neinu gulli.

S II 3.7

Siegfried vegur Mime með sverði sínu Notung, atyrðir hann fyrir svikráð og veltir líki hans að hræi Fafners (6003–07).

Frá drápi Regins er sagt í Fáfnismálum (39–40) og Skáldskaparmálum (47) og í Völsungu er frásögnin á þessa leið eftir að fuglarnir hafa varað Sigurð við svikum Regins (41):

Þá mælti Sigurður: „Eigi munu þau ósköp að Reginn sé minn bani, og heldur skulu þeir fara báðir bræður einn veg.“ Bregður nú sverðinu Gram og höggur höfuð af Regin.

Gull ormsins, dráp hans, blóð hans á tungunni, skilningur fuglamáls, samtalið við fuglana og dráp smiðsins er að sjalfsögðu hvorki í Nibelungenlied né Hürnen Seyfrid.

S II 3.8

Eftir að hafa dysjað Fafner og Mime leggst Siegfried aftur undir linditréð og syngur um einmanaleik sinn, hann eigi hvorki bróður né systur, föður né móður (6042–46).

Þessi söngur minnir ólítið á vísu Sigurðar í Fáfnismálum (2):

Göfugt dýr eg heiti
en eg gengið hefk
inn móðurlausi mögur,

föður eg ákk-a
sem fira synir,
geng eg einn saman.

S II 3.9

Fuglinn syngur honum um dýrlega mey sem hvíli í sal sínum á háum kletti. Hann er umvafinn eldi og einungis hugdjörf hetja getur brotist gegnum eldinn og vakið meyna en þá mun Brünnhilde verða hans (6065–73, 6095–98).

Svipaðar eru ráðleggingar fuglanna í Fafnismálum (40, 42-44):

Mey veit eg eina
miklu fegursta,
gulli gædda,
ef þú geta mættir.

Salur er á há
Hindarfjalli
allur er hann utan
eldi sveipinn.

Veit eg á fjalli
fólkvitur sofa,
og leikur yfir
lindar voði.

Knáttu, mögur, sjá
mey und hjálmi.

Siegfried - III. þáttur

Við rætur fjallsins leitar Óðinn í dulargervi spásagnar hjá völvunni Erdu en hún vill fátt segja honum. Hann kveðst þá munu eftirláta nýrri kynslóð vald sitt til endurlausnar heiminum. Sigurður kemur upp fjallið og Óðinn prófar styrk hans með því að reyna að hindra hann á leið sinni. Sigurður brýtur spjót hans með sama sverði og geir Óðins hafði sundrað endur fyrir löngu. — Sigurður brýst gegnum vafurlogann, þykist sjá sofandi hermann, undrast kvenlegt sköpulag hans, vekur valkyrjuna með kossi og saman fagna þau sólbjörtum degi.

1. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

S III 1.1

Förumaðurinn (Wotan) vekur völvuna Erdu upp af svefni og á við hana langt samtal sem hefst með vakningarhrópi:

Vakna, Vala!
Vakna þú! Vak!
Frá löngum draum
vek ég þig svefnuga víf.
Alvituga!
Forvitrasta!
Erda! Erda!
Eilífa víf!
(6111–14, 6127–30).

Umgjörðin við uppvakningu völvunnar og samtal Óðins við hana á sér augljósa fyrirmynd í eddukvæðum, einkum Baldurs draumum, Völuspá og Gróugaldri sem hefst þannig (1):

Vaki þú, Gróa!
Vaki þú, góð kona!
Vek eg þig dauðra dyra.

Baldurs draumar eru einnig nefndir Vegtamskviða. Þar leggur Óðinn söðul á Sleipni og ríður til Niflheljar að leita fregna um örlög Baldurs vegna erfiðra draumfara hans. Siðan segir (4):

Þá reið Óðinn
fyrir austan dyr
þar er hann vissi
völu leiði

nam hann vittugri
valgaldur kveða
uns nauðig reis,
nás orð um kvað.

S III 1.2

Í sviðslýsingu segir að Erda þokist upp úr jörðu í bláleitu skini og virðist þakin glitrandi hrími (6131–32).

Í Baldurs draumum segir völvan um sjálfa sig (5):

Var eg snivin snjóvi
og slegin regni
og drifin döggu,
dauð var eg lengi.

S III 1.3

Völvan spyr hver hafi vakið hana af værum blundi en Wotan kveðst heita Weckrufer sem einna helst merkir vekjari eða kallari. Hann kveðst hafa farið um heim allan að afla þekkingar en biður hana að segja sér tíðindi úr dularheimum (6132–58).

Í Baldurs draumum segist Óðinn heita Vegtamur sem merkir ferðalangur en hefur vissa hijóðlíkingu við nafngift Wagners, Weckrufer. Svo segir í kvæðinu (5–6):

Hvað er manna það
mér ókunnra
er mér hefir aukið
erfitt sinni?

Vegtamur eg heiti,
sonur em eg Valtams,
segðu mér úr helju,
eg man úr heimi.

S III 1.4

Völvan færist eindregið undan að ræða við komumann og biður hann þrásinnis að leyfa sér að halda áfram að sofa (6159–61, 6222–23, 6240–41).

Sama tregða er hjá völvunni í Baldurs draumum sem segir þrívegis (7,9,11):

nauðug sagðak,
nú mun eg þegja.

S III 1.5

Erda kveðst sjá í vökunni að heimurinn sé kominn á ringulreið og öll forn gildi rofin (6206–23).

Hér má greina enduróm af heimsslitaspá Völuspár, einkum 44. vísu:

Bræður munu berjast
og að bönum verða,
munu systrungar
sifjum spilla.

S III 1.6

Að lokum saka þau hvort annað um að vera ekki það sem þau segjast eða þykjast vera. Wotan lýsir því yfir að forn viska hennar sé þrotin, hann hafi lokið ætlunarverki sínu og nú megi hún sofa til eilífðar (6238–89).

Í næstsíðustu vísu Baldurs drauma eiga sér þessi orðaskipti stað (13):

„Ert-at-tu, Vegtamur
[Ert-at-tu: þú ert ekki]
sem eg hugða,
heldur ertu Óðinn,
aldinn Gautur.“

„Ert-at-tu völva

né vís kona,
heldur ertu þriggia
þursa móðir.“

Ekki er mikill skyldleiki með efninu í Baldurs draumum og ljóði Wagners en formið og atburðarásin er mjög svipuð.

2. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

S III 2.1

Siegfried birtist á leið til fjallstindsins. Wotan reynir með ýmsum ráðum að hindra för hans og prófa til þrautar hvort hann sé hinn útvaldi. Að lokum brýtur Siegfried spjót Wotans með sverði Siegmunds sem Wotan hafði áður sundrað með geiri sínum. Það er lokasönnunin og prófsteinn á styrk Siegfrieds og þá gefst Wotan upp (6291–466; sbr. W II 5. 1; 3386–87).

Hin langa senna Wotans og Siegfrieds á sér enga beina hliðstæðu í eldri ritum, hvorki þýskum né íslenskum. Þó má benda á vissa samsvörum í eddukvæðinu Fjölsvinnsmálum (1–44). Þar kemur Svipdagur undir dulnefninu Vindkaldur til borgar Menglaðar drottningar og hittir fyrir borgarvörð sem heitir Fjölsviður og hindrar för hans. Þeir þreyta langan spurningaleik þar til í ljós kemur að enginn muni fá að sofa á armi Menglaðar nema sá einn er Svipdagur heiti, og þá loks hleypir Fjölsviður honum inn.

S III 2.2

Í sviðslýsingu Wagners segir að nú taki eldský að hrannast upp og æstir logar að nálgast en Siegfried virðist hverfa inn í þá (6469–77).

Hér má til samanburðar taka þessa vísu úr Völsunga sögu (56) sem sennilega er úr annars glötuðu eddukvæði:

Eldur nam að æsast
en jörð að skjálfa
og hár logi
við himin gnæfa.

Fár treystist þar
fylkis rekka
eld að ríða
né yfir stíga.

Aftur má að því spyrja hvort hér geti ekki verið um að ræða skáldlega lýsingu á eldgosi, sbr. W III 3.2.

3. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

S III 3.1

Í sviðslýsingu segir að Siegfried brýst upp á fjallið gegnum logana. 

Í Völsungu er ferðinni þannig lýst (42):

Sigurður ríður nú langar leiðir og allt til þess er hann kemur upp á Hindarfjall og stefndi á leið suður til Frakklands. Á fjallinu sá hann fyrir sér ljós mikið sem eldur brynni og ljómaði af til himins.

S III 3.2

Siegfried kemur auga á Brünnhilde sofandi í herklæðum, lyftir af henni skildinum, leysir varlega af henni hjálminn, ristir sundur hliðarhringa brynjunnar með sverði sínu, lyftir brynju og armspöngum, sér að þetta er ekki karlmaður og hræðist í fyrsta sinn (6484–539).

Skjöldurinn sem Siegfried lyftir af Brynhildi er hið eina sem eftir stendur af skjaldborginni í Sigurdrífumálum og Völsungu. Wagner lætur Siegfried fara miklu gætilegar að en Sigurð og horfa lengur á konuna.

Vakning valkyrjunnar er nefnd í Grípisspá (15–16), upphafi Sigurdrífumála og Skáldskaparmálum (48), og í Völsungu er frásögnin þannig (42):

En er hann kom að stóð þar fyrir honum skjaldborg og upp úr merki. Sigurður gekk í skjaldborgina og sá að þar svaf maður og lá með öllum hervopnum. Hann tók fyrst hjálminn af höfði honum og sá að það var kona. Hún var í brynju, og var svo föst sem hún væri holdgróin. Þá reist hann ofan úr höfuðsmátt og í gegnum niður og svo út í gegnum báðar ermar, og beit sem klæði.

Vart fer milli mála að Brynhildur hefur verið harla fáklædd undir brynjunni úr því hún var sem „holdgróin“. Jafnvel Siegfried, sem aldrei áður hafði konu séð, hlaut því að skynja að hér var ekki karlkyns vera.

S III 3.3

Loks vekur Siegfried Brünnhilde með kossi. Hún sest upp og syngur.

Brünnhilde:
Heill þér dagur!
Heill þér ljós!
Heill þér ljómandi sól!
Lengi ég svaf
en lokið er.
Hver var sú hetja
er vakti mig?

Siegfried:
Gegnum eldinn óð ég
sem um bjargið brann
og ég braut af þér traustan hjálm.
Sigurður er ég
sem svefn þinn rauf.
Heilir æsir!
Heill þér jörð
Heill sé fjölnýtri foldu! (6552–66).

Helsti efnismunur í þessu ávarpi er sá að Wagner lætur Brynhildi ekki heilsa nóttunni sem deginum. Vera má að honum hafi ekki þótt við hæfi að minnast á nokkra dimmu á þessari fagnaðarstundu. Hann hefur ekki heldur þekkt bjartar sumarnætur!

Að undanteknum kossinum, sem minnir á Þyrnirós og fleiri slík ævintýri, er allt efni þessa atriðis að finna í inngangi Sigurdrífumála og fyrstu fjórum erindum þeirra þótt þau séu stundum í annari röð:

Þá tók hann brynju af henni en hún vaknaði og settist upp og mælti:

„Hvað beit brynju?
Hví, brá eg svefni?
Hver felldi af mér
fölvar nauðir?

Lengi eg svaf,
lengi eg sofnuð var.“

„Sigmundar bur
sleit fyr skömmu
hrafns hrælundir
hjör Sigurðar.

Heill dagur!
Heilir dags synir!
Heil nótt og nift!

Heilir æsir!
Heilar ásynjur!
Heil sjá in fjölnýta fold!

S III 3.4

[Í fyrri gerðum Siegfrieds frá 1851 segir Brynhildur meginefni Valkyrjunnar í löngu máli litlu síðar, á líkum stað og nú er 6625. ljóðlina. Þessi frásögn varð að sjálfsögðu óþörf eftir að Valkyrjan var til orðin en hún byrjaði á þessa leið (Strobel, 93, 185):

Þetta minnir mikið á orðalagið í Skáldskaparmálum (48):

Þá vaknaði hún og nefndist Hildur. Hún er kölluð Brynhildur og var valkyrja.

„Ég var kölluð Hilde þegar ég olli stríði, ég var klædd brynju þegar ég fór í bardaga: Wodan nefndi mig Brünnhilde.“]

Önnur samsvörun er í Helreið Brynhildar (7):

Hétu mig allir
í Hlymdölum
Hildi undir hjálmi,
hver er kunni.

S III 3.5

Nú hefst langur ástarforleikur. Siegfried hefur fyllst ástarbríma og sækir ákaft eftir henni. Brünnhilde tregðast í fyrstu við að láta að vilja Siegfrieds og telur það báðum fyrir bestu. Hún vísar til herklæða sinna og hestsins Grane sem tákna um ósnertanleika sinn sem valkyrju. Samt játar hún að hafa þráð hann alla hans ævi og lætur hún að lokum undan beggja vilja (6648–846).

Þetta atriði á sér ekki beina fyrirmynd í þeim ritum sem segja frá fyrsta fundi þeirra á fjallinu. Í Völsungu (49–50) er á hinn bóginn þessi sviðsetning við fund Sigurðar og Brynhildar í annað sinn og þá í höllu hennar:

Hann réttir í mót höndina kerinu og tók hönd hennar með og setti hana hjá sér. Hann tók um háls henni og kyssti hana og mælti: „Engi kona hefir þér fegri fæðst.“ Brynhildur mælti: „Viturlegra ráð er það að leggja eigi trúnað sinn á konu vald, því að þær rjúfa jafnan sín heit.“ Hann mælti: „Sá kæmi bestur dagur yfir oss að vér mættim njótast.“ Brynhildur svarar: „Eigi er það skipað að við búim saman. Eg em skjaldmær og á eg með herkonungum hjálm … Sigurður svarar: „Þá frjóumst vér mest ef vér búum saman … og ekki lér mér tveggja huga um þetta, og þess sver eg við guðin að eg skal eiga þig eða enga konu ella.“ Hún mælti slíkt. Sigurður þakkar henni þessi ummæli og gaf henni gullhring, og svörðu nú eiða af nýju.

Yfirlit

Wagners
Ring
Eddu-
kvæði
Snorra
Edda
Völsunga
saga
Þiðreks
saga
Niebelungen-
lied
Hürnen
Seyfrid
Lange
Schwangerschaft
löng meðganga
Mime erzieht und lehrt Siegfried Reginn fóstrar og kennir Sigurði Reginn fóstrar og kennir Sigurði Reginn fóstrar og kennir Sigurði Mímir fóstrar og kennir Sigurði Seyfrid vinnur hjá smið
Abneigung Siegfrieds gegen Mime andúð Sigurðar á Mími
Wurm auf Hort ormur á gulli ormur á gulli ormur á gulli ormur án gulls ormur án gulls gull geymt hjá dreka
Wotan als Wanderer Óðinn sem förumaður Óðinn sem förumaður
Gespräch Wotans mit Mime samtöl Óðins við dverga og jötna
Viel erforscht' ich, erkannte viel Fjöld eg fór fjöld eg freistaða
Schwarzalben Lichtalben dökkálfar ljósálfar
Riesen gezeugt aus Frost und Hitze jötnar úr frosti og hita jötnar úr frosti og hita
Schwert aus Stücken dreimal sverð úr brotum sverð úr brotum sverð úr brotum þrisvar sverðsmíði Velents þrisvar
Siegfried spaltet Amboß mit Schwert Sigurður klýfur steðjann með sverði Sigurður klýfur steðjann með sverði Sigurður klýfur steðjann með sverði Sigurður brýtur steðjann með sleggju [Grimm: strákur brýtur steðja] Seyfrid brýtur steðja smiðs
Siegfried rächt Mord seines Vaters föðurhefnd Sigurðar föðurhefnd Sigurðar
Mime reizt Siegfried Reginn eggjar Sigurð Reginn eggjar Sigurð Reginn eggjar Sigurð
Wanderer bei Fafners Höhle síðskeggur hjá bæli Fáfnis
Wurm wälzt zum Trinken ormur skríður til vatns ormur skríður til vatns ormur skríður til vatns
Siegfried leugnet seinen Namen Sigurður leynir nafni sínu Sigurður leynir nafni sínu
helläugiger Knabe fráneygi sveinn fráneygi sveinn
Fafner nahm Wurmes Gestalt Fáfnir var í orms líki Fáfnir brást í orms líki Fáfnir varð að ormi Reginn varð að ormi
Wer reizte dich? hver þig hvatti? hver eggjaði þig?
Fafner warnt Siegfried gegen Aufreizer und Hort Fáfnir varar Siegfried við Regin og gullinu Fáfnir varar Sigurð við Regin og gullinu
Erlegung des Wurmes dráp Fáfnis dráp Fáfnis dráp Fáfnis dráp orms dráp dreka dráp dreka
Blut im Munde blóð á tungu blóð á tungu blóð á tungu soð á tungu
Sprache der Vögel skilning fuglamáls skilning fuglamáls skilning fuglamáls skilning fuglamáls
Warnung des Vogels gegen Mime Fugl varar Sigurð við Regin Fugl varar Sigurð við Regin Fugl varar Sigurð við Regin Fugl varar Sigurð við Mími
Siegfried tötet Mime Sigurður drepur Regin Sigurður drepur Regin Sigurður drepur Regin Sigurður drepur Mími
Siegfried nimmt wenig vom Horte Sigurður tekur allt gullið Sigurður tekur allt gullið Sigurður tekur allt gullið
Vögel raten zu Brünhild fuglar vísa á valkyrju fuglar vísa á Brynhildi
Felsenburg Hindarfjall fjall Hindarfjall borg hellir
Gespräch Wotans mit Wala samtöl Óðins við völvur
Siegfried schneidet Brünnhildes Panzer Sigurður ristir brynju Brynhildar Sigurður ristir brynju Brynhildar Sigurður ristir brynju Brynhildar
Siegfried erweckt Brünnhilde Sigurður vekur Brynhildi Sigurður vekur Brynhildi Sigurður vekur Brynhildi
Lobgesang Brünnhildes Sigurdrífumál
„Hilde hieß ich" hétu mig Hildi nefndist Hildur

Tilvísanir

[1] Hugo Gering. Kommentar zu den Liedern der Edda, 163–64.
[2] Grimm. Kinder- und Hausmärchen, gesammelt durch die Brüder Grimm, 27–28. Dokumente, 42.
[3] Grimm. Kinder- und Hausmärchen, 240. Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 43–44.
[4] Uhlands Gedichte und Dramen II, 218–19.