Undirkaflar

Valkyrjan

Wagner og Völsungar

Persónur

Íslensk samsvörun

Menn

Siegmund
Sieglinde
Hunding

Sigmundur
Signý
Siggeir, Hundingur

Goð

Brünnhilde
Gerhilde
Grimgerde
Helmwige
Ortlinde
Rossweisse
Schwertleite
Siegrune
Waltraute

Brynhildur
[Geirhildur]
[Grímgerður]
[Hjálmveig]
[Oddlinda]
[Jófríður]
[Hjördís]
[Sigrún]
[Valþrúður]

Valkyrjan
Dauði Siegmunds. (Teikning Knut Ekwall)

Hugmyndin um valkyrjur er komin úr ýmsum eddukvæðum og fleiri íslenskum fornkvæðum.[1] Í Gylfaginningu segir (36):

Enn eru þær aðrar er þjóna skulu í Valhöll, bera drykkju og gæta borðbúnaðar og ölgagna. … Þessar heita valkyrjur. Þær sendir Óðinn til hverrar orrustu. Þær kjósa feigð á menn og ráða sigri.

Flest nöfn valkyrja sinna mun Wagner hafa fundið í eða lagað til eftir kvenheitum í gömlum þýskum kvæðum og sögnum en þar finnast engar valkyrjur.

Valkyrjan - I. þáttur

Í fárviðri kemst Sigmundur vopnlaus við illan leik til húsa Hundings. Húsfreyjan Sieglinde veitir honum beina en þegar bóndi hennar kemur heim verður honum brátt Ijóst að gesturinn er banamaður ættmenna hans. Náttvíg töldust morðvíg og því er hefndin látin bíða morguns. – Húsfreyja byrlar bónda sínum svefndrykk og heldur til náttfundar við gestinn. Ást kviknar milli þeirra. Hún segir frá sverði sem eineygur karl hafði komið með í brúðkaup hennar og rekið í trjástofninn sem ber húsin uppi. Enginn hafði hingað til náð að draga það út en Sigmundur bregður því rakleitt úr stokknum. Þau uppgötva nú að þau eru tvíburasystkin en þeim halda engin siðabönd lengur.

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

Sviðslýsing: Í miðju húsi Hundings stendur voldugur trjástofn úr eskiviði. Rætur hans hverfa niður úr gólfinu en greinar hans og trjátoppurinn teygja sig til allra hliða og upp úr þakinu.

Í Völsunga sögu segir (6):

Svo er sagt að Völsungur konungur lét gera höll eina ágæta og með þeim hætti að ein eik mikil stóð í höllinni og limar trésins með fögrum blómum stóðu út um ræfur hallarinnar, en leggurinn stóð niður í höllina og kölluðu þeir það barnstokk.

1. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

W I 1.1

Siegmund hvílist um hríð í húsi Hundings og Sieglinde

Þetta atriði er alfarið skáldskapur Wagners. Nafn Sigmunds er nánast eins í öllum heimildum en systir hans heitir í Völsunga sögu Signý. Nafnið Sigurlinn er í Helgakviðu Hjörvarssonar.

2. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

W I 1.2

Hunding kemur heim og finnur ókunnan mann (Siegmund) hjá Sieglinde konu sinni. Hann býður henni að tilreiða kvöldverð (1934–45).

Nafnið Hunding er sótt í ýmis eddukvæði og Völsungu. Í formála að Helgakviðu Hundingsbana II eru Sigmundur og Hundingur höfuðóvinir. Nafnmyndirnar Siegmund og Sieglinde sem foreldrar Siegfrieds eru hinsvegar sóttar í Nibelungenlied (N. 20).

W I 2.2

Hunding undrast hvað Siegmund og Sieglinde líkjast hvort öðru og grunar skyldleika þeirra. Hann segir skínandi orm glitra úr augum þeirra beggja (1946–48).

Hér virðist vera líking við Sigurð orm-í-auga í Ragnars sögu loðbrókar. Ragnar hafði efast um að Kráka karlsdóttir væri í raun Áslaug dóttir Sigurðar Fáfnisbana og Brynhildar en hún svarar:

Þú veist að eg em eigi heill maður, og mun það vera sveinbarn er eg geng með, en á þeim sveini mun vera það mark að svo mun þykja sem ormur liggi um auga sveininum. … En eg vil að sjá sveinn sé heitinn eftir feður mínum ef í hans auga er þetta frægðarmark sem eg ætla að vera muni.

Og er Ragnar sá sveininn lét hann sannfærast um ætterni hans og var hann síðan nefndur Sigurður ormur-í-auga.[2]

W I 2.3

Hunding leynir undrun sinni og tortryggni og kemur vingjarnlega fram við Siegmund (1949).

Skaphöfn Hundings minnir á Siggeir konung, eiginmann Signýjar, sem brenndi föður hennar inni og ætlaði að pynda bróður hennar til dauða. Um hann segir í Völsungu (8) þegar Sigmundur bróðir Signýjar neitar með frýjunarorðum að selja honum sverðið góða (sbr. W I 3.3):

Siggeir konungur reiddist við þessi orð og þótti sér háðulega svarað vera. En fyrir því að honum var svo varið að hann var undirhyggjumaður mikill þá lætur hann nú sem hann hirði ekki um þetta mál, en það sama kveld hugði hann laun fyrir þetta, þau er síðar komu fram.

W I 2.4

Siegmund leynir réttu nafni sínu en kveðst hafa átt tvíburasystur sem týndist og segir í löngu máli frá flækingi sínum um skóga með „Wolfe“ föður sínum, úlfabæli þeirra og úlfshömum ásamt hervirkjum sem þeir og aðrir frömdu (1980–2084).

Þessi frásögn minnir mikið á ýmis atriði í Völsunga sögu um skógarlíf Sigmundar og Sinfjötla í úlfshömum (15):

Nú er það eitthvert sinn að þeir fara enn á skóginn að afla sér fjár, en þeir finna eitt hús og tvo menn sofandi í húsinu með digrum gullhringum. Þeir höfðu orðið fyrir ósköpum því að úlfahamir héngu í húsinu yfir þeim. Ið tíunda hvert dægur máttu þeir komast úr hömunum. Þeir voru konungasynir. Þeir Sigmundur fóru í hamina og máttu eigi úr komast, og fylgdi sú náttúra sem áður var, létu og vargsröddu.

W I 2.5

Hunding sannfærist um að gestur hans sé af fjandmanna kyni. Hann veitir hinum vopnlausa manni samt næturgrið og kveðst ætla að geyma sér að drepa hann þar til morguninn eftir (2116–22).

Í Deutsche Rechtsaltertümer segir Jakob Grimm: „Manndráp að næturlagi taldist morð,“ en hann vísar ekki í neina heimild.[3]

Þetta minni hefur ekki heldur fundist í varðveittum lagatextum, en það kemur fyrir í Egils sögu Skallagrímssonar, Njáls sögu, Ólafs sögu helga og Magnúss sögu Erlingssonar í Heimskringlu.[4]

Þekktust er frásögn Egils sögu þegar Arinbjörn hersir kemur í veg fyrir að Eirikur blóðöx og Gunnhildur drottning láti taka Egil af lífi og segir m.a: ,, því að náttvíg eru morðvíg.“ Þessi kafli sögunnar var til í þýskri þýðingu frá árinu 1816 og sú bók var reyndar til í bókasafni Wagners. Líklegast er því að kaflinn í Egils sögu sé heimild bæði Grimms og Wagners.[5]

3. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

W I 3.1

Siegmund segir að Wälse faðir sinn hafi heitið sér hinu bitrasta sverði þegar neyðin væri stærst (2131–49). Sieglinde segir frá því hvernig hún var óspurð gefin Hunding og að í brúðkaupsveislu þeirra hafi komið öldungur í grárri skikkju með síðhött dreginn yfir annað auga. Öllum varð hverft við. Hann rak sverð í trjástofninn upp að hjöltum og mælti að sá einn skyldi eiga sem gæti dregið það út. Gestirnir reyndu hver á fætur öðrum en engum hefur enn tekist að draga það út enda sé það aðeins einni hetju ætlað sem hún vonar að birtist brátt (2192–2240).

Ótvírætt er gefið í skyn, að Wälse hafi verið Wotan í dulargervi.

[Í frumgerðinni 1848 segir á hinn bóginn berum orðum (bls. 79):

Enn hefur óskahetjan samt ekki fæðst, sú sem af eigin rammleik á að komast til fullrar vitundar og verða fær um að bæta með dirfsku sinni fyrir þá dauðasynd [goðanna] sem blasir við augum. Í ætt Wälsungen skal þessi hetja loks fæðast. Wodan frjóvgaði barnlaus hjón með því að láta þau neyta af epli frá gyðjunni Holdu. Þeim fæðast tvíburar, Siegmund og Sieglinde.]

Í Völsungu segir frá því að Signý dóttir Völsungs konungs var ófús gefin Siggeiri konungi. Brullaupsveisla er haldin „og stendur sjá hinn mikli apaldur í miðri höllinni, sem fyrr var nefndur“ (6–7):

… maður einn gekk inn í höllina. Sá maður er mönnum ókunnur að sýn. Sjá maður hefir þess háttar búning að hann hefir heklu flekkótta yfir sér. Sá maður var berfættur og hafði knýtt línbrókum að beini. Sá maður hafði sverð í hendi og gengur að barnstokkinum, og hött síðan á höfði. Hann var hár mjög og eldilegur og einsýnn. Hann bregður sverðinu og stingur því í stokkinn svo að sverðið sökkur að hjöltum upp. Öllum mönnum féllust kveðjur við þenna mann. Þá tekur hann til orða og mælti: „Sá er þessu sverði bregður úr stokkinum, skal sá það þiggja að mér að gjöf, og skal hann það sjálfur sanna að aldri bar hann betra sverð sér í hendi en þetta er.“ … Síðan gengu til inir göfgustu menn fyrst, en þá hver að öðrum. Engi kemur sá til er nái, því að engan veg bifast er þeir taka til.

Sögninni um hið frjóvgandi epli sleppir Wagner í lokagerð sinni. Hún er komin úr Völsunga sögu en á þar reyndar við ömmu tvíburanna og afa sem voru lengi barnlaus en báðu Frigg og Óðin fulltingis (V. 5):

Hann verður eigi örþrifráða og tekur óskmey sína, dóttur Hrímnis jötuns, og fær í hönd henni eitt epli og biður hana færa konungi. Hún tók við eplinu og brá á sig krákuham og flýgur til þess er hún kemur þar sem konungurinn er og sat á haugi. Hún lét falla eplið í kné konunginum. Hann tók það epli og þóttist vita hverju gegna mundi; gengur nú heim af hauginum og til sinna manna og kom á fund drottningar, og etur það epli sumt. Það er nú að segja að drottning finnur það brátt að hún mundi vera með barni, og fer þessu fram langar stundir að hún má eigi ala barnið.

Að lokum var sveinbarn skorið úr kviði hennar og hlaut nafnið Völsungur. Kona hans var dóttir Hrímnis jötuns. Hún hét Hljóð og hafði á sínum tíma fært foreldrum hans eplið. Þau áttu saman tíu sonu og eina dóttur (V. 6):

Inn elsti sonur þeirra hét Sigmundur en Signý dóttir. Þau voru tvíburar, og voru þau fremst og vænst um alla hluti barna Völsungs konungs.

W I 3.2

Siegmund játar fyrir Sieglinde að faðir sinn hafi heitið Wälse.

Sieglinde:
Ef Völsa ertu sonur
og Völsungur ertu
sverð fyrir þig
hann setti í stokk.
Nú nefni ég þig nafni
eins og ég ann þér:
Sigmund
svo heiti ég þig!
Siegmund kemur auga á sverðshjöltun í trénu og gefur því nafnið Notung:
Sigmundur heiti ég
og Sigmundur er ég
þar dæmir um sverð
sem djarfur ég munda!
Völsi mér hét
að í hæstu neyð
fyndi ég sverð.

Siegmund dregur sverðið úr stofninum í einum rykk og sýnir það Sieglinde sem er frá sér numin af undrun og fögnuði.

Siegmund:
Sigmund þinn Völsung
sérðu, mær!
Sem brúðgjöf
hann býður þér sverð (2412–44).

Í Völsunga sögu er Sigmundur sonur Völsungs konungs og Signý er tvíburasystir hans. Heitið Wälsungen er ekki til í fornþýsku máli og er ekkert annað en þýskun á hinu íslenska heiti Völsunga sem þekktir eru í undirfyrirsögn að báðum Helgakviðum Hundingsbana, Sigurðarkviðu skömmu (1, 3), Hyndluljóðum (26), Reginsmálum (18) og auðvitað sjálfri Völsunga sögu.

Sverðsheitið Notung er eigin smíð Wagners og merkir sennilega hjálpræði í neyð. Í fyrri gerðum lét hann það heita Balmung. Það nafn var komið úr Nibelungenlied og átti við sverðið sem konungar Nibelungen gáfu Siegfried í þakkarskyni fyrir að vilja skipta arfi þeirra. Síðar átti hann eftir að drepa þá sjálfa með sama sverði (N. 93–96). Í íslenskum ritum heitir sverð Sigurðar Gramur (Reginsmál, 14–15; Fáfnismál, 25; Sk. 47–49).

Framhald sögunnar, sem fyrr var rakin úr brullaupi Siggeirs og Signýjar, er þannig í Völsunga sögu (7):

Nú kom til Sigmundur, sonur Völsungs konungs, og tók og brá sverðinu úr stokkinum, og var sem laust lægi fyrir honum.

Í 6. og 7. kafla Völsunga sögu segir frá því að Signý vill fyrir hvern mun eignast son til föðurhefnda. Tveir synir hennar og Siggeirs reynast hugdeigir. Hún leitar því í dulargervi gistingar hjá Sigmundi tvíburabróður sínum sem leynist í jarðhúsi (V. 13):

Nú fer hún í herbergi til hans, og setjast til matar. Honum varð oft litið til hennar og líst konan væn og fríð. En er þau eru mett þá segir hann henni að hann vill að þau hafi eina rekkju um nóttina, en hún brýst ekki við því, og leggur hann hana hjá sér þrjár nætur samt.

Valkyrjan - II. þáttur

Óðinn býður valkyrjunni Brynhildi dóttur sinni að veita Sigmundi sigur gegn Hundingi. Völsungasystkin eru börn Óðins við mennskri konu. Þeim var ætlað að ná, án eigin vitneskju um tildrögin, hinum máttuga hring frá Fáfni svo hann kæmist ekki í óvinahendur. Óðinn mátti það ekki sjálfur því hann var bundinn svardögum. Áður hafði hann getið valkyrjur við völvunni Erdu og lét þær kjósa hetjur sér til varnar. Frigg krefst þess að Sigmundi sé refsað fyrir blóðskömm. Óðinn verður undan að láta og skipar Brynhildi að láta Sigmund falla. Brynhildur hrífst af ást systkinanna og hyggst óhlýðnast Óðni. Óðinn grípur þá í taumana og sundrar sverði sonar síns með töfraspjóti sínu svo að Sigmundur fellur.

1. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

W II 1.1

Wotan (við Brünnhilde):
Nú hemdu þinn fák
herklædda dís!
Vopnagnýr
glæðast mun senn.
Valkyrju kveð ég í val.
Hún Völsung sigranda kýs.
Ráði Hundingur
hverjum hann deyr:
í Valhöll vil ég hann sízt.
Af þrótti og hart
hleyptu í val! (2464–74).

Brunehild er þekkt í miðaldasagnfræði sem konungsdóttir og síðar drottning hjá Vestgotum um 600. Hún giftist Sigibert konungi sem var drepinn af Chilperik bróður sínum. Seinast var hestur látinn draga hana eftir sér til dauða. Sennilega má rekja nafn hinnar kunnu sagnapersónu til hennar eftir krókaleiðum. Brynhildur eða eitthvert afbrigði nafnsins er ein aðalpersónan í fornum sögnum og kvæðum um Völsunga og Niflunga. Ævi hennar er lengst rakin í hinni íslensku gerð og einungis þar kemur hún fyrir í gervi valkyrju.

W II 1.2

Fricka krefst bess að Siegmund verði refsað fyrir hórdóm og blóðskömm með systur sinni og kallar sig verndara hjúskaparins (2509–48). Hún staðhæfir að Wotan hafi sjálfur getið systkinin með úlfynju og rifjar upp veru hans í úlfshami (2560–608). Hún neitar því að Siegmund sé óháður Wotan (2636–51) því hann hafi sjálfur gefið honum sverðið (2659–76). Wotan lætur að lokum undan Fricku (2693–725).

Rætur að fullyrðingum Fricku um úlfshami voru áður raktar (W I 2.4) eins og þær birtast í Völsunga sögu. Sem hjúskapargyðja hefur Fricka hér fengið fleiri drætti frá hinni grísku Heru og rómversku Júnó en hinni norrænu Frigg. Ásynjan Vár líkist Fricku meir. Um tengsl beirra og Lofnar við hjúskaparmál segir þetta í Snorra Eddu þegar ásynjur og eiginleikar þeirra eru taldir upp:

Áttunda Lofn, hún er svo mild og góð til áheita að hún fær leyfi af Alföður eða Frigg til manna samgangs, kvenna og karla, þótt áður sé bannað eða þvertekið. … Níunda Vár, hún hlýðir á eiða manna og einkamál er veita sín á milli konur og karlar. Því heita þau mál Várar. Hún hefnir og þeim er brigða (Gylf. 35).

2. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

W II 2.1

Wotan kveðst hafa heimsótt völvuna Erdu í iður jarðar og öðlast hjá henni visku með ástartöfrum:

Og leið burt mitt létta skap
því lærdómur freistaði guðs.
Niður í jarðar skaut
skjótlega ég hvarf
með ástartöfrum
ægði ég völu
steytti hennar visku stolt
svo hún sagði frá um síð.
Vísdóm hún veitti mér þá (2805–13).

Greinileg fyrirmynd úr Snorra Eddu er heimsókn Bölverks (Óðins) inn í bjargið til Gunnlaðar til að komast yfir skáldamjöðinn (Sk. 6):

Fór Bölverkur þar til sem Gunnlöð var og lá hjá henni þrjár nætur, og lofaði hún honum að drekka þrjá drykki af miðinum. Í hinum fyrsta drykk drakk hann allt úr Óðreri en í öðrum úr Boðn en í hinum þriðja úr Són, og hafði hann þá allan mjöðinn.

Óðinn (John Tomlinson)
Valkyrjan, Bayreuth 1975

W II 2.2

Wotan segir Brünnhilde að hún sé dóttir hans og völvunnar Erdu og hann hafi alið hana upp ásamt átta systrum til að verða valkyrjur. (2815–18).

Það er hugsmíð Wagners að Brünnhilde sé dóttir Wotans en fjöldi valkyrjanna minnir á níu mæður Heimdallar og níu dætur Ægis og Ránar í Snorra Eddu (Gylf. 27; Sk. 33, 41, 76). Í Helgakviðu Hjörvarðssonar segir einnig (5–6): „Hann sá ríða valkyrjur níu, og var ein göfuglegust.“ Það var Sváva Eylimadóttir. Svipað segir um Sigrúnu Högnadóttur í Helgakviðu Hundingsbana II (18–19).

W II 2.3

Wotan segir að valkyrjur eigi að velja hvaða bardagahetjur skuli falla í orrustum en síðar eiga þeir að verja Walhall gegn væntanlegri árás og eflast að bardagaíþrótt en dveljast þess á milli með honum í góðum fagnaði (2819–40).

Einherjar, hinar föllnu hetjur í Valhöll, eru þekktir úr Grímnismálum (23, 36), Vafþrúðnismálum (41), Eiríksmálum, Hákonarmálum og Snorra Eddu. Um þessa óskasyni Óðins segir í Gylfaginningu (20, 38, 41):

Þeim skipar hann Valhöll og Vingólf, og heita þeir þá einherjar. … Það segir að allir menn, þeir er í orrustu hafa fallið frá upphafi heims, eru nú komnir til Óðins í Valhöll. … Þá er þeir drekka eigi þá fara þeir út í garðinn og berjast og fellir hver annan. Það er leikur þeirra. Og er líður að dögurðarmáli þá ríða þeir heim til hallarinnar og setjast til drykkju.

W II 2.4

Wotan segist óttast að Alberich kunni að ná töfrahringnum og gullinu sem Fafner varðveiti. Sjálfur getur hann ekki freistað þess því hann er bundinn samningum (2848–88).

Hann kveðst hafa frétt að Alberich hafi með brögðum tekist að barna konu til að geta af sér son sem muni keppa við sig um hringinn (2968–85).

Fyrirmynd að barneign Alberichs má finna í getnaði Högna í Þiðreks sögu þar sem álfi tekst að komast yfir sofandi drottningu (241–42):

Og það bar að eitt sinn að hún var víndrukkin, þá er konungur var eigi heima í sínu ríki, og var sofnuð í einum grasgarði úti, og til hennar kom einn maður og liggur hjá henni. … Og nú er þaðan líður nokkur stund er drottning ólétt, og áður hún fæði barn þá ber það að, þá er hún er ein saman stödd, að til hennar kemur inn sami maður. … En hann lést vera einn álfur. „En ef það barn mætti upp vaxa, þá seg því sitt faðerni, en leyn hvern mann annarra. Nú er það sveinbarn, sem mig varir,“ segir hann, „og mun sá vera mikill fyrir sér, og oftlega mun hann vera í nauðum staddur, og hvert sinn er hann er svo staddur að eigi fær hann sig sjálfur leyst, þá skal hann kalla á sinn föður, og mun hann þar vera þá er hann þarf.“ Og nú hverfur þessi álfur svo sem skuggi.

Hér má til samanburðar benda á sum atriði Hagens í Ragnarökum, einkum G I 2. 6–7 og G II 1 (7158–69 og 7736–45).

W II 2.5

Wotan skipar Brünnhilde að fara að vilja Fricku og láta Siegmund falla. Hún tregðast lengi við uns Wotan hótar hörðu. Hún kallar Wotan Siegvater (2988–3041).

Nafnið Sigföður er þekkt sem Óðinsheiti í Grímnismálum (38) og í þulum.

3. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

Flótti Sieglinde og Siegmunds (3051— 159) .

Engar samsvaranir er hér að finna, hvorki í íslenskum né þýskum sögnum.

4. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

W II 4.1

Brünnhilde:
Sigmundur
sjá þú mig!
Fljótt mér
þú fylgja skalt.

Siegmund:
Hver mun sú mær
bæði brúnaþung og björt?

Brünnhilde:
Þeir feigu einir
fá að sjá mig.
Sá er mig sér
senn skilur við lífsins ljós.
Aðeins vígvelli á
ég vitrast kappa.
Sjái hann sýn
í valinn hann ég vel.

Siegmund:
Hvert leiðir þú
liðið knátt sem þér fylgir?

Brünnhilde:
Til Valföður
er valdi þig
vísa ég leið.
Í Valhöll fylgi ég þér.

Siegmund:
Í hallar sal
Herföður einan ég finn?

Brünnhilde:
Þar fallnar hetjur
fagna þér
í frægðarsól
með blíð og háheilög hót.

Siegmund:
Finn ég í Valhöll
Völsa, minn eigin föður?

Brünnhilde:
Þinn faðir væntir
síns Völsungs þar.

Siegmund:
Verður í Valhöll
kona mér kær?

Brünnhilde:
Óskmeyjar
annast þig þar:
Óðins dóttir
blíð mun bera þér mjöð (3160–95.
Sbr. W II 2.3).

Feigðarboð Brynhildar minnir afar mikið á kvæðið Hákonarmál í 32. kafla Hákonar sögu góða í Heimskringlu. Nokkur líkindi eru einnig við Eiríksmál í Fagurskinnu. Þar velur Óðinn þá Sigmund og Sinfjötla til að fagna Eiríki blóðöx. Þessum þætti Heimskringlu hafði löngu verið snúið á þýsku þegar Wagner tók að fást við efnið, og tvær þýðingar voru til í bókasafni hans í Dresden. Eldri þýðingar Hákonarmála og Eiríksmála voru einnig til.[6] Í Hákonarmálum segir að Óðinn sendi tvær valkyrjur að sækja hinn hrausta og sigursæla konung til Valhallar:

Göndul og Skögul
sendi Gautatýr
að kjósa of konunga,
hver Yngva ættar
skyldi með Óðni fara
og í Valhöllu vera

Göndul það mælti
studdist geirskafti:
„Vex nú gengi goða
er Hákoni hafa
með her mikinn
heim bönd of boðið.“

Vísi það heyrði
hvað valkyrjur mæltu
mærar af mars baki.
Hyggilega létu
og hjálmaðar sátu
og höfðust hlífar fyrir

Hvergi segir berum orðum í eddunum að valkyrjur eigi að fylgja köppum til Valhallar þótt þær velji þá í bardaga. Því hlutverki jók Jakob Grimm við þær.[7]

Valföður er þekkt Óðinsheiti í Völuspá (1, 27), Grímnismálum (48) og þulum. Í Gylfaginningu segir um Óðin (20):

Hann heitir og Valföður, því að hans óskasynir eru allir þeir er í val falla.

Hákoni finnst ráðstöfun valkyrjunnar ekki sanngjörn og þráast við en Skögul svarar að bragði:

„Hví þú svo gunni
skiptir, Geir-Skögul?
Vorum þó verðir gagns frá goðum.“

„Vér því völdum
er þú velli hélt
en þínir fíandur flugu.

Í kvæðinu Oddrúnargráti (20) er Brynhildur einnig kölluð óskmær. Um valkyrjur segir í Grímnismálum (36):

þær bera einherjum öl.

Óðinn skipar liði sínu að fagna konungi með virktum:

„Hermóður og Bragi,“
kvað Hroftatýr,
„gangið í gögn grami,
því að konungur fer
sás kappi þykir
til hallar hinig.“

 

W II 4.2

Siegmund neitar að fylgja Brünnhilde til Walhall nema hann fái að taka Sieglinde með sér:

En eitt mér segðu, þú eilíf!
Fer með sínum bróður hans brúður og systir? Fagnar Signý
Sigmundi þar?

Brünnhilde:

Enn á jörð
andann hún dregur.
Signý ei sér
Sigmund sinn þar.

Siegmund:

Ber kveðju í Valhöll
kveðju til Óðins
kveðju ber Völsa
og vöskum hetjum. Heilsaðu einnig óskameyjum.

Til þeirra ég þreyti ekki för (3199–214).

Í Hákonarmálum er konungur lengi tortrygginn í garð Óðins:

Ræsir það mælti,var frá rómu kominn,
stóð allur í dreyra drifinn:
„Illúðigur mjög
þykkir oss Óðinn vera.
Séumk vér hans of hugi.“

„Einherja grið
skalt þú allra hafa.
Þigg þú að ásum öl.
Jarla bági,
þú átt inni hér
átta bræður,“ kvað Bragi.

Aðalmunurinn á efni kvæðanna er sá að Wagner lætur ástina eina ráða gerðum Siegmunds en tortryggni í garð Óðins og löngun til að Iifa sjálfur lengur er ástæðan fyrir tregðu Hákonar konungs.

Brynhildur (Deborah Polanski)Valkyrjan. Bayreuth 1995
Brynhildur (Deborah Polanski)
Valkyrjan. Bayreuth 1995

W II 4.3.

Siegmund kveðst fremur munu deyða sig og Sieglinde en skiljast við hana. Brünnhilde ákveður að lokum að óhlýðnast Wotan og vernda Siegmund en láta Hunding falla:

Hættu hetja
heyrðu til mín!
Signý mun lifa
og Sigmund lifa ég læt.
Ég ráðin er:
ég róstu vendi.
Þig Sigmund
sigra læt ég í hríð!
(3313–20)

Þess er getið í Sigurdrífumálum (4–5) og Völsunga sögu (42) að valkyrja hafi ekki farið að fyrirmælum Óðins, hvern fella beri í orrustu, Hjálmgunnar eða Agnar Auðabróður. Svo segir einnig í Helreið Brynhildar (8):

Þá lét eg gamlan
á Goðþjóðu
Hjálm-Gunnar næst
heljar ganga,
gaf eg ungum sigur
Auðu bróður,
þar varð mér Óðinn
ofreiður um það.

5. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

W II 5.1

Brünnhilde:
Legg hann Sigmundur
sverðið er traust.

Wotan:
Nú munda ég spjót!
Nú molar það sverð!

Sverðið sundrast og Hunding rekur Siegmund á hol. Brünnhilde flýr með Sieglinde og sverðsbrotin (3384–88).

Í Völsunga sögu brýtur Óðinn sverð Sigmundar með geiri sínum þrátt fyrir vernd „spádísa“. Þar er þó ekki um refsingu fyrir neitt brot að ræða heldur er Sigmundur orðinn gamall og heillum horfinn (25–26):

En svo hlífðu honum hans spádísir að hann varð ekki sár, og engi kunni töl hversu margur maður féll fyrir honum. Hann hafði báðar hendur blóðgar til axlar. Og er orusta hafði staðið um hríð kom maður í bardagann með síðan hött og heklu blá. Hann hafði eitt auga og geir í hendi. Þessi maður kom á mót Sigmundi konungi og brá upp geirinum fyrir hann. Og er Sigmundur konungur hjó fast kom sverðið í geirinn og brast í sundur í tvo hluti.

Valkyrjan - III. þáttur

Valkyrjumar safnast saman á fjallstindi. Brynhildur flýr með Sieglinde á fund systra sinna en þær þora ekki að liðsinna henni. Hún kveður Sieglinde bera göfugustu hetju heimsins undir belti, fær henni brotin af sverði Sigmundar og vísar henni á hæli í óbyggðum. – Óðinn ætlar að refsa Brynhildi með því að svæfa hana á fjallinu og gefa hana þeim karli sem fyrstur finnur. Brynhildur grátbænir um vægð og að lokum tendrar Óðinn vafurloga um hana og fjallstindinn sem einungis óttalaus hetja muni þora að brjótast gegnum.

1. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

W III 1.1

Valkyrjur safnast saman við fjallstind, sumar með fallnar hetjur á söðli sem þær ætla að færa Wotan (3399–453).

Samkoma valkyrjanna á sér ekki beint fordæmi í eddukvæðum en í Völuspá (30) er samt þessi mynd af þeim albúnum að ríða til Valhallar eftir að hafa kjörið hina föllnu:

Sá hún valkyrjur
vítt um komnar,
görvar að ríða
til goðþjóðar.
Skuld hélt skildi
en Skögul önnur,

Gunnur, Hildur, Göndul
og Geirskögul.
Nú eru taldar
nönnur Herjans,
görvar að ríða
grund, valkyrjur.

W III 1.2

Brünnhilde greinir Sieglinde frá því að hún gangi með barn Siegmunds, Wälsung vaxi í skauti hennar og honum verði að bjarga og því skuli hún flýja (3591–95).

Barneign tvíburasystkinanna á sér einungis fyrirmynd í Völsunga sögu en þar er hún framin til að koma fram hefndum (sbr. W I 3.4.). Í Völsungu heldur sú frásögn þannig áfram (V. 14):

Og er fram liðu stundir fæðir Signý sveinbarn. Sjá sveinn var Sinfjötli kallaður. Og er hann vex upp er hann bæði mikill og sterkur og vænn að áliti og mjög í ætt Völsunga.

Í Völsunga sögu kvænist Sigmundur síðar Hjördísi Eylimadóttur. Hún gekk í valinn eftir siðustu orrustu Sigmundar og fann hann særðan til ólífis. Sigmundur kynnir þá Hjördísi sjálfur að hún sé barnshafandi (V. 26):

Þú fer með sveinbarn og fæð það vel og vandlega, og mun sá sveinn ágætur og fremstur af vorri ætt.

W III 1.3

Valkyrjurnar Siegrune og Schwertleite segja frá skógi í austri þar sem Fafner hafi brugðist í ormslíki og liggi á gulli Niflunga og hring Alberichs (3618–25). .

Hér segir fyrst berum orðum í óperunni að Fafner sé í ormslíki. Þannig er og frá sagt í Reginsmálum (14–15) og Skáldskaparmálum (47) og í Völsungu segir Reginn (32):

Síðan drap Fáfnir föður sinn … og myrði hann, og náða eg engu af fénu. Hann gerðist svo illur að hann lagðist út og unni engum að njóta fjárins nema sér og varð síðan að inum versta ormi og liggur nú á því fé.

W III 1.4

Brünnhilde ráðleggur Sieglinde að flýja austur í skóginn í nánd við bæli Fafners því þangað forðist Wotan að koma. Hún færir henni brotin af sverði Siegmunds sem hún hafði hirt af vígvellinum. Þau skulu komast í eigu sonar þeirra Siegmunds sem á að beita sverðinu og heita Siegfried en hann muni verða göfugasta hetja heimsins (3628–31, 3636–56).

Í Þiðreks sögu (Þ. 231–32) er það Reginn, bróðir Mímis, sem breytist í orm en sá ormur liggur ekki á neinu gulli.

Í Nibelungenlied (N. 100) vinnur Siegfried að vísu dreka, baðar sig í blóði hans og fær ósæranlega hornhúð en sá ormur tengist ekki heldur neinu gulli.

Í Hürnen Seyfrid drepur Seyfrid einnig dreka og fær hornhúð (HS 7–11) og síðar annan dreka til að frelsa konungsdóttur en gull í helli drekans er aukaatriði (HS 127–49).

Í Völsunga sögu heldur Sigmundur áfram að leggja Hjördísi ráð fyrir dauða sinn og segir um brotin af sverði sínu (V. 26):

Varðveit og vel sverðsbrotin. Þar af má gera gott sverð er heita mun Gramur og sonur okkar mun bera og þar mörg stórverk með vinna, þau er aldri munu fyrnast, og hans nafn mun uppi meðan veröldin stendur.

2. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

W III 2.1

Wotan segir Brünnhilde að hún hafi verið óskmær hans en sé það ekki lengur og fái ekki heldur að vera valkyrja (3754–73). Hann kveðst munu svæfa hana uppi á fjallinu og hún skuli verða undirgefin eiginkona fyrsta manns sem finni hana og veki (3796–825).

Sú refsing Óðins að svæfa valkyrjuna fyrir óhlýðni er nefnd í Fáfnismálum (43), Sigurdrífumalum (4–5), Helreið Brynhildar (7–10) og Völsungu (42). Í Skáldskaparmálum (48) er getið um svefn hennar og vakningu án þess þó að nefna Óðin. Í Sigurdrífumálum (4–5) segir í lausamáli um hina sjálfbirgingslegu valkyrju:

Sigurdrífa felldi Hjálm-Gunnar í orrustunni. En Óðinn stakk hana svefnþorni í hefnd þess og kvað hana aldri skyldu síðan sigur vega í orrustu og kvað hana giftast skyldu.

3. atriði

Texti Wagners

Samsvarandi í fornritum

W III 3.1

Wotan:
Í fastasvefn
ég svæfi þig.
Hver sá er vekja þig vill
hann verður brúðgumi þinn (4043–46).

Brünnhilde:
Þetta eina
verðurðu að veita!
Já kremdu þitt barn
sem við kné þitt er
á tryggri troð þú
og tortímdu mey
hennar líf og hold
svo lesti þitt spjót.
En goð grimmlynt ég bið
að gera mér ei þá smán.
Það sé þitt boð
að bálandi funi
um Hindarfjall leiki
logandi glóð
og tungurnar sleiki
tennurnar bíti
heigul sem heldur þangað
og dirfist að klífa þann klett. (4061–78)

Í Sigurdrífumálum (4–5) og Völsunga sögu (42) er svar valkyrjunnar við giftingarskipun Óðins fremur stuttaralegt:

En eg strengda þess heit þar í mót að giftast engum þeim er hræðast kynni.

Óðinn kveður Brynhildi sofandi.
Valkyrjan, Bayreuth 1976-80

W III 3.2

Wotan fellst að lokum á bón hennar.

Leiftrandi glóð
nú leiki um bjarg
með eyðandi ógnum
ægi hún deigum
og bleyðan flýi
Brynhildarklett.
Og brúðar sá biðji sem mér
er frjálsari, frjáls sem guð!
(4092–4102)

Að leikslokum festir Wotan hjálminn á Brünnhilde, leggur skjöldinn yfir hana og skipar Loge að tendra vafurloga um klettinn:

Nú kom, leiftrandi logi
og leiktu þér óður um klett!

Hann klappar klettinn þrisvar með spjótinu.

Loki! Loki!
Kom hér!
Kletturinn stendur í björtu báli.
Hver sá er óttast
odd á spjóti
hann aldregi vaði eld
(4136–41).

Vafurloginn um sal Brynhildar er nefndur í Fáfnismálum (42–43), inngangi Sigurdrífumála, Helreið Brynhildar (10), Skáldskaparmálum (48) og Völsunga sögu (42). Valkyrjan sofandi og vafurloginn eru hvorki í Þiðreks sögu né þýskum kvæðum.

Spyrja má hvort hugmyndin um ógnvekjandi loga uppi á fjallstindi hafi kviknað af eldgosi sem íslensk skáld hljóta oft að hafa séð á fyrstu öldum byggðar í landinu en ekki þekkjast í Mið-Evrópu. Kvöldroði eða morgunroði á fjallatindum vekja fremur aðrar tilfinningar en ótta. (Sú hugmynd hefur reyndar verið sett fram að Hverfjall við Mývatn sé fyrirmynd að tindi umkringdum vafurloga!)[1]

Hin óttalausa hetja, sem ein má vekja valkyrjuna, á sér fyrirmynd í Helreið Brynhildar (9), Sigurdrífumálum (4–5) og Völsungu (42). Í Helreið Brynhildar er athöfninni lýst á þennan hátt (9–10):

Lauk hann mig skjöldum
í Skatalundi,
rauðum og hvítum,
randir snurtu,

þann bað hann slíta
svefni mínum,
er hvergi lands
hræðast kynni.

[skildirnir snertu hver annan]

Lét um sal minn
sunnanverðan
hávan brenna
her alls viðar,
[eld]

þar bað hann einn þegn
yfir að ríða,
þann er mér færði gull
það er und Fáfni lá.

Valkyrjan - Yfirlit

Texti
Wagners
Eddu-
kvæði
Snorra
Edda
Völsunga
saga
Þiðreks
saga
Niebelungen-
lied
Hürnen-
Seyfrid
Fruchtbarer Apfel frjóvgandi epli
Wurm im Auge [Ragnars saga: ormur í auga]
Nachtasyl Næturgrið [Egils saga]
Schwert von Wotan im Baum sverð frá Óðni í tré
Begattung der Zwillinge barneign tvíbura
Brünnhilde Brynhildur Brynhildur Brynhildur Brynhildur Brünhild
Liebeszauber
Walas Wissen
Gunnlöð Gunnlöð skáldamjöður
Walküren valkyrjur valkyrjur [Hákonarmál]
Todesverkündung [Hákonarmál]
Brünnhilde schützt Siegmund Sigrún og Sváfa vernda Helga
Wotan zerbricht Siegmunds Schwert Óðinn brýtur sverð Sigmundar
Wotans Speer spjót Óðins spjót Óðins spjót Óðins
Brünnhilde verkündet Schwangerschaft Sigmundur tilkynnir þungun
Wotan straft Brünnhilde Óðinn refsar valkyrju Óðinn refsar Brynhildi
Furchtloser Held erwecke Brünnhilde Óhrædd hetja veki Brynhildi Óhrædd hetja veki Brynhildi
Brünnhildes Schlaf svefn Brynhildar svefn Brynhildar svefn Brynhildar
Feuer am Felsenberg eldur á fjalli eldur á fjalli vafurlogi á fjalli

Valkyrjan - Tilvísanir

[1] Simek. Hugtök og heiti í norrænni goðafræði, 248–49.
[2] Fornaldarsögur I, 115-116
[3] Jakob Grimm. Deutsche Rechtsalterthümer, 87 nm.
[4] Íslenzk fornrit II, 181; XII, 221–22, 447; XXVII, 202; XXVIII, 387.
[5] P.E. Müller. Sagaenbibliothek, 87. Snorri Sturluson‘s Weltkreis I–II. Snorri Sturluson. Heimskringla.
Sagen der Könige Norwegens von Snorre Sturlason. I. Band.
[6] Westernhagen, 104. Schimmelmann, 82–97. Herder. Volkslieder I, 166–71. Íslenzk fornrit XXVI, 193–97; sbr. XXIX, 77–79.
[7] Jakob Grimm. Deutsche Mythologie 1854, 393; sbr. Ettmüller, Völuspá 1, 56.
[8] Walter Hansen, Die Spur der Helden, 48.