Undirkaflar

Niflungahringurinn

Wagner og Völsungar

Nafngiftir

Heildarheiti fjórleiksins er Der Ring des Nibelungen sem orðrétt merkir Hringur Niflungsins, enda er þar átt við aðeins einn úr hópi Niflunga, Alberich. Áður hafði Wagner gælt við nöfnin Das Gold des Nibelungen (Gull Niflungsins), og Der Reif des Nibelungen. Reif merkir einnig hringur en getur haft víðari merkingu en fingurgull, t.d. hjólgjörð og ennisdjásn. Wagner breytti því Reif í Ring til að beina athyglinni sem mest að þessu tákni valdsins. Þegar fjallað er um verkið í heild er styttingin Ring mjög oft notuð á öllum tungumálum í stað hins langa heildarheitis.

Á Íslandi er orðin hefð að verkið sé kallað Niflungahringurinn eins og átt væri við Niflunga í fleirtölu. Ekki þykir ástæða til að breyta því heiti þótt um vissa þýðingarvillu sé að ræða. Hér er styttingin Hringurinn samt oftast notuð líkt og hvarvetna er venja.

Richard Wagner við æfingar á Niflungahringnum í Bayreuth.

Hér eru í upphafi nokkrar bendingar um skilning Wagners á sjálfum Niflungum eins og hann birtist í frumgerðinni (Strobel, 26):

  1. Úr skauti nætur og dauða spratt kynþáttur sem býr í Nibelheim, þ.e. í dimmum gjám og hellum neðanjarðar.
    Nibelheim eða Nebelheim er þýskun frá 19. öld á íslenska heitinu Niflheimur sem oft kemur fyrir í Snorra Eddu (Gylf. 4, 5, 15, 34, 42) og er talið merkja þokuheim eða myrkheim.[1]
  1. Þeir heita Nibelungen.
    Í fyrra hluta Nibelungenlied (87–97) virðast Nibelungen vera mennskar hetjur en hafa bæði jötna og dverga í þjónustu sinni og búa í Nibelungenland. Í síðara hluta kvæðisins og Þiðreks sögu (483–529) eru þeir annað nafn á konungsætt Búrgúnda. Sá skilningur kemur einnig nokkrum sinnum fyrir í eddukvæðum, Brot (16) Atlakviða (11, 17, 27). Í þýska miðaldakvæðinu Das Lied vom Hürnen Seyfrid (12–15, 164–68) eru þeir hinsvegar dvergar og ættfaðir þeirra heitir einmitt Nibelung.[2]
  1. Með hvíldarlausri atorku grafa þeir sig um iður jarðar (líkt og maðkar í dauðu holdi).
    Orðalag þetta er greinilega ættað úr 14. kafla Gylfaginningar:

Þar næst settust guðin upp í sæti sín og réttu dóma sína og minntust hvaðan dvergar höfðu kviknað í moldinni og niðri í jörðinni svo sem maðkar í holdi.

  1. Þeir brenna og hreinsa harða málma og smíða úr þeim.
    Þess er víða getið í Snorra Eddu (Gylf. 17, 34; Sk. 43, 46) að dvergar og svartálfar í jörðu niðri eigi dýra málma og séu öðrum hagari við smíðar. Þeir voru meðal annars fengnir til að smíða ýmsa töfragripi handa guðum.

[1] Grimms Wörterbuch VII, 481. Ásgeir Bl. Magnússon. Íslensk orðsifjabók, 667.

[2] Das Lied vom Hürnen Seyfrid, 12-15. og 164-168. erindi.

Einstakar óperur Hringsins hafa einnig verið umskírðar. Rínargullið hét í fyrstu Der Raub des Rheingoldes (Rán Rínargullsins). Valkyrjan bar vinnuheitið Siegmund und Sieglinde: Die Bestrafung der Walküre (Sigmundur og Sigurlinn: Refsing valkyrjunnar). Siegfried hét lengi vel Der junge Siegfried (Sigurður sveinn). Götterdämmerung (Ragnarök) hét enn lengur Siegfrieds Tod (Dauði Sigurðar).

Nafnið Götterdämmerung, myrkvun guðanna, er upphaflega þýðing á íslenska orðinu ragnarökkur í Snorra Eddu (Gylf. 51). Þar virðist það helst vera gömul alþýðuskýring á eldra orðinu ragnarök, örlög eða endalok guðanna, eins og stendur í stefi Völuspár (43, 47, 56). Þegar Wagner fékk að vita um þessa mistúlkun fannst honum nafngift sín eftir sem áður mátulega dularfull og þokukennd til að mega haldast, enda átti hann fram á síðustu stundu í innri baráttu um hugmyndaleg endalok verksins og lét það að lokum áheyrendum eftir að túlka þau sjálfir út frá tónlistinni!

Persónur hverrar óperu verða tilgreindar í upphafi umfjöllunar og sýndar helstu samsvaranir þeirra í íslenskum ritum. Auk þess verða sýnd innan hornklofa nöfnin sem Þorsteinn Gylfason valdi þeim vatnadísum og valkyrjum sem ekki eiga sér beina hliðstæðu í íslenskum fornritum og notuð voru í þýðingu hans á þeim hlutum Hringsins sem sýndir voru í Þjóðleikhúsinu árið 1994.

Ekki var hægt að ætlast til þess að íslenskir lesendur gætu upp til hópa skilið texta Wagners í frumgerð. Á hinn bóginn verður hann sjaldnast þýddur frá orði til orðs. Oftast er látið nægja að endursegja megininntak þess sem persónur eða sviðslýsing og fyrirmæli höfundar láta í ljós. Þorsteinn Gylfason hefur þó leyft að brot úr þýðingu hans á þeim hluta Hringsins sem sýndur var í Þjóðleikhúsinu 1994 séu notuð þar sem við á og þau hrökkva til. Á þrem stöðum hefur bókarhöfundur sjálfur snarað í eyður (S II 2.4, S III 1.1, S III 3.4 og G F 4).

Síðasta bón Wagners til listamanna við frumsýningu Niflungahringsins í Bayreuth 13. ágúst 1876.
Seðillinn var hengdur upp við inngang listamanna í Festspielhaus:
Síðasta bón til minna kæru félaga. Skýrleiki!! Stóru nóturnar skila sér sjálfar. Litlu nóturnar og texti þeirra eru aðalatriðið. Aldrei að ávarpa áheyrendur, alltaf hver annan, í einræðum líta upp eða niður, aldrei beint fram. Hinsta óskin: Verið mér eftirlát, mín elskulegu!
Richard Wagner

Texti Wagners er í fremra dálki en hliðstæður í eldri skáldverkum í aftara dálki. Athugasemdir eru í þeim dálki sem betur á við hverju sinni. Langar, beinar tilvitnanir eru hafðar með skáletri en stuttar innan gæsalappa. Eftir umfjöllun hverrar óperu eru dregin saman í töflu helstu atriði hennar sem samsvaranir er að finna við í þeim heimildum sem teknar hafa verið til samanburðar. Þar eru einnig tilgreind atriði úr eldri gerðum Hringsins þótt þeim væri síðar sleppt.

Ívitnuð meginrit

Fjölmargar útgáfur eru til af sumum þeirra rita sem hér verður oftast vitnað til. Einkum á þetta við um endanlegan texta Hringsins, eddukvæði, Snorra Eddu og Nibelungenlied. Því getur verið mjög ófullnægjandi að vísa í blaðsíðutal ákveðinnar útgáfu. Til að gera sem flestum jafnhátt undir höfði, hvaða útgáfu sem þeir hafa handbæra, er vísað í einstakar ljóðlínur eða vísur og kapítula í fyrrnefndum verkum, svo og í ljóðinu um Hürnen Seyfrid.

Ekki er þetta samt einhlít aðferð við fornrit því vísna- og kaflatal getur verið mismunandi eftir handritum og jafnvel eftir röksemdum og smekk einstakra útgefenda. Því er tiltekin aðgengileg útgáfa nefnd sem viðmiðun ef menn skyldu komast í þrot við eftirgrennslan.

Fyrri drög Wagners að texta Hringsins hafa sjaldan verið prentuð í heild sinni. Ekki er heldur um að ræða ofurmargar útgáfur á Völsunga sögu og Þiðreks sögu, en kaflaskipan getur verið ærið ólík, einkum í hinni síðarnefndu. Af þeim sökum er vitnað í blaðsíðutal í tilteknum aðgengilegum útgáfum þessara verka.

Við upphaf hátíðarinnar í Bayreuth 1876.
Vilhjálmur I Þýskalandskeisari heilsar Wagner við Festspielhaus.

A. Texti Wagners
a) Til endanlegs texta Hringsins er vísað í ljóðlínutal og miðað við:
Herbert Huber. Richard Wagner. Der Ring des Nibelungen. Nach seinem mythologischen, theologischen und philosophischen Gehalt Vers für Vers erklärt. Weinheim 1988. Tölurnar innan sviga eru þá án annarra tákna.
b) Til eldri draga að texta Wagners er vísað í:
Otto Strobel. Richard Wagner. Skizzen und Entwürfe zur Ring-Dichtung. München 1930. Vísað er í blaðsíðutal.
c) Til frumgerðar Wagners eða vésagnarinnar (Nibelungen-Mythos) er þó vísað í blaðsíður þýðingarinnar hér á undan, en þar er aftur vísað í blaðsíðutal hjá Strobel.
d) Til eldri gerðar af Siegfrieds Tod (síðar Götterdämmerung) og fleiri verka er vísað í: Richard Wagner. Sämtliche Schriften und Dichtungen II. 6. Útg. Leipzig [1913]. Vísað er í blaðsíðutal.

B. Eddukvæði
Vísað er í einstök kvæði og númer vísna innan sviga. Miðað er við: Eddukvæði. Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna. Reykjavík 1998.

C. Snorra Edda
Miðað er við: Snorra Edda. Árni Björnsson bjó til prentunar. Reykjavík 1975. Vísað er í kaflanúmer Gylfaginningar og Skáldskaparmála en ekki blaðsíðutal. Sama kaflaskipting er í útgáfu Heimis Pálssonar, Reykjavík 1988, og Guðna Jónssonar, Reykjavík 1949. Þegar bætt er við texta úr útgáfum þeirra Heimis vegna handritamunar er viðbótin innan oddklofa.

D. Völsunga saga
Vitnað er í: Völsunga saga. Guðni Jónsson og Bjarni Vilhjálmsson bjuggu til prentunar. Fornaldarsögur Norðurlanda I. Reykjavík 1943. Vísað er í blaðsíðutal. Tilvitnanir hafa verið færðar til nútímastafsetningar.

E. Þiðreks saga af Bern
Vitnað er í: Þiðreks saga af Bern. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Reykjavík 1951. Vísað er í blaðsíðutal. Tilvitnanir hafa verið færðar til nútímastafsetningar.

Valkyrjureiðin

F. Das Nibelungenlied
Vitnað er í: Das Nibelungenlied. Mittelhochdeutscher Text und Übertragung. Útg. Helmut Brackert. Frankfurt am Main 1979. Vísað er í einstök erindi.

G. Das Lied vom Hüren Seyfrid
Vitnað er í: Das Lied vom Hüren Seyfrid. Nach den mittelalterlichen Texten. Útg. Wolfgang Golther. Halle a. S. 1911. Vísað er í einstök erindi.

Önnur rit verða tilgreind aftanmáls jafnóðum og þau skipta máli, auk þess sem altæk heimildaskrá er í bókarlok.

Skammstafanir

Heiti ívitnaðra skáldverka í samanburðartextum eru oft rituð fullum stöfum eða lauslega stytt. Númer vísna, blaðsíðna og kafla eru oftast strax á eftir heitinu svo að ekki á að fara milli mála í hvað er vitnað, en þyki þörf á eru verkin skammstöfuð á eftirfarandi hátt:

Bls.
Brot
G
Gylf.
HS
N 
R
S 
Sk.
SSD
V
W
Þ

blaðsíður í þessari bók
Brot af Sigurðarkviðu
Götterammerung (Ragnarök)
Gylfaginning Snorra Eddu
Das Lied vom Hiirnen Seyfrid
Das Nibelungenlied
Das Rheingold (Rínargullið)
Siegfried
Skáldskaparmál Snorra Eddu
Sämtliche Schriften und Dichtungen
Völsunga saga
Die Walküre (VaIkyrjan)
Þiðreks saga af Bern

Bayreuth - Festspielhaus 1876.

Ef vitnað er í athugasemdir við einstök atriði í Hringnum er það tilgreint með skammstöfun óperunnar, þátt hennar með rómverskri tölu, atriði þáttar með serkneskri tölu, sömuleiðis númer athugasemdar. Þriðja athugasemd við fjórða atriði annars þáttar Valkyrjunnar er því til dæmis skammstafað svo: W II 4.3.

Sköpunarferli Hringsins - skipurit

Wagner samdi texta Niflungahringsins í öfugri röð miðað við efnisþráð en jafnan í sömu áföngum: 1) Frumdrættir 2) Lausamálstexti 3) Endanlegur texti í bundnu máli (ljóð) sem gat þó tekið breytingum fram á lokastund. Tónlistina samdi hann á hinn bóginn í réttri röð en sumt með löngum hléum. Hér er yfirlit þessa ferlis.

Frumdrögum Hringsins (Vésögninni) var lokið 4. október 1848.

Heiti Lengd
þátta
Lengd
óperu
Texta-
drög
Lausa-
mál
Ljóð Músík-
drög
Músík
Rínargullið 2:30 2:30 nóv
1851
mars
1852
sep-nóv
1852
nóv 1953-
jan 1854
feb-maí
1854
Valkyrjan
1. þáttur 3 atriði
2. þáttur 5 atriði
3. þáttur 3 atriði

1'10"
1'30"
1'10"
3'50" nóv
1851
maí
1852
júní
1852
júní-des
1854
jan-mars
1855-56
Siegfried
1. þáttur 3 atriði
2. þáttur 3 atriði
3. þáttur 3 atriði

1'20"
1'15"
1'25"
4'00" maí
1851
maí
1851
júní
1851
sept 1856-
ágúst 1869
okt 1856-
feb 1871
Ragnarök
Forleikur 2 atriði
1. þáttur 2 atriði
2. þáttur 5 atriði
3. þáttur 3 atriði


2'00"
1'20"
1'20"
4'30" okt
1848
nóv
1848
nóv 1848-
des 1852
okt 1869-
apríl 1872
maí 1873-
nóv 1874
Alls 14'50 14'50