Undirkaflar
Wagner og Völsungar
Markmið Hringsins
Richard Wagner ætlaði aldrei að tónsetja skáldskap annarra manna, hvorki eddukvæði né Nibelungenlied. Hann orti sinn eigin texta. Annað mál er að af aðfengnum hugmyndum í efnisþræði, tilsvörum og umhverfislýsingum Niflungahringsins sótti hann langflestar úr eddukvæðum, Snorra Eddu og Völsunga sögu auk nokkurra atriða úr Þiðreks sögu og Nibelungenlied. Þetta hafa menn vonandi getað sannfærst um af því sem að framan var rakið.
Wagner fléttaði saman vésagnir af goðum og hetjum. Það þótti nýstárlegt um miðja 19. öld, en kveikjuna að þeirri samfléttun gat hann einmitt fundið í vésögn Snorra Eddu um gull dvergsins Andvara. Þar er bölvun sú sem lögð er á hringinn einskonar leiðarstef um tortímingu allra þeirra goða, manna og óvætta sem komast yfir hann eða ágirnast gullið í Rín. Samfléttun goðsagna og hetjusagna kemur reyndar einnig fyrir í Völsunga sögu og sumum eddukvæðum.
Úr öllum þessum þáttum skóp Wagner algerlega sjálfstætt skáldverk í fjórum hlutum en beygði atburði og persónur undir lögmál eigin sköpunar. Í hinum mörgu fornkvæðum og sögnum er oft nokkurt innbyrðis ósamræmi við umfjöllun sömu viðburða. Úr þessum frumgerðum smíðar Wagner sína eigin vésögn, velur úr og lagar til eftir eigin höfði svo að úr verður rökleg atburðarás og samhengi. Þessi úrvinnsla Wagners er óneitanlega afar snjöll og ítrekað skal að hin aðfengnu minni eru ekki nema hluti af öllum skáldskapnum.
Fyrir Íslendinga er nærtækt að bera þessi vinnubrögð saman við aðvörun Halldórs Kiljans Laxness framan við fyrstu útgáfu Íslandsklukkunnar:
Höfundur vill láta þess getið að bókin er ekki „sagnfræðileg skáldsaga“, heldur lúta persónur hennar, atburðir og stíll einvörðúngu lögmálum verksins sjálfs.
Engu að síður hafa Snæfríður, Arnas og Jón Hreggviðsson orðið sannari og lífmeiri í hug íslensku þjóðarinnar en hinar sagnfræðilegu fyrirmyndir. Á líkan hátt hefur goðheimur Wagners í Niflungahringnum orðið nánari veruleiki handa flestum þjóðum heims en hinar upprunalegu og slitróttu íslensk-norrænu vésagnir, enda hafa þær ekki notið sambærilegrar útbreiðslu. Niflungahringurinn hefur því mótað mjög hugmyndir manna um norræna goðafræði víða um heim.
Dæmisaga Wagners er afar skyld efnisþræðinum í Völuspá: fagurt goðalíf, bölvun gullsins, svik og meinsæri, fall guðanna, heimsendir og óljós von um endurlausn. Völuspá verkar líkt og baksvið að allri vésögn Wagners, enda þótt ekki sé margt um beinar orðalagslíkingar. Áhrif hennar má á hinn bóginn skynja um allan Hringinn.
Meginsýn Wagners er í stystu máli viðvörun gegn bölvun ágirndar og valdafíknar en fórnarlömb þeirra misnota óflekkuð gæði náttúrunnar (gullið) til að skapa sér vald yfir öðrum (hringinn) og fórna kærleikanum fyrir. Alberich, Wotan, Fafner, Mime og Hagen falla allir fyrir þeirri freistingu. Því athæfi fylgja svik á svik ofan af hálfu guða, manna og jarðbúa og leiða að lokum til tortímingar. Hinn flekklausi fávísi maður, sem er til þess getinn að bjarga veröldinni úr þessari klípu, verður einnig svikráðum að bráð.
Þessa dæmisögu Wagners hafa menn um víða veröld leitast við að tjá og túlka á margvíslegan hátt á annað hundrað ár. Bækur og ritgerðir um Wagner skipta þegar tugum þúsunda, og nokkur hundruð bætast við á hverju ári. Hringurinn er fyrirferðarmestur í því viðfangi, bæði sakir eigin lengdar og hins, hvað unnt þykir að túlka hann á mismunandi vegu. Æra mætti óstöðugan að rekja alla þá umræðu.
Vegna algengra hleypidóma ýmissa sem lítt þekkja til er samt ástæða til að draga skýrt fram að Hringurinn er ekki saga um stríðskappa eða hetjudýrkun. Í öllum fjórum verkunum er fremur lítið um bardaga eða blóðhefnd, hvort sem miðað er við aðrar óperur á 19. öld eða spennusögur og glæpamyndir nútímans, hvað þá sjálfan raunveruleikann. Telja má dæmin á fingrum sér:
Í Rínargullinu drepur Fafner jötunn Fasolt bróður sinn vegna gullsins. Í Valkyrjunni lætur gyðjan Fricka Hunding vega Siegmund vegna hjúskaparbrots. Wotan sendir Hunding til Friggjar. Siegfried vinnur á orminum, sem verður táknmynd þess hvernig gullið getur breytt fólki í ófreskjur. Hann vegur síðan Mime vegna svikráða hans. Einu eiginlegu morðin eru framin í seinustu þáttum Ragnaraka, þegar Brünnhilde heimtar dauða Siegfrieds til hefndar fyrir svik hans og sína eigin smán. Hagen myrðir bæði Siegfried og Gunther til að öðlast valdið sem á að fylgja hringnum. „Hetjulegur“ bardagi kemur hvergi fyrir í Hringnum.
Helstu kveikjur
Wagner smíðar vésögn sína á markvissan hátt. Enda þótt óperur hans þyki langar og allur Niflungahringurinn taki um 15 klukkustundir í flutningi, hefur hann þurft að þjappa efninu mikið saman. Hér skal rifjað upp hvaðan helstu einstakar hugmyndir virðast fengnar í hverri óperu um sig.
Rínargullið
Atriði Rínardætra er eigin hugsmíð Wagners.
Flest önnur minni má rekja til Snorra Eddu: guðir, gyðjur og jötnar, borgarsmiðurinn, epli Iðunnar, sendifarir Loka, svartálfar, gull dvergsins, hringur Andvara og bölvun hans, Fáfnir, ægishjálmur, Bifröst, Valhöll. Völvuna Erdu má þó einkum rekja til Völuspár og Baldurs drauma.
Valkyrjan
Minni hennar eru einkum fengin úr fyrstu ellefu köflum Völsunga sögu: tréð í miðjum salnum, sverð frá Óðni í stofni þess, Sigmundur einn fær dregið það út, skógarlíf feðga, ástir tvíbura, löng meðganga, Óðinn sundrar sverði, svæfing valkyrju og vafurlogi um kIett hennar. Ýmsum persónum Völsungu er þó sleppt.
Viska sem beðgjöld völvunnar Erdu er einkum ættuð úr Gunnlaðar sögu í Snorra Eddu en feigðarboð Brynhildar úr Hákonarmálum í Heimskringlu. Valkyrjureið er nefnd í Völuspá og raunar þekkist hugmyndin um valkyrjur einungis úr íslenskum ritum.
Siegfried
Atriðin í smiðjunni eru blanda af sögunni um uppvöxt Sigurðar í Reginsmálum, Snorra Eddu, Völsungu og Þiðreks sögu, en einnig má greina drætti úr Hürnen Seyfrid og Grimmsævintýrinu um strákinn sem fór út í heim til að læra að hræðast.
Viskukeppni Wotans og Mimes minnir mest á svipaða keppni jötuns og Óðins í Vafþrúðnismálum, en dráp ormsins og Mimes og skilning fuglsraddar á Fáfnismál og Völsungu.
Uppvakning völvunnar minnir einna helst á Baldurs drauma og fleiri uppvakningar í eddukvæðum, en senna Wotans og Siegfrieds gæti minnt á Fjölsvinnsmál.
Svaðilför Siegfrieds gegnum eldinn og uppvakning valkyrjunnar á fjallinu líkist mest Sigurdrífumalum og Völsungu þótt hún minni einnig á ævintýrið um Þyrnirósu.
Samtöl Alberichs og Wotans eru alger hugsmíð Wagners.
Ragnarök
Nornaþátturinn í upphafi á sér rætur í Gylfaginningu og Helgakviðu Hundingsbana I.
Kveðjustund Siegfrieds og Brünnhilde á vissa samsvörun í Sigurdrífumálum, Völsungu og Þiðreks sögu.
Óminnisdrykkurinn er alfarið úr Völsungu, en önnur för Siegfrieds gegnum vafurlogann til Brynhildar er bæði þaðan og úr eddukvæðum ásamt Snorra Eddu.
Mægðir við Gunther, ósætti kvennanna, ásakanir um svik við Brynhildi og dráp Sigurðar eru sameiginleg öllum heimildum sem hér eru teknar til samanburðar.
Veiðiferðina og nánari lýsingu morðsins í skóginum er samt aðeins að finna í Þiðreks sögu og Nibelungenlied.
Samtal Siegfrieds við Rínardætur og hlutverk Alberichs er hugsmíð Wagners.
Bálför Brynhildar og Sigurðar er ættuð úr Sigurðarkviðu skömmu, Snorra Eddu og Völsungu.
Uppvakning völvunnar minnir einna helst á Baldurs drauma og fleiri uppvakningar í eddukvæðum, en senna Wotans og Siegfrieds gæti minnt á Fjölsvinnsmál.
Svaðilför Siegfrieds gegnum eldinn og uppvakning valkyrjunnar á fjallinu líkist mest Sigurdrífumalum og Völsungu þótt hún minni einnig á ævintýrið um Þyrnirósu.
Samtöl Alberichs og Wotans eru alger hugsmíð Wagners.
Áherslur Wagners
Nefna má nokkur dæmi um áherslumisvægi einstakra minna í Hring Wagners miðað við uppsprettur hans.
Alberich verður höfuðóvinur Wotans og á sér naumast beina fyrirmynd, hvorki sem nafni hans í Nibelungenlied né Andvari í íslenskum verkum. Bölvun hringsins er reyndar ættuð frá Andvara, og í Nibelungenlied er Alberich sagður gæta gulls, en að öðru leyti er hlutur beggja fremur smár í þeim sögnum. Hlutverk annarra guða en Wotans og Fricku er hinsvegar langtum smærra hjá Wagner en samsvarandi persóna í eddukvæðum og Snorra Eddu.
Langvarandi hranaleg andúð Siegfrieds á smiðnum fóstra sínum á sér mjög litla samsvörun í hinum alíslensku gerðum þessarar sögu, en hún birtist mjög ótvírætt í Þiðreks sögu strax og Sigurður sveinn er frumvaxta. Í Hürnen Seyfrid semur þeim ekki heldur, en þar er smiðurinn einungis meistari sveinsins, ekki fóstri. Í Nibelungenlied er enginn smiður.
Sjálfur hringurinn fær enn þyngra táknrænt vægi hjá Wagner en í nokkurri fyrirmynd hans. Bölvun hans mætti helst líkja við frásögn Snorra Eddu í Skáldskaparmálum en þar veldur hún þó engum heimsslitum eins og hjá Wagner.
Enn má ítreka að Wagner gerist sífellt sjálfstæðari í skáldskap sínum eftir því sem verkinu vindur fram. Hann grisjar efnið smám saman af ýmsum smáatriðum og mótar það í hendi sér. Samt eru ærið mörg aðfengin minni eftir í hinni endanlegu gerð, eins og hér hefur verið rakið. Af þeim reynast um það bil fjórir fimmtu úr íslenskum bókmenntum einum, einn sjötti er öllum fyrirmyndum sameiginlegur og um það bil einn tuttugasti getur talist úr þýskum bókmenntum einum.
Ályktunarorð
Auðvitað má halda því fram að allur þessi samanburður skipti í rauninni litlu máli, einungis texti Wagners sjálfs, skáldskapur hans og úrvinnsla komi okkur við. En meðan menn um heim allan telja ástæðu til að reyna að rekja frumheimildir Wagners að Hringnum í hverri bókinni á fætur annarri og í sérhverri leikskrá Hringsins í sérhverju óperuhúsi um veröld víða, og einatt af talsverðri vanþekkingu, þá sýnist full ástæða til að láta það ekki liggja í láginni hvaða heimildir urðu honum langsamlega notadrýgstar sem hráefni.[1]
Eindregið skal tekið fram að í þessari fyrstu íslensku bók um Richard Wagner var viðfangsefnið mjög takmarkað. Einungis átti að kanna með samanburði, hvaða kveikjur að efnivið sínum skáldið virtist hafa þegið úr íslenskum og öðrum fornum ritum. Einhverjum kann að þykja fulllangt seilst á stöku stað en öðrum að sýna mætti meiri dirfsku.
Viljandi er reynt að forðast vangaveltur um heimspeki og lífssýn skáldsins eða hugsanleg áhrif frá einkalífi hans sjálfs sem kynnu að birtast í verkinu. Um þessi huglægu efni hafa hundruð höfunda um heim allan fengið útrás fyrir skoðanir sínar. Þangað er auðvelt að leita ef menn telja ekki vænlegast að mynda sér skoðun á eigin spýtur. Hér hefur verið reynt að einskorða sig við þau atriði sem festa má hendur á, þótt sum þeirra séu vissulega nokkuð sleip viðkomu.
Tilvísanir
[1] Nýlegt dæmi má sjá í leikskrá Rínargullsins frá Kungliga teatern í Stokkhólmi árið 1997. Gunilla Petersén: Richard Wagner och Nibelungernas ring. Rhenguldet, bls. 12–15.