Undirkaflar

Sköpunarferli Hringsins

Wagner og Völsungar

Wagner snýr sér til norðurs

Af öllu því sem sagt var hér á undan má ljóst vera að talsvert af þeim íslensku goðsögnum, hetjusögum og fornkvæðum sem Richard Wagner átti eftir að fást við á síðara hluta ævi sinnar var þegar komið út á þýsku meðan hann sjálfur var enn á barnsaldri. Þetta var gefið út af sumum fremstu fræðimönnum á sínu sviði á þessum tíma. Annar eins lestrarhestur hefði því auðveldlega getað kynnst þessum sagnabrunni á bernsku- og unglingsárum. Þess var áður getið (bls. 15-16) að á skólaárum sínum 1827-30 dvaldist hann löngum stundum í bókasafni Adolfs föðurbróður síns í Leipzig sem var mikill áhugamaður um klassísk fræði og málvísindi. Wagner segir svo frá:

Adolf Wagner (1774-1835), föðurbróðir Richards, sem verkaði mikið á lífsskoðanir hans og menntun í æsku

Hið ríkulega bókasafn hans hvatti mig til að leita kappsamlega í öllum áttum þess svo að ég hljóp eins og í óðagoti frá einu sviði bókmennta til annars án þess að mér tækist þó að öðlast nokkra grundvallarþekkingu á neinu þeirra.[1]

Því miður er ekki til samskonar skrá um bókasafn Adolfs frænda og Richards bróðursonar hans. Þó er vitað að Adolf var kunningi barónsins Motte-Fouqué og átti áðurnefnd leikrit hans sem eru einkum unnin upp úr Völsunga sögu. Mjög líklegt er að maður á borð við Adolf Wagner hafi átt megnið af þeim tiltölulega fáu ritum sem snertu norrænar fornmenntir og höfðu verið gefin út frá miðri 18. öld.[2]

Eftir að Richard Wagner var orðinn fulltíða maður má af útgefendum forníslenskra rita á þýsku einkum nefna kunningja hans Ludwig Ettmüller sem Wagner uppnefndi Eddu-Müller. Hann gaf Völuspá út árið 1830 með orðaskrá og síðar þýðingu sína á þeim eddukvæðum sem stundum eru nefnd Völsungakvæðin árið 1837. Hann reyndi meira að segja að beita íslenskri stuðlasetningu í þýðingu sinni. Árið 1851 kemur síðan hin nokkuð svo tímamótamarkandi þýðing Karls Simrocks á Sæmundar Eddu og megninu af Snorra Eddu. Wagner hafði því vissulega úr ýmsu að moða þegar hann kom til þessa leiks kringum miðja 19. öld.

Wagner átti um þetta leyti fjórar útgáfur af Nibelungenlied og á árunum 1844-48 fær hann mörg rit um þetta efni að láni hjá Konunglega bókasafninu í Dresden. Hann segir hinsvegar berum orðum í „boðskap til vina sinna“ sumarið 1851 að hann hafi aldrei séð leið til að skapa óperu um Siegfried upp úr Nibelungenlied:

Útgáfa „Eddu-Müllers“ á Völuspá árið 1830, sem hann kallaði elsta minningarmark um norðurgermanskt tungumál.

Allar óskir okkar og öru hvatir, sem í sannleika færa okkur til framtíðar, reynum við að umskapa í skiljanlegt form með myndum úr fortíð sem nútíðin getur ekki veitt þeim. Í viðleitni minni til að koma óskum hjarta míns í listrænt form og í ákafa mínum við að rannsaka það sem dró mig ómótstæðilega að elstu sagnalindum heimaslóða, þokaðist ég skref fyrir skref inn í fjarræna fortíð þar sem ég átti að lokum með fögnuði eftir að finna í fjarlægustu fornöld hinn æskufagra mann í upphöfnu afli og hreysti. Rannsóknir mínar báru mig gegnum skáldskap miðalda niður á grunn frumþýskra goðsagna. Mér tókst að afklæða þær hverjum hjúpnum á fætur öðrum sem síðari skáldskapur hafði vafið þær í og afmyndað uns ég sá þær að lokum í sinni hreinustu fegurð. Það sem ég sá nú var ekki hin vanabundna mynd þar sem búningurinn vekur meiri athygli en sjálft sköpulagið, heldur hinn raunverulegi, nakti maður, þar sem ég gat skynjað sérhvern æðaslátt, sérhvert viðbragð hinna kraftmiklu vöðva í óþvingaðri frjálsri hreyfingu; blátt áfram: hinn sanni maður.

Enda þótt hin glæsta mynd Siegfrieds hefði fyrir löngu heillað mig, varð ég fyrst frá mér numinn þegar mér tókst að afhjúpa hana öllum síðari búningi og sjá hann fyrir mér í sínum hreinasta mannlega skapnaði. Nú fyrst skynjaði ég þann möguleika að gera hann að hetju í leikverki sem mér hafði aldrei komið til hugar meðan ég þekkti hann einungis úr miðaldakvæðinu Nibelungenlied.[3]

Wagner nefnir að vísu ekki ótvírætt á þessum stað hverjar þessar „sagnalindir“ og „frumþýsku“ goðsagnir séu. Varla getur þó verið um margt annað að ræða í þessu efni en íslenskar sagnir og kvæði. Hann átti blátt áfram ekki annars völ. Danska tónskáldið Niels W. Gade minntist þess einnig í elli sinni að í apríl árið 1846 hitti hann Wagner sem þá var að stjórna 9. sinfóníu Beethovens í Dresden. Wagner hafði þá sagt við Gade: „Ég verð að kynna mér þessi fornnorrænu eddukvæði ykkar; þau eru langtum djúpsærri en miðaldakvæðin okkar.“[4]

Í ævisögu sinni segir Wagner auk þess berum orðum að lestur á djörfum rannsóknum Franz Josephs Mones á þýskum hetjusögum hafi orðið til þess að hann sneri sér einkum að því að kynna sér aðrar „þýskar“ hetjusagnir en þær sem fjölluðu um „Nibelungen“ og hina þýsku endurgerð hetjusagna:

Þýðing Karls Simrocks á eddukvæðum og kjarna Snorra Eddu
Þýðing Karls Simrocks á eddukvæðum og kjarna Snorra Eddu kom fyrst út 1851. Hana notaði Wagner mest við textagerð Hringsins

Ég stóðst ekki mátið að fara að kynna mér hinar norrænu heimildir, sem hér var vitnað til, eins vel og ég gat án reiprennandi kunnáttu í norrænum tungumálum, Edduna og lausamálstexta af drjúgum hluta hetjusagnanna. Athuganir hjá Mone beindu mér að lestri Völsunga sögu sem brátt hafði ákvarðandi áhrif við meðferð mína á svipmóti þessa efnis. Upprunalegur innileiki þessa forna sagnaheims hafði lengi búið um sig í vitund minni og öðlaðist smám saman þann mótandi sköpunarmátt sem birtist síðar í verkum mínum.[5]

Greinilegt er að ljóðform eddukvæða og sjónarsvið Völsunga sögu hafa höfðað til Wagners og honum þótt þessi verk bera vitni um upprunalegra menningarskeið en Nibelungenlied og önnur þýsk miðaldakvæði. Persónur og eiginleikar þeirra og fjölmargir þættir í atburðarásinni eru vissulega af talsvert öðrum toga en birtist í Nibelungenlied.

Þessi rit kveðst hann hafa lesið á bilinu 1847-48, á sama tíma og hann vann að músíkinni við Lohengrin sem hann lauk við í april 1848. Leikhúsmaðurinn Eduard Devrient getur þess í dagbók sinni 1. april 1848 að Wagner hafi gengið með honum um Stóra garðinn í Dresden og sagt sér frá nýrri óperuhugmynd sem reist væri á sögu Sigurðar Fáfnisbana og Niflunga.[6]

Samning texta og tónlistar

Wagner tók til við texta Hringsins haustið 1848 með því að semja sína eigin vésögn undir áhrifum ýmissa fornra rita sem hann hafði lesið og reynt verður smám saman að rekja hér á eftir. Þetta fyrsta uppkast, sem hann lauk við 4. október, er ekki nema um það bil átta blaðsíður, en þar er þó í rauninni komin burðargrind að Niflungahringnum öllum. Á þeirri stundu hafði Wagner samt ekki nema eina óperu í huga, Dauða Siegfrieds, sem seinna varð að Ragnarökum. Vésögnin var því á þessu stigi ekki annað en baksvið þessarar væntanlegu óperu.

Aðeins hálfum mánuði síðar, 20. október, lauk hann við fyrsta uppkast að lausamálstexta við Dauða Siegfrieds og skömmu síðar við textadrög að nornaatriðinu í inngangsatriði sömu óperu. Eftir það lá samning textans í salti í tvö og hálft ár. Á þeim tíma varð Wagner landflótta vegna þátttöku sinnar í uppreisninni í Dresden vorið 1849 og settist að í Sviss. Vel hefði svo mátt fara að ekki yrði meira úr þessu verki fremur en drögum hans að söngleiknum um Friðrik rauðskegg, Jesúm frá Nasaret og Völund smið, sem hann samdi öll á bilinu 1848-50 en hélt aldrei áfram við (Sjá kaflann: Inngangur > Íslensk rit og Wagner).

Vorið 1851 tekur hann þó aftur til við þetta efni. Nærtækasta hvatning virðist vera sú að í lok febrúar kom út hin nýja þýðing Karls Simrocks á svo til öllum eddukvæðum og meginhlutanum af lausamáli Snorra Eddu. Með henni fékk Wagner í hendur gott heildaryfirlit um eddufræði og norrænar goðsagnir. Honum varð brátt ljóst að nauðsynlegt væri að semja aðra óperu um æsku Siegfrieds til þess að menn gætu betur skilið forsendurnar fyrir dauða hans. Þetta hafði vinur hans, Eduard Devrient, reyndar þegar bent honum á í Dresden veturinn 1848-49. Hann samdi því tvær gerðir að Siegfried unga í lausu máli í maí og loks eina í bundnu máli í júní 1851. Þetta átti að verða gamanópera og viss andstæða við hina seinni.[7]

Ha#tilvisanirustið 1851 komst Wagner að þeirri niðurstöðu að tvær óperur í tilbót þyrfti til að allt efnið kæmist til skila. Þetta kemur fyrst fram í bréfum til Theodors Uhligs 12. okt. og 11.-12. nóv. og til Franz Liszt 20. nóv. 1851. Frá því í byrjun nóvember 1851 og fram undir lok maí 1852 semur hann því textann að Rínargullinu og Valkyrjunni.

Uppkast að texta við óperuna Dauði Siegfrieds árið 1848, en hún var síðar nefnd Ragnarök og varð síðasta ópera Niflungahringsins.

Texta alls verksins gaf hann út handa vinum og vandamönnum í 50 eintökum í febrúar 1853. Tíu árum seinna, 1863, var textinn gefinn út opinberlega með áorðnum breytingum. Þar sést í fyrsta skipti að heiti beggja síðari óperanna, Der junge Siegfried (Sigurður sveinn) og Siegfrieds Tod (Dauði Siegfrieds), hefur verið breytt í Siegfried og Götterdämmerung (Ragnarök).[8]

Eins og sést af framansögðu samdi Wagner texta Hringsins efnislega aftur á bak en að þessu loknu tók hann að semja músíkina við ljóðin og nú byrjaði hann framan frá (sbr. bls. 23). Frá því í nóvember 1853 og fram í ágúst 1857 lauk hann við músikina að Rínargullinu og Valkyrjunni og byrjaði á Siegfried. Síðan varð sjö ára hlé meðan hann samdi Tristan og Isolde og Meistarasöngvarana, en á árunum 1864-71 lauk hann við Siegfried og 1869-74 við Götterdämmerung.

Mathilde Wesendonck.
Ást Wagners á henni varð ein kveikjan að óperunni Tristan og Isolde um hina fullkomnu en vonlausu ást í meinum.
Af þessu hlaust sjö ára hlé á samningu tónlistar við Niflungahringinn.

Bragfræði

Á öðrum stað í boðskapnum til vina sinna árið 1851 lýsir Wagner því að hann hafi ekki fundið bragarhátt með réttu hljóðfalli fyrir hina léttstígu persónu Sigurðar fyrr en hann uppgötvaði stuðlasetninguna í sömu „frumsögn“ og hann hafði fundið hinn fagra unga Sigurð svein:

Þegar ég lagði drög að Siegfried fann ég hvað sem væntanlegri tónsköpun leið að það var ógerlegt eða að minnsta kosti gersamlega óviðeigandi að setja þennan skáldskap fram eftir bragarháttum samtíðarinnar.

Talsmáti þessa manns varð að vera í samræmi við hreyfingar hans. Hér dugðu engir tilbúnir svífandi líkamsfirrtir nútíma bragarhættir. Draumórakennd tæling endarímsins hefði ekki gert annað en breiða gervihold yfir beinlausa brjóskgrind sem unnt var að toga og teygja eftir vild. Siegfried hefði orðið að hlaupa beina braut ef ég átti einungis kost á slíkum bragarhætti.

Ég þurfti því að velta fyrir mér annarskonar hljóðfalli tungumálsins. Og þó þurfti ég í rauninni ekki að velta neinu fyrir mér, heldur einungis að taka ákvörðun, því í goðsögnunum, þar sem ég fann hina æskufögru Siegfrieds-gerð, rakst ég líka af sjálfu sér á þann eina fullkomna og líkamsnána talsmáta sem þessi manngerð gat tjáð sig með. Um var að ræða hin stuðluðu ljóð sem laga sig eftir röklegum áherslum málsins í eðlilegu og lífrænu hljóðfalli og eiga hvenær sem er létt með að túlka margbreytileg viðhorf. Einmitt á þennan máta orti fólkið sjálft meðan það var ennþá skáld og skóp goðsagnir.[9]

Þessa stuðlasetningu hefur hann að sjálfsögðu fundið í bragarháttum eddukvæða, fornyrðislagi og ljóðahætti, en hún hefur sem kunnugt er haldið velli í íslenskum skáldskap fram á þennan dag. Samt má vissulega til sanns vegar færa að þessi setning ljóðstafa sé „frumþýsk“ því hennar er hægt að finna dæmi í þýskum kveðskap fram um 900. Þekktast þeirra er brot af Hildibrandskvæði, en fyrri hluti þess er til í uppskrift frá byrjun 9. aldar. Það fjallar á hinn bóginn ekki um Sigurð Fáfnisbana en er skyldara Ásmundar sögu kappabana.[10]

Á undan Wagner höfðu meðal annars fyrrnefndur Fouqué barón, Friedrich von der Hagen og Ludwig Ettmüller reynt að líkja eftir stuðlasetningu í þýðingum sínum og endursögn. Í inngangi að útgáfu sinni á hetjukvæðum Eddu árið 1837 hafði Ettmüller auk þess skrifað ítarlega um bragfræði eddukvæða. Vitað er að Wagner umgekkst Ettmüller í Zürich um líkt leyti og hann vann að texta Hringsins 1851-52, og sá gamli vildi veita honum ráð þótt Wagner sjálfur þegi að mestu um þau kynni. Loks má ítreka að þegar Wagner skrifaði fyrrnefndan boðskap til vina sinna sumarið 1851 var hann fyrir nokkru búinn að fá í hendur nýja þýðingu Karls Simrocks á báðum eddunum en hún markaði vissulega tímamót í kynningu íslenskra fornbókmennta á þýskri tungu og gat auk annars verið æskileg fyrirmynd um ljóðstafasetningu því að Simrock var vel hagmæltur.[11]

Sigurður sleikir blóð ormsins af fingri sér og skilur þá fuglamál.
Tréskurður frá 12. öld af kirkjudyrum í Hylestad í Noregi.

Um notkun Wagners sjálfs á ljóðstafasetningu má í sem stystu máli segja að hann hefði líklega ekki fengið mjög háa einkunn hjá íslenskukennurum í menntaskóla. Einkum hættir honum mjög til að ofstuðla. Sem dæmi mætti taka fyrstu orð Alberichs í 1. atriði Rínargullsins, þegar hann blandar sér í leik Rínardætra og klifar á n-hljóðinu (20-25):

He he! Ihr Nicker!
Wie seid ihr niedlich,
neidliches Volk!
Aus Nibelheims Nacht
naht’ ich mich gern,
neigtet ihr euch zu mir.

Engu að síður hefði hann sloppið við falleinkunn, enda er form eddukvæða í reynd mun frjálslegra en formúlur þær sem síðari tíma fræðimenn hafa stundum búið til um forna bragarhætti. Á heildina lítið kemst Wagner býsna vel frá ætlun sinni þegar horft er til þess að hann hafði ekki drukkið ljóðstafasetningu í sig með móðurmjólkinni. Hann notar stuðla yfirleitt af smekkvísi til að ýta undir áherslur. Sem dæmi má taka áminningu Brynhildar til Sieglinde í þriðja þætti Valkyrjunnar, 2. atriði (W III 3.1) að göfugasta hetja heimsins vaxi í skauti hennar, sem minnir á ljóðahátt (3644-48):

Denn eines wiss’
und wahr’ es immer:
den hehrsten Helden der Welt
hegst du, o Weib,
im schirmenden Schoß!

Óðinn. Bayreuth 1896
(Carl Perron).
Óðinn kallast Wotan í Niflungahringnum, en Wagner lagaði nöfn persónanna til svo að þau færu vel í munni þýskra söngvara og merking þeirra yrði gagnsærri.

Það væri vissulega verkefni fyrir tónskáld með íslenskt brageyra að kanna hvort stuðlasetning hafi átt einhvern hlut að tónlínusköpun Wagners eftir að hann reyndi að tileinka sér hana.[12]

Sem dæmi um örlitla orðalagsbreytingu, sem Wagner fremur í þágu stuðlasetningar, má taka eina ljóðlinu úr 4. atriði annars þáttar Götterdämmerung þar sem Hagen hvetur menn til að hlusta á klögumál Brünnhilde. Fyrri gerðin er frá nóvember 1848 en hin seinni frá desember 1852 (Sämtliche Schriften II, 199; Huber, 8035-36):

Merket wohl, was die Frau euch klagt!
Jetzt merket klug, was die Frau euch klagt!

Heimildir Wagners

Yfirleitt er það ekki háttur skálda að tilgreina heimildir sínar nákvæmlega í neðanmálsgreinum, hvaðan þau fengu hugmynd að hverju einu atriði í verkum sínum, enda gera þau sér slíkt ekki alltaf ljóst sjálf og vinna ekki með þeim hætti, heldur gerjast allt í þeirra eigin skáldpotti.

Í rauninni er Wagner fremur opinskár um heimildir sínar og fyrirmyndir af skáldi að vera, þótt hann reki þær ekki í einstökum atriðum. Jafnvel þótt ekki væri við annað að styðjast en þau ummæli hans sjálfs sem rakin hafa verið, virðist augljóst að forníslensk kvæði og sögur hafa skipt mun meira máli fyrir skáldskapinn í Hringnum heldur en Nibelungenlied. Efnisþráður og orðalag í Hringnum sýnir þetta líka ljóslega þegar verkin eru borin saman.

Úr Nibelungenlied eru nánast engin atriði höfð að fyrirmynd nema í síðara hluta seinustu óperunnar, Ragnarökum, enda hafði Wagner þegar samið ítarleg drög að frumgerð hennar, Dauða Sigurðar, hálfu þriðja ári áður en hann fékk í hendur edduþýðingar Karls Simrocks. Flest sömu atriði er reyndar að finna í Þiðreks sögu og gætu eins verið tekin þaðan.

Richard Wagner. Málverk eftir Franz von Lenbach.
Richard Wagner.
Olíumálverk eftir Franz Lenbach 1871.

Nokkrar nafnmyndir í öðrum hlutum Hringsins eru einnig úr Nibelungenlied þótt þau þekkist líka í íslenskum ritum, oftast þó í litið eitt annari mynd eða öðru hlutverki: Alberich (Álfrekur), Brünnhilde (Brynhildur), Gunther (Gunnar), Hagen (Högni), Siegfried (Sigurður), Sieglinde (Sigurlinn), Siegmund (Sigmundur).

Ósjaldan munu samt þýskir fræðimenn eða skáld eins og Jakob Grimm, Karl Simrock og Fouqué vera tengiliðir að þekkingu Wagners á íslenskum fornbókmenntum. Einkum sótti hann mikið til goðafræði Jakobs Grimms, og þaðan hefur hann valið flestar goðsögulegar nafnmyndir. Með tímanum lagaði Wagner þær samt stundum til eftir eigin höfði til að gera þær gagnsærri í samræmi við skýringar Grimms.

Þannig breytist Wodan [Óðinn] í Wotan (óður), Fro [Freyr] í Froh (glaður) og Donar [Þór] í Donner (þruma). Gudrun hét systir Gunthers í fyrstu, en Wagner breytti þvi í Gutrune til að nafnið gæti táknað „góðar rúnir“ á þýsku. Fyrirmyndin er þó sýnilega Guðrún úr íslenskum ritum, en nafnmyndin Kudrun er til á höfuðpersónu í samnefndu þýsku miðaldaljóði þótt efnið sé harla ólíkt. Skiljanlega vildi Wagner fremur nota nafnmyndir sem færu vel í munni samlanda hans og söngvara.[13]

Á hinn bóginn verður þess ekki vart að Wagner hafi nokkru sinni hitt helsta þýska kunnáttumann um íslensk fræði á þeim tíma, Konrad Maurer (sjá bls. 8-9), þótt þeir væru hálft annað ár samtíða í München og grennd á árunum 1864-65. Þess var kannski vart að vænta. Maurer var tíu árum yngri og Wagner var búinn að semja allan texta Hringsins tólf árum áður en hann kom til München.

Sennilega hafa þeir ekki heldur umgengist samskonar fólk. Þess má geta að lögfræðingurinn Georg Maurer, faðir Konrads, hafði verið einn helsti stuðningsmaður Lúðviks konungs I sem var afi Lúðviks II, hins konunglega velgjörðamanns Wagners. Gamli kóngurinn hafði verið neyddur til að segja af sér árið 1848, meðal annars vegna kvennamála. Georg Maurer hefur því naumast verið í sérstakri náð hjá arftökum hans. Auk þess var jafnan heldur stirt milli eldra og yngra Lúðviks en það mun hafa verið af öðrum sökum.

Hvað sem því líður var Wagner greinilega sömu skoðunar og Grimmsbræður og margir aðrir, að menning Norðvestur-Evrópu væri í rauninni „þýsk“ eða germönsk, og því hefur að hans dómi væntanlega verið óþarft að tilgreina einstök landsvæði og útkjálka í því samhengi. Auk þess hefur á þessum tíma eðlilega ekki verið litið á Ísland öðruvísi en sem úthérað frá Danmörku eða Noregi. Í þriðja lagi leitaði Wagner í stað beinnar sagnfræði æ meira til goðsagna sem hann taldi hafnar yfir stað og stund (sbr. bls. 20). Af þessum sökum munu orðin Ísland, íslenska eða íslenskur aldrei koma fyrir í skrifum hans.

Ekki er alltaf auðvelt að sjá hvaða áhrifum Wagner varð fyrir frá einstökum forgöngumönnum sínum á sviði norrænna fræða og sagna á hinu þýska menningarsvæði, og kannski er ekki alltaf vel að marka hvað hann segir sjálfur eða man eftir og hvað hann þegir um. Í ritum hans virðist stundum eitt reka sig á annars horn eftir því á hvaða tíma það er skrifað, og mörgum þykja minningar hans blátt áfram heldur ótraust heimild um hann sjálfan.

Samkvæmt fyrirspurn og beiðni Franz Müllers ráðuneytisstjóra í Weimar skrifar Wagner árið 1856 á lítinn seðil lista yfir tíu bækur sem hafi á sínum tíma orðið honum mest hvatning við að semja texta Hringsins og hann hafði þá lokið við fyrir þrem árum. Hann lætur þau orð fylgja seðlinum að hann viti ekki hvort hann muni nokkurn tíma ljúka við þetta verkefni sitt. Listinn er á þessa leið í lauslegri þýðingu:

Nornirnar þrjár í Bayreuth 1876. Ljósm. Joseph Albert. Ú: Herbert Barth o.fl.:Wgner, A Documentary Study, London 1975, mynd 222.
Nornirnar þrjár í forleiknum að Ragnarökum í Bayreuth 1876. Þær hafa örlagaþræðina í hendi sér. Nornirnar samsvara norrænu nornunum Urði, Verðandi og skuld.
 1. „Der Nibelunge Noth u. Klage“. útg. Lachmann.
 2. „Zu den Nibelungen etc.“ eftir Lachmann.
 3. Grimm’s Mythologie.
 4. „Edda“.
 5. „Völsunga saga“ (þýdd af Hagen, Breslau).
 6. „Wilkina- und Niflungasaga“ (sömuleiðis).
 7. Das deutsche Heldenbuch. Gamla útgáfan, einnig endurskoðuð af Hagen. Búin til prentunar af Simrock í 6 bindum.
 8. „Die deutsche Heldensage“ eftir Wilh. Grimm.
 9. „Rannsókn á þýskum hetjusögum“ eftir Mone — (mjög mikilvæg).
 10. „Heimskringla“ þýdd af Mohnike (held ég!) (ekki af Wachter — slæm).
Minnisblað Wagners um helstu heimildir sínar við gerð Niflungahringsins.
Þar nefnir hann m.a. Eddu, Völsungasögu og Heimskringlu.

Þessi listi virðist hripaður í flýti og eftir stundarminni og engin grein er gerð fyrir því að hvaða leyti hvert þessara rita varð skáldinu innblástur. Til dæmis er engin leið að sjá hvað hann meinar í rauninni með stikkorðinu „Edda“. Sennilega á hann við þær útgáfur eddukvæða og Snorra Eddu sem þá þegar höfðu birst. Mikið hefur skiljanlega verið fjallað um þennan seðil og mönnum sýnst sitt hverjum um áreiðanleika hans.

Menn hafa undrast nokkuð að eina ritið sem hann merkir á þessum seðli sem einkar mikilvægt er bók þýska sagnfræðingsins Franz Josephs Mones sem kom út árið 1836. Í sjálfsævisögu sinni kveðst Wagner hafa lesið þetta rit Mones árið 1847 og það hafi fyrst vakið athygli hans á hinni norrænu gerð Niflungasögunnar. Hann gefur einnig í skyn að Mone þessi sé ekki mjög hátt skrifaður hjá málvísindamönnum en hann sjálfur hafi hrifist af hugmyndaauðgi hans og dirfsku. Vera má að þarna hafi Wagner fengið fyrstu hugmyndir um að skapa sinn eigin goðheim, sem hann vissulega gerði, og því hafi þessi bók Mones orðið honum hugstæð.

Wagner nefnir hinsvegar aldrei Fouqué barón og áðurnefndan þríleik hans, Hetju Norðursins, frá 1810. Samt virðist augljóst að sumt í uppbyggingu og atburðarás Hringsins líkist meira umskrifun Fouqués en frumgerðinni í Völsunga sögu eða Snorra Eddu. Þessi þögn Wagners um Fouqué þarf reyndar ekki að vera neitt undarleg. Kannski þekkti hann einmitt spennusögur hans of vel til að honum þætti taka því að geta þeirra. Sennilega hefur hann lesið þær í æsku en eins og áður sagði (Sjá kaflann: Íslensk fræði á þýskri grund > Lesefni Wagners um Völsunga og Niflunga) voru bækur Fouqués í bókasafni Adolfs frænda sem Richard fékk mikið að nota á æskuárum.

Í lesleik Fouqués hefur unglingurinn Wagner í fyrsta sinn séð dramatíska framsetningu á hinni íslensku gerð Sigurðarsögunnar eða Völsungu. Fyrsti hluti hans, Sigurður Fáfnisbani, fjallar um hartnær sama efni og Siegfried og Ragnarök hjá Wagner.

Af sameiginlegu sérefni má nefna nornirnar þrjár sem þylja speki sína við svefnstað Brynhildar á Hindarfjalli áður en Sigurður kemur. Á þessum stað birtast þær hvorki í eddukvæðum né Völsunga sögu og fyrirmynd að fundi þeirra í upphafi Ragnaraka virðist helst sótt til þessa atriðis hjá Fouqué. Í samtali nornanna fyllir Fouqué einnig upp í slitrurnar um keppinautana Hjálmgunnar og Agnar í Sigurdrífurnálum og Völsungu (sjá W II 4.3 og W III 2.1).[14]

Viðureign Sigurðar og ormsins kemur fyrir í mörgum heimildum.
Hér er úrskurður frá því um 1200 á kirkjuhurðinni frá Valþjófsstað sem sýnir ókunnan riddara drepa dreka.

Á seðli þessum nefnir Wagner ekki heldur hin óbeinu áhrif sem hann hafði löngu orðið fyrir frá grískum harmleikjum, ekki síst Oresteiu og Prómeþeif Æskilosar. Þar mátti vissulega finna ýmsar samsvaranir við goðsagnir Snorra Eddu.[15]

Das Lied vom Hürnen Seyfrid

Þetta miðaldakvæði sem þýða mætti sem „Sigurður með hornhúðina“ hefur stundum verið talið ein af rótum Wagners að mynd hans af Siegfried þótt hann nefni það ekki sjálfur. Ein gerð þessa kvæðis virðist hafa verið prentuð í Nürnberg án ártals kringum 1530. Skáldið og söngvarinn frægi, Hans Sachs, gerði úr því leikrit í sjö þáttum árið 1557. Það var gefið út á samtímaþýsku árið 1811 en á miðaldaþýsku árið 1825. Einnig var það gefið út sem Volksbuch (alþýðubók) fyrir miðja 19. öld. Kvæðið sjálft er 179 erindi og af fyrrgreindum sökum skal efni þess rakið lauslega:

Sigmund kóngur og Siglinde í Niderlande eiga ódælan son, Seyfrid. Hann er sendur burt til að skoða veröldina, fær vinnu hjá smið og brýtur steðja hans. Smiðurinn sendir hann að sækja kol hjá bæli dreka og ætlast til að drekinn káli honum. Seyfrid drepur drekann, brennir hann og smyr sig með feiti hans. Af því fær hann hornhúð um allan kroppinn nema milli herðanna sem hann nær ekki til.

Þaðan fer hann til hirðar Gybichs konungs í Worms við Rín. Hann á þrjá syni, Gunther, Gernot og Hagen, og eina fagra dóttur, Krimhilde. Annar dreki nemur hana brott upp í helli sinn. Gybich kóngur sendir boðskap um öll lönd að sá sem frelsi Krimhilde frá drekanum skuli eignast hana.

 

Dvergar bjóða Seyfrid gull sitt ef hann drepi drekann sem hefur klófest það. Kóngur þeirra heitir Eugel en faðir hans hét Nibelung. Eugel segir frá Krimhilde í hellinum og risanum Kuperan sem geymir lykil að helli drekans. Seyfrid berst við risann og Eugel gerir hann ósýnilegan með þokuhettu. Risinn fellur og Seyfrid finnur Krimhilde.

Hans Sachs.
Blýpeningur frá 1576

Drekinn reynist vera maður í álögum og spýr eldi. Seyfrid fellir hann og aðra sextíu smærri með honum. Eugel fylgir þeim Krimhilde áleiðis til Worms. Seyfrid snýr við, sækir fjársjóð dverganna og sökkvir honum í Rín. Gybich kóngur ríður móti Seyfrid og undirbýr brúðkaup þeirra sem stendur í fjórtán daga. Synir Gybichs taka að öfunda Seyfrid. Hagen stingur hann til bana við brunn í Odenwalde.[16]

Í goðsögn Wagners mætti greina þrjú atriði úr þessu kvæði. Í fyrsta lagi nafn dvergsins Nibelung sem þar var eigandi gullsins. Í öðru lagi illindi og gagnkvæman ótta milli dverga og jötna. Þessa fjandskapar sér naumast stað í öðrum heimildum Wagners. Í þriðja lagi má segja að hegðun Siegfrieds við smiðinn beri hjá Wagner nokkurn keim af nafna hans í ljóðinu þótt svipaða háttsemi sé vissulega einnig að finna í Diðreks sögu og ævintýrinu um strákinn sem fór út í heim til að læra að hræðast.

Samanburður við heimildir

Úr öllum aðföngum sínum skóp Richard Wagner eigin goðsögn sem er heildstæð og sjálfstæð. Hann ætlaði hvorki að tónsetja Nibelungenlied né eddukvæði heldur tók hann hverja ögnina úr sínum stað og bræddi saman í eigin deiglu. Engu að síður hafa ýmsir fræðimenn fyrir löngu spreytt sig á að bera sjálfan texta Hringsins saman við forn skáldverk þar sem helst væri að leita fyrirmynda að einstökum efnisatriðum og reyna að sýna fram á hvaða heimildir megi einkum finna og hverjar sé nánast hægt að útiloka. Í þessari viðleitni hefur mörgum að vísu hætt til að flækja sig í smáatriðum eða fara út um víðan völl. Eftirtalin rit um þetta efni mega teljast einna aðgengilegust:

Richard Wagner
Skopteikning frá Vín 1873
 • Wolfgang Golther. Sagengeschichtliche Grundlagen der Ringdichtung Richards Wagners. Berlin Charlottenburg 1902. Þetta er stutt og skilmerkileg bók en höfundi er mikið í mun að sýna fram á yfirburði Wagners andspænis fyrirmyndum sínum.
 • Herbert Huber. Richard Wagner. Der Ring des Nibelungen. Nach seinem mythologischen, theologischen und philosophischen Gehalt Vers für Vers erklärt. Weinheim 1988. Sú bók hefur það einkum sér til ágætis að þar er allur texti Wagners tölusettur svo auðvelt er að vísa í einstakar ljóðlínur. Á hinn bóginn veit höfundur ekki mjög mikið um íslenskar bókmenntir en er því betur að sér í Biblíunni.
 • Elizabeth Magee. Richard Wagner and the Nibelungs. Oxford 1990. Þetta er mjög greinargott rit um sennilegt lesefni og heimildaöflun Wagners, meðal annars lán hans á bókum úr konunglega bókasafninu í Dresden.

Einstök atriði af þessum toga hafa einnig verið viðfangsefni í prófritgerðum nemenda í germönskum fræðum við þýska háskóla á síðustu áratugum. Tvær þeirra hafa verið hafðar hér til hliðsjónar og fjalla báðar um efnisatriði úr Siegfried:

 • Jutta Becker. Altnordische Literatur als Intertext in Richard Wagners Ringtetralogie. Hausarbeit zur Erlangung des Magistergrades (M.A.) am Fachbereich Historisch-Philologische Wissenschaften der Georg-August Universität Göttingen 1989.
 • Joachim Grage. Der Schlangenwurm im tiefen Wald. Richard Wagners Synthese von nord- und südgermanischer Nibelungenüberlieferung in der Drachen-kampfszene des Siegfried. Hausarbeit im Rahmen des Hauptseminars „Heldensage und Heldenlied: Der Nibelungenstoff in Edda und Sagaliteratur.“ Skandinavisches Seminar der Universitk Göttingen 1992.

Báðar þessar ritgerðir eru mjög vel unnar þótt finna megi lítilsháttar ónákvæmni á stöku stað þegar vísað er til íslenskra rita.

Í hinni fyrri, sem er 160 blaðsíður, eru þrjú atriði tekin til samanburðar:

1) Viskukeppni Mimes og des Wanderers í 2. atriði 1. þáttar borin saman við Vafþrúðnismál.

2) Uppvakning völvunnar í 1. atriði 3. þáttar borin saman við Baldurs drauma og fleiri uppvakningaratriði í eddukvæðum.

3) Vakning Brynhildar í 3. atriði 3. þáttar borin saman við Sigurdrífumál.

Eins og nafn ritgerðarinnar bendir til er öðru fremur leitast við að finna beinar orðalagslikingar þótt sambærileg efnisatriði og sviðsmyndir séu vissulega einnig raktar.

Seinni ritgerðin er ekki nema 40 bls. og í henni er dráp ormsins og aðdragandi þess einkum borið saman við eddukvæðin Fáfnismál og Reginsmál auk Völsunga sögu annarsvegar en þýska miðaldakvæðið um Hürnen Seyfrid hinsvegar. Mjög fá atriði fundust í hinu síðastnefnda og gætu raunar ekki síður verið ættuð úr Þiðreks sögu.

Íslenskur sjónarhóll

Ekki er vitað til að áður hafi verið reynt að fara skipulega í saumana á sköpunarsögu Hringsins frá íslenskum sjónarhóli til að leita uppi samsvaranir og fyrirmyndir. Þar er þó af ýmsu að taka, ekki síst atvik, orðalag og tilvísanir sem Íslendingur kannast brátt við en öðrum sést yfir eða þykir síður skipta máli.

Samt er enginn hægðarleikur að stilla þeim samsvörunum upp hlið við hlið því að Wagner leitar fanga héðan og handan og skýtur þeim minnum inn á víð og dreif í skáldskap sínum. Beinar hliðstæður eru að vísu finnanlegar en fremur sjaldgæfar. Það verður seint nægilega ítrekað við Íslendinga að texti Wagners er algerlega sjálfstætt sköpunarverk þótt hann spinni það að drjúgum hluta úr fornum íslenskum skáldverkum.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að gera sér fullkomlega ljóst í eitt skipti fyrir öll að hvort sem Wagner fékk umræddar hugmyndir sínar beint af lestri íslenskra bókmennta eða í endurgerð og endursögn þýskra skálda og fræðimanna, þá er kveikjuna eða frumheimildina að hvoru tveggja að finna í íslenskum fornritum.

Í fyrrnefndri ágætisbók eftir Elizabeth Magee frá 1990 er einkum gerð grein fyrir umræddum tengiliðum Wagners milli frumheimilda og endanlegrar gerðar hans sjálfs. Henni virtist sem búið væri að rekja nægilega tengsl Wagners við frumheimildirnar sjálfar eins og segir í inngangi:

Menn munu einnig taka eftir því að viðfang þessarar bókar snýst um þau áhrif sem samtíðarmenn Wagners höfðu með verkum sínum á sviði Niflungafræða en ekki um frumheimildimar sjálfar — Völsunga sögu, eddumar, Niflungaljóð, kvæðið um Hürnen Seyfrid og Þiðreks sögu. Þeim hafa aðrir þegar gert rækileg ef ekki fullkomin skil.[17]

Því sjónarmiði er höfundur þessarar bókar ekki sammála. Hér verður einmitt leitast við að benda á mun fleiri upprunalegar fyrirmyndir í frumheimildunum en áður hefur verið gert, en minna skeytt um fyrrnefnda milliliði. Þeim hefur Elizabeth Magee þegar gert góð skil. Hugmyndafræði og úrvinnsla Wagners verður sömuleiðis að mestu látin í friði, svo ekki sé talað um sjálfa tónlistina.

Byrjað verður á að snara hinni heimatilbúnu vésögn Wagners sem er einskonar beinagrind eða frumgerð að heildarverkinu. Að því loknu verða rakin þau efnisatriði í endanlegri gerð Hringsins sem eiga ótvíræða samsvörun eða kveikju í fornum textum.

Siegfried vekur Brynhildi.
Siegfried. Bayreuth 1995.

Einnig verða tekin dæmi úr bæði vésögninni sjálfri og eldri drögum óperutextanna þótt Wagner hafi síðar sleppt þeim. Þau eru höfð innan hornklofa [ ]. Þannig sést greinilega hverju Wagner hafði sankað að sér úr fornritum þótt hann ætti á vinnslustigi eftir að breyta ýmsu, vinsa úr eða bæta við, stytta eða lengja, ýmist vegna breytilegrar hugmyndafræði hans sjálfs, tónlistar, leikstjórnar eða orðalags. Eftir því sem lengra leið virðist Wagner hafa farið frjálslegar með fyrirmyndir sínar og skapað meira frá eigin brjósti.

Af íslenskum ritum er um að ræða eddukvæði, Snorra Eddu, Völsunga sögu og Þiðreks sögu auk fáeinna dæma úr Heimskringlu, Egils sögu Skallagrímssonar og Gísla sögu Súrssonar (sjá bls. 12-14). Af þýskum frumheimildum er einkum að nefna Nibelungenlied, miðaldakvæðið Lied vom Hürnen Seyfrid og Grimmsævintýri, en á 19. öld settu þýsk skáld og fræðimenn auk þess saman ýmsar sagnagerðir úr eldri heimildum eins og áður var getið (bls. 54-55) [Íslenskfræði á þýskri grund – Fyrstu kynni – málsgrein: Í ljóðum Denis …]. Reynt verður að sýna þann samanburð í grófum dráttum með einskonar súluritum á eftir hverjum þætti.

Í fyrrnefndum þýskum prófritgerðum er talsverðu máli varið til að reyna að komast að því hvaða þýska þýðingu eddukvæða Wagner muni helst hafa notað við textagerð sína: v. d. Hagen, Grimm, Majer, Ettmüller, Simrock, og þær bornar saman ásamt bragfræðinni. Þetta getur að sjálfsögðu verið forvitnilegt fyrir þýska málsögufræðinga og aðra lesendur.

Hér er ekki vettvangur fyrir slíkar vangaveltur. Ljóst virðist að Wagner hefur heyjað sér orðafar úr ýmsum áttum eftir eigin bragðvisi og búið margt til sjálfur. Hér verður aðallega miðað við edduútgáfu Simrocks frá 1851 þegar þörf er á. Útkoma hennar virðist öðru fremur hafa tendrað hug Wagners til að taka aftur til við verkið eftir hálfs þriðja árs hlé. Þrír fjórðu hlutar Hringsins eru samdir eftir útkomu hennar og fjórði hlutinn auk þess lagaður til. Þvi má svo bæta við að ljóðstafasetning Simrocks hefur verið einkar snyrtileg og holl fyrirmynd.

Förumaðurinn með hrafna sína á milli listagyðjanna.
Þessi mynd er á framhlið Wahnfried, húss Wagners í Bayreuth.
Viskukeppni Óðins og Mímis í óperunni Siegfried á sér nána samsvörun í Vafþrúðnismálum Eddu
þar sem Óðinn bregður sér í líki förumanns.

Tilvísanir

[1] Wagner. Mein Leben I, 30.
[2] Magee. Richard Wagner and the Nibelungs, 67. Böldl. „Götterdämmerung“, 368. Drewes. Der Ideengehalt von Richards Wagners dramatischen Dichtungen, 101-103.
[3] Dokumente, 24,47. Westernhagen. Richards Wagners Dresdener Bibliothek, 99. Magee. Richard Wagner and the Nibelungs, 38-46.
[4] Dokumente, 26.
[5] Dokumente, 27. Wagner. Mein Leben I, 394-95. Mone. Untersuchungen.
[6] Dokumente, 29.
[7] Dokumente, 28.
[8] Dokumente, 57-60,77-78. Strobel. Skizzen, 262.
[9] Dokumente, 51-52, sbr. 34.
[10] Jakob Benediktsson. Hugtök og heiti í bókmenntasögu, 265-66. Das Hildebrandslied. Jón Helgason. Hildibrandskviða, 50-66. Fornaldarsögur II, 287-308.
[11] Fouqué. Held des Nordens. Hagen. Die Edda-Lieder. Ettmüller. Die Lieder der Edda von den Nibelungen. Simrock. Die Edda. Wille. Fünfzehn Briefe Richard Wagners, 27. Magee. Richard Wagner and the Nibelungs, 50-
[12] Wiessner. Der Stabreimvers in Richard Wagners „Ring des Nibelungen“. Þorsteinn Gylfason. Richard Wagner as a Poet, 77-86. Jóhannes Jónasson. „Vituð ér enn…“. Lesbók Mbl. 19. des. 1998, 20.
[13] Kudrun. Halle a. S. 1902.
[14] Dokumente, 19. Fouqué. Sigurd, 45-47. Böldl. „Götterdämmerung“, 366-69. Kühnel. Richard Wagners ʿRing des Nibelungenʾ, 26.
[15] Sørensen. Griechische und nordische Mythologie als Inspirationsquellen Richard Wagners, 1-24. Sabor. Richard Wagner. Der Ring des Nibelungen, 78-79.
[16] Lied vom Hürnen Seyfrid.
[17] Magee. Richard Wagner and the Nibelungs, 15. „It will also be noted that our subject is the influence of the Nibelung activity of Wagner’s contemporaries, not of the primary sources – the Völsunga saga and Eddas, the Nibelungenlied, Das Lied vom Hürnen Seyfrid, and Thidreks saga – themselves. These latter have already been widely, if not fully comprehensively, dealt with by others.“