Undirkaflar

Þróun þýskrar þjóðvitundar

Wagner og Völsungar

Germanskir barbarar

Okkur er nú á dögum tamt að líta á Þýskaland sem gamalt stórveldi líkt og það sem við höfum kynnst á 20. öld. Sú mynd er þó naumast eldri en frá árinu 1871 þegar konungur Prússlands varð keisari alls Þýskalands. Áður höfðu hin þýskumælandi svæði skipst í fjölmörg sjálfstæð konungsríki og furstadæmi, og tungutak þeirra var ekki ætíð eins. Voldugust þeirra voru löngum Prússland, Saxland og Bæjaraland. Þetta hafði verið talsvert ólíkt hinum sterku og sameinuðu nágrannaríkjum, Frakklandi og Stóra-Bretlandi. Það tók hin þýsku þjóðarbrot fjórar aldir að sameinast í eitt riki eftir að þau fóru fyrst að reyna að efla sjálfsvitund sína.

Rómverskur riddari berst við germanska barbara.
Rómversk lágmynd frá Trier

Allar götur frá dögum Cesars fyrir tveim árþúsundum, þegar Rómaveldi lenti fyrst í átökum við germanska herflokka norðan Alpafjalla, höfðu Rómverjar og arftakar rómanskrar menningar kallað hinar germönsku þjóðir barbara. Þetta orð höfðu Grikkir upphaflega um alla þá sem ekki skildu grísku en smám saman tóku bæði þeir og aðrir að nota það almennt um útlendinga og einkum þá sem Rómverjar töldu ómenntaða, siðlausa og ruddalega. Þetta þröngsýna viðhorf gagnvart hinu lítt þekkta eða þeim sem menn vilja arðræna er hvarvetna þekkt á öllum öldum. Nærtækt er að minna á hvernig nýlenduherrar og þrælakaupmenn lýstu afrískum þjóðum sem skepnum á 19. og 20. öld, en íslenskir sæfarar kölluðu frumbyggja Norður-Ameriku skrælingja fyrir þúsund árum.

Um árið 100 eftir okkar tímatali hafði rómverski sagnaritarinn Tacitus sett saman dálitla bók sem hét Germania og fjallaði um menningu, trúarbrögð og siði hinna germönsku þjóðflokka. Reyndar mun Tacitus aldrei hafa komið sjálfur á þær slóðir, heldur farið eftir frásögnum rómverskra hermanna. Þar er germönum lýst á þann veg að þeir séu að vísu rustafengnir, drykkfelldir og lítt lærðir til bókar, en á hinn bóginn unni þeir frelsinu og séu óspilltir, heiðarlegir, hreinlyndir, kjarkmiklir, hraustir, ósérhlífnir og nægjusamir og konur þeirra einkar skírlífar. Menn hafa deilt um hvort túlkanir þessara málaliða og ritsmíðin sjálf sé að öllu leyti trúverðug sagnfræði. Sumir álíta jafnvel að Tacitus hafi viljað segja löndum sínum til syndanna með því að draga fram og mikla fyrrnefnda kosti germana sem andstæðu við hina spilltu, nautnasjúku og værukæru Rómverja.

Tacitus endurvakinn

Snemma á endurreisnartímanum eða um miðja 15. öld var þetta rit Tacitusar grafið úr margra alda gleymsku, prentað í Feneyjum árið 1470 og í Nürnberg árið 1473. Með útgáfu þessarar gömlu bókar hófst fyrir alvöru margra alda andleg gagnsókn Þjóðverja á hendur rómönskum menningaryfirráðum og beittu þeir Tacitusi óspart fyrir sig. Einn liður í þeirri baráttu var andófið gegn yfirráðum og spillingu páfavaldsins og lauk með siðbreytingu þeirri sem kennd er við Martein Lúter. Aðrir reyndu á hinn bóginn að notfæra sér þetta gamla rit gegn Þjóðverjum sjálfum ellegar til að hvetja þá í baráttunni gegn Tyrkjaveldi.[1]

Orrustan í Teutenborgarskógi.
Þar biðu Rómverjar lægri hlut fyrir germönum árið 9 e.Kr.
Málverk frá 1903

Þessi uppreist ímyndarinnar um germanskar þjóðir, cimbra, teftóna og gota, var samt lengi vel einungis talin eiga við um hugrekki þeirra, hreysti og hreinskiptni. Eftir sem áður voru þeir álitnir menningarsnauðir á mælikvarða hins æðra lærdóms í Rómaborg og París. Þýskir fornmenntafrömuðir leituðu því ýmissa og stundum ævintýralegra bragða til að hnekkja þessu viðhorfi og sýna fram á að víst hefðu hinir fornu germanir eða að minnsta kosti höfðingjar þeirra verið menningarlega sinnaðir og þeir sjálfir af göfugum rótum runnir.

Ein þessara kenninga fólst í því að landflótta drúídar, en svo nefndust andlegir leiðtogar kelta, hefðu á sínum tíma kynnt germönum gríska og jafnvel egifska menningu. Önnur var á þá lund að germanir væru komnir af einum hinna mörgu sona gamla Nóa sem hefði heitið Tuyscon [þýskur]. Eftir syndaflóðið strandaði Örkin sem kunnugt er á fjallinu Ararat í Kákasus og á þeim slóðum, Skýþýu við Svartahaf, áttu afkomendur Nóa fyrst að hafa sest að, en þaðan komu einmitt gotar.

 

​Á 16. og 17. öld tóku germanskir lærdómsmenn í æ ríkara mæli að leitast við að upphefja tungumál sín. Sumir hollenskir fræðimenn héldu því fram að cimbrar, forfeður Hollendinga, hefðu talað mál Adams og það hefði á sínum tíma sloppið við málaruglinginn í Babýlon. Aðrir töldu þýsku vera næstelstu tungu heimsins á eftir hebresku, og enn aðrir að gríska og latína væru orðnar til úr germönskum málum.

Til að styrkja sjálfsmynd sína andspænis hetjusögnum grískra og rómanskra þjóða var jafnframt tekið að mikla og mæra germanska kappa, einkum höfðingjann Arminius sem sigraði rómverskar hersveitir í hinni frægu orrustu í Teutonborgarskógi árið 9 eftir okkar tímatali. Um miðja 16. öld er farið að endurgera nafn hans svo úr varð frelsishetjan Hermann. Hann varð mikil fyrirmynd andófsins gegn suðrænu valdi, og þegar Gústaf Adolf Svíakóngur blandaði sér snemma á 17. öld í þrjátíu ára stríðið milli katólskra og mótmælenda, var það túlkað sem ítrekun á sigurför hinna fornu germönsku gota gegn úrkynjuðu rómversku heimsveldi.[2]

Gústaf Adolf Svíakóngur

Loftslagskenningar

Viðleitni germanskra fræðimanna til að efla sjálfsvitund þjóða sinna fór ekki fram hjá nágrönnum þeirra í suðri og þótti sumum lítið til koma. Á 17. og 18. öld áttu sér stað merkileg skoðanaskipti franskra og þýskra hugsuða um túlkun á svonefndri loftslagskenningu. Samkvæmt henni hafði loftslag og veðurfar mikil áhrif við mótun bæði líkamlegs og andlegs atgervis manna. Slíkar kenningar þekktust reyndar þegar meðal Forn-Grikkja og sumir fræðimenn hafa reyndar notað hana í röksemdafærslu fram á 20. öld. Á Íslandi kynnti Guðmundur Finnbogason sambærilegar hugmyndir.[3]

Franskir ritsmiðir hófu þennan mannjöfnuð seint á 17. öld með því að segja menn á þýskum breiddargráðum vanhæfa til allra fagurra vísinda þótt þeir gætu verið búnir góðum líkamskröftum. Andstæð þýsk sjónarmið birtust hálfri öld seinna í alfræðibók um heimspeki. Þar er heiminum, mannkyninu og eiginleikum þess skipt í þrjú veðurfarssvæði, köld, heit og tempruð. Rómanskar þjóðir, Frakkar, Ítalir og Spánverjar teljast til heita svæðisins. Þeim er að vísu ekki alls varnað en hættir til kjánaskapar og ruglingslegrar hugsunar, léttúðar, stórlætis, losta og hefnigirni.

Á tempraða svæðinu eru menn skarpskyggnir, framsýnir, skynsamir og rökvísir í hugsun. Þar búa meðal annars Þjóðverjar og Englendingar. Samt afneita höfundar ekki drykkjuhneigð germana sem Tacitus hafði talið helsta löst þeirra. Á kalda svæðinu eru meðal annarra Norðurlandabúar sem þykja fremur skilningssljóir í andlegum efnum, gráðugir í gull, kaldlyndir í ástum en þoli vel hungur og þorsta. Þessi lýsing mislíkaði Skandinövum að sjálfsögðu, einkum Svíum.[4]

Á þýska svæðinu tóku menn einnig að setja fram gagnrýni á Tacitus og aðra höfunda fornaldarinnar og efast um þekkingu þeirra eða skilning á málefnum forngermana. Þeir hefðu ekki sjálfir verið á vettvangi og heimildamenn þeirra hvorki skilið tungumál germana né forsendur að samfélagsskipan þeirra. Því væru allar ályktanir þeirra miðaðar við rómverskt stjórnkerfi. Sumir gerðu því skóna að heimildamenn Tacitusar hefðu einkanlega lýst germönskum bændum en ekki hinum siðfáguðu höfðingjum þeirra.[5]

Vísindaleg tímamót urðu á sviði loftslagskenninga þegar franski baróninn Charles de Montesquieu gaf út höfuðrit sitt, Andi laganna, árið 1748. Hann setti fram lífeðlisfræðileg rök fyrir því að kalt loftslag styrkti líkamsvefi manna og bætti jafnframt siðferðisstyrk þeirra. Þrátt fyrir þjóðerni sitt taldi hann germanskar þjóðir fremri hinum rómönsku að þessu leyti og því fremri sem þær byggju norðar. Einkum væru norrænar þjóðir vel til þess fallnar að efla og varðveita frelsi og jafnrétti einstaklingsins.

Charles de Montesquien barón

Montesquieu hróflaði samt ekki beinlínis við því ríkjandi sjónarmiði að á sviði æðri menningar væru germanir og aðrir norrænir menn siðleysingjar í samanburði við Frakka sem væru arftakar hinnar klassísku menningar. Í þeim efnum tóku ýmsir aðrir suðrænir höfundar árinni býsna djúpt í, héldu áfram að líta niður á germani og töldu hið kalda loftslag þrengja að hinum andlegu og fagurfræðilegu skilningarvitum.

Hugleiðingar Montesquieus og sporgöngumanna hans um fornt norrænt frelsi og jafnrétti voru ekki heldur látnar tjá neina gagnrýni á einveldi samtímans fyrr en um 1800, eftir að Napóleon Bonaparte tók að leggja Evrópu undir sig.[6]

Óskir um þýska einingu

Á síðara hluta 18. aldar urðu kröfur um fækkun eða sameiningu hinna fjölmörgu þýsku smáríkja sífellt háværari og bar margt til. Tækniframfarir höfðu aukið framleiðslu í landbúnaði og iðnaði, og því vildu verslunarmenn, bændur og iðnaðarmenn losna við þá tollmúra sem umluktu hvert smáríki. Hið mannskæða sjöárastríð 1756-63 eða „styrjöldin við pilsin þrjú“, sem Friðrik II Prússakóngur átti í við Maríu Theresíu í Austurríki, Katrínu miklu í Rússlandi og Madame Pompadour í Frakklandi, renndi nýjum stoðum undir það viðhorf að brýn þörf væri á að mynda sameinað sterkt þýskt ríki sem gæti staðið öðrum stórveldum á sporði.[7]

Hugsjónamenn sem leituðust við að efla þýska þjóðarvitund og kynna germanska fornmenningu hlutu að sjálfsögðu stuðning þeirra aðilja sem vildu sameina þýsku smáríkin af efnahagslegum sökum og gátu verið talsvert fjársterkir. Útgáfa bóka og tímarita af þessum toga jókst því um allan helming eftir miðja 18. öld. 

Bretarnir James MacPherson og Thomas Percy gáfu út ensk og skosk fornkvæði á árunum 1760-80. (Löngu síðar kom reyndar í ljós að hinn ungi MacPherson hafði sjálfur ort mest af þeim ljóðum sem hann eignaði skáldinu Ossian frá 3. öld og vegsömuðu hetjuöld Skotlands). Fordæmi þeirra hleypti þýskum skoðanabræðrum þeirra kappi í kinn, enda töldu þeir hinir sömu að Englendingar væru mun skyldari sér en Frakkar, og frá 1714 hafði breska konungsfjölskyldan verið af þýskum ættum frá Hannover.[8]

Útgáfa Herders á þjóðkvæðum frá ýmsum löndum 1778-79. Meðal þeirra voru nokkur íslensk fornkvæði.
Áhrifamestur meðal Þjóðverja á þessu sviði og tímaskeiði var fjölfræðingurinn Johann Gottfried von Herder (1744-1803) en hann var einn helsti frumkvöðull Sturm-und-Drang stefnunnar í bókmenntum sem þróaðist í átt til rómantísku stefnunnar. Hann taldi allan skáldskap runninn frá fólkinu án landamæra og Iagði mikinn hug á alþýðuskáldskap utan hinnar opinberu hámenningar. Hann reyndi því ekki síst að kynna sér skáldskap þeirra þjóða sem Evrópumenn kölluðu frumstæðar og gaf út þjóðkvæði frá ýmsum löndum í tveim bindum árin 1778-79. Þetta var nýstárleg hugmyndafræði á þeim tíma. Eftir henni bar að virða skáldskap alþýðunnar ekki síður en hinna viðurkenndu skálda, og fleiri þjóðir áttu sér fornan og fagran skáldskap og menningu en Grikkir og Rómverjar. Þetta ýtti undir sjálfstraust og sjálfsvirðingu þeirra þjóða sem rómanskir menningarpáfar höfðu fram til þessa leyft sér að Iíta niður til og gerðu reyndar miklu lengur. Fleiri tóku í sama streng, eins og skáldið Friedrich Schiller sem krafðist fullrar virðingar til handa þýskri þjóðmenningu.[9]

Efling þýsk-norrænna fræða

Þrátt fyrir viðleitni einstakra menntamanna fram til loka 18. aldar til að auka sjálfsvirðingu þýskrar fornfræði er ekki hægt að segja að hún hafi rist djúpt í þjóðlífinu eða kveikt neinn baráttuanda meðal fjöldans.

 Á fyrstu árum 19. aldar verður á þessu mikil og afdrifarík breyting. Tilefnið er augljóst. Það er ósigurinn fyrir herjum Napóleons árið 1806 og hernám Frakka í kjölfarið. Niðurlægingu Þjóðverja auglýstu Frakkar með áberandi hrokafullum hætti þegar þeir tóku fereykið með sigurgyðjunni ofan af Brandenborgarhliðinu í Berlín og fluttu það til Parísar. Ýmsir sögðu þá að baráttugleði og kjarkur Frakka helgaðist ekki síst af því að þeir ættu sér eitt sameiginlegt föðurland sem þeim þætti vænt um og væru stoltir af menningu sinni fornri og nýrri, en þennan samhug hefði Þjóðverja átakanlega skort.

Brandenborgarhliðið í Berlín.
Napóleón rændi sigurtákni hliðsins og lét flytja til Parísar árið 1806 til að niðurlægja Þjóðverja sem mest.

Eftir ósigrana fyrir Frökkum risu menn upp hver á fætur öðrum og kröfðust af auknum þrótti sameiningar hinna mörgu þýsku smáríkja. Um leið voru Þjóðverjar eggjaðir til að hyggja að germönskum menningararfi og fornum hetjudáðum í stað þess að mæna á grískar, rómverskar og franskar fornmenntir. Í kjölfar þessa var meðal annars tekið að gefa út gömul þýsk riddarakvæði og ástaljóð og snúa þeim á háþýsku samtímans eða í óbundið mál fyrir almenning. Fram að þessu höfðu kvæðin einkum verið viðfangsefni fræðimanna. Nú tóku skáld og aðrir listamenn smám saman að semja ljóð, sögur, leikrit og myndverk úr efni þeirra.

Niebelungenlied

Lengst og frægast hinna fornþýsku kvæða er Das Nibelungenlied sem ort er um eða eftir 1200. Kvæðið er til í mislangri gerð eða brotum í yfir 30 handritum frá 13. til 16. aldar. Það skiptist í 39 þætti (Aventiure) og er alls nær 2400 erindi. Bragarhátturinn er svipaður fyrri hendingunum í kvæði Steingríms Thorsteinssonar Af stað burt í fjarlægð við hornahljóðin ströng. Persónur kvæðisins og efni eru að nokkru leyti hinar sömu og í íslenskum kvæðum og sögum um Sigurð Fáfnisbana, Brynhildi, Guðrúnu og Högna. Þar sem flestir álykta (ranglega) að efni Hringsins sé einkum smíðað úr fyrra hluta þessa kvæðis, er bæði rétt og skylt að rekja efni þess í örstuttu máli. Samsvaranir við það verða að öðru leyti sýndar jafnóðum og þær koma fyrir í texta Wagners:

Myndskreyting við Niebelungenlied úr þýsku miðaldahandriti.
Krímhildur og Brynhildur deila. Siegfried fylgist með.

1.
Hin fagra Kriemhild vex upp við hirð Búrgunda í Worms við Rín. Hana dreymir að hún ali upp fagran fálka sem tveir ernir rifa sundur.

2.
Siegfried vex upp í höllinni Xanten um 250 km neðar við Rín. Foreldrar hans heita Siegmund og Sieglinde. Hann þykir afbragð ungra sveina.

3.
Siegfried fer til Worms að biðja Kriemhildar. Hagen liðsmaður Gunthers bróður hennar skýrir í stuttu máli frá fyrri afrekum Siegfrieds sem hafi unnið ógrynni gulls af Niflungum, drepið mikinn dreka, baðað sig í blóði hans og fengið af því ósæranlega hornhúð. Siegfried skorar Gunther á hólm en átökum er afstýrt og Siegfried verður gestur Búrgunda.

4-5.
Siegfried sigrar Saxa fyrir Gunther. Honum er búin sigurhátíð við heimkomuna og þar sjá þau Kriemhild hvort annað.

6.
Brunhild er fögur og ofursterk drottning á Íslandi. Gunther býst til að sigla yfir hafið og biðja hennar.

7-8.
Brunhild skorar á Gunther í aflraunakeppni. Siegfried hafði í æsku náð huliðskufli frá Niflungum og hann sigrar Brunhild ósýnilegur við hlið Gunthers. Hún safnar liði en Siegfried sækir liðsauka til Nibelungenlands.

9-10.
Siegfried ríður á undan til Worms að tilkynna komu Gunthers og Brunhildar. Tvöfalt brúðkaup er haldið. Kriemhild og Siegfried njóta ásta á brúðkaupsnóttina en Brunhild neitar Gunther um hvílubrögð og hengir hann upp á snaga. Í þágu Gunthers brýtur Siegfried viðnám hennar og tekur af henni hring og belti sem hann gefur Kriemhild.

11-14.
Siegfried fer með Kriemhild til Xanten. Báðar drottningar eignast syni sem hvor um sig er látinn heita í höfuðið á bónda hinnar. Tíu árum síðar þiggja Siegfried og Kriemhild heimboð til Worms. Drottningarnar taka að deila heiftarlega um hetjuskap og virðingu eiginmanna sinna. Sú senna eykst orð af orði uns Kriemhild ljóstrar upp um fyrri næturdvöl Siegfrieds hjá Brunhild. Siegfried sver hana af sér og sættir verða á yfirborði en Siegfried eru brugguð banaráð.

15.
Hagen þykist vilja vernda Siegfried í orrustu og Kriemhild trúir honum fyrir því hvar sé eini særanlegi bletturinn á líkama hans.

16-17.
Gunther, Siegfried og Hagen fara á veiðar. Hagen myrðir Siegfried. Lík hans er flutt til Worms. Úr því tekur að blæða þegar Hagen nálgast líkbörurnar. Það sannar sekt hans. Konungleg útför er haldin.

18-19.
Kriemhild verður eftir í Worms. Bræðrum hennar tekst að koma á nýjum sáttum og hún fellst á að láta flytja gull Niflunga frá Xanten til Worms. Hagen stelur fjársjóðnum og felur hann í Rínarfljóti.

Í þessum fyrra hluta kvæðisins er ekki nein samsvörun við Rínargullið eða Valkyrjuna og mjög lauslega er vikið að æsku Siegfrieds. Hann vinnur til dæmis hvorki gullið né hringinn af dreka. Helstu snertipunktar þess eru við síðara hluta Ragnaraka en þó hverfur Brunhild að mestu úr kvæðinu eftir 14. þátt, jafnskjótt og búið er að leggja á ráðin um morðið á Siegfried, og ekki er um neina sameiginlega bálför þeirra að ræða.

Síðari helmingur kvæðisins fjallar um hefnd Kriemhildar sem giftist Etzel (Atla) konungi og lætur svíkja bræður sína í tryggðum. Sá hluti er í reynd aðalefni Nibelungenlieds en er með öllu utan við efnisþráð Hringsins.

Ljóðið var ekki prentað fyrr en árið 1755 og var lengi lítt þekkt utan nokkurs hóps fræðimanna. Eftir 1800 var kvæðið hinsvegar margsinnis gefið út á samtíma þýsku og farið var að upphefja það sem dýrmætan þýskan menningararf. Ljóðið var óspart hagnýtt við eflingu þýskrar þjóðvitundar. Listamenn tóku að myndskreyta kvæðið og fjölmörg skáld sömdu ljóð, sögur og leikrit úr efni þess. Skáldið Ernst Raupach gaf út leikrit um fjársjóð Niflunga í fimm þáttum auk forleiks árið 1834.[10]

Myndskreyting við Niebelungenlied úr þýsku miðhaldarhandriti.
Siegfried veginn.

Ráðagerðir um Niflungaóperu

Hugmyndir um að semja óperu úr efni Nibelungenlieds voru talsvert á döfinni um miðja 19. öld. Felix Mendelsohn og Robert Schumann gældu báðir við þá hugmynd kringum 1840 þótt ekkert yrði af. Árið 1844 birti fagurfræðingurinn Friedrich Theodor Vischer ítarlega tillögu að óperutexta sem unninn skyldi úr efni ljóðsins.

Á næstu árum reyndi skáldkonan Louise Otto ítrekað að fá tónskáld til að setja músík við óperutexta úr efni Niflungaljóða sem hún bauðst sjálf til að semja. Hún sneri sér meðal annars til Wagners en hann færðist undan. Einnig kynntist hún danska tónskáldinu Niels W. Gade sem byrjaði á drögum að slíkri óperu en ekki varð meira úr. Henni tókst að vekja áhuga Schumanns á ný, en um það leyti var heilsa hans tekin að bila. Fyrsta fullgerða Niflunga-óperan var Die Nibelungen eftir Heinrich Dorn sem var frumflutt í Weimar árið 1854 undir stjórn Franz Liszt.[11]

Myndskreyting við Nibelungenlied um 1840
Gunther siglir til kastala Brunhild á Íslandi.

Tilvísanir

[1] Klaus Böldl. Der Mythos der Edda, 13-15. Hagen Schulze. Kleine deutsche Geschichte, 43-45. Arthúr Björgvin Bollason. Ljóshærða villidýrið, 28-34.
[2] Magnus. Historia de omnibus Gothorum Sveonumque regibus. Lohenstein. Großmüthiger Feldherr Arminius oder Herrman. Böldl. Mythos, 15-21.
[3] Heiberg. Théories antiques, 453-64. Huntington. Civilization and Climate. Guðmundur Finnbogason. Land og hjóð.
[4] Charles Bouhour. Les entretiens d’Ariste et d’Eugene. Walch (útg.). Philosophisches Lexicon. Schwedische Bibliothec. Erstes Stück, 24. Bonstetten. Der Mensch im Süden und im Norden. Böldl. Mythos, 22-26.
[5] Zschackwitz. Erläuterte Teutsche Alterthümer. Schütze. Drei kleine Schutzschriften, 31-49. Majer. Germaniens Urverfassung, 24. Böldl. Mythos, 28.
[6] Montesquieu. De l’Esprit des Loix. Espiard. L’Esprit des Nations. Kleffel. Abhandlungen, 11. Klaus von See. Völkisches Denken in Deutschland, 12-14. Böldl. Mythos, 25-27. 7 Schulze. Kleine deutsche Geschichte, 49-62. Böldl. Mythos, 31.
[7] Schulze. Kleine deutsche Geschichte, 49-62. Böldl, Mythos, 31.
[8] MacPherson. Fragments of Ancient Poetry. Percy. Reliques of Ancient English Poetry. Meynert. Staffel der Kultur , 1-2. Böldl. Mythos, 31-33.
[9] Herder. Volkslieder I-II. Schiller. Deutsche Größe, 473-76.
[10] Raupach. Der Nibelungen-Hort.
[11] Dokumente, 15-17, 19-26, 75-77. Vischer. Vorschlag zu einer Oper, 397-436.