Undirkaflar

Wagner og Íslendingar

Wagner og Völsungar

Hér skal stuttlega rakið hvaða vitneskju um tónskáldið íslenskur almenningur hefur einkum orðið aðnjótandi á 19. og 20. öld og hvernig verk hans hafa verið kynnt.

1876 - 1900

Wagners mun fyrst getið á prenti á Íslandi í blaðinu Þjóðólfi undir ritstjórn Matthíasar Jochumssonar 16. október árið 1876. Tilefnið er frumflutningur á Hring niflungsins sem Matthías segir frá á þessa leið:

Tónaskáldið Wagner. Í Bayreuth í Þýskalandi var nýlega leikinn hinn mikli söngleikur eptir hann, „Siegfried“ (Sigurður Fafnisbani), og urðu menn ákaflega hrifnir af leiknum. Í stórveizlu, sem haldin var í því skyni, settu gestirnir kórónu á höfuð Wagner úr silfri og lárviðarlaufum. Wagner semur hvorutveggja, tóna og texta, í söngleikum sínum, og þykir byrja nýtt tímabil í sögu þeirra söngleikja, sem lýsa eiga rómantiskum og sögulegum viðburðum. Hann er af mörgum talinn hinn mesti allra „compónista“ sem nú lifa. Hann er og framúrskarandi afkastamaður, ekki einungis í að skapa stórkostlega söngleiki, heldur og að fá þá leikna, sem opt er afar umfangsmikið og torvelt fyrirtæki, vegna hins ógrynni fjár og mikla fjölda listamanna, sem til slíkra hluta þarf.[1]

Matthías Jochumsson

Efni Hringsins hefur að sjálfsögðu vakið athygli Matthíasar, en sennilega hefur hann verið búinn að fræðast nokkuð um Wagner hjá Eiriki Magnússyni bókaverði í Cambridge sem hann hafði átt nokkuð saman við að sælda fáum árum fyrr. Um hann segir Matthías meðal margs annars í minningum sínum:

Hann var flestum mönnum listgefnari og unni mjög söng og skáldskap. / … / Sjálfur kvaðst hann varla mega halda heilum sönsum, er hann hlustaði á Wagners eða Beethovens músík.[2]

Eiríkur Jónsson

Næst sést getið um Wagner í Ísafold 21. mars árið 1883 þar sem segir að hann hafi andast í Feneyjum 13. fyrra mánaðar, sjötugur að aldri. Í erlendum fréttaþætti Skírnis árið eftir skrifar Eiríkur Jónsson garðprófastur meðal annars um mannalát og er á sömu síðu fjallað um tónskáldið Friedrich v. Flotow, rithöfundinn Karl Marx og tónskáldið Richard Wagner:

13. febrúar dó annað tónaskáld, sem bar það nafn með rentu öllum öðrum fremur. Það var hinn nafntogaði Richard Wagner (f. í Leipzig 13. maí 1813), sem orti sjálfur þá söngleika, sem eptir hann liggja. Það er oss ofvaxið að leggja nokkurn dóm á list og atgerfi þessa manns, en þess má geta, að flestir ætla hann eigi enn á rjett met lagðan. Um hitt kemur öllum saman, að hann hafi vísað tónalistinni á nýjar og náttúrlegri brautir. Efni til margra söngleika tók hann úr Niflungaljóðum.

Við lát Wagners stóðu í Times eptirmæli, sem í öðrum blöðum bæði í Evrópu og Ameríku, og þar meðal annars svo að orði komist: „Aptur er mikill maður úr heimi horfinn. Þeir af oss, sem hafa kynnst tónalist og sönglagamennt Wagners, og höfum heyrt hvernig hún hreif á alla er hlýddu, eiga nú bágt með að skilja, hvernig menn gátu kallað hugmyndir hans byltingastraum í tónanna riki, já líkt þeim við ærsl og óra.“

Einn rithöfundur hefir kallað Wagner „Bismarch í ríki sönglagamenntarinnar.“ Einn af hugástavinum Wagners var Loðvík Bayverjakonungur, sem heiðraði hann manna mest bæði lífs og látinn. Wagner andaðist bráðkvaddur í Feneyjaborg. Heimfylgdin til Bayreuth (í Bayern) — þar sem hann er jarðsettur á eignargarði, sem hann þá að gjöf af Loðvík konungi — og útfórin öll var með svo miklum veg og viðhöfn, sem títt er að hafa við líkferðir stórhöfðingja.[3]

Hinn 4. febrúar 1888 hélt Benedikt Gröndal fyrirlestur í Reykjavík, Um skáldskap, og komst á einum stað svo að orði:

Aftur á móti verður því ekki neitað, að það má misbrúka rómantíkina, svo hún verður alltof svæsin og ber allt ofurliði, eins og Richard Wagner ber ljósastan vott um.

Í síðari skýringum við fyrirlesturinn kynnir Gröndal Wagner á þennan hátt:

Richard Wagner, nýdáinn, var söngmeistari og hélt mjög fram miðaldaranda, hann var lengi nokkuð í allmiklum metum, en nú eru menn farnir að hverfa frá honum.[4]

Benedikt Gröndal

Haustið 1896 ferðuðust Hannes Þorsteinsson ritstjóri, síðar þjóðskjalavörður, og Halldór Jónsson bankagjaldkeri um Evrópu og 28. september voru þeir komnir til Parísar. Hannes skrifaði meðal annars svo um fyrsta daginn þar í blað sitt Þjóðólf:

Um kveldið ókum við að hinu mikla sönghúsi borgarinnar, er „Grand Opere“ nefnist, og keyptum þar aðgöngumiða; kostuðu sum sæti þar 17 franka. Þar sáum við hinn fræga söngleik „Valkyrjan“ eptir Richard Wagner, og þótti okkur hin mesta skemmtun að horfa og hlusta á hann. Einkum voru búningar leikendanna afarskrautlegir, og sýningarnar á leiksviðinu framúrskarandi fallegar og eðlilegar, en allt glóði í rafmagnsljósi, og var það allt mikilfenglegt. Mátti þar sjá margt skrautbúið fólk meðal áhorfendanna, enda eru Parísarbúar skrautmenn miklir.[5]

Þetta mun vera fyrsta dæmi þess að Íslendingar hafi séð Wagneróperu.

Hannes Þorsteinsson ritstjóri

1900 - 1950

Gaman er að sjá að Benedikt á Auðnum, sá merki menningarfrömuður í bændastétt, vísar til Gesamtkunstwerks Wagners í undirbúningi að aldamótahátíð Þingeyinga á Ljósavatni á sólhvörfum árið 1901. Hann segir í bréfi til væntanlegs söngstjóra, Sigurgeirs Jónssonar á Stóruvöllum:

„En það er gott að við erum sammála um að vandi sé að velja kvæðin og að meiri áherslu verði að leggja á þau en jafnvel lögin; meðfram vegna þess að vonlaust er að fá svo fullkominn söng að hann verði jafntalandi og hughrærandi sem orð og ljóð, þótt hann í allra fullkomnustu mynd kunni að geta verið það, sem þó er vafasamt nema í innilegu sambandi við orð og tungu; eða svo kennir meistarinn Wagner“

Benedikt á Auðnum
Benedikt á Auðnum

Á útmánuðum 1903 er Einar skáld Benediktsson staddur í Lundúnum ásamt Valgerði konu sinni sem sagði síðar svo frá:

Svo bar við eitt kvöld, meðan við stóðum við í London, að við fórum að hlusta á hljómleika í Queens Hall, einum stærsta hljómleikasal þeirrar miklu borgar. Heyrðum við hljómsveit leika meðal annars forleikinn að 3. þætti óperunnar Lohengrin eftir Wagner. Einar hafði aldrei heyrt þessa óperu fyrr og varð stórlega hrifinn. Af þessu tilefni varð til kvæðið Dísarhöll, þar sem hann lýsir áhrifum hinna máttugu tóna á sig. – Lýsingin á flutningi tónverksins í heild og tónum mismunandi hljóðfæra í upphafi kvæðisins er í rauninni enn merkilegri, þegar þess er gætt, að Einar hafði fremur litla menntun í tónlist yfirleitt. Þar var hann fremur þiggjandi en veitandi, en smekkur hans var engu að síður furðu óbrigðull.

Kvæðið Í Dísarhöll hefst með þessu erindi:

Bumba er knúð og bogi dreginn
blásinn er lúður og málmgjöll slegin.
Svo glatt er leikið af gripfimum drengjum
sem gneistar kveikist af fiðlunnar þvengjum.
Og hljómgeislinn titrar, án ljóss og án litar
ljómar upp andann, sálina hitar
og brotnar í brjóstsins strengjum.[6]

Einar Benediktsson

Þessi frásögn birtist reyndar ekki fyrr en fjórum áratugum síðar, og naumast sést getið um Wagner í íslenskum blöðum fyrr en Pétur Jónsson kemur heim í leyfi sumarið 1911 og heldur söngskemmtanir í Bárubúð við undirleik Ástu Einarsson. Þar söng hann nokkur lög úr óperum Wagners. Hið sama gerði hann í heimsókn sinni sumarið 1913.[7]

Árin 1912–13 var gefið út í Reykjavík tímaritið Hljómlistin og komu alls út sjö tölublöð. Ritstjóri var Jónas Jónsson dyravörður Alþingis sem einnig gekk undir nafninu Jónas Máni vegna tímarits með því nafni sem hann hafði ritstýrt árin 1879–82. Einnig orti hann fjölda gamanvísna undir dulnefninu „Plausor“. Í Hljómlistinni er frá því greint að Wagner-söngfélög séu til út um allan heim, og í apríl- og maí-hefti 1913 er fimm dálka grein í tilefni af hundrað ára afmæli Richards Wagners, undirrituð af X. Þar er ævi hans rakin, getið helstu stórvirkja á tónlistarsviðinu og útskýrt hversu stórtæka listamenn og mikið fjármagn þurfi til að setja óperur hans á svið:

Hér á landi hafa menn átt litinn kost að kynnast list Wagners. Hún heimtar svo mikinn útbúnað og mikla söngkrafta (sérstakl. stóran hljóðfæraflokk), að engin von er til að jafn fátækt og lítt kunnandi land og Ísland, enn sem komið er, hafi getað ráðist í slíkt fyrirtæki að sýna leiki Wagners og verður þess því miður langt að bíða, að söngleikir hans heyrist hér.[8]

Þetta reyndust orð að sönnu því að átta áratugir liðu þar til ráðist var í flutning Wagneróperu á Íslandi.

Hljómlistin 1913.
Forsíðugrein um Richard Wagner.

Árið 1932 fluttist Pétur Jónsson óperusöngvari alfarinn heim til Íslands en hann hafði þá í tvo áratugi sungið ýmis hlutverk í óperum Wagners í þýskum söngleikjahúsum, þó aldrei í Bayreuth. Guðbrandur Jónsson prófessor ritar blaðagrein í tilefni af fimmtugustu ártíð Wagners 12. febrúar 1933 og skýrir frá því í lokin að Pétur muni af því tilefni halda minningartónleika með söngvum úr sex óperum Wagners miðvikudaginn í næstu viku. Þetta var ítrekað í dagbók Morgunblaðsins 15. febrúar undir fyrirsögninni Wagnerskvöld:

Pétur Á. Jónsson sem Siegfried

Í því tilefni verður þessa jötunanda meðal germanskra snillinga minst á margvíslegan hátt um allan heim. Hjer heima fyrir höfum við ekki þær risahljómsveitir, sem þarf til þess að verk hans njóti sín svo sem best má verða. En Reykvíkingar eiga því láni að fagna, að hjer er staddur söngvari, sem hefir unnið sjer frægð og aðdáun í sjálfu föðurlandi Wagners fyrir meðferð sína á öllum helstu tenórhlutverkum hans.

Um hljómleika Péturs skrifaði Páll Ísólfsson meðal annars 17. febrúar:

Við látum hugann líða frá Óperu stórborgarinnar og inn í Gamla Bíó. Þar stendur Pjetur vopnlaus og óbrynjaður, en íklæddur kjól og með ekkert í hendinni, án hljómsveitar, en með flygel við hlið sér, og syngur úrvalslög úr óperum Wagners í tilefni af fimmtíu ára dánarafmæli meistarans. Það þarf engan að undra, þótt Pjetur nái nú sterkum tökum á áheyrendum. Hjer er alt þaulkunnað, marglifað og reynt, og því sungið af heilum hug og hjarta. Línurnar eru dregnar sterkar og stórar, hlaðnar dramatiskum krafti ­– ekta Wagnerstill. – Hljómleikarnir eru verðugir minningu hins mesta dramatiska tónskálds sem uppi hefur verið.

Pjetri til aðstoðar var að þessu sinni Franz Mixa. Afar sjaldan hefir heyrst eins góður undirleikur hjer áður.

Hljómplötur með söng Péturs úr óperum Wagners heyrðust einnig oft í útvarpinu, eftir að það tók til starfa, og sjá má í tímaritum á 4. áratugnum að söngfélög eru farin að hafa kórlög eftir Wagner á efnisskrá sinni.[9]

Enda þótt Pétur Jónsson hefði sungið ýmis Wagnerhlutverk í tvo áratugi virðist honum ekki hafa verið ljóst hversu stóran þátt íslensk fornrit áttu í texta Niflungahringsins. Í ævisögu Péturs sem Björgúlfur Ólafsson kveðst hafa skráð eftir frásögn hans sjálfs er komist svo að orði um þetta atriði:

Efnið hefur Wagner sótt í Nifiungaljóðin þýsku. – Þó að „Hringur Niflunganna“, sem Wagner hefur ort eftir Niflungaljóðum, sé sama sagan og Völsungasaga, eru mörg nöfn öðruvísi. Siegfried er t.d. Sigurður Fáfnisbani.[10]

Árið 1943 gaf Theodór Árnason út bók með þáttum um helstu tónskáld sögunnar og fjallaði einn þeirra um Wagner en ekki síður um framgöngu Péturs Jónssonar í Wagnerhlutverkum fyrr á árum. Nokkrar greinar birtust í blöðum árið 1953 vegna mikils safns bréfa til og frá Wagner sem þá var nýkomið út og þótti bregða nýju ljósi á persónuna.[11]

Loks ber að geta þeirrar kynningar sem flestir munu hafa lesið, en það er hin stuttorða umsögn í kaflanum Listir í Mannkynssögu Ólafs Hanssonar sem um áratugi var kennd í menntaskólum landsins kringum miðja 20. öld. Reyndar er klausan um Wagner í lengra lagi miðað við aðrar:

Richard Wagner (1813–1883) var tengdasonur Liszts. Hann er einhver fjölhæfasti maður, er uppi hefir verið. Hann gaf sig við skáldskap, heimspeki og stjórnmálum. Var hann ákafur þýskur þjóðernissinni og fjandmaður Gyðinga. Hann hafði mikinn áhuga á Ásatrú og forngermanskri menningu og tók þaðan sum viðfangsefni sín. Wagner átti framan af erfitt uppdráttar og fór víða um.

Að lokum hlaut hann þó almenna viðurkenningu og 1876 var vígt hið mikla söngleikahús hans í Bayreuth í viðurvist Þýzkalandskeisara og annarra stórmenna. Aðaltónverk Wagners eru óperurnar „Rienzi“, „Der fliegende Holländer“, „Tannhäuser“, „Lohengrin“, „Ring der [svo!] Nibelungen“, „Tristan und Isolde“, „Die Meistersinger“ og „Parzifal“.[12]

1950 - 2000

Sinfóníuhljómsveit Íslands lék þegar á fyrstu starfsárum sínum nokkur brot úr verkum eftir Wagner undir stjórn Victors Urbancic, Alberts Klahns og Róberts Abrahams Ottóssonar, en mest þó á stjórnarárum Olavs Kiellands 1952–53. Einkum voru fluttir forleikir og einsöngur. Konsertuppfærsla heillar óperu var ekki reynd fyrr en með Hollendingnum fljúgandi árið 1985 undir stjórn Klauspeters Seibels og Tannhäuser árið 1989 undir stjórn Petri Sakari.

Íslenskir söngvarar fengust lengi vel ekki mikið við Wagner, ef undan er skilinn Pétur Jónsson sem söng flest tenórhlutverk hans í ýmsum þýskum óperuhúsum á öðrum og þriðja áratugnum, þó aldrei í Bayreuth. Einnig söng Þorsteinn Hannesson nokkur hlutverk í Lundúnum á fimmta áratugnum og vafaIaust mætti finna fleiri slík dæmi. Upp úr 1980 kom ný kynslóð söngvara til skjalanna sem sungið hefur ýmis hlutverk í Wagneróperum í þýskum, frönskum, ítölskum, spænskum og bandarískum óperuhúsum. Má þar nefna Guðjón Óskarsson, Kristin Sigmundsson, Kristján Jóhannsson, Sólrúnu Bragadóttur og Viðar Gunnarsson.

Enginn íslenskur söngvari hefur þó enn sungið stórt hlutverk í Bayreuth. Nokkrir hafa á hinn bóginn sungið þar í óperukórnum. Jón Þorsteinsson steig fyrstur á svið í Bayreuth árin 1979 og 1980, meðal annars í Ragnarökum í hundrað ára afmælissýningu Hringsins sem frumsýnd var árið 1976. Af öðrum má nefna Guðbjörn Guðbjörnsson, Hauk Haraldsson, Keith Reed og Snorra Wium.

Ekki er mikið vitað um ferðir Íslendinga á hátíðina í Bayreuth fyrir miðja 20. öld. Halldór Hansen læknir sá eina óperu Hringsins 1953 en Helgi Sæmundsson verkfræðingur og Sigurlaug systir hans voru tíðir gestir í Bayreuth á sjöunda og áttunda áratugnum. Helgi skrifaði þá nokkrar greinar um hátíðina í íslensk dagblöð.

Sumarið 1967 var tónlistarstjóra Ríkisútvarpsins, Árna Kristjánssyni, boðið til Bayreuth. Sá hann þá allan Niflungahringinn í fyrsta sinn. Árni kynnti síðan Hringinn allan í útvarpinu næsta vetur og greindi frá ferð sinni í sérstöku erindi. Það var viðamesta kynning á tónlist Wagners sem enn hafði átt sér stað á Íslandi. Erindi Árna var prentað í bókinni Hvað ertu tónlist? árið 1986.[13]

Á hundrað ára ártíð Wagners 1983 sýndi Rikissjónvarpið tíu þætti um líf tónskáldsins með Richard Burton í aðalhlutverki. Um páskana 1987 gaf Styrktarfélag Íslensku óperunnar almenningi kost á að sjá upptökur úr sænska sjónvarpinu af uppfærslu Hringsins í Bayreuth árið 1976. Síðar sama ár voru einnig sýndar upptökur af Tannhäuser og Hollendingnum fljúgandi. Árni Tómas Ragnarsson sýndi allar óperur Wagners á heimili sínu veturinn 1993–94, og var öllum heimill aðgangur. Þetta var einskonar upphitun fyrir fyrstu Wagnersýningu hérlendis sumarið eftir.

Árni Kristjánsson

Mikil tímamót urðu þegar afráðið var að flytja Niflungahringinn í styttri gerð í Þjóðleikhúsinu á Listahátíð í Reykjavík 1994. Aðdragandinn var sá að ritstjóri Óperublaðins, Árni Tómas Ragnarsson, fékk miða á Bayreuth-hátíðina sumarið 1990, og hafa þau Selma Guðmundsdóttir verið gestir þar flest sumur síðan. Formaður Listahátíðar í Reykjavík 1994, Valgarður Egilsson, fékk þá hugmynd að einhver Wagnerópera skyldi verða skrautfjöður Listahátíðar á 50 ára afmæli lýðveldis á Íslandi. Hann fól Selmu sumarið 1992 að ræða málið í næstu ferð þeirra hjóna við Wolfgang Wagner, sonarson tónskáldsins og stjórnanda hátíðarinnar í Bayreuth.

Wolfgang Wagner kom skömmu síðar til Íslands, kynnti sér aðstæður og lagði til að sviðsett yrði stytt útgáfa af Niflungahringnum. Slíkt hafði aldrei verið gert áður í alvöru og þótti þessi uppástunga því nokkrum tíðindum sæta. Hópur Íslendinga fór á Bayreuth-hátíðina sumarið 1993, meðal annars til að undirbúa þessa aðgerð. Selma og Árni Tómas gerðu tillögur að hinni styttu gerð og hlutu þær samþykki Wolfgangs Wagners. Þorsteinn Gylfason þýddi í fylgiriti leikskrár þann texta sem sunginn var og samdi tengitexta milli atriða. Frumsýningin var 27. maí 1994. Leikstjóri var Þórhildur Þorleifsdóttir og hljómsveitarstjóri Alfred Walter. Íslenskir söngvarar voru í öllum hlutverkum nema Óðins, Brynhildar og Sigurðar Fáfnisbana.[14]

Við frumsýningu Niflungahringsins á Listahátíð í Reykjavík 1994.
Selma Guðmundsdóttir, frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands, Gudrune og Wolfgang Wagner og Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri

Ýmsum einlægum Wagneristum bæði hérlendis og erlendis fannst að þvílík stytting hlyti að verða misþyrming og ganga guðlasti næst. Hún féll stjórnendum í Bayreuth hinsvegar svo vel í geð að síðan hafa Íslendingar verið einskonar dekurbörn á þeim stað. Um 10–30 Íslendingar hafa árlega komist á hátíðina með tiltölulega skömmum fyrirvara, á sama tíma og venjulegur gestur þarf að bíða í sjö ár eftir að fá aðgöngumiða. Um 30 manna hópur Íslendinga fór á hátíðina í Bayreuth sumarið 1995 og í kjölfar þess var Richard Wagner félagið á Íslandi stofnað. Það hefur síðan haldið uppi reglulegri kynningu á verkum Wagners á hverjum vetri og fengið marga góða gesti í heimsókn, meðal annarra Josef Lienhart forseta Alþjóðasambands Wagnerfélaga.

Íslendingar á hátíðinni í í Bayreuth 1995.
Þetta var fyrsta hópferð Íslendinga til Bayreuth, en slík ferð hefur síðan verið árlegur viðburður.

Tilvísanir

[1] Þjóðólfur 1876, 126.
[2] Matthías Jochumsson. Sögukaflar af sjálfum mér, 242.
[3] Skírnir 1884, 101.
[4] Benedikt Gröndal. Ritsafn. Fjórða bindi, 234, 563.
[5] Þjóðólfur, 2. október 1896.
[6] Valgerður Benediktsson. Frásagnir um Einar Benediktsson, 36-37.  Ingólfur, 28. febrúar 1904. Guðjón Friðriksson. Einar Benediktsson. Ævisaga I, 269-270. Einar Benediktsson. Ljóðmæli II, 80.
[7] Vísir, 29. júlí, 1. ágúst, 21. ágúst 1911. Pétur Jónsson óperusöngvari, 60.
[8] Hljómlistin 1913, 48–51.
[9] Morgunblaðið, 12., 15. og 17. feb. 1933. Heimir, mars 1939, 30; júní 1939, 40-41.
[10] Pétur Jónsson óperusöngvari, 187, 189.
[11] Theodór Árnason. Tónsnillingaþættir, 225-229. Alþýðublaðið, 7. júli 1953, 5. Morgunblaðið, 8. október 1953,
[12] Ólafur Hansson. Mannkynssaga handa æðri skólum, 168-69.
[13] Árni Kristjánsson. Með Wagner í Bayreuth, 75-87.
[14] Niflungahringurinn. Leikskrá. Listahátíð í Reykjavík 1994.  Árni Tómas Ragnarsson. Richard Wagner, Bayreuth og Íslendingar. Óbirt grein.