Undirkaflar
Wagner og Völsungar
Vésögnin
Frumgerð Wagners að efni Niflungahringsins var samin árið 1848 og hét upphaflega Die Nibelungensage (Mythus) en Wagner breytti heitinu fyrir prentun í Der Nibelungen-Mythus. Þau voru hugsuð sem bakgrunnur að óperu sem Wagner hafði í huga haustið 1848 og átti að heita Siegfrieds Tod (Dauði Sigurðar) en hlaut nafnið Götterdämmerung (Ragnarök) um áratug síðar og varð seinasta ópera Niflungahringsins. Hann lauk við þessi drög 4. október. Næstum tveir þriðju síðari hlutar þessa ágrips hafa að geyma efni úr hinni væntanlegu óperu, enda lauk hann við fyrstu textagerð hennar aðeins hálfum mánuði seinna. Fyrsti þriðjungurinn varð engu að síður einskonar burðargrind að öllum hinum þrem óperum Hringsins, Rínargullinu, Valkyrjunni og Siegfried.
Blaðsíðutöl innan sviga vísa hér til útgáfu Ottos Strobels: Richard Wagner. Skizzen und Entwürfe zur Ring-Dichtung. München 1930, s. 26-33.
Á spássíu er sett nafn þeirrar óperu sem efni draganna á við. Nafnmynd Wagners á sérheitum er hér notuð í fyrsta skipti sem hún kemur fyrir en síðan íslensk samsvörun sé hún ótvírætt til. Tilvitnunarmerki eru höfð á sömu stöðum og í frumgerð Wagners. Þýðingin dregur viljandi nokkurn dám af málsniði frumtextans.
Rínargullið
(26) Úr skauti nætur og dauða spratt kynþáttur sem býr í Nibelheim [Niflheimi], þ.e. í dimmum gjám og hellum neðanjarðar. Þeir heita Nibelungen [Niflungar]. Með hvíldarlausri atorku grafa þeir sig um iður jarðar (líkt og maðkar í dauðu holdi). Þeir brenna og hreinsa harða málma og smíða úr þeim.
Alberich náði hinu skíra, göfuga Rínargulli úr djúpum fljótsins og með mikilli töfralist smíðaði hann úr því hring sem færði honum vald yfir öllum kynþætti sínum, Niflungum. Þannig varð hann höfðingi þeirra og kúgaði þá til að þræla fyrir sig einan og safnaði hinum óheyrilega Niflungasjóði. Mikilvægasti dýrgripur sjóðsins er hjálmur sem gerir honum kleift að bregða sér í allra kvikinda líki. Alberich þvingaði Reigin (Mime-Eugel) bróður sinn til að smíða hjálminn [Reginn, Mímir]. Með þessum útbúnaði stefnir Alberich að því að ná valdi á heiminum og öllu sem í honum er.
Jötnar eru af ævafornu kyni, gríðarstórir og þrjóskir. Þeir verða nú fyrir ónæði í frumstæðri vellíðan sinni. Hið gífurlega afl þeirra og einfalda brjóstvit dugir ekki lengur gegn gráðugri slægð Alberichs. Þeir fylgjast áhyggjufullir með því hvernig Niflungar smíða furðuleg vopn sem í höndum mennskrar hetju gætu átt eftir að boða endalok jötnanna.
Þetta sundurþykki notfærir sér hið vaxandi guðakyn sem stefnir að alveldi. Wodan [Óðinn] gerir samning við jötna um að reisa honum virki þaðan sem guðirnir geti stýrt og ráðið heiminum í öryggi. Í verkalaun heimta jötnarnir auð Niflunga.
Með yfirburða kænsku tekst guðunum að handsama Alberich. Hann verður að leysa líf sitt með því að afhenda sjóðinn. Hringnum einum vill hann halda eftir, en guðirnir hrifsa hann einnig af honum, enda vita þeir að í hringnum muni vera fólginn leyndardómurinn að valdi Alberichs. Þá leggur Alberich bölvun á hringinn: hann skal verða öllum þeim að fjörtjóni sem eiga hann. Óðinn afhendir jötnunum gullsjóðinn en hringnum vill hann halda sjálfur til að tryggja alveldi sitt. Jötnarnir þráast við og Óðinn lætur undan að ráði örlaganorna sem vara hann við endalokum sjálfra guðanna ella. Jötnarnir fara með hringinn og gullið út á Gnitaheiði og láta risavaxinn orm gæta þess.
Vegna hringsins ættu Alberich og Niflungar að vera undirgefnir jötnum, en þeir bera ekki skynbragð á að notfæra sér vald sitt. Treglátu hugarfari þeirra nægir að vita að búið sé að hemja Niflunga. Þannig hefur ormurinn legið með silalegu ægivaldi sínu á gullinu og hringnum frá ómunatíð. (27) Andspænis glæsileika hins unga guðakyns bliknar og stirðnar jötnakynið í magnleysi og Niflungar verða vanmegnugir í árangurslausu erfiði sínu. Alberich hugleiðir sífellt hvernig hann megi ná hringnum til sín aftur.
Guðirnir ríkja yfir heiminum með háleitri athafnasemi, gera klókindalega sáttmála við höfuðskepnumar og helga sig uppeldi mannkynsins af kostgæfni. Máttur þeirra er öllu æðri, en friðurinn sem færði þeim valdið er ekki grundvallaður á sáttargjörð heldur á ofbeldi og svikum. Áform þeirra með skipulagi heimsmála áttu að vera reist á siðferðilegri vitund, en við þá loðir óréttlætið sem þeir hafa framið. Úr djúpum Niflheims drynur sektarkenndin í eyrum þeirra: Niflungar hafa ekki verið leystir úr viðjum. Einungis vald Alberichs hefur verið heft, en þó ekki í neinum göfugum tilgangi. Frelsi og sál Niflunga liggur gagnslaus undir kviði hins iðjulausa orms.
Ásökun Alberichs á hendur guðunum er því réttmæt. Óðinn sjálfur getur samt ekki útrýmt þessu óréttlæti án þess að fremja um leið annað nýtt. Einungis frjáls vilji, óháður guðunum, getur leyst álögin og tekið á sig að gjalda skuldina. Guðirnir vænta þessa frjálsa vilja hjá mönnunum. Þeir reyna því að færa guðleg einkenni sín yfir á manninn til að efla krafta hans svo mjög að í vitund um mátt sinn losi hann sig undan guðlegri vernd og fari að sínum frjálsa vilja eftir því sem eigin hugur stendur til. Til að þjóna því háleita markmiði að útrýma eigin sekt ala guðirnir mennina upp. Þessi tilgangur þeirra gæti þó því aðeins náðst að þeir eyðilegðu sjálfa sig með sköpun þessa manns, nefnilega með því að bein áhrif hinnar frjálsu vitundar mannsins hlytu að gera þá sjálfa óþarfa.
Voldugar mennskar ættir blómstra nú þegar, en þær hafa verið frjóvgaðar með guðlegu sæði. Þær eflast að íþrótt og frægð í deilumálum og orrustum. Óskmeyjar Óðins vernda hetjurnar sem skjaldmeyjar, og sem valkyrjur fylgja þær þeim til Walhalla [Valhallar] sem fallið hafa í bardaga og njóta framvegis dýrlegs lifnaðar við stríðsleika í félagi við Óðin.
Valkyrjan
Enn hefur óskahetjan samt ekki fæðst, sú sem af eigin rammleik á að komast til fullrar vitundar og verða fær um að bæta með dirfsku sinni fyrir þá dauðasynd sem blasir við augum. Í ætt Wälsungen [Völsunga] skal þessi hetja loks fæðast. Óðinn frjóvgaði barnlaus hjón með því að láta þau neyta af epli frá gyðjunni Holdu. Þeim fæðast tvíburar, Siegmund og Sieglinde [Sigmundur og Signý]. Sigmundur tekur sér konu og Sieglinde er manni gefin (Hunding). Hjónaband beggja verður barnlaust. Til þess að ósvikinn Völsungur megi fæðast geta systkinin barn saman.
Hundingur kemst að afbrotinu, rekur konuna frá sér og ræðst gegn Sigmundi. Valkyrjan Brünnhilde [Brynhildur] verndar Sigmund og óhlýðnast með því boði Óðins sem hafði ákvarðað Sigmundi ósigur til yfirbótar fyrir glæp sinn. Undir verndarskildi Brynhildar reiðir Sigmundur til banvæns (28) höggs gegn Hundingi með sverðinu sem Óðinn sjálfur hafði eitt sinn gefið honum. Óðinn ber spjót sitt fyrir höggið og sverðið hrekkur í tvennt. Sigmundur fellur.
Óðinn refsar Brynhildi fyrir óhlýðni. Hann rekur hana úr flokki valkyrja og skipar henni til svefns uppi á kletti. Hin goðumborna mær á að gefast þeim manni sem fyrstur finnur hana og vekur af svefni. Hún grátbænir um þá náð að hann umvefji klettinn ógnvekjandi eldi svo hún megi vera þess fullviss að enginn nema hin djarfasta hetja geti eignast hana.
Siegfried
Eftir langa meðgöngu fæðir Sieglinde í óbyggðum soninn Siegfried [Sigurð] (sem merkir að hann á að færa frið með sigri). Reginn (Mímir) bróðir Alberichs heyrði óp Sieglinde þegar hún kvaldist í barnsburði, skreið upp úr gjá og hjálpaði henni. Hún deyr eftir fæðinguna en hafði áður rakið sögu sína og falið honum sveininn á hendur. Reginn elur Sigurð upp, kennir honum smíðar, segir honum frá dauða föður hans og færir honum brotin af sverði hans. Úr þeim smíðar Sigurður sverðið Balmung eftir leiðbeiningum Mímis.
Mímir eggjar nú sveininn að drepa orminn í þakklætisskyni við sig. Sigurður vill áður hefna morðsins á föður sínum. Hann ræðst til atlögu og drepur Hunding. Að því loknu uppfyllir hann ósk Mímis, berst við orminn og drepur hann. Um leið og hann stingur fingri í munn sér til að kæla hann af heitu blóði ormsins, bragðar hann óvart á blóði hans og skilur allt í einu mál skógarfuglanna sem syngja í kringum hann. Þeir hrósa gífurlegu afreki Sigurðar, vísa honum á Niflungasjóðinn í helli ormsins og vara hann við Mími sem hafi einungis notfært sér hann til að komast yfir gullið og sækist nú eftir lífi hans til að eiga sjóðinn fyrir sjálfan sig. Sigurður drepur því Mími og tekur úr sjóðnum hringinn og huliðshjálminn.
Sigurður heyrir aftur í fuglunum sem ráðleggja honum að öðlast hina dýrlegu konu, Brynhildi. Hann leggur af stað og kemur að klettaborg Brynhildar, brýst gegnum eldinn umhverfis og vekur Brynhildi. Hún þekkir Sigurð, hina glæstu hetju af stofni Völsunga, og gefur sig honum. Hann festir sér hana með hring Alberichs sem hann dregur á fingur hennar. Þegar hann hverfur á brott til nýrra afreksverka, þylur hún honum leynda dóma og heilræði og varar hann við þeim hættum sem felist í svikum og ótryggð. Þau sverja hvort öðru eiða og Sigurður hverfur á braut.
Ragnarök
Gibichungen [Gjúkungar] við Rín eru annað goðumborið hetjukyn. Þar vaxa nú upp systkinin Gunther [Gunnar] og Gudrun [Guðrún]. Alberich hafði eitt sinn komist yfir Kriemhild móður þeirra sem fæddi honum óskilgetinn son, Hagen [Högna]. Á sama hátt og óskir og vonir guðanna beinast að Sigurði, bindur Alberich von sína um endurheimt hringsins við þennan son sinn.
Högni er fölleitur, fálátur og alvörugefinn. Snemma hörðnuðu andlitsdrættir hans svo hann virðist eldri en ella. Alberich hefur þegar í bernsku frætt hann um örlög föður síns og kveikt í honum girnd á hringnum. Hagen er stór og sterkur en samt sýndist Alberich hann ekki nógu þróttmikill til að sigrast á orminum. Þar sem Alberich hafði glatað valdi sínu gat hann ekki komið í veg fyrir að Mímir bróðir hans reyndi að nota (29) Sigurð til að komast yfir sjóðinn. Högni á nú að ryðja Sigurði úr vegi og ná hringnum frá honum.
Högni er dulur gagnvart Gunnari og Guðrúnu. Þau óttast hann en kunna að meta kænsku hans og reynslu. Gunnar þekkir leyndarmálið um dularfullan uppruna Högna og að hann er ekki ósvikinn bróðir. Eitt sinn skammar Gunnar hann sem „álfason“.
Þegar Sigurður kemur til Gjúkunga við Rín hefur Högni þegar frætt Gunnar á þvi að Brynhildur sé allra kvenna eftirsóknarverðust og kveikt í honum löngun til að eignast hana. Guðrún fyllist ást til Sigurðar af lofi því sem Högni ber á hann og að ráði Högna færir hún Sigurði velkomandadrykk sem Högni hefur bruggað með töfrum og hefur þær verkanir að Sigurður gleymir öllu ævintýri sínu og festum við Brynhildi.
Sigurður leitar nú ráðahags við Guðrúnu. Gunnar samþykkir það með því skilyrði að Sigurður aðstoði hann við að eignast Brynhildi. Sigurður fellst á það. Þeir sverjast í fóstbræðralag, blanda blóði og sverja hvor öðrum eiða, en Högni hliðrar sér hjá að taka þátt í þeirri athöfn.
Sigurður og Gunnar halda af stað og koma að klettavirki Brynhildar. Gunnar heldur kyrru fyrir í skipinu. Sigurður neytir nú í fyrsta (og eina) skiptið valdsins sem höfðingi Niflunga þegar hann setur upp töfrahjálminn og tekur með því á sig útlit og limaburð Gunnars. Í því gervi brýst hann gegnum logana til Brynhildar.
Þegar Sigurður svipti hana meydómnum á sínum tíma missti hún um leið hið ofurmannlega afl sitt. Alla visku sína hafði hún einnig gefið Sigurði — sem ekki kunni að nýta sér hana. Hún er vanmáttug eins og hver önnur kona og megnar ekki að veita hinum nýja, djarfa biðli neitt verulegt viðnám. Hann tekur af henni hringinn — með honum skal hún nú vera fest „Gunnari“ — og neyðir hana inn í salinn þar sem hann sefur við hlið henni. Henni til undrunar leggur hann samt sverð sitt á milli þeirra. Morguninn eftir flytur hann hana til skips, breytir um útlit án þess að hún verði þess vör og hverfur með krafti töfrahjálmsins á augabragði í borg Gjúkunga við Rín.
Gunnar siglir heim til sín með Brynhildi sem fylgir honum í dapurlegri þögn. Högni og Sigurður með Guðrúnu við hlið sér fagna komumönnum. Brynhildur verður furðu lostin þegar hún sér Sigurð sem eiginmann Guðrúnar. Hún undrast hina skeytingarlitlu en vingjarnlegu framkomu hans við sig. Þegar hann vísar henni til Gunnars þekkir hún hringinn á fingri hans, og hana fer að gruna þau brögð sem hún hefur verið beitt.
Brynhildur heimtar hringinn af Sigurði sem sé ekki hans eign heldur hafi Gunnar tekið hann af henni. Sigurður hafnar því. Hún skorar á Gunnar að krefjast hringsins af Sigurði. Gunnar veit ekki sitt rjúkandi ráð og hikar.
Brynhildur: Tók þá Sigurður hringinn af henni?
Sigurður (sem kannast við hringinn): Ég fékk hann ekki hjá neinni konu heldur vann ég hann af risavöxnum ormi með eigin afli og hans vegna er ég höfðingi Niflunga og læt engum þetta vald af hendi.
Högni gengur á milli og spyr Brynhildi hvort hún þekki hringinn náið; sé þetta hringur hennar hafi Sigurður náð honum með svikum og hann tilheyri engum nema Gunnari eiginmanni hennar.
Brynhildur hrópar hátt um þau svik sem framin hafi verið gegn sér og hún fyllist óttalegum hefndarþorsta í garð Sigurðar. Hún hrópar til Gunnars að Sigurður hafi (30) svikið hann: „Ég gaf mig ekki þér, heldur þessum manni. Hann öðlaðist blíðu mína.“
Sigurður ávítar hana fyrir blygðunarleysi, kveðst hafa verið fóstbróður sínum trúr og lagt sverðið á milli þeirra. Hann skorar á hana að votta þetta. Af ásettu ráði neitar hún að skilja Sigurð, enda kemst ekkert annað að hjá henni en að hefna sín á honum: „Hann lýgur og honum fer illa að vitna um sverðið Balmung; hún hafi séð það hanga kurteislega á vegg meðan hann hvíldi hjá henni í ástarsælu.“
Karlarnir og Guðrún þrýsta á Sigurð að vísa þessari ásökun frá sér ef hann geti. Sigurður sver hátíðlega eið að framburði sínum. Brynhildur ákærir hann fyrir rangan eið, hann hafi bæði svarið sér og Gunnari eiða og rofið hvorn tveggja; nú sverji hann enn rangan eið til að staðfesta lygi sína. Allt lendir í uppnámi. Sigurður skorar á Gunnar að hemja konu sína sem blygðunarlaust svívirði heiður hans og sjálfrar sín. Hann hverfur af sviðinu inn í höllina ásamt Guðrúnu.
Gunnar sest afsíðis og hylur ásjónu sína þungbúinn í djúpri smán og hryggð. Högni nálgast Brynhildi sem er ofurseld skelfilegu sálrænu fárviðri. Hann býðst til að hefna sóma hennar. Hún spottar hann og segir hann þess vanmegnugan að sigrast á Sigurði: „hið gneistandi augnaráð hans sem blikar jafnvel til hennar þrátt fyrir sviksamt atferli, það eitt nægi til að Högna bresti kjark.“ Högni kveðst þekkja vel hið mikla afl Sigurðar og því skuli hún segja honum hvernig unnt sé að yfirvinna hann. Hún hafði áður með dularfullri blessun gert Sigurð ósæranlegan en ráðleggur Högna nú að særa hann aftan frá því hún hafi látið ógert að blessa bak hans þar sem hún vissi að hetjan myndi aldrei snúa baki í óvini sína.
Gunnar verður að samþykkja banaráðin. Þau hvetja hann til að hefna sóma síns og Brynhildur hleður hann ásökunum um ragmennsku og sviksemi. Gunnar viðurkennir sök sína og nauðsyn þess að binda enda á smánina með dauða Sigurðar. Hann skelfist þó að gerast sekur um að brjóta fóstbræðralagið en Brynhildur hæðist að honum með beiskju og sársauka og spyr „hvað ekki hafi verið brotið á móti henni?“ Högni freistar hans með væntingu þess að eignast hring Niflungsins sem Sigurður muni vissulega aldrei láta af hendi nema dauður. Gunnar fellst á ráðagerðina.
Gunnar verður að samþykkja banaráðin. Þau hvetja hann til að hefna sóma síns og Brynhildur hleður hann ásökunum um ragmennsku og sviksemi. Gunnar viðurkennir sök sína og nauðsyn þess að binda enda á smánina með dauða Sigurðar. Hann skelfist þó að gerast sekur um að brjóta fóstbræðralagið en Brynhildur hæðist að honum með beiskju og sársauka og spyr „hvað ekki hafi verið brotið á móti henni?“ Högni freistar hans með væntingu þess að eignast hring Niflungsins sem Sigurður muni vissulega aldrei láta af hendi nema dauður. Gunnar fellst á ráðagerðina.
Högni ráðgerir veiðiferð morguninn eftir. Þá skal ráðast á Sigurð en reyna að leyna morðinu fyrir Guðrúnu (það var Gunnari mjög umhugað en hefndarþorsti Brynhildar æsist við afbrýðisemi hennar í garð Guðrúnar). Morðið er afráðið millum þeirra þriggja. — Sigurður birtist ásamt Guðrúnu framan við höllina í hátíðarbúningi og býður til blóts og brúðkaupsveislu. Hræsnisfullir þiggja samsærismenn boðið. Sigurður og Guðrún gleðjast við þann frið sem virðist aftur í augsýn.
Daginn eftir verður Sigurður einn síns liðs þegar hann er að elta veiðidýr. Gljúfur við Rín. Þrjár vatnadísir með svanavængi koma upp úr fljótinu. Þær eru spákunnugar dætur djúpsins og frá þeim hafði Alberich fyrrum rænt hinu skíra Rínargulli til að smíða úr því hinn máttuga örlögþrungna hring. Bölvun og máttur hringsins hyrfi ef hann væri aftur gefinn vatninu og umbreyttist í upprunalegt eðli sitt.
Konurnar sækjast eftir hringnum og biðja (31) Sigurð um hann en hann neitar þeim. (Saklaus hefur hann tekið á sig sakir guðanna en vegna þrjósku sinnar og sjálfræðis hefnist honum fyrir óréttlæti þeirra.) Þær boða honum ógæfu vegna þeirrar bölvunar sem hvíli á hringnum: Hann ætti að fleygja honum í fljótið, ella muni hann deyja á þessum degi.
Sigurður: „Þið kænu konur skuluð ekki lokka frá mér máttinn. Ég skeyti ekki hið minnsta um þessa bölvun og hótanir ykkar. Frumréttur minn er það sem hugur minn stendur til og allt sem ég geri ákvarðast af eigin eðlishvöt. Kallið hvað sem er bölvun eða blessun. Ég held mér við frumrétt minn og streitist ekki gegn eigin afli.“
Konurnar: „Ætlar þú að vera guðunum æðri?“
Sigurður: „Ef þið sýnduð mér hvernig ég gæti keppt við guðina, þá hlyti ég að berjast við þá af heilum hug. Ég þekki þrjár vitrari konur en ykkur. Þær vita hvar guðirnir munu eitt sinn berjast í örvæntingu. Það er guðunum mátulegt að þeir óttist að ég muni berjast við þá. Þess vegna hlæ ég að hótunum ykkar. Hringurinn verður minn og þannig kasta ég lífinu mér á bak.“ (Hann tekur upp moldarköggul og kastar honum upp yfir höfuð sér og aftur fyrir sig.)
Konurnar hæðast að Sigurði sem haldi sig vera sterkan og vitran en sé í rauninni blindur og bundinn: hann hafi rofið eið og viti það ekki; hann hafi glatað gæfu sem sé verðmætari en hringurinn og hann viti það ekki; honum hafi verið kenndar rúnir og töfrar og hann hafi gleymt þeim: „Vertu sæll, Sigurður. Við þekkjum stolta konu sem mun erfa hring þinn í dag þegar þú hefur verið drepinn. Förum til hennar. Hún mun veita okkur betri áheyrn.“
Sigurður horfir hlæjandi á eftir þeim synda syngjandi burtu og kallar: „Ef ég væri ekki trúr Guðrúnu myndi ég festa mér eina ykkar.“ Hann heyrir veiðifélagana nálgast og blæs í horn sitt. Veiðimennirnir safnast kringum Sigurð með Gunnar og Högna í fararbroddi. Þeir taka sér árbít. Sigurður er kátur og kærulaus og gerir grín að sjálfum sér fyrir að ná ekki í neina veiði; honum hafi einungis boðist villt vatnadýr en ekki haft útbúnað til að veiða þau. Annars hefði hann fært félögum sínum þrjá vatnafugla sem hefðu verið að spá honum dauða í dag.
Yfir drykkju tekur Högni upp þráðinn og spyr með gamanyrðum hvort Sigurður skilji í raun og veru fuglasöng og fuglamál? Gunnar er dapur og þögull. Sigurður vill hressa hann og syngur um æsku sína, uppvöxtinn hjá Mími, dráp ormsins og hvernig það bar til að hann skildi fuglsrödd. Í réttri tímaröð man hann atburðina smám saman, hvatningu fuglanna að leita Brynhildar, sem sé honum ætluð, og hvernig hann reið gegnum logana á fjallinu og vakti Brynhildi. Minni hans verður sífellt skýrara.
Tveir hrafnar fljúga skyndilega yfir höfði Sigurðar. Högni grípur fram í fyrir honum: Hvað segja þessir hrafnar þér? Sigurður sprettur á fætur. Högni: „Ég skildi þá, þeir eru að flýta sér að tilkynna Óðni komu þina.“ Hann rekur spjót sitt í bak Sigurði.
Af frásögn Sigurðar hefur Gunnar ráðið í hina sönnu en ótrúlegu atburðarás í tengslum við Brynhildi og allt í einu skilið að Sigurður var saklaus. Hann reynir að bjarga honum með því að þrífa í handlegg Högna án þess þó að geta dregið úr laginu. Sigurður reiðir upp skjöld sinn (32) til að lemstra Högna en kraftarnir bila og hann steypist til jarðar. Högni snýr sér undan en Gunnar og veiðimennirnir standa umhverfis Sigurð í hryggð og hluttekningu. Hann opnar einu sinni enn björt augu sín:
„Brynhildur! Brynhildur! Þú glæsta dóttir Óðins! Ég sé þig nálgast mig, bjarta og skínandi! Með helgu alvörubrosi söðlar þú hest þinn sem döggu slunginn skeiðar um loftið. Til mín beinir þú för, hér er val að kjósa! Sæll er ég sem þú kaust þér að brúðguma. Færðu mig nú til Valhallar svo að ég megi drekka öllum hetjum til heiðurs í miði Allvaters [Alföður] sem þú glæsta óskmær réttir mér. Brynhildur! Brynhildur! Heill sé þér!“
Hann deyr. Mennirnir lyfta líki hans á skjöldinn og fylgja því hátíðlega yfir klettahæðirnar með Gunnar í fararbroddi.
Í hallargarði Gjúkunga, sem snýr að bökkum Rínar, er likið lagt niður. Högni kallar Guðrúnu út með skerandi hrópi og segir að villigöltur hafi rifið bónda hennar á hol. Guðrún kastar sér í skelfingu yfir lík Sigurðar. Hún sakar bræður sína um morð. Gunnar bendir á Högna: hann sé villigölturinn og morðingi Sigurðar. Högni: „Jæja þá, hafi ég drepið þann sem enginn annar þorði, þá eru eigur hans herfang mitt. Ég á hringinn!“ Gunnar gengur að honum: „Ósvífni álfasonur, ég á hringinn því Brynhildur ætlaði mér hann. Þið heyrðuð það öll!“ Högni og Gunnar berjast og Gunnar fellur. Högni ætlar að draga hringinn af hendi líksins en það lyftir henni ógnandi. Högni hrekkur frá í ofboði. Guðrún kveinar hátt í angist.
Brynhildur gengur hátíðiega fram á sviðið: „Hættið þessum kveinstöfum og hégómlegu æði! Hér er sú kona sem þið öll hafið svikið. Nú heimta ég minn rétt því það hefur gerst sem gerast varð.“
Guðrún: „Ó, þú óheillakona! Það varst þú sem ollir okkur öllu bölvi.“
Brynhildur: „Þegi þú, vesöl kona! Þú varst aldrei annað en frilla hans. Ég er kona hans, sú sem hann sór eiða áður en hann leit þig augum.“
Guðrún: „Ó, mig auma! Bölvaður sértu, Högni, sem réðst mér til að rétta honum drykkinn og stela eiginmanni hennar því nú veit ég að hann gleymdi Brynhildi einungis vegna drykkjarins.“
Brynhildur: „Ó, hann var óflekkaður! Engir eiðar voru tryggar haldnir en af honum. Högni hefur ekki heldur deytt hann, nei, hann hefur einungis merkt hann Óðni og þangað mun ég nú fylgja honum. Ég á mér einnig yfirbót, ég er frjáls og óflekkuð því sá dýrlegi maður var hinn eini sem ég féll fyrir.“
Hún lætur reisa bálköst á árbakkanum til að brenna lík Sigurðar. Hvorki á að fórna með honum hesti né þræl, hún ein ætlar að fórna líkama sínum til guðanna honum til heiðurs. Áður tekur hún arfinn til sín. Huliðshjálmurinn á að brenna með þeim en hringinn setur hún á sig sjálf:
„Þú, stórláta hetja, hve þú hélst mér heillaðri í fjötrum! Þér dauðlegum tjáði ég alla visku mína og glataði við það minni eigin visku. Þú nýttir þér hana ekki, þú treystir einungis á sjálfan þig. Við dauða þinn hlaust þú að skiljast við viskuna og nú kemur hún aftur til mín. Nú þekki ég aftur rúnir þessa hrings. Ég þekki líka rúnir frumlögmálsins, hin fornu spakmæli nornanna.
Heyrið mig, dýrlegu guðir, bætt hefur verið fyrir óréttlæti yðar. Þakkið honum sem tók sök ykkar á sig. Hann fól mér á hendur (33) að fullkomna verk sitt: Lokið veri þrældómi Niflunga, hringurinn skal ekki fjötra þá lengur. Alberich skal ekki ná honum, hann skal ekki framar kúga ykkur, en sjálfur má hann vera eins frjáls og þið hinir.
Björtu systur í djúpi fljótsins, ykkur ætla ég þennan hring. Glóðin sem brennir mig skal hreinsa dýrgripinn, þið leysið hann sundur og gætið hins flekklausa Rínargulls sem þið voruð rændar svo það olli ógæfu. Alfaðir einn ríki! Þú dýrlegi! Svo að vald þitt megi verða eilíft færi ég þér þennan mann. Taktu vel við honum, hann á það skilið!“
Við hátíðlega söngva stígur Brynhildur upp á bálköstinn að líki Sigurðar. Í forgrunni krýpur Guðrún harmi lostin yfir líki Gunnars. Logarnir lykja um Brynhildi og Sigurð.
Allt í einu verður skínandi bjart. Birtan færist að dimmri skýjarönd og í henni sést Brynhildur sem valkyrja á hesti í fullum herldæðum og leiðir Sigurð við hönd sér. Samtímis stíga öldur Rínar upp að dyraþrepum hallarinnar. Vatnadísirnar þrjár fjarlægja þaðan hringinn og hjálminn. Högni steypir sér örvinglaður á eftir til að hrifsa dýrgripina af þeim. Konurnar grípa hann og draga með sér í djúpið.
Um frumgerð og lokagerð
Augljóst er að flest meginatriði í atburðarás Hringsins eru þegar saman komin í hinni stuttu frumgerð. Vera má að Wagner hafi haft til hliðsjónar tilraun hins þekkta fræðimanns Karls Lachmanns til að endurskapa frumgerð Niflungasögunnar en aðferðir þeirra eru mjög ólíkar.[1]
Í endanlegri gerð eru helstu viðbætur í Rínargullinu þáttur Rínardætra, baráttan um Freyju ásamt yngingareplum og spásögn Erdu. Í Valkyrjunni eru engar efnislegar stórnýjungar. Í Siegfried bætist einkum við heimsókn Óðins til Mímis og viskukeppni þeirra, uppvakning Erdu og tilraun Óðins að hindra för Siegfrieds til Brynhildar. Loks er hlutverk Alberichs aukið verulega, bæði í Siegfried og Ragnarökum. Hann verður höfuðandskoti Óðins.
Lokaþáttur vésagnarinnar, frumgerð Ragnaraka, er ítarlegast unninn af skáldinu svo að víða eru fullbúin tilsvör og samtöl. Fleiri atriði en áður eru sótt í Þiðreks sögu eða Nibelungenlied. Því er þó eftir sem áður snúið á alla vegu eftir höfði Wagners og breytingar hans sverja sig talsvert í ætt við Völsungu og eddurnar, einkum endalokin.
Svo mörg smáatriði í frumgerðinni minna á Völsunga sögu að stórlega má efast um að sú ályktun Elizabeth Magee sé rétt að Wagner hafi alls ekki verið búinn að lesa söguna áður en hann skrifaði vésögnina. Hún reisir skoðun sína á því að ekki sjáist á útlánaskrá að hann hafi fengið bókina lánaða heim úr konunglega bókasafninu í Dresden fyrr en þrem vikum eftir að hann lauk við frumgerðina.[2]
Ekkert mælir móti þvi að svo hraðlæs, minnugur og næmur maður væri löngu áður búinn að renna gegnum Völsungu hjá vinum eða kunningjum enda kom hún út í þýðingu Friedrichs von d. Hagens þegar árið 1815. Wagner hefði þessvegna getað lesið hana á einni kvöldstund. Enn má minna á langdvalir Wagners í æsku í hinu auðuga bókasafni Adolfs föðurbróður síns, sjá (Sköpunarferli hringsins / Wagner snýr sér til norðurs). Auk þess hefði hann hæglega getað hraðlesið hana á lestrarsal bókasafnsins.
Þess var áður getið, sjá (Sköpunarferli hringsins – Wagner snýr sér til norðurs) að Wagner kveðst í ævisögu sinni hafa verið búinn að lesa Völsunga sögu snemma árs 1848, meira en hálfu ári áður en hann skrifar vésögnina. Frásögn hans í bréfi til Theodors Uhligs 1851 hversu hann reyndi mikið til að kaupa bókina meðan hann var enn í Dresden, nákvæm lýsing á útliti hennar og stærð bendir einnig eindregið til þess að hann hafi þekkt bókina og verið búinn að handfjatla hana einhverntíma áður en hann fór að leita að henni til kaups en fann hana loks á bókasafninu. Þegar hann svo fær hana aftur lánaða reynist hann ekki þurfa á henni að halda því hann hafði munað allt rétt![3]
Gerð verður grein fyrir fjölmörgum smærri breytingum frá þessari frumsköpun til endanlegrar gerðar jafnóðum og þeirra sér stað í umfjöllun efnisins hér á eftir. Einkum verður þess getið þegar hugmyndum úr íslenskum ritum í frumgerðinni er sleppt en viðfangsefnið er í sjálfu sér ekki að tíunda hvert einasta atriði sem Wagner bætti við eftir því sem verkinu vatt fram.
Tilvísanir
[1] Karl Lachmann. Zu den Nibelungen und zur Klage, 339-345.
[2] Magee. Richard Wagner and the Nibelungs, 60-61, sbr. 44-46.
[3] Wagner. Mein Leben I, 30,394-95. Dokumente, 57-58, 64.